2. janúar 2012

Jólalesningin

Jólalesningin að þessu sinni var Eldvittnet, nýjasta bók Lars Kepler sem er dulnefni sænsku hjónanna Alexöndru og Alexanders Ahndoril. Fyrri bækurnar tvær (sem hafa komið út á íslensku undir heitunum Dávaldurinn og Paganinisamningurinn) las ég í einum rykk þarsíðasta sumar, sitjandi undir eplatrénu í sólinni með blauta lófa af svita, hjartslátt og ískaldan hroll innra með mér af spennunni og hryllingnum. Þegar kom að því að velja lesningu sem þyrfti að halda athygli minni gegnum örferð til Íslands yfir jólin, ókyrrð í flugi, heimsóknaþeyting, reykt kjöt í ótakmörkuðu magni og pakkatryllt börn fannst mér ólíklegt að nokkur bók stæði það betur af sér en þriðja Keplerbókin.

Söguþráður Eldvittnet er einhvern veginn svona: Á áfangaheimili fyrir vandræðastúlkur finnst einn vistmanna myrtur á hrottafengin hátt. Önnur stúlka virðist hafa horfið af heimilinu á nákvæmlega sama tíma og er því óhjákvæmilega grunuð um glæpinn. Inn í málin blandast meðal annars einmana en forrík yfirstéttardama og óhamingjusöm falsspákona og yfir öllu saman vakir svo eins og vanalega hinn finnskættaði lögreglumaður Joona Linna.


Þrátt fyrir að ég telji mig afar þolinmóðan og þrautseigan lesanda verð ég að játa að ég á í dálitlum erfiðleikum með Joona. Oft eru hetjur spennusagna hálfgerðir gallagripir, stundum geðstirðir, gjarnan orðljótir og nánast undantekningalaust með einkalífið í rúst. Í hinni svarthvítu veröld glæpasagna getur það verið kostur að hetjan sjálf sé einhvers staðar á gráu svæði. Þessu er hins vegar ekki að heilsa hjá Joona Linna sem er svo að segja fullkominn og algóður. Hann virðist gæddur allt að því yfirnáttúrulegum hæfuleikum til að sjá það sem aðrir sjá ekki, skilja það sem aðrir skilja ekki og halda ró sinni og yfirvegun hvað sem á dynur. Auk þess virðist hann geta fengið hvern sem er til að opna sig og segja frá sínum innstu málum og það án þess að hann geri nokkuð sérstakt. Góðmennskan, skilningurinn og réttsýnin virðast hreinlega stafa frá honum og róa hvern þann sem í návist hans er. Að auki getur hann auðvitað skotið í mark af löngu færi og er ótrúlega góður í að berjast. Satt best að segja minnir hann mig óþyrmilega á Horatio Caine úr CSI Miami þáttunum – og ég myndi segja að það væri töluvert leiðum að líkjast. Á móti algóðu hetjunni eru svo rosalega vondir vondukallar sem eiga sér engar málsbætur, virðast bara hafa fæðst vondir og hafa ekki áhuga á neinu öðru en að vaða blóðið upp í hnésbætur.

Eins og í fyrri bókunum er frásögnin hröð, kaflarnir stuttir og sífellt verið að skipta um sögusvið. Frásagnaraðferðin sækir sitt hvað til kvikmynda sem er kannski ekki að undra miðað við að Ahndoril hjónin segjast horfa á að minnsta kosti eina dvd mynd á dag. Hasarinn í bókunum er líka stundum dálítið of bíómyndalegur fyrir minn smekk. Þó finnst mér þau aðeins hafa gírað sig niður í nýju bókinni. Auðvitað er slatti af hasar, æsispennandi eltingaleikir og blóðug átök en það eru að minnsta kosti engar þyrlur, spíttbátar eða sökkvandi rútur eins og í fyrri bókunum! Á móti finnst mér eins og gæðum textans hafi farið örlítið aftur. Það voru stundum fínir kaflar í Dávaldinum, sérstaklega þeir sem lýstu dáleiðslunum og ég var að vona að höfundarnir myndu fínslípa þetta enn frekar í komandi bókum en sýnist allt stefna í að ég verði fyrir vonbrigðum með það.

Það er auðvitað ekki hægt að gefa neitt upp um plottið en mér fannst það betur heppnað í þessari nýju bók en hinum tveimur. Það fór alltaf svolítið í taugarnar á mér við Dávaldinn að bókin væri kynnt með einu glæpamáli, vísað í það á kápumynd og –texta, en svo snerist aðalplottið í rauninni um að leysa allt annað mál. Og plottið í Paganinisamningnum minnti meira á Die Hard mynd en klassíska "whodunit" glæpasögu. En hér gengur allt upp og þræðirnir eru þétt fléttaðir frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Að auki fá lesendur smá bónusplott undir lokin þegar fortíðardraugar Joona Linna eru dregnir fram í dagsljósið og gefin fyrirheit um spennandi atburði í komandi fimm bókum (ef mig misminnir ekki hafa aðstandendur Lars Kepler gefið út að bækurnar skuli verða átta í heild).

En þrátt fyrir hvítþvegna hetju og aðeins of mikinn hasar stóð Eldvittnet algjörlega undir þeim kröfum sem ég gerði til hennar, þ.e.a.s. að hún gæti haldið mér fanginni í gegnum ólgusjó jólanna. Ég vakti oft langt fram eftir nóttu við að lesa og þurfti að beita mig hörðu að leggja bókina frá mér svo ég fengi alla vega nokkurra klukkutíma svefn. En um leið leið mér stundum dálítið kjánalega. Frásögnin er svo ólíkindaleg og oft eins og það sé aðalmarkmiðið að æsa lesandann takmarkalaust upp og ég var ekki alveg viss um að ég væri sátt við að vera svona auðveld í taumi. Ég hef stundum sagt að það sé enginn gæðastimpill á bók að maður fari að gráta yfir henni, það sé ekkert mál að klæmast á lesandanum þannig að það renni eitt og eitt tár. Meðan ég las Eldvittnet velti ég fyrir mér hvort það sama gilti kannski um spennubækur, hvort það væri ekkert mál að láta svitann renna og hjartað berjast og alls ekki merki um að bókin væri góð að það tækist. Og auðvitað er það um margt svo, ég myndi aldrei mæla með Keplerbókunum sem góðum bókum, bara sem spennandi bókum. En þegar ég lagði Eldvittnet frá mér tók ég aðra nýlega glæpasögu eftir vinsælan höfund upp beint í kjölfarið. Ekkert í fyrstu köflunum þar vakti sérstakan áhuga minn, ekkert knúði mig til að fletta yfir á næstu síðu. Í stað þess að lesa fram á nætur fann ég að ég þurfti eiginlega að beita mig hörðu að taka bókina upp yfirleitt. Eftir þeysireiðina með Keplerskrímslinu leið mér eins og ég hefði stigið af baki og verið rétt gömul tannlaus kerling í fangið í staðinn. Og þá varð ég að viðurkenna að það væri alla vega eitthvað í þessu.

3 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Mér finnst þetta höfundanafn rosalega truflandi, af hverju ekki að hafa það bara Kemper?! (Eða á ég að hafa áhyggjur af sjálfri mér?)

Guðrún Lára sagði...

Sko, æ, bíddu, hvernig var þetta aftur. Þau hjónin hafa bæði verið starfandi rithöfundar í mörg ár og Alexandra Coelho Ahndoril hefur m.a. skrifað bók um stjörnuspekingin Tycho Brahe. Aðstoðarmaður hans og arftaki bar eftirnafnið Kepler og þaðan kemur það sem sagt. Þetta var eitt af þessum atriðum sem blaðamenn Aftonbladet notuðu til að sanna að það væru Ahndoril hjónin sem stæðu að baki Lars Kepler.

Kristín Svava sagði...

En hugsaðu þér hver hefði getað staðið á bak við leyninafnið Kemper! Neeei, nú er ég hætt.