8. janúar 2012

Tvær alvörugefnar konur

Það hefur lengi staðið til hjá mér að kynna mér verk Jane Bowles. Það er í sjálfu sér ekki flókið verkefni, Jane Bowles sendi aðeins frá sér eina skáldsögu, eitt leikrit og svo nokkrar smásögur en hún var illa haldin af framtaksleysi og verkkvíða. Hún sagðist verða að skrifa en gæti það í rauninni ekki, henni leiddist alltaf að skrifa og hataði það í raun að eigin sögn en komst bara ekki hjá því. Og það gekk hægt, hvert orð var meitlað í granít með tilheyrandi erfiði, sagði hún.

Jane Bowles lýsir reynslu sinni af skrifum þannig á dramatískan hátt og hún virðist alltaf efast um eigin getu og eigin ágæti. Þetta kemur ágætlega fram í grein sem breski bókmenntagagnrýnandinn Elizabet Young birti í þessari bók en þar fjallar hún um ævi Bowles og störf. Bowles fæddist árið 1917 og lést 1973, hún var gift rithöfundinum Paul Bowles en hjónabandið var engan veginn hefðbundið, enda voru hjónin bæði samkynhneigð (sumar heimildir vilja meina að þau hafi verið tvíkynhneigð með sterka tilhneigingu til eigin kyns) og var Jane sérstaklega hrifin af gerðarlegum og mikilúðlegum konum í eldri kantinum, frægt er ástarsamband hennar við Cherifu, marokkóska, miðaldra fátækling sem hún kynntist þegar þau hjónin bjuggu í Tangier, það samband var bæði umtalað og flókið, enda ástkonan miðaldra lesbískur múslimi.


Og í skáldsögunni sem ég las yfir jólin, Two serious ladies, eru konur á miðjum aldri einmitt áberandi, þær Christina Goering (já, nafnið tengist nasistanum Hermanni) og Frieda Copperfield. Þær hittast í partíi í New York í upphafi sögunnar og hittast aftur í lok hennar en í millitíðinni söðla þær báðar algerlega um, segja skilið við sín gömlu líf. Christina Goering er ágætlega sett piparmey sem ákveður að yfirgefa sitt fína miðstéttarheimili, kaupir sér hálfgert hreysi og sankar að sér ýmsu ólánsfólki sem hún á ýmisskonar kynferðissamskiptum við, hún ákveður að reyna fyrir sér í vændi og gerist háklassa vændiskona. Heimilishaldið er allt hið óvenjulegasta, ekki síst ef hugað er að því að bókin kemur út árið 1943. Frieda Copperfield er viðkvæm og óörugg með sig, hún ferðast með manni sínum til Suður-Ameríku og í Panama kynnist hún Pacificu, miðaldra vændiskonu og verður ástfangin af henni. Hún heillast af undirheimunum og öllu sem þeim fylgir, vændishúsunum, drykkjunni og slarkinu.



"I have gone to pieces, which is a thing I've wanted to do for years" segir Frieda Copperfield. Þær Goering og Copperfield gera þannig báðar uppreisn gegn hefðum og gildum samfélagsins og ganga þvert á allar viðteknar hugmyndir um það hvernig konur í þeirra stöðu eiga að haga sér. Það er voða erfitt að segja frá söguþræði bókarinnar í smáatriðum án þess að skemma fyrir væntanlegum lesendum, verður látið nægja að segja hér að þegar konurnar hittast aftur í lok bókarinnar hefur margt breyst, ekki síst þær sjálfar. Hér er auðvitað verið að spyrja knýjandi spurninga, hvort konur geti brotist úr þeim hlutverkum sem þeim eru ætluð í samfélaginu. Þær lenda í allskonar veseni og vitleysu en hljóta að launum sjálfsþekkingu, eins og reyndar svo margar skáldsagnapersónur á ferðalögum, en ferðalög þessara kvenna eru bæði mögnuð og stórfurðuleg í alla staði. Krafan er einfaldlega sú að lífið verði að vera meira en bærilegt, stærra, tragískara, munúðarfyllra og ævintýralegra. 

Two serious ladies var í miklu uppáhaldi hjá ýmsum bókmenntafrömuðum á sínum tíma, John Ashberry, Truman Capote, Carson McCullers og Gore Vidal hældu bókinni til dæmis mikið og samkvæmt heimildum er þetta uppáhaldsbók Tennessee Williams sem kemur ekki á óvart. Hinsvegar náði sagan ekki til almennings á sínum, enda í módernískari kantinum, hún þótti skrýtin, snúin, hættuleg og dónaleg. Mér fannst hún mjög skemmtileg, húmorinn er kolsvartur og byggingin er áhugaverð, nánast súrrealísk á köflum. Fínasta költklassík. 

Engin ummæli: