7. janúar 2011

Eyru Busters

EyruBursters
Áður en ég fékk bókina Eyru Busters eftir Maríu Ernestam í hendurnar ekki svo löngu fyrir jól hafði ég aldrei séð bókina hvað þá heyrt af höfundinum. Ekki það að ég er ekkert sérstaklega vel að mér í bókmenntum grannþjóða okkar, en hef þó alltaf öðru hvoru tekið syrpur og lesið skáldsögur eftir norræna kvenrithöfunda.  Ég verð að segja að ef ég hefði rekist á bókina í búð eða bókasafni hefði ég sennilega ekki veitt henni mikla athygli og að öllum líkindum fundist kápan svo fráhrindandi að ég hefði sleppt því að taka hana til handagagns hefði ég rekið í hana augun.  Ég er eiginlega mjög hissa á þessari kápu því mér finnast almennt myndir Margrétar Laxness t.d. í barnabókum fallegar og litríkar. Nóg um það.

Ég hafði sum sé engar væntingar til bókarinnar þegar ég hóf lesturinn og verð að segja það að ég datt algjörlega inn í hana. Miðað við útlitið á bókinni og titilinn hefði ég haldið að söguhetjan væri væmin rósatýpa sem næði huggulegu trúnaðarsambandi við þennan hryllilega ljóta hund sem kápumyndin er af. En sei sei nei, það er nú síður en svo raunin. Söguhetjan er langt því frá væmin og samband hennar við Buster og eyrun hans ansi ólíkt stereotýpísku sambandi barna og hunda. Hún talar að vísu í eyrun hans Busters og þau hlusta, en ekki á þann hátt sem vanalegur er!

Sagan býður uppá áhugavert „twist“ á samband móður og dóttur, og það hvernig söguhetjan tekst á við aðstæður sínar. Sjö ára gömul er hún komin á þann stað að hún skilur að sambandi hennar og móðurinnar er þannig háttað að einungis önnur þeirra getur staðið upp sem sigurvegari – það er ekki pláss fyrir nema aðra hvora. Hún telur sig þurfa að taka ákvörðun, gerir það og fer einbeitt af stað með plan um það hvernig hún muni hrinda ákvörðuninni í framkvæmd.

Bókin er að mínu mati vel skrifuð,  ekki fyrirsjáanleg og tekst af einurð á við aðstæður, tilfinningar og gjörðir sem eru, svo vægt sé til orða tekið, óvanalegar og mjög dökkar.

Sigfríður

Engin ummæli: