25. desember 2010

Sýrópsmáninn. Já, og gleðileg jól öllsömul!

Bækur Eiríks Guðmundssonar hafa verið í uppáhaldi hjá mér síðan, tja, ég byrjaði að lesa þær. Eina vandamálið við bækurnar sem hann hefur skrifað (og pistlanna sem hann hefur lesið í Víðsjá) er að ég á mjög erfitt með að greina á milli hans (höfundar) og skáldaðra persóna. Ef ég hefði ekki séð honum bregða fyrir á bókasöfnum og öldurhúsum væri ég að öllum líkindum viss um að hann væri uppdiktaður. Fyrir það fyrsta, þá má segja að mörkin milli hans og skáldskapar verði strax óljós í útvarpspistlunum hans, sem eru eiginlega raunveruleikaskotinn skáldskapur. Í öðru lagi er þó nokkuð um sjálfssöguleg einkenni (metafiksjón) í bókum hans, sérstaklega í Undir himninum (2006). Í þeirri bók fóru þau nú alveg með mig, ég gleymdi gjörsamlega að gera greinarmun á útvarpsmanninum E og Eiríki Guðmundssyni. Það var einmitt einn sumardag fyrir svona tveimur árum (ég hafði nýlokið við að lesa bókina) sem ég benti vini mínum á hús á Hjarðarhaga og sagði honum að rithöfundurinn og útvarpsmaðurinn Eiríkur Guðmundsson ætti heima þarna og ætti það til að láta póstkort detta niður úr glugganum hjá sér. „Einmitt þessum glugga,“ sagði ég og benti á einhvern glugga sem ég hafði ákveðið að hlyti að vera glugginn sem útvarpsmaðurinn E sæti við. (Vinur minn vissi hins vegar að þetta væri ekki rétt og leiðrétti mig - það skrítna var að mér var eiginlega alveg sama, mér fannst, og finnst enn, að ég hafi rétt fyrir mér).

Sýrópsmánininn olli mér ekki vonbrigðum, þótt ég gerði miklar kröfur til hennar. Hún var bara nákvæmlega eins og hún átti að vera, höfundareinkennin eru svo sterk að það að lesa hana er eins og að koma á einhvern kunnuglegan, góðan stað. Bókin fjallar um ungan mann sem hefur unnið í Bóksölu stúdenta og á Vísindavefnum, en finnst skemmtilegra að lesa rússnesk ljóð uppi í turnherbergi og tala við bekki í almenningsgörðum. Svo gerist það (á einhvern saramagólegan hátt) að þoka leggst yfir Reykjavík og neitar að fara. Hún umlykur allt, sumt hverfur jafnvel alveg, og ungi maðurinn ákveður að fara með konu sinni og ungum syni til Ítalíu. Þoka getur þó fylgt manni í fjarlæga skóga og sumarhús í suður Evrópu, þótt maður hafi með sér gott ljóðasafn. Ég ætla ekki að láta eins og það gerist eitthvað rosalegt á Ítalíu, eða þegar fjölskyldan snýr aftur til Reykjavíkur (og að skuggaleg atburðarás mansals og eiturlyfjasmygls fari af stað), það þarf ekkert svoleiðis. Bókin er líka að stórum hluta brotakennd frásögn aðalpersónu af minningum, t.d. um fermingarmyndartöku, tilhugalíf, bækur og fyllerí með besta vini sínum, minningar eða einstaka setningar sem eru rifjaðar upp smám saman og kannski aftur seinna, svo lítið beri á, en þá rifjar lesandi þær upp með aðalpersónunni. Þær eru orðnar sameiginlegar minningar okkar beggja.

Ég las fyrrihluta bókarinnar í útlöndum fyrr í mánuðinum, þegar ég flúði Ísland og allt sem því fylgir í tæpa viku, og mér fannst það æðislegt. Seinnihlutann las ég svo þegar jólaundirbúningur, ritgerðaskil og annað lá í loftinu og ég var orðin óróleg, það var ekki alveg jafn gott. Ekki lesa þessa bók þegar eitthvað er að trufla, hún er skemmtilegust þegar maður fær að vera í friði – nú ætti að vera óhætt að byrja (nema einhver/eitthvað sé að trufla ykkur yfir jólin). Mér fór reyndar að líða eins og ég væri húmorslaus (eða að minnsta kosti ekki nógu drukkin á meðan á lestrinum stóð) þegar ég las umsagnirnar um Sýrópsmánann sem notaðar voru á bókarkápuna. Báðir gagnrýnendurnir segja að bókin sé fyndin, annar þeirra talar jafnvel um að bókin sé „drepfyndin, [að] maður beinlínis [skelli] upp úr hvað eftir annað.“ Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, ég brosti, flissaði kannski lágt tvisvar eða þrisvar. En mér finnst algjör óþarfi (og beinlínis villandi, ef einhver er að leita að einhverri brandarabók) að hampa henni fyrir að vera svona fyndin. Mér finnst hún bara mjög góð. Mjög góð bók.

Guðrún Elsa

21. desember 2010

ljóðastaðir

Undanfarna daga hef ég verið að glugga í ljóðabók sem heitir Staðir og er eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Ég hef ekki lesið neitt annað eftir Guðrúnu en man þó eftir að hafa rekið augun í fyrrri ljóðabók hennar Fléttur sem kom út árið 2007. Staðir vinnur verulega á við endurtekinn lestur.  Ljóðin láta ekki mikið yfir sér, það eru engin læti eða augljós átök í gangi, ekki svona á yfirborðinu að minnsta kosti. Þarna er farið hægt og hljótt yfir, staðirnir eru af ýmsum toga, borgarlandslag, lyngi vaxnar brekkur, ísi lagður Borgarfjörður sem sagnfestuhross æða um, draumheimar og hjartastaðir.

Að mínu mati tekst Guðrúnu best upp þegar hún fjallar um einhverskonar innra landslag, þau ljóð höfða að minnst kosti mest til mín. „Egg“ finnst mér t.d. næsta gott, m.a. þessar línur:

Það komst ekki hnífurinn
á milli okkar
en að því kom
ég þreif um eggina
og þú dróst blaðið
úr greip minni

(bls 22)

Mitt uppáhaldsljóð í bókinni er þó „samastaður“.  Bæði höfðar efnið til mín og eins finnst mér Guðrúnu þar takast vel upp með að láta efni og form haldast í hendur. Það sem ég get helst fundið bókinni til foráttu er einmitt formið, eða kannski það að fyrir minn smekk þá er yfirbragð margra ljóðanna full „fornt“. Og auðvitað er það aldrei þannig að manni finnist allur efniviður í bók einsog þessari jafn áhugaverður eða endilega skemmtilegur.  En jafnvel í þeim ljóðum þar sem efni eða form hefur ekki höfðað sérstaklega til mín finn ég yndislega fallega mola einsog:

hér skal ég standa
og anda að mér stjörnum

(Ofvæni, bls. 9)

úr augum hennar flóði himinblámi
og silfrað myrkur

(í bók, bls. 19)

Sigfríður

19. desember 2010

Ljósa Kristínar Steinsdóttur

ljósaLjósa er þriðja skáldsaga Kristínar Steinsdóttur ætluð fullorðnum og sú fyrsta af því tagi sem ég les eftir hana. Sagan er hér um bil eins íslensk og skáldverk getur verið (þó sagt með þeim fyrirvara að ég las hana um borð í ferju í erlendri landhelgi og hafði þá ekki lesið skáldsögu á íslensku vikum ef ekki mánuðum saman). Sögusviðið er í sveit fyrir austan, seint á 19. öld og frameftir þeirri tuttugustu. Tvö stef fundust mér gegnumhrópandi: aðstæður kvenna í veruleika sögunnar, og aðstæður fólks með geðræn vandamál. Aðalpersónan Ljósa tilheyrir báðum þessum hópum og um það fjallar sagan - um örlög hennar, undirorpin þessum tilviljunarkenndu breytum utan hennar valdsviðs. Í uppvexti Ljósu kemur að því að hún, eins og öll börn fyrr eða síðar, áttar sig á breyskleikum foreldra sinna (og þar með því að enginn er fullkominn / allt er í heiminum hverfult / insert existensíalíska tilvitnun að eigin vali). Það tengist stöðu kvenna-þemanu á þann hátt að Ljósa þarf að horfast í augu við óforbetranlegt kvennafar heittelskaðs föður síns og vanmátt móður sinnar gagnvart því. Geðveiluþemanu tengist það þannig að þessi draugur bernskuheimilisins fylgir henni út ævina og veldur persónulegu óöryggi og skorti á trausti í samskiptum, en hún er auðvitað sérlega veik fyrir sökum þjakandi kvíða og þunglyndis. Veikindin valda því að Ljósa heldur allt að því sjúklega í hið kunnuglega úr bernsku sinni út ævina; bæjarstæðið, fjöllin, fólk og hindurvitni. Jafnframt þráir hún eitthvað allt annað og meira, en fylgir því aldrei eftir til fulls og þjáist enn meir fyrir vikið.

Þetta kann að hljóma heldur niðurdrepandi eða jafnvel melódramatískt, en bókin er hvorugt, heldur falleg og einlæg og vel skrifuð, það kom mér næstum á óvart hvað hún snart mig. Mæli hiklaust með.

Erla

14. desember 2010

Enginn heldur utan um ljósið eftir Vésteinn Lúðvíksson, Zéní

EnginnheldurFenginn strengjalaus gítar
Tekur því vel, raddlítill munkur
Og railway station sem rímar
á móti destination - nokkuð glúrið

Vésteinn Lúðvíksson gaf út fyrstu ljóðabókina sína, Úr hljóðveri augans, árið 2003, þá rétt tæplega sextugur. Síðan þá hafa birst þrjár ljóðabækur til viðbótar - Svona er að eiga fjall að vini (2004), Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk (2006) og nú Enginn heldur utan um ljósið. Auk þess hefur hann þýtt ljóð Po, Chü-i, sem birtust í bókinni Brjálsemiskækir á fjöllum. Einu sinni var Vésteinn Lúðvíksson leikskáld - en það var held ég í einhverjum öðrum heimi. Áður en ég fæddist.

Hafa ekki verið viðstaddur
þegar ísaldarjökullinn snyrti þetta hulda berg

tylla sér á árangurinn margsinnis og vera
viðstaddur þessi tignarlegu fjöll –

(Í djúpið, s. 13)

Vésteinn Lúðvíksson er íslenskt náttúruskáld og ég er með ofnæmi fyrir náttúruljóðum. Nema náttúruljóðum Vésteins Lúðvíkssonar. Ég hef það á tilfinningunni – og get varla fært nein frekari rök fyrir þessari tilfinningu – að náttúran í ljóðum Vésteins standi á jörðinni, hún sé ekki „íslensk“ fyrir það eitt að vera á Íslandi – hún sé ekki staðgengill fyrir þjóðrembing, eða sjálfsupphafningu – heldur sé hún veraldarinnar, útgeima og eilífðarinnar, nái niður í rætur og tengist öllu. Og allt í einu get ég dáðst að íslenskri náttúru, ég sem get varla hlustað á Sigur Rós eða lesið atómskáld án þess að fá útbrot.

Vésteinn er auðvitað meira en náttúruskáld - ég á ekki við að þetta séu bara einhverjar lækjarsprænur. Ljóð hans eru kannski tilraun til þess að samþætta hugsun, eðli, anda, líkama og náttúru.

Þegar þú hlærð er stóll sem hlær
þegar þú hlærð er húsið alelda
Réttu mér nú höndina og haltu
fast í allt hitt með hinni, verandi funinn
og hermdu mér svo hvaða eldingar nái
að tvístra slíkum trekant

(Hlátur s. 24)

Það er einhver austurlensk kerskni í ljóðum Vésteins - sem er augljóslega undir áhrifum tönkusmiða og hækugerðarmanna – einhver hrokalaus kerskni,full af vinalegri kímni (en ekki þó saklausri). Mér líður vel í þessum félagsskap. Einsog hann skapi mér hugarró – ef ekki hreinlega réttlæti (ég biðst velvirðingar á þessum tilfinningaáherslum; en bókin vekur með mér tilfinningar).

að sitja gagntekinn
á bakkanum, horfa
á eftir því sem flýtur
með straumnum

uns það hverfur
að lokum í fjarskann
einsog fljótið, einsog
bakkinn og augun

og enginn til að líkja
neinu við neitt

Humar sem telur sig humar
og rækja sem telur sig rækju
Eikarbátur frá Ísafirði
á alltaf síðasta upphafsorðið

--

Hvergi fugl, aðeins
fjöður að hringa sig til jarðar
Ekkert að loftinu hvaðþá
orsök og afleiðing

(Bara, s.18-19)

Í bókum Vésteins er að finna allar stjörnur himinsins – og því varla á það bætandi og engar stjörnur hvort eð er til í búinu, en væru hér stjörnur myndum við splæsa og splæsa, sulla í hann stjörnum þar til engar væru lengar eftir (þetta er ekki kennslustund í heimilishagfræði). „Þegar fara saman / þakklæti og undrun / á fyrsta atkvæðið ekki / alltaf heimangengt".

Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

Drekkhlaðin rolla af gleði

Grallarar í gleðileit
Myndabókin Grallarar í gleðileit er ætluð börnum frá fjögra ára aldri. Björg Bjarkadóttir er höfundur sögunnar og einnig sú sem myndskreytir. Hún hefur samið fjölda myndabóka fyrir yngri lesendur eins og bækurnar um Ömmu: Leyndarmál ömmu og Amma fer í sumarfrí. Eins og í fyrri bókum Bjargar eru myndirnar í Gröllurum í gleðileit fjörugar og litríkar. Allt er á hreyfingu; prump puðrast, fíflar skjótast og vatn skvettist yfir heila opnu. Það ríkir ekki lognmolla í kringum þá Tolla og Todda og Björg sýnir það vel með einföldum myndskreytingum.

Mamma er búin að fá nóg af þeim félögum Tolla og Todda. Hún er hætt að brosa og heimilislífið orðið ansi súrt. Drengurinn Tolli og sauðurinn Toddi henda sér í það að finna eitthvað sem gleður mömmu. Toddi kind hefur frábært reyfi sem getur falið hvað sem er. Hin fullkomna hirsla sem tekur endalaust við dýrmætu dóti eins og krakkar fylla venjulega vasana af. En þeir félagarnir eru ekki að leita að dóti handa sér heldur mömmu og þurfa að hugsa um hvað hún myndi vilja. Toddi og Tolli þurfa að setja sig í spor annarra sem er ekkert sjálfsagt mál hjá lesendahópi bókarinnar. Heyrir mamma ílla? Er hún þreytt? Hvað gæti glatt hana? Þessu velta þeir fyrir sér og reyna svo að finna það sem gæti leyst vandann. Þegar Tolli er kominn með fulla kind af gleðigjöfum fyrir mömmu dynur ógæfan yfir. Toddi hristir reyfið og gjafirnar þeytast út og suður og verða að klessu á götunni. Nema einn fífill, sem reynist að lokum hafa kraftinn til að gleðja mömmu.

Þó að margt sé ágætlega heppnað í Gröllurunum þá hefði mátt vinna söguna aðeins betur hér og þar. Sem dæmi má nefna að Tolli stelur púða fyrir mömmu, stingur honum í reyfið á Todda og síðan hlaupa þeir félagarnir í burtu. Það að þeir séu komnir út  í gripdeildir fær ekki frekari umfjöllun rétt eins og það sé bara alvanalegt hjá myndabókaaldurshópnum að standa í slíku.

Grallarar í gleðileit  er bráðskemmtileg myndabók með góðri blöndu af grallaraskap og væntumþykju sem gefur færi á áhugaverðum samtölum við litla spekinga um líðan fólksins í kringum okkur.   

Helga Ferdinandsdóttir

13. desember 2010

Framhaldsfærslur Eiríks Arnar um Hreinsun og Oksanen

oksanenEiríkur Örn Norðdahl les Hreinsun eftir hina dónalegu Sofi Oksanen þessa dagana. Ég er ekki búin að lesa bókina en ég les hins vegar bloggfærslur Eiríks Arnar um bókina af iðandi áhuga. Hér er bloggið hans! Nýjustu færslurnar eru auðvitað efst þannig að það er kannski ráð fyrir áhugasama að renna sér neðar á síðuna og byrja á upphafsfærslunni um bókina.

Það eru greinilega misjafnar skoðanir á Hreinsun og Sofi Oksanen er víst ekki öllum Eistum að skapi, kannski er hún dæmi um spámanninn í föðurlandinu (ja eða móðurlandinu, faðir Sofiar er víst finnskur en mamman frá Eistlandi) ég veit ekkert um það. En það er margt áhugavert í því sem Eiríkur Örn skrifar og tínir til um þessa marglofuðu bók, til dæmis segir hann: „Sofi Oksanen skrifar einsog gamall grobbinn kall. Hún skrifar „bókmenntastíl“ – nóbelsverðlaunastíl fyrir dummies." Og hér er önnur tilvitnun úr nýjustu færslunni þar sem hann fjallar um greiningu gagnrýnenda, eða kannski greiningarleysi: "Ég finn reyndar mjög lítið af analýsu í þeim dómum sem ég hef lesið – það er mikið af stórum lýsingarorðum og ýjað að því að bókin fjalli um átakamikið samband tveggja kvenna og ble og bla, en 99 af hverjum hundrað orðum gætu hæglega verið úr auglýsingatexta útgefandans. Sem segir kannski sitt um standardinn – hvað sé að verða um bókmenntakrítík í Evrópu."

Ég hlakka til að lesa bókina (ekki alveg strax samt - ég má ekki vera að því) og komast að því hvort þessi margverðlaunaða bók sé Hollywood-melódrama í ætt við Schindler's list eða hvort hún sé eins stórfengleg og flestir vilja halda fram.

Þórdís

12. desember 2010

„það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum“

Okkurgulur sandur er nýtt safn með tíu ritgerðum um bókmenntaverk Gyrðis Elíassonar. Höfundarnir eru Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Halldór Guðmundsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hermann Stefánsson, Ingunn Snædal, Jón Kalman Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sveinn Yngvi Egilsson og Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Í inngangi ritstjórans, Magnúsar Sigurðssonar, segir að tilgangurinn með bókinni sé að kortleggja eftir megni þann margbrotna og um margt einstaka sagna- og ljóðaheim sem Gyrðir hefur dregið upp frá fyrstu bók sinni Svarthvít axlabönd sem kom út 1983, en hann tekur auðvitað fram að slík kortlagning sé takmörkunum háð, enda verk Gyrðis, þýdd og frumsamin, á fimmta tuginn. Ritgerðirnar geta varla talist langar, bókin er ekki nema 125 bls. með inngangi, svo það er augljóst að þetta er engan veginn tæmandi verk. Höfundarverk Gyrðis hefur þróast og tekið miklum breytingum í gegnum árin. Það er fátt líkt, að minnsta kosti á yfirborðinu,  með ljóðabókinni Tvíbreitt (svig)rúm frá 1984 og Sandárbókinni, sem kom út 2007, svo ég nefni tvö verk Gyrðis sem ég hef lesið (ég hef ekki lesið allar bækur hans) en oft finnst mér fólk ræða verk Gyrðis Elíassonar eins og þau séu einsleit og hvert þeirra öðru líkt, sem er alls ekki rétt þó að auðvitað megi alveg tala um ákveðin höfundareinkenni. En það er sem sagt ljóst að í þessari stuttu bók er aðeins drepið á hinu og þessu en bókin er þó happafengur fyrir þá sem vilja kynna sér verk Gyrðis. Mér finnst þetta líka afskaplega skemmtilegt form, það er gaman að fá svona safn sem er eingöngu helgað verkum eins höfundar og þau rædd á fjölbreyttum nótum af ólíkum höfundum.

Ritgerðunum í bókinni er ætlað að vera aðgengilegar og fræðandi (en ekki endilega fræðilegar eins og tekið er fram – hvað það svo sem þýðir). Þær má margar segja lýsingar á lestrarreynslu höfundanna, en sjónarhorn hvers ritara er þó hnitmiðað. Margar greinanna eru skrifaðar af mikilli aðdáun á skáldinu Gyrði Elíassyni og fer ekki hjá því að sumar eru skáldlega fram settar, enda oftar en ekki skáld sem halda á penna eða berja á lyklaborð. Sem dæmi má nefna innlegg Jóns Kalmans Stefánssonar, Á svörtum vængjum inn í ljósið, þar sem segir :
Skáldskapur er undurfurðuleg blanda af fegurð og feigð, grimmd og kvíða, visku og barnaskap, og þá kannski vegna þess að hann er órökvís í eðli sínu. Órökvís og getur þess vegna orkað undarlega sterkt á okkur, sér í lagi ljóðið, andblær þess smýgur inn og andar á það sem sefur í djúpinu. Ljóðið getur hjálpað okkur þegar möguleikum lífsins virðist fækka, birtan hefur dofnað, við fálmum kannski inn í runnaþykkni eftir ljóskúlu sem hefur verið falin annarsstaðar; þá getur ljóðið komið til hjálpar með órökvísi, djúpri og stundum barnalegri visku sinni; hjálpað okkur til að sjá eða gruna að kuldinn er hugsanlega bara yfirborð: (bls. 11)


Þetta, og fleira í grein JKS, finnst mér óneitanlega ansi páfuglslega skrifað þó að það sé svolítið skemmtilegt, en við Jón Kalman erum greinilega óskaplega ólíkt fólk, hann segir á öðrum stað frá því þegar hann sá Gyrði í fyrsta skipti í Ríkinu við Lindargötu: „Ég man að það var talsvert áfall fyrir mig, að hann skyldi vera svona kátur, ég stóð þá í þeirri trú að skáld bæru sársaukann utan á sér, …" (bls. 12). Undirrituð, hafandi ekki umgengist mörg skáld fram eftir aldri, er svo óskáldlega innréttuð að hafa aldrei látið hvarfla að sér annað en að skáld bæru ekki meira sársauka utan á sér eða innan í sér en annað fólk. Jafnvel held ég að ég hafi talið þau hljóta að vera glaðbeitta lukkuriddara að fá að vinna skemmtilegri vinnu en flestir aðrir. En hvað um það Jón Kalman fjallar ágætlega um ljóð Gyrðis og tengir verk hans við verk annarra skálda og gerir þetta býsna skemmtilega og greindarlega. Grein Guðrúnar Evu fjallar um Bréfbátarigninguna, hún er á persónulegum nótum í nálgun sinni og greinin er fremur stutt, fyrir mér var þetta mest upprifjun á þessari ágætu bók. Það er margt ágætt í grein Fríðu Bjarkar um þýðingar. Hún fjallar meðal annars um galdurinn við góða þýðingu, sem hún telur byggðan á skapandi mætti þýðandans og hæfileikum hans til að miðla því sem eitt tungumál getur tjáð yfir á annað þannig að þýðingin sé ekki síðra verk en frumtextinn. Þýðandinn þarf að lesa í hugarheim höfundarins og menningarheiminn handan orðanna, þann sem verkið rís úr. Guðmundur Andri Thorsson skrifar grein um tónlist í verkum Gyrðis. Hann minnist meðal annars á munnhörpuna, sem hann segir eftirlætishljóðfærið og finna má víða í verkunum. Tónlist hljómar sífellt hjá Gyrði og undirtitill Sandárbókarinnar, Pastoralsónata, vísar jú einmitt til fimmtándu píanósónötu Beethovens.

Ég er á því að grein Hermanns Stefánssonar um Sandárbókina sé sú beittasta og besta í bókinni. Hermann skrifar: „það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum sem ávallt koma upp í tengslum við verk einstakra höfunda, þjóða og kynslóða.“ (bls. 73). Hann segir líka að það sé alkunna að þeim mun auðveldara sé að fabúlera um verk rithöfunda sem þau séu meira drasl og að nóg sé til af vaðli um slakar bækur eftir vonda höfunda. Hermann telur Sandárbókina einhverja mest afgerandi pólitísku yfirlýsingu sem út kom á tímum góðærisins. Fyrir þessu færir hann góð rök og þessi grein er lúnkin og gagnleg greining á Sandárbókinni. Mig langar að lauma því að hér að mér finnst að það ætti að kvikmynda Sandárbókina (hefur það kannski einhversstaðar verið rætt?) þar sem sagan er svo myndræn, ég sé hana fyrir mér sem bíómynd. Ég ætla ekki að tíunda fleiri greinar í þessu safni sérstaklega en mæli eindregið með Okkurgulum sandi (ég hefði samt ekki valið þennan titil á bókina).

Hefði ég verið beðin að skrifa grein í safn um verk Gyrðis Elíassonar hefði greinin mín fléttað saman verkum Gyrðis og Tove Jansson, þeirrar sem skrifaði bækurnar um Múmínálfana og um tug annarra skáldverka. Ég sé samtengjandi þræði á hverju strái. Í Múmínálfabókunum leikur til dæmis tjaldbúinn og einfarinn Snúður á munnhörpu og virðist smellpassa inn í vissar sögur Gyrðis og í Sommarboken (sem ekki hefur verið þýdd á íslensku) minna samskipti gamallar konu og sérviturrar stelpu, sem búa saman á eyju, á persónur í bókum Gyrðis þar sem sérvitur börn og einræn gamalmenni eru gjarna á stjákli og stússandi í ýmsu í öllum veðrum.

Þórdís Gísladóttir

8. desember 2010

Maðkflugur og mansal...jólabókin í ár!

hreinsunÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að hrósa Hreinsun eftir Sofi Oksanen sofie(og þar að auki er komið skuggalega mikið af jákvæðum dómum hjá okkur á Druslubloggið  undanfarið) en ég held ég neyðist samt til að taka Hreinsun með dynjandi lófataki.

Henni tekst að segja erfiðar, já segjum bara ömurlegar, sögur af tveimur ólíkum konum á ólíkum tímum án þess að bókin sjálf verði nokkurn tíman þung eða niðurdrepandi aflestrar þótt vissulega taki hún á.

Það er ekki hlaupið að því að skrifa um mansal og misnokun án þess að detta í klisjur en það tekst Oksanen. Henni tekst að skrifa um hvernig nauðgun var (og er) systematískt notuð í stríðum til að brjóta niður manneskjur og þar með þjóðir og hvernig vestræn samfélög nútímans herja á sambærilegan hátt á líkama fátækra kvenna. Allt þetta á svo lipran hátt að aldrei hvarflar að manni að hún sé að predika eða koma upplýsingum á framfæri, maður bara rífur sig áfram gegnum bókina, æsispenntur.

Hér segir frá Aliide og Zöru sem eyða óvænt saman nokkrum dögum í húsi þeirrar fyrrnefndu. Við fyrstu sýn eiga þær ekkert sameiginlegt en smám saman flettist ofan af sögum þeirra svoleiðis að lesandinn hreinlega fölnar. Saga Aliide gerist um og eftir seinni heimstyrjöldina þegar Eistland var hertekið af Rússum en Zara er ung stúlka á flótta undan annars konar stríði í nútímanum. Sögur þeirra eru ólíkar en þó tengdar órjúfanlegum böndum þeirra sem standa hjálparvana gegn ofurefli.

Aliide er ein eftirminnilegasta bókmenntapersóna sem ég hef lengi rekist á og án þess að segja of mikið (þetta er nefnilega spennusaga ofan á allt annað og hvað elska ég meira en reyfara??) þá er óhætt að segja að Oksanen neyði lesandann til að fara út á hálan og óþægilegan ís með þessari sérkennilegu konu. Það er líka merkilegt að þótt að bókin sé átakamikil og jafnvel hröð er samt nostrað við smáatriði þannig að mér finnst ég gæti ratað blindandi um kotið hennar Aliide og þótt ótrúlegt megi virðast eru lýsingarnar á heimilisstörfum hennar eitt það eftirminnilegasta og magnaðasta í sögunni.

Tónn bókarinnar er sleginn strax á fyrstu síðu þegar Aliide reynir varna viðurstyggilegri maðkflugu að komast í kjötið og verpa þar og segja má að þessi huggulega maðkfluga smokri sér af mikilli list inn í söguna og skelli sér bæði í myndlíkingar og matinn áður en yfir líkur.

Maðkflugur, mansal og stríð...Hreinsun hljómar kannski ekki eins og jólabókin í ár en hún er auðlesin, lúmskt fyndin, æsispennandi og gríðarlega vel skrifuð. Hvað meira er hægt að biðja um?

Maríanna Clara

6. desember 2010

Þetta vill lifa. Þetta veit ekki betur.



Ég hef viðurkennt það á öðrum vettvangi að ég var full þegar ég byrjaði að skrifa þennan bókadóm, ef dóm skyldi kalla. Það kom til af góðu. Ég hafði bókina með mér á bar, las hana meðan drykkjufélagi minn fór á klósettið og lét hann lesa hana meðan ég fór á klósettið, og svo þegar annað okkar kom af klósettinu las hitt valdar línur úr bókinni og við ýmist hlógum tryllingslega eða hölluðum spekingslega undir flatt.

Ég er mjög hrifin af því að taka ljóðabækur með á barinn – þær eru yfirleitt knappar í forminu og henta sem skemmtilestur yfir bjór eða sem afþreying þegar viðmælandinn hverfur á klósettið eða út í sígó. Það verður hins vegar að viðurkennast að það mark sem ölvun setur á skrif um bækur er mun asnalegra og því leyfi ég mér að endurskoða þessi skrif lauslega. Ég skal samt ekki svindla og ritskoða allt hégóma mínum til þægðar, ég skal alveg segja ykkur að ég byrjaði á því að skrifa „Já sæll“, taldi upp fjögur props (gjafakort frá Victoria´s Secret, vodkastaup, Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson og Stuck inside a mobile with the Memphis blues again – sérkennileg blanda) og á einum stað stóð VÚHÚ.

Þessi bók var meðal þeirra sem ég var spenntust fyrir að lesa þetta haustið og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég var svolítið skeptísk á titilinn áður en ég byrjaði, Ljóð af ættarmóti, fannst hann einhvern veginn ekki alveg nógu afgerandi, en svo sættist ég við hann þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er nefnilega ættarmót – mætti kalla þetta konseptverk? – hér stökkva fram Íslendingar á ættarmóti með sínar samræður og einræður og þetta er á einhvern hátt afar íslenskt:

„Lykla-Pétur leiddi hann inn í dýrðina.

Maðurinn litaðist um og spurði: Hvar er mitt fólk?

Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur.
Þitt fólk er allt farið suður.“ (15)

Þetta er allt fólkið sem er á ættarmótinu og það er misvel mælandi eins og gengur, sumt er það hikandi og stirt, aðrir kunna þetta, eru jafnvel fyndnir, tungutakið oft kunnuglegt. Þvílíkan sjálfsaga hlýtur það að hafa kostað af hálfu hins skáldmælta höfundar að leyfa þeim ekki að hlaupa út undan sér í háfleygum líkingum og lýrík, einfaldleikinn blífur:

„Ekki amast við geitungnum.
Hann er fulltrúi lífsins.
Hér á þessum stað.

Þetta vill lifa.
Þetta veit ekki betur.
Vill koma sér upp afkomendum.“ (19)

(Ég fékk hreinlega samviskubit þegar ég las þetta ljóð, hér eftir mun ég sitja pollróleg og láta geitungana kjamsa á mér, sannfærð um að þeir séu slíkir fulltrúar lífsins.)

Það er ekki svo oft sem maður sér í íslenskri ljóðabók lagt upp með svona ákveðna gegnumgangandi hugmynd um stíl, mér finnst það virka vel og heildarmyndin verða flott og metnaðarfull, mínímalisminn verður ekki eintóna. Blaðsíðurnar eru að sjálfsögðu misjafnar – ljóðin eru ótitluð, þetta er flæði, samræðuflæði – en heildin virkar nógu sterkt til að það skipti minna máli. Sjálfsagt hefði mátt þétta bókina, hún er frekar löng af ljóðabók að vera, en það eru nú smásyndir í mínum kokkabókum þegar restin er góð.

Efnið er í senn hversdagslegt og smátt, jafnvel lítilmótlegt, og mikilvægt og stórt, jafnvel tilvistarlegt. Ég hef gríðarlegt ofnæmi fyrir öllu sem kallað er íslenska þjóðin en í þessu ættarmótsformi lifnar samt við einhvers konar þjóð, samfélag með ákveðna drætti og rætur, hversdagslega sönn og fyrst og fremst mannleg. Það er geitungurinn sem vill lifa og dagarnir sem eru svo gráir að þeir eru eins og endurtekningar á sjálfum sér en samt betra að þeir komi en ekki og svo er að missa af skónum á útsölunni og hugsa til þeirra æ síðan, að langa í eitthvað í ísskápnum en vita ekki hvað, og helvítis frændinn sem platar mann til að hjálpa sér að flytja og gefur manni engan bjór. Ég ætla að hætta áður en ég þyl upp alla bókina, hér er smá brot í viðbót:

„Nú er hann aftur látinn
elsti Íslendingurinn.

Dáinn horfinn
harmafregn.

En varla á heimsvísu
elsti jarðarbúinn kvað vera dáinn líka.

Samt eru bara nokkar víkur
síðan hann dó síðast.“ (88)

Hún er nefnilega líka mjög skemmtileg, þessi bók, og það eykur enn á skemmtunina að hlusta meðfram á upplestur skáldsins sjálfs, enda tilþrifamikill upplesari: http://www.anton.is/?page_id=176

Kristín Svava