21. desember 2012

Heimsósómaöskur*

Ljóðskáldið Bragi Páll Sigurðarson sendi frá sér bók nú í haust sem ber nafnið Fullkomin ljóðabók: ljóð, eða eitthvað (Til hamingju!). Bókin er tvískipt og inniheldur annars vegar ljóð skrifuð á árunum 2008 til 2010, hins vegar ljóð frá síðustu tveimur árum. Það er forlagið Útúr sem gefur hina fullkomnu ljóðabók út en þetta er þriðja bókin sem kemur úr þeirri átt. Bragi mætti í Víðsjá fyrir stuttu og hér má heyra skemmtilegt og fróðlegt viðtal við hann.

Það er ekki út í bláinn að Bragi skiptir bók sinni í tvennt; við lesturinn kemur berlega í ljós að það er talsverður munur á fyrri og seinni ljóðunum, bæði hvað varðar andrúmsloft og stíl. Fyrri hlutinn er hrárri, einhvern veginn æstari og úthverfari; það veður á skáldinu. Ljóð Braga minna mig sumpart á bít-skáldin en ekki síður á ungskáld 9. áratugarins - það er pönk í honum og sprengikraftur. Í seinni hlutanum hemur hann kraftinn meira og ljóðin eru nákvæmari, meitlaðri og að mínu mati betur heppnuð einmitt vegna þess, þótt það sé reyndar líka gaman að lesa fyrri hlutann og fara með í rússíbanareiðina:

Svo frussast sorgin útum augntóftirnar,
fossar niður kinnarnar,
beljar yfir brosið.

Spyr _______ ráða.
Hann/Hún svarar í ótrúlega fallega meitluðum
setningum lausnum við öllu.
Hahaha!

Það er heimsósómastemning í bókinni og sjónarhornið er napurt:

Unga afl,
von breytinga,
bylting Íslands
er glerbrot og gubb.
Handahófskennt fálm.
Vandræðalegt kynlíf.
Miðbær Reykjavíkur
drap Che Guevara.

Þrátt fyrir vonleysið er textinn ekki fjarlægur eða firrtur, langt frá því, enda er ljóðmælandinn fyrirferðarmikill og jafnvel aðgangsharður við sjálfan sig. Litlar ljóðsögur af fólki og atburðum þótti mér gaman að lesa, til dæmis söguna af iðnaðarmanninum sem dúkkar upp úr fortíðinni. Þar hefði samt meiri nákvæmni og niðurskurður gert gæfumuninn og það er líklega stærsti gagnrýnipunkturinn í heildina litið; skáldið mætti velja meira og hafna, finna kjarnann og fórna því sem dregur broddinn úr ljóðunum. Þá á ég ekki við meiriháttar stílbreytingu eða að Bragi hafni eigin röddu fyrir einhvers konar mínímalisma - hann vill ryðjast öskrandi fram og eins og hann minntist á í Víðsjárviðtalinu endurspeglar kakófónían í ljóðum hans kakófóníuna í samfélaginu. Við erum einmitt öll stöðugt að öskra og kæfa hvert annað með öskrum. Það er hins vegar oft þannig með anarkískustu listformin að þau útheimta mesta agann og blekkja þannig lesandann/áhorfandann/hlustandann.

Sjálfshæðnin er aldrei langt undan í bókinni né háðsleg meðvitund um formið. Fullkomið ljóð endar á þessum fleygu orðum:

Djöfull varstu að lesa fokking gott ljóð.
Til hamingju.

Rödd skáldsins verður skýrari og sterkari í seinni hluta bókarinnar sem boðar að sjálfsögðu gott; Bragi Páll er mættur til leiks og vonandi kominn til að vera.

*þið afsakið vandræðalegan titil en þegar mér einu sinni hafði dottið þetta í hug gat ég ekki sleppt því að nota þetta langa og asnalega heimasmíðaða orð

19. desember 2012

Heillandi saga úr tímalausum samtíma

Milla Kristínar Ómarsdóttur er fallega draumkennd skáldsaga, krökk af sterkum og ljóslifandi senum og römmum. Við lesturinn hreif hún mig að því er virtist fyrirhafnarlaust með sér inní andrúmsloft sem enn situr í mér, mettað tilfinningum sögupersónanna, upplifunum þeirra og tengslum hver við aðra.

Sögutími er á vordögum ársins tvöþúsundogeitt (sem í það minnsta einhverjir myndu kalla allrafyrsta ár hinnar tuttugustu og fyrstu aldar) en um leið fannst mér sagan merkjanlega óbundin neinu skýrt afmörkuðu tímabili – geta eins hafa gerst hvaða ár sem er yfir allnokkra áratugi.
Söguhetjan Milla er þunglyndisþjökuð Reykjavíkurstúlka, tuttugu og eins árs gömul og býr einsömul í húsi, umluktu garði, sem hún erfði eftir föðurömmu sína. „Grindverkið utan um garðinn er víggirðing, ég birgi mig upp af vopnum, skotmarkið verður ég.“ (7) Í garðinum er líka tjörn og uppúr henni vex tré, gróðursett af föðurnum sem Milla þekkir ekki. Tréð ber allskonar ávexti sem seðja þó ekki nema augun, og það aðeins augu Millu sjálfrar, því það er ósýnilegt öðrum en henni.

Einn daginn þegar Milla er við vinnu sína á Borgarbókasafninu siglir hávaxin, pelsklædd kona inn um dyrnar í leit að starfskrafti til að flokka og skrá allar eigur hennar, og safnið framselur Millu til starfsins: „Er tími minn í eigu Borgarbókasafns Reykjavíkur sem seldi hann tímabundið konu í einbýlishúsi? Hver annar á tíma minn? Íslenska ríkið? Rétt svar: – láttu þig ekki dreyma um frelsi í þessu lífi.“ (104–105)

18. desember 2012

Rithöfundur verður til

Þau sem heita Anna eða Jón eru sjálfsagt mjög vön því að sjá nafnið sitt í bókum. Sjálf hef ég hins vegar ekki átt því að venjast og ég var svolítið hikandi áður en ég hóf lesturinn á Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur þar sem aðalsögupersónan heitir Eyja, hafði áhyggjur af að ég myndi einhvern veginn tengja þetta of mikið við sjálfa mig. Þetta vandist þó furðuhratt og ég losnaði úr klóm sjálfhverfunnar.

Ósjálfrátt segir frá ungri konu á tímamótum og smám saman fáum við að kynnast því sem hefur mótað hana og því hvernig hlutirnir fara hjá henni mörgum árum síðar. Hún er rétt rúmlega tvítug, ráðvillt og óörugg og hefur náð að flækja sig í kolómögulegt hjónaband með manni sem er sífullur og tuttugu árum eldri, eins og hún hafi dottið inn í það fyrir hálfgerða tilviljun. Mamma hennar, amma og frænka róa að því öllum árum að koma henni út úr hjónabandinu en unga konan á í vandræðum með að finna út hvað hún vill sjálf, kannski af því að hún þarf að finna sjálfa sig í stað þess að hafa stöðugar áhyggjur af því hvað hún þurfi að gera fyrir aðra í kringum sig. Hún nýtur þess að skrifa og þráir það heitast að verða rithöfundur en bögglast þar með nóbelsverðlaunahöfundinn afa sinn og uppgjafahöfundinn mömmu sína í farteskinu. Víða í bókinni er að finna pælingar um hvötina til að skrifa, hlutverk rithöfundarins og því um líkt og margar af þeim eru mjög áhugaverðar. Mér finnst þó að enn meira hefði verið hægt að gera úr þeim og vinna meira með þær.

Meira meira blóð, meira blóð, meira fjörefni

Agatha kímin við ritvélina.
Ég er örugglega ekki ein um að hafa lært ensku á því að lesa Agöthu Christie – fyrir mitt enskunám var hún það sem Andrés önd var fyrir dönsku fyrri kynslóðar. Bækurnar eru á hæfilega látlausu máli og nógu spennandi til að það hvetji mann áfram við lesturinn. Þær eru líka svo margar að það tók Agöthusjóðinn langan tíma að renna til þurrðar, enda skrifaði hún meira en sextíu glæpasögur á ævi sinni. Þær duga kannski ekki til mjög fágaðrar tjáningar á enskri tungu en þær lögðu nauðsynlegan grunn; ég man enn eftir því uppljómaða andartaki yfir Agöthubók þegar ég áttaði mig á að orðmyndin „rose“ þýddi ekki bara „rós“ heldur gat hún einnig átt við þátíð sagnarinnar „að standa upp“ – það útskýrði ýmsar dularfullar setningar sem ég hafði brotið heilann um. (Ég giska á að einhver hafi staðið hneykslunarfullur upp í bókaherberginu og mótmælt óskammfeilnum fullyrðingum Poirot um skammbyssueign höfuðsmannsins.)

Að því kom þó að ég hafði ekki meira að sækja til Agöthu. Plottin voru orðin of kunnugleg, persónurnar of einhliða, og ég mundi hvernig allar bækurnar enduðu. Í samræðum við aðra Agöthuaðdáendur hef ég komist að því að fleiri en ég voru á endanum farnir að geta giskað á hinn seka, til dæmis út frá hinum klassíska ástarþríhyrningi sem einhvern veginn þurfti að finna lausn á – yfirleitt með því að láta annan vonbiðilinn vera kaldrifjaðan morðingja eftir allt saman. En ég fann verðugan arftaka Agöthu í þeirri undirgrein breskra glæpasagna sem gengur út á fáa og merkingarþrungna glæpi, heimilislegan stíl og reglulega tedrykkju; það var að sjálfsögðu samlanda hennar P.D. James. Hún er þrjátíu árum yngri en Agatha, fædd árið 1920, og enn að skrifa. Ég las hana af ástríðu um tíma og síðari ár hef ég stundum keypt bækurnar hennar á flugvöllum þegar ég vil vera viss um að geta gleymt mér í einhverjum doðranti meðan á flugi stendur. Við þær aðstæður las ég í sumar bókina The Private Patient frá 2008, og ákvað í kjölfarið að nú væri kominn tími til að kveðja P.D. James og halda út í hinn stóra heim eins og þegar ég kvaddi Agöthu forðum daga. (Ég er greinilega frekar seinþroska.)

16. desember 2012

Stórskemmtileg hversdagsævintýri Randalínar og Munda

Hin ágæta Druslubókadama Þórdís Gísladóttir situr ekki auðum höndum fyrir jólin – hún þýddi Hringinn og Allt er ást og svo sendi hún frá sér barnabókina Randalín og Mundi sem kom út hjá Bjarti fyrir nokkrum vikum. Fyrir þetta allt hefur hún auðvitað sankað að sér tilnefningum eins og lesa má um hér.

Eins og bækurnar eftir einn af mínum uppáhalds barnabókahöfundum – Anne-Cath. Vestly þá væri hægt að flokka Randalín og Munda sem hversdagsævintýri. Báðir höfundar kunna þá list að gera hversdaginn merkingarbæran. Þótt lygilegir og magnaðir atburðir eigi sér stað í bókinni þá eru þeir einhvern veginn þannig að hvert barn ætti í raun að geta lent í svipuðu fjöri – ef þau eru bara jafn frjó og skemmtileg og Randalín og Mundi. Svo er líka vert að minnast á það er alveg möguleiki á að vaxa og læra án þess að missa fót eða foreldri - maður getur líka þroskast við að kynnast skrítnum nágrönnum og taka strætó!

13. desember 2012

Spádómur sem grípur og gleður

Eins og lesendur þessa bloggs vita vonandi þá hafa nokkrar af okkur sem hér skrifum sent frá sér allskonar bækur. Við höfum jafnframt einsett okkur að fjalla um allar fagurbókmenntir sem koma út eftir íslenskar konur 2012–2014 en ákváðum að útvista umfjöllun um Spádóminn eftir Hildi til óháðs aðila: Elínar Bjarkar Jóhannsdóttur, meistaranema í bókmenntafræði.

***

Ég var svolítið spennt að fá Spádóminn eftir Hildi Knútsdóttur í hendurnar en lesendur þessarar síðu þekkja hana eflaust því hún bloggar hér að staðaldri. Hildur hefur áður gefið út skáldsöguna Slátt. Spádómurinn er samkvæmt aldursmerkingu á kápunni fyrir fólk frá 11 ára aldri og fellur í hóp þeirra fantasía sem höfða bæði til barna/unglinga og svo ungs fólks en eiga það til að rata bara til fyrri hópsins. Vissulega er mjög jákvætt að það séu að koma út íslenskar skáldsögur fyrir eldri börn en Spádómurinn á einnig skilið að ná til fantasíualesenda á fullorðinsaldri. Bókin kallast á við ýmsa aðra texta úr fantasíugreininni, við lesturinn komu m.a. upp í kollinn á mér nýlegar bækur einsog Hungurleikarnir og Harry Potter bækurnar. Á einhverjum tímapunkti varð mér hugsað til Hringadrottinssögu og einnig Aliens þó að tengingarnar við þá texta væru ekki jafn augljósar og við þá fyrrnefndu. Önnur textatengsl eru við Bakkabræður og vandræði þeirra við að bera birtu inní húsið en í fantasíuheimi Spádómsins er ljós flutt í skjóðu á milli hnatta.

9. desember 2012

Málari málar sig út í horn

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson gerist í Reykjavík veturinn 1984 og segir af misskilna listmálaranum Davíð Þorvaldssyni. Misskilna segi ég en Davíð er þó einn vinsælasti málari landsins og „selur“ afskaplega vel en myndlistarelíta landsins hefur hins vegar lítið álit á honum. Þegar hann barn að aldri fór með móður sinni á myndlistasýningu hjá Kjarval gaf meistarinn honum málverk og sagði að hann ætti eftir að verða meiri málari en hann sjálfur þegar fram liðu stundir. Þessi spádómur hefur verið Davíð bæði innblástur og byrði og það að hann er vinsæll fremur en virtur nagar hann að innan. Hann grípur því til afdrífaríks ráðs til að sýna listaheimi Íslands í tvo heimana - hann málar nýtt verk – eftir Kjarval - og kemur því alla leið á Kjarvalstaði áður en yfir lýkur.


7. desember 2012

Af sjónarhóli gæludýrs

Þegar ég var lítil hélt ég mikið upp á bók sem heitir Klói segir frá og er eftir Annik Saxegaard. Hún mun hafa komið út 1956 en einhvern veginn lenti hún hjá mér um tuttugu árum síðar. Í þessari bók er sögumaðurinn, eða öllu heldur sögukötturinn, svarti fresskötturinn Klói sem fjallar um líf sitt inni á heimili, samskipti sín við manneskjur og önnur dýr og ýmis ævintýri sem hann lendir í. Ég hef ekki séð þessa bók áratugum saman og veit svo sem ekkert hvernig mér litist á hana núna en alla vega las ég hana aftur og aftur sem barn.

Það að segja sögu frá sjónarhóli dýrs sem býr með mönnum getur gefið skemmtilegan vinkil á hlutina og verið áhugavert bæði fyrir börn og fullorðna. Dýrið er að vissu leyti utan við mannlega samfélagið, jafnvel þótt það tilheyri líka mannlegri fjölskyldu, og getur lýst bjástri mannfólksins sem einhverju framandlegu. Og það er skemmtilegt að spreyta sig á því að setja sig í spor einhvers sem maður gæti aldrei verið, að ímynda sér líf sem maður gæti aldrei lifað, og svo fylgir dýrunum oft ákveðið sakleysi sem gerir það að verkum að maður hlýtur að finna til samkenndar með þeim.

3. desember 2012

Landvinningar síðuhaldara – MYNDIR

Bókmenntaleg heimsyfirráð hafa frá upphafi verið á stefnuskrá þeirra sem skrifa á þessa síðu og umtalsverðum tíma hefur verið eytt við makk í reykfylltum bakherbergjum til að vinna að þeim. Hins vegar  hefur setið á hakanum að tilkynna um nýjustu landvinningana.

Fyrst ber vitaskuld að nefna að 1. desember var Þórdís Gísladóttir stjörnuþýðandi, verðlaunaskáld og barnabókahöfundur hvorki meira né minna en tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á Allt er ást eftir Svíann Kristian Lundberg (Erla fjallar einmitt um þá bók í þessari færslu).

Þórdís hefur alls ekki setið auðum höndum þetta árið, því nú í haust kom út hin stórskemmtilega barnabók hennar Randalín og Mundi sem segir m.a. frá lyginni stelpu, dularfullri músaætu og skrýtinni spákonu. Svo þýddi hún líka Hringinn, sem er afar spennandi bók um unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum (Hildur skrifar um hana hér).


Hildur Knútsdóttir, sú fjölhæfa kona og að auki nýbökuð móðir efnilegrar stúlku, sendir svo frá sér sína aðra skáldsögu, barna- og unglingabókina Spádóminn, sem er æsispennandi fantasía um hina fimmtán ára gömlu Kolfinnu sem neyðist til að grípa til sinna ráða þegar ill öfl reyna að hrifsa til sín völdin.


Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi með meiru, gerði sér svo lítið fyrir og snaraði doðrantinum Emmu eftir Jane Austen yfir á íslensku. Áður hefur bara ein bók eftir Austen komið út í íslenskri þýðingu (Hroki og hleypidómar) og það var löngu orðið tímabært að þýða fleiri.



2. desember 2012

Leiklesið

Við getum ekki öll skrifað Hamlet
Þegar maður dettur í skilgreiningagírinn er auðvelt að láta hin ýmsustu hugtök fara í taugarnar á sér. Ég hef til dæmis lengi verið viðkvæm fyrir orðinu "leikbókmenntir" vegna þess að þegar leikverk eru annars vegar er mergurinn málsins einmitt sá að textanum er ekki ætlað að vera stafur á bók; leiktexti er skrifaður með það í huga að hann skuli flytja í öðru samhengi, t.d. taki leikari sér hann í munn, hann sé sunginn, hrópaður, skrifaður á sviðið eða honum varpað á tjald. Gremjan sem hellist yfir mig þegar ég heyri talað um leikrit sem lyti það sömu lögmálum og skáldsaga eða hvers kyns prósi til lestrar á þó líklega rætur sínar að rekja til þess hvað sá skilningur hefur lengi verið ráðandi í leikhúsumræðu hér á landi; ég hef á tilfinningunni að meirihluti íslenskra leiklistargagnrýnenda síðustu áratugina hafi verið bókmenntafræðimenntaður, sem er dálítið eins og að fá dansmenntaða manneskju til að fjalla um arkítektúr eða ljóðlist. En jæja, nóg af neikvæðni. Það skemmtilega við leiktexta er einmitt það að þeir eru textar sem eru á leiðinni eitthvert annað - blaðsíðan er viðkomustaður á ófyrirsjáanlegri leið. Það sem gefur leiktexta líf er ekki bara leikskáldið heldur allt það sem gerist svo.

En það er samt virkilega gaman að lesa leikrit, eða allavega þegar textinn er góður/áhugaverður/inspírerandi. Skemmtilegast er auðvitað að leiklesa - ég mæli eindregið með því við háskólanema sem kljást við leiktexta að hóa saman nokkrum samnemendum og lesa upphátt, jafnvel með bjór á kantinum - en það er svosem ekki alltaf í boði. Starfs míns vegna les ég ansi mikið af leikritum og finnst það raunar skylda mín sem leikhúsmanneskju; maður gerir varla spennandi hluti ef maður fylgist ekki með því sem aðrir eru að gera og sækir sér innblástur í ýmsar áttir. Ég held það geti samt miklu fleiri haft gaman af leikritalestri en þeir sem vinna við sviðslistir og reyndar held ég að margir sem lesa mikið af annars konar bókum hafi kannski ekki áttað sig á þessum möguleika.



Kjördæmisráð Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi
á góðri stundu. Eða leikararnir í Jerusalem.
Það er misgott úrval af leikritum á bókasöfnum en hér á höfuðborgarsvæðinu stendur Kringlusafn upp úr. Þar er að finna fínasta safn leikrita og hvers kyns bóka um sviðslistir. Þangað tölti ég reglulega til að finna mér eitthvað spennandi að lesa, hvort sem ég er í stuði fyrir gamalt eða nýtt.

Af áhugaverðum verkum sem ég hef lesið síðustu misserin langar mig að nefna nokkur, lesendum til upplýsingar og vonandi yndisauka. Jerusalem eftir Jez Butterworth er þrælfínt og fjölmennt verk sem virkar afar kraftmikið á yfirborðinu en þegar rýnt er í sjálft leikritið sést að það er einnig skrifað af mikilli nákvæmni. Þetta vinsæla verk verður sett upp í Þjóðleikhúsinu í vetur og heitir þá Fyrirheitna landið en Mikael Torfason þýðir. Það verður athyglisvert að sjá hvaða leiðir Guðjón Pedersen fer í uppfærslu sinni; mér þótti verkið svo afskaplega breskt og þjóðfélagslegt inntak þess langt frá okkar reynsluheimi. Spennandi engu að síður - og kannski einmitt vegna þess.

Síðasta vetur las ég leikritið Alice in Bed: A Play in Eight Scenes eftir hina stórmerkilegu Susan Sontag, sem ég vissi ekki að hefði lagt fyrir sig leikritaskrif.