26. nóvember 2015

Lausnamiðuð kanína eignast vini - barnabók Bergrúnar Írisar skoðuð

Viltu vera vinur minn? sem kemur út núna fyrir jólin hjá Bókabeitunni er sérlega falleg og notaleg bók fyrir yngstu bókaormana. Hún fjallar um litla kanínu sem er einmana og finnst eins og allir aðrir eigi vini til að leika við. Þar sem þetta er ráðagóð og lausnamiðuð kanína hefst hún strax handa við að byggja brú yfir ána í von um að hún geti fundið leikfélaga á hinum bakkanum. En ekki byggir maður brú einsamall og fuglarnir, birnirnir og íkornarnir koma henni til hjálpar. Þegar loks brúin er risin er engin ástæða fyrir kanínuna til að fara yfir ána – hún hefur þegar eignast góða vini – og kannski voru þeir þarna allan tímann – kannski er bara nóg að spyrja hvor einhver vilji vera vinur manns!

21. nóvember 2015

Sleipiefni glansmyndanna

Úlfhildur Dagsdóttir sendi Dungeons and Dragons þessa umfjöllun um bókina Velúr (sem kom út árið 2014) en af óviðráðanlegum orsökum fékk hún ekki inni á sínum upphaflega ætlaða samastað.

Á vef mbl.is er mest lesna fréttin að þekkt hjón úr miðbæjarlífinu séu að selja glæsihýsi sitt og flytja í ‚höll Guðjóns Samúelssonar‘ í Vesturbænum. Svo vill til að ég hef séð þetta glæsihús út um gluggana hjá mér undanfarin átta ár eða svo og forvitnaðist því í myndirnar sem fylgdu fréttinni (en hún var sumsé fasteignaauglýsing). Og sat svo með hrukkað ennið eins og múmínálfurinn og reyndi að átta mig á öllum glæsileikanum.

Líklega á ég betur heima í ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Velúr, en í glæsihýsinu, en innan veggja hennar ríkir hversdagsleikinn – sá sem lætur það stundum eftir sér að hnýsast í glansmyndir og veltir fyrir sér hinu fullkomna lífi, en er þó ekki alveg viss hvað í því felst. Svona álíka og hún Margrét, sem í samnefndu ljóði reynir að fylgjast með fjölmiðlum og fésbókinni, en finnst hún samt „dálítið utangátta“: Hún kannast ekki við marga Grímuverðlaunahafa, skilur takmarkað í ýmsum sjónvarpsþáttum, þekkir ekki hráefnið í uppskriftum sem hún les á netinu og hefur aldrei þorað að smakka sushi.

Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar en hún er einnig afkastamikill þýðandi og hefur skrifað barnabækur. Einhverjir þekkja hana einnig úr heimi netsins, en hún hélt lengi út bloggi og færir fjasbókinni reglulegar fréttir. Í þeim skrifum birtast sömu einkenni og í ljóðabókunum, íhugul kímni og snörp sýn á samfélag og samtíma, auga fyrir hinu furðulega og venjulega – jafnvel hinu furðulega venjulega – og hæfileikinn til að súmma þetta allt upp í ljóslifandi myndum. Ljóðin hreinlega kvikna á síðunum og tilvera persóna þeirra breiðir úr sér í leikþáttum, jafnvel sjónvarpsþáttaseríum.

19. nóvember 2015

Flugþol órólegra hugmynda

Það eru ekki bara frumsamdar bækur í ljóðabókaflóði haustsins, það eru líka að koma út söfn áður útgefinna ljóða. Forlagið gefur út ljóðasafn Vilborgar Dagbjartsdóttur, sem inniheldur allar hennar ljóðabækur og meira til, og hjá Dimmu kemur út úrval af ljóðum Gyrðis Elíassonar. Bókin heitir einfaldlega Ljóðaúrval 1983-2012 og í henni birtast ljóð úr fjórtán bókum Gyrðis, frá Svarthvítum axlaböndum til Hér vex enginn sítrónuviður. Það eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Magnús Sigurðsson sem velja ljóðin og bókin er öll vönduð og vel frágengin eins og við má búast af Dimmu.

Útgáfa sem þessi er fyllilega nauðsynleg og tímabær. Gyrðir er eitt fremsta ljóðskáld landsins og meira en sjálfsagt að ljóð hans séu gerð aðgengileg nýjum kynslóðum – þá meina ég mér – ekki bara á bókasöfnum heldur líka til kaups, en elstu bækur hans eru löngu uppseldar í almennum bókaverslunum og fást nú einkum á fágætisverði í fornbókabúðum, sé maður ekki svo heppinn að rekast á þær hjá kristniboðunum (elsta ljóðabókin eftir Gyrði sem er til á Bókin.is þegar þetta er skrifað er Mold í Skuggadal frá 1992 og hún kostar 5900 krónur, eða 2810 krónum meira en ljóðaúrvalið, sem er á mjög sanngjörnu verði).

Það er sumpart vandmeðfarið að endurútgefa skáld sem eru enn í fullu fjöri og ekki að fara að „loka ferlinum“ með heildarljóðasafni. Ljóðaúrval sem þetta er vel til þess fallið að kynna skáldið fyrir nýjum lesendum, og dregur upp ákveðna heildarmynd af þróun ljóðagerðar Gyrðis á þrjátíu ára tímabili. Sem slík er þessi bók prýðileg.

14. nóvember 2015

Münchenarblús: Þórdís og Kristín Svava spjalla um skáldævisöguna Sjóveikur í München

Hallgrímur Helgason hefur söðlað
um síðan hann gagnrýndi svo harðlega
hið eintóna misgengi jazz-músíkurinnar
sem náði dáleiðandi heljartökum á fjöldanum.
KST: Jæja, Þórdís, þá höfum við tekið okkur fyrir hendur að blogga um bók sem hlýtur að vera sú umtalaðasta í jólabókaflóðinu so far, Sjóveikur í München eftir (ekki dr.) Hallgrím Helgason - sjálfsævisögulega bók um einn vetur í lífi höfundarins, þegar hann var við listnám í München 1981-1982. Og þú búin að tala um hana í útvarpið og allt. Hvaða ægilegi æsingur er þetta?

ÞG: Já, maður spyr sig! Ég ímynda mér að margir höfundar sem eiga bækur sem mara í hálfu kafi eða virðast vera að sökkva til botns í jólabókaflóðinu séu afbrýðisamir yfir að þessi bók hafi verið bók vikunnar þegar hún var bara rétt komin út. En Hallgrímur er auðvitað einn helsti höfundur Íslands í dag. Hann hefur skrifað verk sem hafa orðið klassík um leið og koma jafnvel út samtímis á Íslandi og í útlöndum (Sjóveikur í München er komin út í Þýskalandi), en svo er hann líka býsna umdeildur höfundur. Ég hef að minnsta kosti tekið eftir að allir sem á annað borð hafa bókmenntaáhuga hafa skoðun á honum. Nú og svo kom margumrædda innleggið frá skáldinu úr Grindavík og í kjölfarið status frá háfleygum bókmenntamanni um mögulegan dauða fagurfræðinnar, við komum nú aðeins inn á það í spjallinu í bók vikunnar á RÚV um daginn.

KST: Já, ég verð að taka undir það sem þú sagðir þar, að það sé nokkuð djúpt í árinni tekið að fagurfræðin sé dauð þótt fólk sé ekki til í að samþykkja að skrif Guðbergs Bergssonar á DV.is séu einhvers konar helsúrt en hárbeitt konseptlistaverk - hann sé jú að „vinna með rausið“. Ég trúi því varla að þeir sem saka Hallgrím um að vera að hoppa á einhvern undarlegan vinsældavagn með því að skrifa um kynferðisofbeldið sem hann varð fyrir þennan vetur séu búnir að lesa bókina - þessari umtöluðu nauðgun er lýst á einni blaðsíðu af 325 og þótt þetta sé áhrifaríkur og mikilvægur þáttur í frásögninni fer því fjarri að höfundurinn sé eitthvað að velta lesendum upp úr ofbeldinu né einu sinni að úttala sig neitt sérstaklega um það. Umfjöllun fjölmiðla stýrist náttúrulega oft af vænlegum klikkbeitum og það getur vissulega verið óþolandi og yfirborðskennt en mér finnst mjög ómaklegt að gera ráð fyrir því að höfundurinn hljóti þar af leiðandi að vera haldinn athyglissýki á háu stigi. Það verður að vera hægt að skrifa um kynferðisofbeldi í bókmenntum rétt eins og aðra lífreynslu, hvort sem um er að ræða ævisöguleg skrif eða ekki, án þess að melódramatískar tilhneigingar fjölmiðla (sem DV, svona sem dæmi, hefur aldeilis ekki verið laust við gegnum tíðina) stýri viðtökum þeirra. 

Mér finnst reyndar líka ólíklegt að Guðbergur Bergsson hafi verið búinn að lesa Sjóveikur í München þegar hann skrifaði fyrrnefndan pistil - ég held að ekki einu sinni þessi vieillard terrible sé svo laus við hégóma - því Hallgrímur fer þar mjög fögrum orðum um verk hans og stillir þeim raunar upp sem andstæðu þess húmors- og andlausa karlakúltúrs sem hafi verið ríkjandi. Og hér erum við á 21. öldinni og höfundur Tómasar Jónssonar virðist leggja allan metnað í að halda uppi merkjum ársins 1981 í samfélagsumræðunni. Svona fara hlutirnir í hringi, maður verður bara sjóveikur í Reykjavík. 

ÞG: Guðbergur var örugglega ekki búinn að lesa. Hann veit sennilega ekki enn að ein sympatískasta kvenpersóna bókar Hallgríms er einmitt skemmtileg því hún rifjar upp kafla úr Tómasi Jónssyni Ungum Manni til skemmtunar. En varðandi andlausan karlakúltúr níunda áratugarins þá man ég hann svo sannarlega, jafnvel betur en ég kæri mig um.

9. nóvember 2015

Paradísarmissir í Breiðholtinu - um ævisögu Mikaels Torfasonar

Bókaforlagið Sögur gaf nú nýverið út Týnd í paradís eftir Mikael Torfason. Á kápu er gefið upp að Mikael segi hér sögu sína, foreldra sinna og forfeðra – en þetta er ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi orðsins (eins og fæstar ævisögur eru raunar núorðið).

Í grófum dráttum segir Mikael hér söguna af því þegar hann sem ungabarn og síðar ungur drengur lá ítrekað fyrir dauðanum á Landspítalanum vegna meðfædds sjúkdóms en mátti ekki þiggja blóðgjafir þar sem fjölskyldan var innvígð í Votta Jehóva og það stríðir gegn trúarsannfæringu þeirra að fá blóð. Hann lýsir baráttu foreldra sinna – og þá sérstaklega föður síns - gegn heilbrigðiskerfinu og útlistar þær þjáningar sem hann, barnið, mátti þola í kjölfar hverrar orrustu sem faðir hans sigraði. Nú væri höfundi (og um leið lesanda) í lófa lagið að afgreiða foreldra hans með einu pennastriki en hér er kafað dýpra en svo og bókin er ekki síður saga kornungra foreldra af brotnum eða fátækum heimilum, saga alþýðufólks sem aldrei hafði ástæðu til að treysta stofnunum. Síðast en ekki síst er þetta saga Votta Jehóva – bæði hér á landi og erlendis – og er sú saga ekki síður áhugaverð en persónuleg fjölskyldusaga Mikaels.

7. nóvember 2015

Flugnagildran

„Enginn viti borinn maður hefur áhuga á flugum, allra síst kvenfólk. Ekki ennþá, er ég vanur að hugsa en á endanum er ég samt alltaf svolítið feginn að aðrir skuli ekki hafa áhuga á þeim. Samkeppnin er ekki sérlega hörð.“  (Flugnagildran bls.15)

Fredrik Sjöberg
Í þessari tilvitnun í bókina Flugnagildran, sem nýlega kom út í Neon-klúbbi Bjarts í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur, felst kannski sannleikur. En það eru auðvitað til margar undantekningar, ég hef nefnilega svolítinn áhuga á flugum og áður en ég las bókina vissi ég meira að segja að sveifflugur (bókin fjallar að miklu leyti um þær) eru með tvo vængi en geitungar og hunangsflugur, sem fólk ruglar þeim oft saman við, eru með fjóra. Mér skilst að fáir viti þetta, og líklega enn færri Íslendingar en Svíar. Mér hefur lengi fundist fólk grunsamlega áhugalaust um flugur, aðallega keppast Íslendingar um að vera hræddir við þær, hversu undarlegt sem það nú er. En hvað sem þessu líður þá er Flugnagildran alls ekki bara fyrir okkur sem höfum áhuga á að lesa alþýðlegan fróðleik um flugur.

Flugnagildran er eftir sænska skordýrafræðinginn Fredrik Sjöberg (f. 1958) og hún er ein af þeim bókum sem bókasafnsfræðingar eiga áreiðanlega í stökustu vandræðum með að flokka því hún fjallar um svo margt. Í upphafi bókarinnar segir höfundurinn frá því þegar hann starfaði í leikmunadeild Konunglega leikhússins í Stokkhólmi og þurfti að hafa hemil á lifandi lambi og skúra pissið úr Peter Stormare, sem kastaði af sér vatni í sýningu eftir sýningu á verki eftir Sam Shepard. Í stuttu máli þá missti Sjöberg fljótlega áhugann á þessu starfi og flutti til eyjar í Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm, þar sem búa um 300 manns, og fór að safna sveifflugum. Þegar þar er komið sögu að hann er að skrifa bókina hefur hann safnað 202 ólíkum tegundum.
Sveiffluga - Episyrphus balteatus

Við söfnunina notar Fredrik Sjöberg merkilega flugnagildru, sem er 6x3 metrar og kennd við sænskan skordýrafræðing, landkönnuð og listaverkasafnara sem hét René Malaise (1892-1978). Malaise stundaði merkar rannsóknir, meðal annars á Kamtjatka, en hann er líka ein aðalpersóna Flugnagildrunnar því hún segir ævisögu hans. Inn í ævisögu Malaise og frásögn af eigin lífi vefur Fredrik Sjöberg síðan allskonar vangaveltum og fróðleik. Hann segir frá skordýraveiðum sínum, ferðamönnum og grasafræðingum sem koma til eyjarinnar og spjalla við hann og frá ferðum sínum um heiminn, m.a. siglingu upp Kongó-fljót. Hann víkur líka að allskonar hlutum sem koma okkur öllum við og vísar í hina og þessa rithöfunda í ýmsu samhengi, við sögu koma m.a. D.H. Lawrence, William Golding, Milan Kundera og Bruce Chatwin. Hér og þar er líka ýmsu gaukað að lesendum: „staðreyndin er sú að einhleypar konur finna varla betri veiðilendur en samkomur skordýrafræðinga. Þangað mæta frumlegar manngerðir og samkeppnin er engin. Ég vildi bara stinga þessu að.“ (bls. 160).

Skordýrasafn úr bernsku sonar bókabloggara og eintak af Flugnagildrunni
Flugnagildran er sem sagt saga höfundarins og ævisaga René Malaise, hún er ferðasaga, náttúrufræðibók, skordýrafræðibók, esseiubók og bók um ástríðurnar, listina og bókmenntirnar og um söfnunaráráttu almennt og hún fjallar líka um margt annað. Þetta er lítið rit sem er alltaf hægt að grípa niður í og lesa nokkrar síður, það er alveg óþarfi að gleypa hana í sig frá upphafi til enda í einum bita. Mjög áhugaverð bók fyrir fólk sem hefur gaman af að lesa óvenjulegar og vel skrifaðar bækur, hvort sem menn hafa sérstakan áhuga á flugum eða ekki.

3. nóvember 2015

Óþekk amma og tröll í léttlestrarbók

Jenny Kolsöe
Núna fyrir skömmu kom út barnabókin Amma óþekka og tröllin í fjöllunum eftir Jenny Kolsöe – bókin vakti fyrst athygli mína af því Bókabeitan gefur hana út en fyrir þá sem ekki vita er Bókabeitan forlag sem þær Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir standa að. Forlagið sérhæfir sig í bókum fyrir börn og unglinga sem er í sjálfu sér bæði magnað og frábært. Enn betra þykir mér svo að þær bækur beitunnar sem rekið hefur á mínar fjörur hafa verið ansi hreint fínar og því er ég nú farin að hafa augun sérstaklega opin fyrir bókum frá þeim.

Höfundur Ömmu óþekku og tröllanna í fjöllunum er Jenny Kolsöe – sem netrannsókn leiðir í ljós að er sjálf amma sem hefur komið víða við og skrifað heilmikið þótt Amma óþekka sé fyrsta bók hennar sem kemur út á pappír. Þetta er eins og áður sagði barnabók – nánar tiltekið léttlestrar bók fyrir þau sem eru að byrja að lesa sjálf. Hér er raunar strax tilefni til að fagna því eins og allir sem hafa lært að lesa vita þá er ekki offramboð af slíku efni. Hver kannast ekki við fleygar setningar á borð við „Anna sá sól” og „Snati á ól“ (Hvað er þetta annars með íslensku stafina og ólar? Sonur minn er alltaf jafn ringlaður þegar við rennum yfir myndskreytt stafróf og segir hikandi: og svo „Ó“ eins og í...belti...?) Amma óþekka er hluti af Ljósaseríunni sem er bókaflokkur ætlaður þeim sem eru að æfa sig í lestri – mér sýnist hún vera önnur bókin í flokknum. Hún er 57 bls. með stóru letri og góðu bili milli fremur stuttra málsgreina til að auðvelda lesturinn.

Vandamálið við léttlestrarbækur er að þær mega ekki vera of langar og ekki með svo miklum textamassa að það fæli byrjendur frá – en hins vegar mega efnistök og setningarnar ekki vera of einfaldar eða barnalegar því þótt lesendurnir séu ungir er skilningur á heiminum yfirleitt kominn langt fram úr lesskilningnum. Það þarf því stutta og auðlesna bók sem þó hefur einhverja áhugaverða og helst skemmtilega sögu að segja. Amma óþekka og tröllin í fjöllunum uppfyllir ágætlega þessar kröfur. Ég las hana raunar með fjögurra ára syni mínum sem féll bæði fyrir nafninu og myndunum og krafðist þess að fá að heyra hana. Myndirnar eru eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og eru bæði líflegar og skemmtilegar enda hefur Bergrún getið sér gott orð sem myndskreytir á síðustu árum og var nú síðast tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina Vinur minn vindurinn. Sonur minn var sérstaklega heillaður af stærstu myndinni sem er heil opna fyrir miðri bók og sýnir ömmu óþekku sem situr á öxlinni á tröllinu Truntu á meðan stúlkan Fanney Þóra situr á öxlinni á tröllastráknum Tappa sem aukinheldur er með bílinn hennar ömmu undir öðrum handleggnum.

Bergrún Íris myndskreytir
Hér segir sum sé frá stelpunni Fanney Þóru og ömmu hennar sem hefur viðurnefnið óþekka og útilegu sem þær fara saman í. Þær ætla að vera heila viku, tjalda, grilla pylsur á prímus, hita kaffi og kakó og mála. Amma er nefnilega myndlistarkona og bóhem og það er ekki leiðinlegt að eiga svoleiðis ömmu. Strax í bílnum á leiðinni verður ljóst að amma er ekki eins og venjulegar ömmur (ég held reyndar að þessar venjulegu ömmur séu smám saman að verða útdauðar nema í bókmenntum skrifuðum á síðustu öld) þegar hún stingur uppá því að Fanney Þóra leiki sér við tröllabörn þegar þær séu komnar upp í sveit. Fanney Þóra veit í fyrstu ekki hvort amma hennar er að grínast og verður dálítið smeyk. Eins og titill bókarinnar ber með sér hitta þær stöllur svo einmitt tröll og lenda í ýmsum ævintýrum þegar nálægt fjall byrjar að gjósa – en með hjálp tröllanna fer allt vel að lokum.

Hér er unnið með ýmsa þræði – Fanney Þóra er fyrst hrædd við tröllin en svo kemur í ljós að tröllin eru ekki skelfileg heldur hjálpleg – en í staðinn kemur ógn úr annarri óvæntri átt þegar eldgosið hefst. Amma áréttar fyrir barnabarni sínu að bera virðingu fyrir náttúrunni á ýmsa vegu - hún mælist til þess að Fanney Þóra sé kurteis við tröllabörnin og gæti þess að stíga ekki á tærnar á þeim – annars gætu þau farið að grenja og þá rignir ósköpin öll og hætt er við að þær fái báðar tröllakvef sem einkennist af grænu slími og slæmum hósta. Þá er ekki síður mikilvægt að muna að það má pissa bak við runna en ef maður þarf að kúka er mikilvægt að grafa holu með lítilli skóflu og moka vel ofan í hana aftur þegar maður hefur lokið sér af – annars gæti tófan komið og étið skítinn. Þetta eru góð ráð og jafnvel spurning um að fá ömmu óþekku í ferðamálráð? Eins er skemmtilega unnið með mörk raunveruleika og ímyndunar í birtingarmyndum tröllanna. Þegar Fanney Þóra horfir yfir ána sér hún allt í einu risastóran stein sem henni finnst ekki hafa verið þar áður. Steinninn er þegar nánar er að gáð alveg eins og tröllastrákur og talar og hreyfir sig. Þegar amma laumast síðar til að taka mynd af Fanneyju Þóru og tröllunum sést bara mynd af litlu stelpunni á milli tveggja kletta sem þó hafa á sér ákveðna mannsmynd eða öllu heldur tröllamynd. Á leiðinni heim er það svo að frumkvæði Fanneyjar Þóru sem þær ákveða að segja engum frá tröllunum svo þau fái nú örugglega að vera í friði uppi í fjöllunum sínum. Ekki kæra þau sig um straum af fólki og fréttamönnum að elta sig á röndum. Það eru því ýmis skilaboð til ungra lesenda sem leynast í sögunni sem er þó fyrst og fremst skemmtileg og spennandi.

Þetta er eins og áður sagði fyrsta útgefna bók höfundar og textinn er á köflum örlítið flatur og stirður en hins vegar er hann skýr og blátt áfram og sagan er eins og áður segir bæði litrík og skemmtileg. Einstaka sex eða sjö ára börn gætu verið á því að þau séu vaxinn upp úr ömmum og tröllum en ég árétta að þetta er heilmikil hasarbók eins og þegar tröllin hlaupa með þær stöllur undan rauðglóandi hrauninu. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir unga lesendur – og sömuleiðis þá sem yngri eru og vilja frekar hlusta.