19. janúar 2012
Nýjasta tækni og vísindi
Ég er ekki sú framsæknasta þegar kemur að tækninýjungum. Því til staðfestingar get ég nefnt að á dögunum keypti ég mér rauðan skjalaskáp sem ég hyggst nota til þess að flokka ljósrit og annað efni sem ég þarf að hafa tiltækt. Á meðan ég leitaði logandi ljósi á fornsölum borgarinnar að hentugum skjalaskáp voru flestir vinir mínir að kaupa sér spjaldtölvu og skanna sitt efni til stafrænnar varðveislu.
Sá gjörningur að kaupa sér skjalaskáp til hefðbundinnar notkunar er reyndar ekki talinn svo undarlegur hér í Bandaríkjunum. Hér er líka talið mjög eðlilegt að senda fax - já og skrifa ávísanir. Á Íslandi ligggja faxtæki og ávísanahefti á öskuhaugum sögunnar og skjalaskápar eru orðnir það framandlegir að hipp og kúl fólk stillir þeim upp við hlið hannaðra húsgagna í stofum sínum.
Fyrir nokkru síðan heyri ég af dulítilli nýjung sem gæti mögulega orðið til þess að ég gengist stafrænu byltingunni á hönd. Það er víst til hugbúnaður sem gerir manni kleyft að skanna strikamerki á bókum inn í snjallsíma og flytja allar bókfræðilegar upplýsingar þannig með einu handtaki inn sérsniðin forrit til þess að halda utan um heimildaskrár! Of gott til að vera satt? Já, það finnst mér og líklega eru einhverjir gallar á þessari gjöf Njarðar. Engu að síður er þetta eitthvað sem ég ætla að skoða betur. Það gæti þó tekið mig nokkur ár....
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli