Í nýjustu skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur, fylgist lesandinn með sögumanninum Davíð skrásetja sögu sem hann vinnur úr minningum, textabrotum og samtölum og að miklu leyti eftir endursögn annarra. Markmiðið er að komast að sannleikskjarna atburða sem hentu foreldra hans og vini þeirra þrettán árum fyrr, en jafnvel skrásetning staðreynda verður óhjákvæmilega sköpun skrásetjarans upp að einhverju marki; hann velur, hafnar og túlkar og Davíð er sömuleiðis meðvitaður um misjafnlegan áreiðanleika heimildafólks síns. Þegar skrásetning atburðanna hefst er móðir hans ein eftir til frásagnar: „Ég hefði átt að tala við Láka, heimta af honum óbrenglaða útgáfu... Þess í stað hékk ég yfir mömmu kvöld eftir kvöld á meðan hún rakti fyrir mér sína vægast sagt óáreiðanlegu hlið, fulla af galskap og yfirnáttúru.“ (60) Hin eiginlega saga er þannig römmuð inn af sögu eigin tilurðar; eigin sköpunarsögu. Sköpunarkraftur, hæfileiki mannfólksins til að skapa og jafnvel endurskapa sig sjálft og þær takmarkanir sem sú viðleitni er þó háð er eitt helsta þema bókarinnar.
Á fyrstu fimmtíu síðunum er sköpunargoðsaga á myndasöguformi (teiknuð af Sunnu Sigurðardóttur eins og aðrar teikningar í bókinni); uppkast sem Davíð fær eftir stjúpföður sinn, frægan myndasöguhöfund, að honum látnum. Myndasagan hefst í aldingarði Edens og rekur brottrekstur Adams og Evu og brauðstrit syndugs mannkyns uns tvö brotthlaupin mannabörn finna aldingarðsstæðið forna, lesa síðasta ávöxtinn af lífsins tré og kyssast í kjölfarið fyrsta kossi heimsins. Þannig er sífellt vísað til upphafsins og fortíðarinnar en jafnframt framtíðar; rauntími sögunnar er árið 2016, þegar eldgos í Kötlu hefur valdið miklum breytingum á íslensku samfélagi, en atburðirnir sem Davíð skrásetur áttu sér stað veturinn 2003 þegar gosið stóð sem hæst.
Fjölskyldan og erfðasyndin
Aðalpersónur eru móðir Davíðs, Elísabet, stjúpfaðirinn Láki og vinahjón þeirra, Jón og Ingibjörg, kölluð Indi. Sjálfur er Davíð litlaus og óljós karakter, en hann er heldur varla persóna í sögunni heldur fyrst og fremst miðill hennar – aldrei í forgrunni atburðarásarinnar og kemur ekki nálægt gjörðum aðalpersóna nema þegar hlutverk skrásetjarans krefst þess (t.d. þegar hann finnur yfirgefinn bíl Indiar og í honum stílabækur með frásögn hennar). Elísabet ættleiddi Davíð í Argentínu. Stjúpfaðirinn Láki á ekki önnur börn, Jón og Indi hafa ekki getað eignast börn og þannig er skortur á „raunverulegum“ fjölskyldutengslum persónanna í sögunni – fjölskyldubönd hafa þó vægi í tilfelli Indiar og Jóns, og þá á neikvæðum nótum; Davíð telur sálarflækjur þeirra, innibyrgða reiði og sorg eiga rætur í brengluðum tengslum við foreldra og systkini. Sjálfur á Davíð tvær dætur, sem eykur á þörf hans til að gera upp fortíðina og hreinsa út syndir foreldranna – á hinn bóginn verkar það ef til vill þveröfugt, þar sem hann verður smám saman svo heltekinn af sköpunarferlinu að konu hans finnst hann vanrækja fjölskylduna. Þau greinir einnig á um eðli erfðasyndarinnar, sem Davíð telur óhjákvæmilegt hlutskipti mannsins: „Védís sakar mig um að varpa á mannkynið minni eigin sneypu – skömminni sem fylgir mér og öðrum sem alist hafa upp í ógn og óöryggi.“ (124)
Koss lífs (og, á röngunni, dauða)
Davíð telur sig einnig bera óbeina ábyrgð á því að móðir hans hafði frumkvæði að endurfundum þeirra Indiar eftir 20 ára viðskilnað, og þar með þeim hörmungum sem af hlutust: „Hugmynd Elísabetar var sú að Indi gæti orðið brúin milli okkar mæðgina; ég myndi fást til að þiggja af henni kossinn og eftir það skilja móður mína betur – verða meira eins og hún.“ (92) Sem listafólk standa Elísabet og Láki fyrir sköpun, og þótt Elísabet hafi ekki skapað líf á hinn hefðbundna máta sem mönnum og öðrum dýrum er gefinn telur hún sig búa yfir mætti til að „endurskapa“ fólk í einhverjum skilningi; hún veitir því „kossinn“ og þar með nýja sýn á lífið svo það verður aldrei samt. Koss Elísabetar, koss lífsins, táknar þannig sköpunar- og drifkraft sögunnar, en hann má engu að síður skilja hábókstaflega – að minnsta kosti ef marka má frásögn hennar sjálfrar af því þegar hún hlaut kossinn á unglingsaldri frá strák úr næsta húsi: „Elísabet trúir því að hún sé sýkt af einhvers konar yfirnáttúrulegu ástandi sem geri það að verkum að hún þurfi ekki að sofa og gefi henni einstakt hrifnæmi, sannfæringarkraft og útgeislun.“ (70) Sjálfum finnst Davíð allt eins líklegt að eiturlyfin sem móðir hans notaði sjálf og útvegaði öðrum hafi orsakað breytingarnar sem urðu á fólki í kjölfarið.
Þegar fundum æskuvinkvennanna ber saman að nýju er Indi óhamingjusöm og sárþjáð af kaupsýki sem hún leynir fyrir eiginmanninum Jóni. Sjálfur þolir Jón ekki hluti í kringum sig og hefur staflað öllum lauslegum eigum þeirra úr augsýn í hillur uppi undir lofti. Í kjölfar endurnýjaðra kynna við Elísabetu tekur Indi að sofa óhóflega og dvelur í draumum sínum á stað sem þó er of samkvæmur sjálfum sér og býður uppá of línulega atburðarás til að geta verið helber draumur, og má túlka sem annað tækifæri hennar til hamingjusamrar tilveru; til að endurskrifa eigin sögu. Hún skapar sér þannig hliðstæðan heim og finnur þar sköpunarfarveg og útrás, í stað þess að neyta aðeins þess sem aðrir hafa búið til. Uppgefin á veruleikanum, eigin þráhyggjum og viðleitni til að stjórna sjálfri sér og umhverfinu skorðast hún þannig milli tveggja heima en er í hvorugum sérlega fullnægð. Indi er afar harmræn persóna og jafnframt hetja sögunnar, að mati sögumanns, „því þótt hún væri á valdi efnishyggjunnar var hún bæði hugrökk og hjartahrein“. (61)
Persóna Davíðs er litlaus sem fyrr segir, jafnvel um of – hans helsta persónueinkenni verður þráhyggjan gagnvart því að henda reiður á sögunni, en reyndar má telja ljóst að það sé með ráðum gert: „[Sagan] er ekki um mig nema að því leyti sem hún fjallar um þörf mína fyrir að komast að raun um hvað væri satt og hverju logið...“ (55) Þau hjónin eru algerar andstæður Elísabetar og Láka: „Védís, konan mín, er sem betur fer rólegheitamanneskja. Hún vinnur í banka og þegar hún á frí hefur hún gaman af að prjóna, lesa og hlusta á tónlist.“ (57) Nú er ég sjálf sérleg áhugamanneskja um prjónaskap, lestur og tónlist og hef enga frekari fordóma gagnvart bankastarfsfólki en gengur og gerist, en þessi mannlýsing er svo leiðinleg að það getur varla verið óviljandi... Aðalpersónurnar fjórar fannst mér góðar, vissulega ýktar en ekki svo að komi að sök.
Það er ansi margt gott í þessari bók, þótt ég hafi t.d. ekki verið alveg eins hrifin af henni og síðustu skáldsögu Guðrúnar Evu, Skaparanum (talandi um sköpun!), en þetta eru enda gerólíkar bækur. Einhvernveginn greip hún mig ekki alltaf nógu fast, einsog stundum hafi skort upp á flæðið – mér fannst sumir þræðir frásagnarinnar verða ómarkvissir, t.d. sá um Lilju æskuvinkonu Davíðs, og teiknimyndasöguþættirnir einnig. Frásögnin verður þó aldrei leiðinleg og mér fannst höfundi t.d. takast sérlega vel upp við að lýsa stemningunni í draumheimi Indiar. Á heildina litið fínasta saga sem situr djúpt eftir lesturinn og batnar jafnvel með meltunni. Guðrún Eva fangar brot af sprengikrafti náttúrunnar í þessu verki sem hverfist um ástina og dauðann, skil draums og veruleika, svefns og vöku og listgáfu og vitfirringar – og ekki síst eilífa þörf mannskepnunnar til að ramma inn veruleikann, festa hönd á „sannleikanum“ og skilgreina þannig eigin stöðu í gjósandi heimi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli