27. febrúar 2013

Efnið og rýmið í klaustrinu á Skriðu

Steinunn, Auður og Þórdís með verðlaunin sín.
Það ríkti mikil gleði í herbúðum Druslubóka og doðranta um helgina, þegar gert var heyrinkunnugt að Þórdís Gísladóttir hefði hlotið Fjöruverðlaunin í barnabókaflokki fyrir snilldarbókina Randalín og Mundi. Til hamingju með það, Þórdís! Auður Jónsdóttir hlaut Fjöruverðlaunin í flokki skáldverka fyrir Ósjálfrátt, sem Eyja skrifaði um hér, og Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hlaut verðlaunin í flokki fræðibóka fyrir Skriðuklaustur. Söguna af klaustrinu á Skriðu (það er gaman að segja frá því að af þremur bókum sem voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka voru tvær um fornleifafræði, og í fyrra var það einnig bók um fornleifafræði sem vann í þeim flokki, Mannvist eftir Birnu Lárusdóttur). Mér þykir þetta ágætt tilefni til að skrifa loksins aðeins um þessa góðu bók, Skriðuklaustur.

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að öðlast áhuga á fornleifafræði. Ég hef aldrei vitað haus né sporð á því fagi, alltaf haft lítinn áhuga á landnámsöld, sem ég vissi ekki betur en íslenskir fornleifafræðingar einbeittu sér mestanpart að, og aldrei tengt við þá ókennilegu smáhluti í glerkössum á söfnum sem maður á að ganga á milli og skoða í andaktugri lotningu eins og þetta glerbrot segi manni eitthvað, þessi leirkrukkubotn eða ryðgaða brotajárn.

Í haust sat ég hins vegar þverfaglegt kenninganámskeið fyrir nemendur í sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, sem fornleifafræðin tilheyrir, og alls óvænt fannst mér kenningalega fornleifafræðin með því mest spennandi sem þar var borið á borð. Fornleifafræðin og sagnfræðin eiga það sameiginlegt að fást við fortíðina en áhersla fornleifafræðinnar á efnið og rýmið fremur en textann og tímann var ný og áhugaverð nálgun fyrir mér.

26. febrúar 2013

Ómissandi karlmenn

„Þegar Boris fer frá Míu eftir þrjátíu ára hjónaband missir hún vitið - þó aðeins tímabundið.“ Þetta er fyrsta setningin í káputexta á bók Siri Hustvedt, Sumar án karlmanna, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu Nönnu Þórsdóttur.

Mía Fredriksen er fimmtíu og fimm ára skáld og einhvers konar amatör-taugalífeðlisfræðingur sem hefur verið gift og búið í New York með raunvísindamanninum og tréhestinum Boris í áratugi. Saman eiga þau dóttur sem er leikkona og fegurðardís. Boris nær sér í nýja (yngri, gáfaða og franska) konu og Mía fær það sem kallað er taugaáfall (það orð er notað nokkrum sinnum í bókinni en ég hef reyndar aldrei áttað mig almennilega á hvað taugaáfall er) en líka er talað um skammvinna geðröskun og áfallastreituröskun. Hún er lögð inn á geðdeild um tíma og í kjölfarið fer hún á æskuslóðirnar í Minnesota til að jafna sig og halda ljóðanámskeið fyrir unglingsstúlkur. Þar býr háöldruð mamma hennar í þjónustuíbúð og Mía kynnist vinkonum hennar og fleira fólki.

11. febrúar 2013

Meira um Eldvitnið!

Það er sjaldan sem við Druslubókadömur birtum fleiri en einn dóm um sömu bókina og það skrifast ekki endilega á óbærilega snilld Eldvitnisins að tvær færslur birtist um hana. Frekar er um að kenna slælegu minni mínu - því þegar Eldvitnið kom út á íslensku las ég hana og skrifaði í pistil í góðri trú - algjörlega búin að gleyma því að Guðrún skrifaði um bókina glóðheita þegar hún kom út á frummálinu...skemmtlega færslu Guðrúnar má lesa hér. Það er þó fjarri okkur drusludömunum að láta pistla - skrifaða með blóði og tárum (eða einhverju svoleiðis) fara til spillis - svo ég læt bara varnaðarorð duga: ef þið þolið ekki endurtekningu - snúið við hér!

Þótt nú sé meira en mánuður síðan að ég las Eldvitnið eftir Lars Kepler þá líður mér ennþá pínu illa þegar ég hugsa um hana. Mögulega var ég eitthvað voða meyr þegar ég las hana eða kannski að hátíð ljóss og friðar hafi haft svona mikil áhrif á mig en þó finnst mér líklegra að bókin sé einfaldlega hryllileg lesning. Þarna er vissulega að finna misnotaðar konur og misnotuð börn og gerandinn er einhver útgáfa af raðmorðingja en það eitt og sér ætti (merkilegt nokk) ekki að duga til að láta hrollinn hríslast niður hrygglengjuna. Það veit guð að það er auðveldara að finna nál í heystakki en samtíma glæpasögu sem ekki snýst um raðmorðingja, mansal og/eða barnaníð – stundum finn ég mig hreinlega knúna til að grafa fram Agatha Christie eða jafnvel Sherlock Holmes og minna mig á að það er hægt að skrifa spennandi glæpasögu án þess að ganga gjörsamlega fram af lesandanum með viðbjóði…en jájájá áður en ég verð farin að mæra Morse og Barnaby og missi allt kredit er best að halda áfram að fjalla um Eldvitnið sem er ansi hreint fín þótt hún geri einmitt þetta – gangi fram af mér. Kannski er það einmitt lágmarkskrafa neytanda nútímans – að afþreyingin sem gengur fram af manni geri það þó alla vega vel!
Þau eru dulúðug - Coelho hjónin...

10. febrúar 2013

Æviminningar Johnny the singer of Running Nose

Borgarstjóri vor er fjölhæfur maður. Ég er af Fóstbræðrakynslóðinni og vissi lengi engan fyndnari mann á Íslandi en Jón Gnarr. Hann hefur líka átt sín góðu móment sem borgarstjóri og þorað að brjóta ýmsar óskrifaðar og ömurlegar reglur. Nýjasta bókin hans, Sjóræninginn, fjallar ekki síst um reglur kerfisins og hvað þýðingu og afleiðingar það hefur að hlýða þeim og brjóta þær.

Sjóræninginn er sjálfstætt framhald af fyrri bók Jóns, Indjánanum (sem Þorgerður fjallaði um fyrir Bókmenntir.is á sínum tíma), og virðist reyndar sjálfstæðari gagnvart bókinni sem á undan kom en þeirri sem hlýtur að koma á eftir því endirinn er merkilega snubbóttur og er meira eins og kaflalok en bókarlok. Bækurnar eru sjálfsævisögulegar (koma nokkrar sjálfsævisögur út lengur sem ekki eru kallaðar skáldævisögur?) og Sjóræninginn hefst þar sem Indjáninn endar, þegar söguhetjan Jón er tólf ára gamall, og lýkur nokkru eftir að hann fermist.

Unglingurinn Jón á ekki sjö dagana sæla. Hann er utangarðs í skólanum, rekst illa í kerfinu og er hrakinn og smáður af bæði kennurunum og samnemendum sínum. Hann er lagður í einelti, er feiminn og hefur lítið sjálfstraust. Hann nær litlum tengslum við foreldra sína, einkum föður sinn, en þau voru orðin gömul þegar þau áttu hann og það er mikill aldursmunur á honum og systkinum hans. Jón finnur hins vegar félagslegan og hugmyndafræðilegan griðastað í pönkinu og anarkismanum, eignast þar vini og grundvöll fyrir andófi sínu gegn kerfinu. Hann syngur meðal annars um tíma með pönkhljómsveitinni Nefrennsli, án þess reyndar að hafa kjark til að koma fram oftar en einu sinni, en þá fyllist hann slíkri örvæntingu að hann lætur sig detta niður af sviðinu til að þurfa ekki að standa þar lengur.

Lýsingarnar á því hvernig Jón prófar sig áfram sem pönkari og anarkisti eru hlýlega fyndnar (hann er mikill harðlínumaður í skilgreiningu sinni á pönki og úthýsir smám saman nokkurn veginn öllum hljómsveitum úr þeim flokki nema Crass), en það er einn af kostum bókarinnar að frásögnin er alltaf á forsendum hans sjálfs; upprifjun hins fullorðna höfundar á hugmyndaheimi unglingsins er stuðningsyfirlýsing, ekki föðurleg kímni eða yfirlætislegar athugasemdir undir formerkjum aukins vitsmunalegs þroska. Það er kerfið sem er mannfjandsamlegt, ekki Jón sem er gallaður. Það er annars athyglisvert hvað fólk virðist vera miklu tilbúnara til að ræða eineltið sem skólafélagar Jóns beita hann en þá kúgun sem hann upplifir af hálfu skólakerfisins sjálfs, en hún er í rauninni mun miðlægari í bókinni.