Bækur Eiríks Guðmundssonar hafa verið í uppáhaldi hjá mér síðan, tja, ég byrjaði að lesa þær. Eina vandamálið við bækurnar sem hann hefur skrifað (og pistlanna sem hann hefur lesið í Víðsjá) er að ég á mjög erfitt með að greina á milli hans (höfundar) og skáldaðra persóna. Ef ég hefði ekki séð honum bregða fyrir á bókasöfnum og öldurhúsum væri ég að öllum líkindum viss um að hann væri uppdiktaður. Fyrir það fyrsta, þá má segja að mörkin milli hans og skáldskapar verði strax óljós í útvarpspistlunum hans, sem eru eiginlega raunveruleikaskotinn skáldskapur. Í öðru lagi er þó nokkuð um sjálfssöguleg einkenni (metafiksjón) í bókum hans, sérstaklega í Undir himninum (2006). Í þeirri bók fóru þau nú alveg með mig, ég gleymdi gjörsamlega að gera greinarmun á útvarpsmanninum E og Eiríki Guðmundssyni. Það var einmitt einn sumardag fyrir svona tveimur árum (ég hafði nýlokið við að lesa bókina) sem ég benti vini mínum á hús á Hjarðarhaga og sagði honum að rithöfundurinn og útvarpsmaðurinn Eiríkur Guðmundsson ætti heima þarna og ætti það til að láta póstkort detta niður úr glugganum hjá sér. „Einmitt þessum glugga,“ sagði ég og benti á einhvern glugga sem ég hafði ákveðið að hlyti að vera glugginn sem útvarpsmaðurinn E sæti við. (Vinur minn vissi hins vegar að þetta væri ekki rétt og leiðrétti mig - það skrítna var að mér var eiginlega alveg sama, mér fannst, og finnst enn, að ég hafi rétt fyrir mér).
Sýrópsmánininn olli mér ekki vonbrigðum, þótt ég gerði miklar kröfur til hennar. Hún var bara nákvæmlega eins og hún átti að vera, höfundareinkennin eru svo sterk að það að lesa hana er eins og að koma á einhvern kunnuglegan, góðan stað. Bókin fjallar um ungan mann sem hefur unnið í Bóksölu stúdenta og á Vísindavefnum, en finnst skemmtilegra að lesa rússnesk ljóð uppi í turnherbergi og tala við bekki í almenningsgörðum. Svo gerist það (á einhvern saramagólegan hátt) að þoka leggst yfir Reykjavík og neitar að fara. Hún umlykur allt, sumt hverfur jafnvel alveg, og ungi maðurinn ákveður að fara með konu sinni og ungum syni til Ítalíu. Þoka getur þó fylgt manni í fjarlæga skóga og sumarhús í suður Evrópu, þótt maður hafi með sér gott ljóðasafn. Ég ætla ekki að láta eins og það gerist eitthvað rosalegt á Ítalíu, eða þegar fjölskyldan snýr aftur til Reykjavíkur (og að skuggaleg atburðarás mansals og eiturlyfjasmygls fari af stað), það þarf ekkert svoleiðis. Bókin er líka að stórum hluta brotakennd frásögn aðalpersónu af minningum, t.d. um fermingarmyndartöku, tilhugalíf, bækur og fyllerí með besta vini sínum, minningar eða einstaka setningar sem eru rifjaðar upp smám saman og kannski aftur seinna, svo lítið beri á, en þá rifjar lesandi þær upp með aðalpersónunni. Þær eru orðnar sameiginlegar minningar okkar beggja.
Ég las fyrrihluta bókarinnar í útlöndum fyrr í mánuðinum, þegar ég flúði Ísland og allt sem því fylgir í tæpa viku, og mér fannst það æðislegt. Seinnihlutann las ég svo þegar jólaundirbúningur, ritgerðaskil og annað lá í loftinu og ég var orðin óróleg, það var ekki alveg jafn gott. Ekki lesa þessa bók þegar eitthvað er að trufla, hún er skemmtilegust þegar maður fær að vera í friði – nú ætti að vera óhætt að byrja (nema einhver/eitthvað sé að trufla ykkur yfir jólin). Mér fór reyndar að líða eins og ég væri húmorslaus (eða að minnsta kosti ekki nógu drukkin á meðan á lestrinum stóð) þegar ég las umsagnirnar um Sýrópsmánann sem notaðar voru á bókarkápuna. Báðir gagnrýnendurnir segja að bókin sé fyndin, annar þeirra talar jafnvel um að bókin sé „drepfyndin, [að] maður beinlínis [skelli] upp úr hvað eftir annað.“ Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, ég brosti, flissaði kannski lágt tvisvar eða þrisvar. En mér finnst algjör óþarfi (og beinlínis villandi, ef einhver er að leita að einhverri brandarabók) að hampa henni fyrir að vera svona fyndin. Mér finnst hún bara mjög góð. Mjög góð bók.
Guðrún Elsa
Engin ummæli:
Skrifa ummæli