2. desember 2012

Leiklesið

Við getum ekki öll skrifað Hamlet
Þegar maður dettur í skilgreiningagírinn er auðvelt að láta hin ýmsustu hugtök fara í taugarnar á sér. Ég hef til dæmis lengi verið viðkvæm fyrir orðinu "leikbókmenntir" vegna þess að þegar leikverk eru annars vegar er mergurinn málsins einmitt sá að textanum er ekki ætlað að vera stafur á bók; leiktexti er skrifaður með það í huga að hann skuli flytja í öðru samhengi, t.d. taki leikari sér hann í munn, hann sé sunginn, hrópaður, skrifaður á sviðið eða honum varpað á tjald. Gremjan sem hellist yfir mig þegar ég heyri talað um leikrit sem lyti það sömu lögmálum og skáldsaga eða hvers kyns prósi til lestrar á þó líklega rætur sínar að rekja til þess hvað sá skilningur hefur lengi verið ráðandi í leikhúsumræðu hér á landi; ég hef á tilfinningunni að meirihluti íslenskra leiklistargagnrýnenda síðustu áratugina hafi verið bókmenntafræðimenntaður, sem er dálítið eins og að fá dansmenntaða manneskju til að fjalla um arkítektúr eða ljóðlist. En jæja, nóg af neikvæðni. Það skemmtilega við leiktexta er einmitt það að þeir eru textar sem eru á leiðinni eitthvert annað - blaðsíðan er viðkomustaður á ófyrirsjáanlegri leið. Það sem gefur leiktexta líf er ekki bara leikskáldið heldur allt það sem gerist svo.

En það er samt virkilega gaman að lesa leikrit, eða allavega þegar textinn er góður/áhugaverður/inspírerandi. Skemmtilegast er auðvitað að leiklesa - ég mæli eindregið með því við háskólanema sem kljást við leiktexta að hóa saman nokkrum samnemendum og lesa upphátt, jafnvel með bjór á kantinum - en það er svosem ekki alltaf í boði. Starfs míns vegna les ég ansi mikið af leikritum og finnst það raunar skylda mín sem leikhúsmanneskju; maður gerir varla spennandi hluti ef maður fylgist ekki með því sem aðrir eru að gera og sækir sér innblástur í ýmsar áttir. Ég held það geti samt miklu fleiri haft gaman af leikritalestri en þeir sem vinna við sviðslistir og reyndar held ég að margir sem lesa mikið af annars konar bókum hafi kannski ekki áttað sig á þessum möguleika.



Kjördæmisráð Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi
á góðri stundu. Eða leikararnir í Jerusalem.
Það er misgott úrval af leikritum á bókasöfnum en hér á höfuðborgarsvæðinu stendur Kringlusafn upp úr. Þar er að finna fínasta safn leikrita og hvers kyns bóka um sviðslistir. Þangað tölti ég reglulega til að finna mér eitthvað spennandi að lesa, hvort sem ég er í stuði fyrir gamalt eða nýtt.

Af áhugaverðum verkum sem ég hef lesið síðustu misserin langar mig að nefna nokkur, lesendum til upplýsingar og vonandi yndisauka. Jerusalem eftir Jez Butterworth er þrælfínt og fjölmennt verk sem virkar afar kraftmikið á yfirborðinu en þegar rýnt er í sjálft leikritið sést að það er einnig skrifað af mikilli nákvæmni. Þetta vinsæla verk verður sett upp í Þjóðleikhúsinu í vetur og heitir þá Fyrirheitna landið en Mikael Torfason þýðir. Það verður athyglisvert að sjá hvaða leiðir Guðjón Pedersen fer í uppfærslu sinni; mér þótti verkið svo afskaplega breskt og þjóðfélagslegt inntak þess langt frá okkar reynsluheimi. Spennandi engu að síður - og kannski einmitt vegna þess.

Síðasta vetur las ég leikritið Alice in Bed: A Play in Eight Scenes eftir hina stórmerkilegu Susan Sontag, sem ég vissi ekki að hefði lagt fyrir sig leikritaskrif.
Í þessu tuttugu ára gamla verki skrifar Sontag um Alice James, systur höfundarins Henry James, sem lá fyrir dauðanum tvo áratugi ef hægt er að komast svo að orði, en hún náði aldrei heilsu eftir veikindi í æsku og tórði eins og flöktandi logi fram að 43 ára aldri. Sontag býr til sína eigin persónu úr Alice og beitir henni til að skoða hvað það þýðir að vera bráðgáfuð og hæfileikarík kona sem nær aldrei að spila úr gáfum sínum í karllægu samfélagi. Rúmið sem Alice liggur í verður táknrænt fyrir stöðu hennar í þjóðfélaginu yfirleitt; hún sér ekki tilganginn með því að stíga upp úr rúminu enda er henni ætlað að standa á hliðarlínunni hvort eð er. Ég var eiginlega hrifnari af verkinu sem hugleiðingu eða prósa en sem leikverki; að minnsta kosti hafði ég ákveðnar efasemdir um að það myndi virka sérlega vel í uppsetningu. Það þarf að meðtaka mikið og ég fletti margoft til baka til að skilja eitthvað betur. Eftirmáli Sontag þótti mér afar áhugaverður og hann bætti heilmiklu við lesturinn.

Það er hrikalega skemmtilegt að lesa gömlu spænsku verkin frá 17. öld. Ég rifjaði nýlega upp hið dásamlega leikrit La vida es sueño (Lífið er draumur) eftir Calderón sem er til í hinum ýmsu þýðingum á hinum ýmsu málum, t.d. enskri þýðingu Edwards Fitzgerald sem er hægt að fá ókeypis í gegnum Project Gutenberg. Reyndar er allt morandi í skemmtilegum gömlum leikritum sem finna má á netinu (eða í hræódýrum pappírseintökum). Hefndardramað frá jakóbítatímanum stendur til dæmis alltaf fyrir sínu og mitt uppáhald í þeim geira er klárlega The Revenger's Tragedy sem er blóðugt og hrottalegt svo jaðrar við að vera súrrealískt.

John Whiting var ekki bara klár heldur fáránlega töff
Um miðja síðustu öld gerðist ofboðslega margt í breskri leikritun. Andrúmsloft eftirstríðsáranna og ljótleikinn sem fólk hafði orðið vitni að fæddu af sér frábær leikskáld. John Whiting - leikskáld, leikari og gagnrýnandi - var eitt þeirra en nafn hans hefur ekki prentast jafn rækilega inn í menningarminnið og margra annarra. Þeim sem ekki þekkja til hans bendi ég á leikritið Saint's Day, en á því sá ég uppfærslu fyrir tæpum tíu árum í Wales sem er enn þann dag í dag besta nemendaleikhússtykki sem ég hef séð - og ég hef séð þau mörg. Ekki auðveldasta verk í heimi en firnasterkt.

Eitt af mínum uppáhalds leikskáldum hér að lokum: Ed Thomas er velskur leikhúsmaður sem meðal annars skrifaði verkið Gas Station Angel sem fer á topp tíu listann hjá mér. Verkin hans eru þrungin einhverju mögnuðu andrúmslofti, stundum eru þau nánast þrúgandi. Hann dansar á einhverri línu milli hins þekkta raunveruleika og hins yfirnáttúrulega en undir niðri kraumar í rauninni sósjalrealismi. Hérna má lesa skemmtilegt 14 ára gamalt viðtal við Ed Thomas þar sem hann talar um þetta eftirlætisverk mitt og það að vera velskur, sem er ekki alltaf tekið út með sældinni.

Engin ummæli: