29. desember 2020

Brennandi ástarbréf til Söru Stridsberg

Sara Stridsberg
Fyrir ellefu árum síðan – hér má skjóta inn upphrópun að eigin vali um það hve tíminn líður – skrifaði Þórdís Gísladóttir blogg á þessa síðu um skáldsöguna Drömfakulteten eftir sænska rithöfundinn Söru Stridsberg. Hún kom út árið 2006 og fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007. Þórdís tók fram í pistli sínum að bókin hefði því miður ekki verið þýdd á íslensku og það hefur, því miður, ekkert breyst. Önnur skáldsaga eftir Stridsberg kom reyndar út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti fyrir tveimur árum undir hinu þjála nafni Beckomberga-geðsjúkrahúsið og það er óhætt að mæla með henni, hún er virkilega fín. Stridsberg sjálf hefur komið til Íslands og lesið upp oftar en einu sinni; lestur hennar á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2011 var eftirminnilega góður. 

Allt frá því ég heyrði fyrst um skáldsöguna Drömfakulteten hefur hún kallað á mig, enda fjallar hún um Valerie Solanas sem fræg er fyrir karlhatandi manifestó sitt SCUM, sem ég þýddi fyrir mörgum árum á íslensku og kom út undir nafninu SORI. (Það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að endurskoða þessa ungæðislegu þýðingu mína og gera hana aðgengilega á netinu, vonandi kem ég mér að því áður en mjög langt um líður.) Ákall skáldsögunnar var hins vegar eðli málsins samkvæmt á sænsku og ég er svo ókúltíveraður plebbi að hana get ég ekki lesið mér til ánægju. Nú hefur bókin loksins verið þýdd á ensku undir titlinum The Faculty of Dreams, var meðal annars á langa tilnefningalistanum til Man Booker-verðlaunanna í fyrra, og það er komið eintak á Borgarbókasafnið í Grófinni; var mér þá ekkert að landbúnaði að vinda mér í lesturinn. Í stuttu máli sagt elskaði ég bókina svo mikið að ég finn mig knúna til að skrifa systurblogg við færslu Þórdísar frá 2009 og vekja athygli annarra ó-sænskumælandi lesenda á verkinu. 

15. desember 2020

Glæpirnir leynast víða í Skólaráðgátunni!

Ráðgátubækurnar um spæjarana Lalla og Maju hafa verið aufúsugestir á mínu heimili um árabil. Mér telst svo til að Forlagið hafi gefið út einar níu bækur um Spæjarastofuna á íslensku en í Svíþjóð er fjöldi þeirra kominn á þriðja tug – sem eru góðar fréttir – því þá eigum við aðdáendur þeirra nóg inni. Svo mikill aðdáandi bókaflokksins er ég raunar að ég skrifaði fyrir þremur árum pistil á síðuna um Bakarísráðgátuna og fyrir áhugasama má lesa hann hér

Ég komst fyrst í kynni við Lalla og Maju þegar sonur minn var nýorðinn sex ára og farinn að fikra sig áfram á stundum hálli braut lestursins. Hann hefur síðan lesið allar bækurnar í flokknum og þótt hann sé nú orðinn níu ára, og bókaskápurinn hafi stækkað og vaxið samfara því, þykir honum enn gaman að rifja upp kynnin við Lalla og Maju og það þykir mér raunar líka. Þegar hann er sjanghæjaður í að lesa upphátt verða þessar bækur oft fyrir valinu, allri fjölskyldunni til ánægju sem hljóta að teljast afskaplega góð meðmæli með bókaflokknum. 

Bækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju eru léttlestrarbækur, letrið er stórt, það eru myndir á hverri síðu og kaflarnir stuttir. Hins vegar eru þær þessi sjaldséði fugl – spennandi og fyndnar léttlestrarbækur. Raunar hefur grettistaki verið lyft á síðustu árum í þessum efnum þar sem fjöldamargir frábærir barnabókahöfundar hafa skrifað stuttar og skemmtilegar bækur fyrir þennan mikilvæga markhóp sem svo lengi var vanræktur. Gagn og gaman eru sem betur fer ekki það eina sem ungir lesendur geta gripið í. En Spæjarastofan er svo sannarlega mjög framarlega meðal jafningja í þessum flokki bóka. 



Höfundarnir Martin og Helena á góðri stundu


Bækurnar eru verk hinna sænsku Martin Widmarks, sem er höfundur texta, og Helenu Willis sem myndskreytir. Myndirnar eru stórskemmtilegar og raunar er hálf sagan er sögð í gegnum þær. Fremst eru myndir af aðalpersónum hverrar bókar, lesandanum til hæginda og ánægju. Þetta eru ýktar og kómískar myndir sem gefa lesandanum vísbendingar en afvegaleiða hann líka stundum eins og raunar textinn sjálfur. Þegar Lalli og Maja fara á stúfana og reyna að upplýsa málið komast þau nefnilega yfirleitt að því að fæstir hafa verið að segja alveg satt um allt – margir líta grunsamlega út og hljóma sömuleiðis grunsamlega. En það þýðir þó ekki að þeir séu sekir um glæpi. Það geta nefnilega verið margar góðar ástæður fyrir því að fólk hegðar sér undarlega eða segir ekki alla söguna – og fæstir glæpamenn líta út eins og glæpamenn. Þeir líta bara út eins og venjulegt fólk – enda eru þeir auðvitað venjulegt fólk – sem hefur tekið rangar ákvarðanir. Við erum sannarlega ekki á lendum Enyd Blyton hér þar sem glæpamennirnir voru gjarnan útlendingar eða útlendingslegir, með grimmdarlega munnsvipi og ör (Enda búa auðvitað Widmark og Willis að því að skrifa sínar bækur hátt í hundrað árum síðar en Blyton – svo fyllstu sanngirni sé nú gætt.) Fremst í hverri bók fylgir svo líka hið ómissandi kort af Víkurbæ, en það er heimabær Lalla og Maju og vettvangur allra glæpamálanna. Fátt veit ég betra í bókum en landakort – og það skemmtilega við þennan bókaflokk er að með hverri bók stækkar bærinn – eða stærri hluti hans kemur í ljós. Síðustu ár hafa yfirleitt komið út tvær ráðgátubækur á ári og svo er einnig á þessu herrans ári 2020 en þá komu út Gullráðgátan og Skólaráðgátan, báðar í ljómandi fínni þýðingu Írisar Baldursdóttur – og báðar fá bækurnar fullt hús stiga hjá okkur. 

Í Skólaráðgátunni, sem var lesin síðast, fer skyndilega að finnast mikið magn falskra peningaseðla í umferð í bænum og böndin berast að Víkurskóla, sem bæði Lalli og Maja ganga í, en þangað var nýlega keypt einstaklega góð ljósritunarvél. Sem fyrr vinna krakkarnir skipulega, búa til lista yfir grunaða, spyrja sakleysislegra en lymskulegra spurninga og fara í mátulega hættulega rannsóknarleiðangra. Að lokum leggja þau svo gildru sem hinn seki fellur í. Sænskur bakgrunnur bókanna leynir sér ekki frekar en fyrri daginn (skemmst er að minnast Bakarísráðgátunnar þar sem glæpurinn reyndist vera skattsvik) og hér má á fyrstu síðunum finna Gerði kennara barnanna flóandi í tárum vegna þess að hún sér fram á að ellilífeyririnn muni ekki duga til þegar hún hættir að vinna. Þessum sænska boðskap er þó alltaf stillt í hóf og gefur hann iðulega kærkomið tækifæri til að útskýra og ræða aðeins hvernig samfélagið virkar – foreldrar sem ekki hyggjast lesa bækurnar með börnunum þurfa þó ekki að hafa neinar áhyggjur – sagan gengur fullkomlega upp án slíks samtals. Stærsti kostur Spjarastofubókanna er án efa sá hvað þær eru spennandi og fyndnar, bæði myndir og texti - og eins og með allar góðar afþreyingarbókmenntir má lesa þær aftur og aftur!
Vinsælir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir bókunum

14. október 2020

Að verða Simone de Beauvoir

Undir lok síðasta árs las ég í erlendum vefmiðli að ný ævisaga Simone De Beauvoir, væri komin út. Hún heitir Becoming Beauvoir, A Life og er eftir Kate Kirkpatrick, fræðikonu við King's College í London. Fyrir áratugum las ég æviminningar Simone De Beauvoir, og ég hef lesið nokkrar ævisögur hennar og ævisögu samferðamanns hennar í gegnum lífið, Jean Paul Sartre, en verandi haldin mikilli og óslökkvandi ævisagnagræðgi blossaði upp hjá mér áhugi á að lesa þessa nýútkomnu bók. Á meðan ég reyndi í huganum að sannfæra sjálfa mig um að mig vantaði ekki 500 síðna ævisögu, ég væri búin að lesa nóg um Simone de Beauvoir, og að ég hefði nóg annað að lesa, tók ég, líkt og ósjálfrátt, skjáskot á símann af kápumynd bókarinnar, birti svo myndina á samfélagsmiðli og tjáði löngun mína til að lesa þessa bók. Svo sneri ég mér að öðrum verkefnum og reyndi að hætta að hugsa um hvort eitthvað forvitnilegt gæti mögulega komið fram í nýrri ævisögu Simone de Beauvoir.

Næst þegar ég leit á símann minn sá ég að ég hafði fengið skilaboð. Birna Anna, netvinkona mín, sem býr í New York, sagðist lítið muna um að útvega mér fyrrnefnda bók, hún tók ráðin í sínar hendur og nokkrum vikum síðar kom pabbi hennar við á skrifstofunni hjá mér við Túngötuna og afhenti mér ævisögu Simone de Beauvoir.

Hvað gerði Simone að Simone?

Í bókinni Becoming Beauvoir, má segja að sögð sé sagan af því hvað gerði Simone de Beauvoir að þeirri manneskju sem hún varð. Konunni sem fæddist árið 1908 og skrifaði eitt grundvallarrit feminista, Hitt kynið, Le deuxième sexe, múrsteinsþykkt verk sem kom út árið 1949. Útgangspunktur bókarinnar er spurningin Hvað er kona? og niðurstaðan er í stuttu máli: „manneskja fæðist ekki kona, heldur verður kona.“, orð sem miklu bleki og mörgum orðum hefur verið eytt í að ræða og túlka. Beauvoir hafnaði ríkjandi hugmyndum um meðfætt eða náttúrulegt séreðli kvenna og lagði grunn að því sem hefur verið kallað mótunarhyggja. Kate Kirkpatrick las við skrif þessarar nýju ævisögu áður óbirtar dagbækur Simone og sendibréf, sem nýlega hafa verið dregin upp úr skúffum og niður af háaloftum. Hún les þessi verk, beinir skörpum sjónum að heimspekikenningunum og samböndum Simone við fólk, ekki síður annað fólk en Jean Paul Sartre, sem hefur að mörgu leyti yfirskyggt alla hennar lífssögu. Það hefur endalaust verið fjallað um ástarsamband þeirra og samstarf, og í því samhengi, segir Kate Kirkpatrick, hefur Simone de Beauvoir oft verið sýnd sem ekki sérlega frumlegur hugsuður sem byggði á hugmyndum og kenningum Sartres.

Beauvoir og Sartre

Séu nöfnin Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre slegin inn í leitarvélina ómissandi, timarit.is, kemur ýmislegt upp sem styður orð ævisagnahöfundarins. Ég tek nokkur mjög tilviljanakennd dæmi: Í Lífi og list árið 1950 stendur: De Beauvoir er einn af hinum mjög fágætu og afburða þroskuðu lærisveinum Sartres. Í Morgunblaðinu 1956 er fjallað um skáldsögu Simone de Beauvoir Mandarínana, sem hún hlaut Goncourt-verðaunin fyrir. Þar er hún kölluð hofgyðja Existensíalismans og Sartre hlýtur þá að sjálfsögðu að vera æðsti presturinn. Í inngangi greinarinnar segir um De Beauvoir að hún hafi og ég vitna beint: meiri áhuga á að tala en borða eins og svo margar kynsystur hennar. Síðan er hægt að halda áfram. Morgunblaðið 1958 segir Simone tryggasta lærisvein Sartre, og árið 1960 er hún einnig sögð lærisveinn Sartre í heilsíðu viðtali sem birtist undir yfirskriftinni Fötin og ég og undirtitilinn, sem raunar er með stærra letri en yfirskriftin, og liggur yfir miðja síðu er: Of gömul til að klæðast rauðu. Viðtalið er vissulega þematengt, það fjallar um föt, hárgreiðslur og útlit, en það segir margt um hvað fólk hefur í gegnum árin helst viljað ræða við konur. Þegar ég las þetta viðtal varð mér hugsað til endurminningabókar eftir Margaret Atwood þar sem hún segir frá því að þegar hún ferðaðist um og las upp úr bókum sínum á fyrstu árum höfundarferilsins, vildi fólk sem mætti á upplestrana hennar iðulega ræða um hárið á henni, mun síður um bókmenntaverkin.

Heimshornaflakkari sem efaðist um sjálfa sig
Simone de Beauvoir hefur kynslóðum saman haft áhrif á vangaveltur okkar um hvað það hefur í för með sér að vera kona, og hún benti á að mörg tækifæri standa konum mun síður til boða en körlum. Kate Kirkpatrick notar dagbækur Simone, sem fræðimönnum hefur nýlega verið veittur aðgangur að. Þær sýna að dagbókarskrifarinn, jafnvel þó að hún hefði trú á frumlegum kenningum sínum og hefði búið yfir umtalsverðu sjálfstrausti, var sífellt plöguð af sjálfsefa. Hún var kona sem lifði og starfaði af mikilli ástríðu, hvort sem um fræðimennsku, skáldskaparskrif eða sambönd við fólk var að ræða, og Kirkpatrick sýnir einnig fram á að allt líf Simone og samband við Jean Paul Sartre var þrúgað af heterónormatífum hugmyndum. Nýja ævisagan er engin helgisaga og Simone var líka mun svalari manneskja en oft er látið í veðri vaka. Skiptir það máli? Já, mér finnst það. Hún var heimshornaflakkari sem umgekkst Picasso, Josephine Baker, Louis Armstrong og Miles Davis. Charlie Chaplin og Le Corbusier djömmuðu með henni í New York, og án þess að ég láti hvarfla að mér að reka áróður fyrir vímuefnaneyslu þá sagðist Simone de Beauvoir eitt sinn hafa reykt sex jónur í partýi án þess að verða útúrskökk. Það er auðvitað óþarfi að gera lítið úr mikilvægu sambandi sálufélaganna Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre, en það er mjög þrengjandi og niðurnjörfandi að hugsa aldrei um hana án þess að skuggi hans vomi yfir henni. Nýja ævisagan sýnir það glögglega.

Sagan er aldrei fullsögð
Nú er komið að lokum þessa pistils. Hverju var ég aftur að velta fyrir mér í upphafi? Jú, alveg rétt: Spurningin var, vantaði mig nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Vantaði okkur öll nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Svar mitt er afdráttarlaust: JÁ! Reglulega er þörf á að skoða og endurskoða allar sögur og velta við nýjum steinum. Og engin saga verður nokkurn tíma fullsögð. Ég lýk þessu með lokaorðum bókarinnar: Augnablikin í lífi hennar voru ótrúlega margslungin og fjölbreytileg. En ef það er eitthvað eitt sem hægt er að læra af lífi Simone de Beauvoir þá er það eftirfarandi: Engin verður hún sjálf algjörlega upp á eigin spýtur.

10. október 2020

Harmræn saga erfingja mjólkurfernuveldisins

Sumarið 2012 fylltust fjölmiðlar af myndum og fréttum um harmleik í einni af tuttugu ríkustu fjölskyldum heims. Fjölskylda þessi, sem hafði alltaf verið mjög fjölmiðlafælin og haldið einkalífi sínu eins fjarri slúðurpressunni og mögulegt var, komst ekki lengur undan því að lenda á forsíðum blaðanna. Eva Rausing, fædd 1964, hafði fundist látin af völdum ofskammts fíkniefna á heimili sínu í glæsihýsi í Belgravia í London. Eva þessi var eiginkona Hans Kristians Rausings, tæplega fimmtugs erfingja drykkjarfernuveldisins Tetra Pak. En Eva Rausing var ekki nýlátin, Hans Kristian hafði látið lík eiginkonunnar liggja og rotna bak við luktar dyr í tvo mánuði. Bæði hjónin voru háð vímuefnum, þau voru einnig foreldrar fjögurra barna og þekkt par í samkvæmislífi ríka og hressa fólksins í Lundúnaborg.

 

Sársaukafullt líf aðstandenda
Fimm árum eftir að lík Evu fannst gaf Sigrid Rausing, systir Hans Kristians, sem
er árinu eldri en hann, út bók. Þar segir hún frá sænsku Rausing-fjölskyldunni, ævi þeirra systkina, lífi bróður síns fíkilsins og aðdraganda dauða mágkonunnar. Sigrid býr í Englandi. Hún er með doktorspróf í mannfræði og er eigandi bókaforlagsins Granta Books þar sem hún er forleggjari og ritstjóri. Bók Sigrid hefur titilinn Mayhem: A Memoir. Ég veit ekki almennilega hvernig á að íslenska hugtakið mayhem; upplausn, ringulreið, öngþveiti, limlestingar, koma upp í hugann, en samkvæmt orðsifjabókinni er orðið mayhem, skylt íslensku sögninni að meiða. Sigrid Rausing skrifar:
„Að neyðast til þess að verða vitni að ofneyslu fíkniefna er skelfilega erfitt. Sem aðstandanda skipti það mig engu máli hvort þetta væri opinbert eða ekki. Áhyggjurnar voru slíkar að fyrirsagnir blaðanna skiptu engu máli. En ég vildi ekki að fjölmiðlar slægju eign sinni á söguna.“
Mayhem er áhrifarík bók um sársaukafullan raunveruleika aðstandenda fíkla. Af hreinskilni og virðingu miðlar Sigrid Rausing reynslunni af því sem hún hefur upplifað með fjölskyldu sinni. Örvæntingu, vonum, vonbrigðum og angist er lýst af einlægni og skerpu, en textinn er lágmæltur og oft svolítið dáleiðandi. Höfundurinn sagði í viðtali þegar bókin kom út að hún tryði á mikilvægi hins skrifaða orðs, enda eru skriftir og ritstjórn hennar daglega iðja. Sigrid Rausing segir frá barnæskunni með litla bróður sínum, krúttlegum krakka sem var sólginn í kakómalt, en breyttist á skömmum tíma í heróínfíkil um tvítugt. Rausing-systkinin eru þrjú, Lisbet, Sigrid og Hans Kristian. Þau fæddust með skömmu millibili og ólust upp í Lundi í Svíþjóð hjá foreldrum sínum, Märit og bissnissmanninum Hans Rausing, en faðir hans, Ruben Rausing, afi systkinanna, var einn af stofnendum Tetra Pak. Við þekkjum öll þær drykkjarfernur. Sigrid Rausing lærði sagnfræði og mannfræði og varði doktorsritgerð við University College í London. Ritgerðin fjallar um Sovétveldin eftir fall Sovétríkjanna, hún dvaldi í tvö ár á samyrkjubúi í Eistlandi við doktorsrannsóknirnar. Systkinunum lýsir Sigrid þannig að þau hafi verið mjög lík sem börn, ekki síst hún sjálf og Hans Kristian, en þegar þau stálpuðust skildi leiðir, bæði bókmenntalega og pólitískt. „Ég las Jane Austen en hann las Charles Bukowski. Ég hallaði mér til vinstri en hann til hægri“ skrifar hún.

Hans og Eva Rausing

Afdrifaríkt ferðalag

Rétt fyrir tvítugt fór Hans í ferðalag með vinum sínum, þeir tóku Síberíuhraðlestina í gegnum Sovétríkin og ferðuðust síðan til Kína og Indlands. Á strönd í Goa á Indlandi kynntust þeir ítölskum stelpum sem buðu þeim heróín og Hans ákvað að prófa. Eftir að hann sneri heim aftur festist hann fljótlega í neyslu. Sigrid reyndi að hjálpa honum að hætta en með litlum árangri. Hún sjálf sökk niður í örvæntingu og þunglyndi og brotnaði niður andlega. En hún jafnaði sig og hóf doktorsnám sem hún lauk með góðum árangri. Á meðan var bróðir hennar í ruglinu. Hans Kristian kynntist Evu á meðferðarheimili þegar þau voru tuttugu og fjögurra og tuttugu og fimm ára gömul. Þau heilluðust hvort af öðru og í átta ár eftir útskrift úr meðferð neyttu þau engra fíkniefna. Þau gáfu fúlgur fjár til stofnana sem aðstoða fíkla og eignuðust fjögur börn. En á gamlárskvöld árið 2000 skutu þau tappa úr kampavínsflösku, drukku það sem var í flöskunni, sneru sér svo að sterkari efnum og við tóku tólf skelfileg ár. „Ég var þrjátíu og átta ára þegar þetta hófst og fimmtíu þegar því lauk“ skrifar Sigrid Rausing í bókinni Mayhem.

Líkið í rúminu
Þann 9. júlí árið 2012 var Hans Rausing stöðvaður á bíl af lögreglunni sem tók eftir því að eitthvað væri undarlegt við aksturslagið. Í biðfreiðinni fundust fíkniefni og krakkpípa. Þetta varð til þess að lögreglan sótti sér heimild til húsrannsóknar. Þá fannst lík Evu Rausing, það hafði legið í tvo mánuði í rúminu, læknir staðfesti síðar að dánarosök væri ofskammtur og að hún hefði að öllum líkindum látist 7. maí. Líkið var vafið inn í ábreiðu, ofan á henni var sæng og þar ofan á hafði verið staflað fjölmörgum sjónvarpsskjám. Hans Kristian, frávita af neyslu, afneitaði því að konan hans væri liðið lík: „Ég gat ekki horfst í augu við þann raunveruleika að hún væri dáin. Ég reyndi bara að halda áfram að lifa líkt og þetta hefði ekki gerst og ýtti frá mér öllum spurningum um hvar hún væri,“ sagði hann í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hans Rausing horfði á Evu taka skammtinn sem varð henni að bana, en gat síðan ekki viðurkennt að hún væri dáin. Nokkrum árum áður en hún lést höfðu börnin verið dæmd af þeim, Sigrid systir hans fékk forræði yfir þeim.
Sigrid Rausing skrifar: „Ég hugsaði mikið um fyrirbærið fjölskyldu og hvað felst í því að vera fjölskylda. Hvar liggja mörkin varðandi ábyrgð? Hans og Eva elskuðu börnin sín,“ heldur hún áfram, „en verður ekki hugtakið ást klisjukennt þegar talað er um foreldrahlutverkið? Hvaða merkingu hefur það að elska ef fíkniefnin ganga alltaf fyrir?“ Það tekur á að lesa um réttarhöldin þegar Sigrid berst fyrir því að fá forræði yfir börnum bróður síns. Eva gerir það sem hún getur til að spyrna á móti, hún sendir hatursbréf til mágkonu sinnar og segir hana hafa stolið börnunum frá sér, en málið snýst í raun um hvort Sigrid fái börnin, og þau geti þá mögulega haldið einhverju sambandi við foreldrana, eða hvort bresk barnaverndaryfirvöld sendi börnin í fóstur til vandalausra.



Í meðferð með Amy Winehouse

Sem lesandi skynjaði ég vanlíðan höfundarins mjög sterkt. Hún reynir að feta einhvern vandrataðan stíg, gera það sem henni finnst rétt og halda haus við algjörlega ömurlegar aðstæður. Tilvistarlegar spurningar leita á hana. Er hún að gera rétt? Hvað er rétt? Á hún að vera með sektarkennd? Á árunum 2006 og 2007 fór Hans í nokkrar árangurslusar vímuefnameðferðir. Í einni þeirra var söngkonan Amy Winehouse samtímis honum. Á ritunartíma Mayhem horfir Sigrid Rausing á heimildarmynd Asif Kapadia um Amy og verður fyrir áhrifum. Hún finnur til samlíðunar með döprum vinum hennar en mest áhrif hafa sjálfsmyndir af Amy sem hún tók dagana fyrir andlát sitt. Magurt andlit, baugar og kuldalegt og fjarrænt augnaráð minna hana á mágkonuna. Sigrid veltir því fyrir sér hvort Amy og Eva hafi áttað sig á því rétt fyrir andlát sín að þær væru í bráðri lífshættu. Sigrid segist á tímabilum hafa látið sig dreyma um að ræna bróður sínum:
„Mig langaði að fara með hann á afvikinn stað, losa hann við fíkniefnin og neyða hann til að takast á við lífið án efnanna. Ég velti því fyrir mér hver gæti hjálpað mér, ég velti fyrir mér hvaða lækna ég gæti fengið í lið með mér og hvernig ég gæti lokað hann inni. Ég var með sektarkennd yfir þessum fantasíum, og ég skammaðist mín fyrir að ætla að bjarga honum en ekki Evu.“
Þessar vangaveltur finnst mér mjög skiljanlegar, efnin höfðu í raun rænt Hans Kristian, hann var fangi og systir hans þráði að ræna honum til baka úr klóm vímuefnanna. En Sigrid Rausing rændi aldrei bróður sínum. Hún barðist í réttarsal og fékk að taka börnin hans að sér þegar foreldrarnir voru orðnir vanhæfir til þess að hugsa um þau. Hún missti í kjölfarið alveg samband við Hans en átti alltaf í einhverjum samskiptum við Evu. Þegar systkinin hittust og féllust í faðma, tveimur árum eftir lát Evu, árið 2014, höfðu þau ekki sést í sex ár.


Hvað er að vera manneskja?

Í bókinni Mayhem reynir Sigrid Rausing að komast til botns í því sem gerðist, hún leitar svara við sársaukafullum spurningum sem aðstandendur þeirra sem neyta vímuefna í óhófi standa frammi fyrir. Þær spurningar eru margar og við fæstum fást eindregin svör. Mayhem er saga um átankanlegar afleiðingar fíkniefnaneyslu, áhrifin á fjölskyldu fíklanna og vanmátt allra aðstandenda. Eftir lát Evu fékk Hans Rausing tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Hann var einnig dæmdur til meðferðar á fíknideild. Árið 2014 kvæntist hann Juliu Delves Braughton, framkvæmdastjóra hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's, og meðal gesta í brúðkaupinu voru heimsfrægar poppstjörnur og fjölmiðlafólk. Þegar ég sló nafn Hans Rausings inn í leitarvél í dag komst ég að því að haustið 2019 leiddi hann Lucy, 24ra ára dóttur þeirra Evu heitinnar, upp að altarinu þegar hún gifti sig.

Það þarf hugrekki til að skrifa bók eins og Mayhem. Ég held að hvati höfundar hafi að töluverðu leyti verið að svara slúðurpressunni sem einfaldar flókna hluti, veltir sér af slepjulegri tilfinningasemi upp úr þjáningum fólks og svarar fáum spurningum. Sigrid Rausing segir að erfiða reynslu þurfi að setja í orð, ekki vegna þess að það þjóni meðferðarlegum tilgangi fyrir skrifarann heldur vegna þess að þannig megi öðlast skilning á því hvað felst í því að vera manneskja.

30. september 2020

Í myrkraherberginu

Í vor flutti ég nokkra pistla um nýlegar endurminningabækur í þættinum Víðsjá á Rúv. Á næstunni ætla ég að birta pistlana og sá fyrsti fjallar um áhugaverða bók eftir Susan Faludi.

„Sumarið 2004 hóf ég að rannsaka sögu manneskju sem ég þekkti ekki sérstaklega vel. Um var að ræða pabba minn. Verkefnið spratt upp úr beiskjutilfinningu, upp úr reiði dóttur sem átti foreldri sem hafði horfið úr lífi hennar. Ég var á höttunum eftir óbermi, slægum manni, sem hafði, háll sem áll, stungið af frá svo mörgu; ábyrgð, ást, skuldum, iðrun. Ég hóf undirbúning ákæru, safnaði saman sönnunargögnum til að nota við réttarhöld. En einhvers staðar á miðri leið breyttist saksóknarinn í vitni.“

Með þessum orðum hefst inngangur bandaríska feministans og Pulitzer-verðlaunahafans Susan Faludi að bókinni Í myrkraherberginu (In the Darkroom) sem kom út árið 2016, en bókin er afrakstur djúpköfunar þar sem höfundurinn sekkur sér í ævi og sjálfsmyndarleit pabba síns og staldrar víða við á meðan sagan er skrifuð. Skömmu eftir að Susan Faludi fékk tölvupóst og komst að því að pabbi hennar, sem hún hafði ekki haft nein samskipti við í tuttugu og fimm ár, hafði flutt til Ungverjalands og látið leiðrétta kyn sitt í Taílandi á gamals aldri, ákvað hún að slá til og hitta hann aftur. Gat það virkilega staðist að ofbeldisfulli karlakarlinn sem hún ólst upp hjá væri orðin settleg kona í landinu sem hún flúði eitt sinn frá?