23. mars 2010

Dánir og drykkfelldir pabbar

Eins og Guðrún Lára minntist á fyrir löngu þá er allt vaðandi í dauðum pöbbum í sænskum bókmenntum þessi misserin. Af þeim pabbabókum sem ég hef lesið eiga pabbarnir það helst sameiginlegt að vera góðhjartaðir, ölkærir og klaufskir á tilfinningasviðinu, svona eins og margt fólk. Ef flokka á bókina hans Michaels Nyqvists sem pabbabók er annar pabbinn þar þó undantekning, líffræðilegur pabbi Michaels er fíngerður bindindismaður sem borðar ekki rautt kjöt, en hann er náttúrlega exótískur Ítali sem hittir ekki strákinn sinn fyrr en sá síðarnefndi er fullorðinn, sænski pabbi hans er hins vegar náskyldur sænsku pabbabókapöbbunum.*

Bók Åsu Linderborg, Mig äger ingen, las ég í fyrra og er mjög hrifin af henni eins og ritdómarar og lesendur voru almennt. Bókin er fallega skrifuð, höfundurinn er snjall sagnfræðingur og blaðamaður sem vandar sig. Åsa Linderborg (eða söguhetjan, menn eru ekki á einu máli um hvað er skáldað í verkinu) á mömmu sem fór þegar dóttirin var fjögurra ára, hún hafði náð sér í annan mann og skildi stelpuna eftir hjá pabba sínum. Pabbinn, Leif, var stálverksmiðjustarfsmaður, sannur sósíalisti og virkur alkohólisti, sem elskaði dótturina takmarkalaust þó að hann drykki út alla peningana og þau þyrftu að sníkja mat. Þau notuðu engin sængurföt, stelpan var klædd eins og henni sýndist, mataræðið var ekki beint eftir ráðleggingum Lýðheilsustofnunar og það var voða lítið verið að þrífa sig. En pabbinn er góður og skemmtilegur svo langt sem það nær þó að dóttirin sæki sífellt meira til mömmu sinnar þegar hún kemst á unglingsár og sambandið við hann slitni. Þegar hún eignast sjálf barn tekur hún upp þráðinn að einhverju leyti en samt á hún erfitt með að umgangast Leif, hann passar ekki inn í líf hennar. Ég er sem fyrr segir hrifin af bók Åsu Linderborg, hún er skemmtileg, opin í marga enda, býður upp á allskonar vangaveltur um svik og samskipti (henni finnst hún svíkja pabba sinn), sænskt velferðarkerfi, stéttaskiptingu og stöðu kynjanna.

Einhversstaðar las ég að titillinn, Mig äger ingen, sé tilvitnun í ljóð eftir Ekelöf (ekki ætla ég að þykjast þekkja það) en titill bókarinnar sem ég las í gær, Skynda att älska eftir Alex Schulman, er tilvitnun í fallega og sorglega Haustvísu Tove Jansson. Þar er komin önnur pabbabók en um allt öðruvísi fólk en í þeirri fyrrnefndu. Alex Schulman skrifar um pabba af finnlandssænskum aðalsættum sem var einn fyrsti frægi sjónvarpsþáttagerðarmaður Svía. Alex Schulman, sem er þekktur í heimalandinu fyrir að hafa á tímabili skrifað mest lesna blogg landsins, verið blaðamaður á slúðurpressunni og sjónvarpsstjarna, er fæddur 1976 en pabbi hans var að nálgast sextugt þegar hann fæddist. Pabbinn, Allan Schulman, átti sem fyrr segir langt líf að baki og uppkomin börn þegar Alex og bræður hans tveir fæddust, mamman var þrjátíu árum yngri. Bókin lýsir því hvernig er að eiga gamalmenni að föður. Þegar Alex er enn kornungur fer hann á elliheimilið í heimsókn en pabbinn deyr hátt á níræðisaldri þegar sonurinn er tuttugu og sjö. Nokkrum árum síðar (gott ef hann er ekki sjálfur að fara að eignast barn) fer sonurinn í þerapíu og þarf bæði að vinna sig út úr sorginni og því að hafa alltaf séð pabba sinn í gullnum bjarma þrátt fyrir að karlinn hafi greinilega verið óttalegt ólíkindatól sem fékk geðillskuköst og át pillur í baukavís og drakk viskí í kassavís.

Ég held að mörgum Svíum þyki ekki síst gaman að lesa þetta vegna þess að feðgarnir eru/voru frægir og auk þess er mikill nostalgíutónn í öllu saman. Þarna er lýst sænskum sumrum þar sem menn dvelja í gömlum sumarhúsum, svamla í vötnum og veiða geddur og aborra eins og múmínfjölskyldan og vinir þeirra á góðum degi. Þó að bók Schulmans sé svosem þokkaleg þá höfðaði hún ekki eins mikið til mín og bók Michaels Nyqvists, svo ég ekki tali um bók Åsu Linderborg, sem ber af.

Þórdís

* Nú dettur mér skyndilega í hug hvort bækurnar um Einar Áskel séu ekki eins konar forveri eða áhrifavaldur pabbabókategundarinnar – hvernig er pabbi Einars Áskels?

21. mars 2010

Minningar tökubarns

Michael Nyqvist er kannski þekktasti sænski leikarinn um þessar mundir, enda leikur hann aðalkarlhlutverkið í bíómyndunum sem gerðar eru eftir bókum Stiegs Larssons. Nýlega kom út eftir hann endurminningabók sem heitir När barnet lagt sig (Þegar barnið er farið að sofa). Þetta er ekki beinlínis hefðbundin endurminningabók, að minnsta kosti er hún langt frá því að líkjast þeirri tegund íslenskra ævisagna sem minna á löng blaðaviðtöl. Í stuttu máli hnitast bókin í kringum það hvernig hinn ættleiddi Michael leitar foreldra sinna og finnur þá að lokum. Upphaf þess að bókin var skrifuð má rekja til þess að höfundurinn gerði þátt í sumarspjallþáttaröðinni Sommar, í sænska útvarpinu, þar sem hann sagði frá reynslu sinni. Þátturinn fékk mikla athygli og úr varð bók.

Bókin, sem ekki er sérlega þykk, snerti ýmsar taugar hjá mér og saga Nyqvists er áhugaverð. Stíllinn minnir á leikstíl hans sjálfs, tónninn er einlægur og jafnvel dálítið barnslegur (þeir sem hafa séð myndina Grabben i graven bredvid fatta örugglega hvað ég á við). Hann lýsir æsku sinni með foreldrunum sem fengu hann á barnaheimili og skildu þegar hann var krakki. Honum er sagt að hann sé ættleiddur og að pabbi hans sé Ítali og hann fer að sjálfsögðu strax að ímynda sér allt mögulegt um líffræðilegu foreldrana. Ákveðin hvörf verða síðan þegar hann sjálfur eignast dóttur og fer að hugsa um að hún sé fyrsta manneskjan sem hann hittir sem er líffræðilega skyld sér (og auðvitað hugsar hann líka um hvað geti komið foreldri til að láta barnið sitt frá sér) og hann byrjar markvisst að leita foreldranna. Í lok bókar er aðalpersónan orðinn þekktur leikari sem hefur, eftir spennandi spæjaraleik, fundið foreldra sína og eignast fjölskyldu í Flórens.

Í bókinni segir Michael Nyqvist töluvert frá starfi sínu í leikhúsinu, lífið á fjölunum speglar á vissan hátt líf hans sjálfs. Þegar hann hittir mömmu sína í fyrsta skipti minnir það á senu í leikriti. Fundurinn með ítalska pabbanum er hins vegar eins og í ævintýrunum.

När barnet lagt sig er ágætisbók, ekki beint frumleg eða ögrandi, en sagan um hvernig Michael púslar saman sjálfsmynd sinni er spennandi og skemmtileg og kreistir örugglega fram nokkur tár hjá mörgum lesendum. Bókin er til á bókasafni Norræna hússins.

Þórdís

20. mars 2010

GÓUGLEÐIN 2010 – FYRIRLESTUR OG FJÖRUVERÐLAUN



OrangeÁ morgun, sunnudaginn 21. mars, klukkan 11 heldur breski metsöluhöfundurinn Kate Mosse fyrirlestur um tilurð og sögu Orange bókmenntaverðlaunanna sem einungis eru veitt konum.  Mosse er helsta hvatamanneskja þessara virtu bókmenntaverðlauna og er nú heiðursfélagi samtakanna sem veita þau. Fyrirlesturinn fer fram á Hótel Sögu (sem nú heitir Radisson Blu) í fundarsal á 1. hæð.

Um kl. 12.00 verða Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna síðan veitt í fjórða sinn, í þremur flokkum: Fagurbókmennta, fræðirita og barna- og unglingabóka.

Að lokum verður boðið upp á léttar veitingar.

Það er Góuhópurinn (grasrótarhópur kvenna innan Rithöfundasambands Íslands og Hagþenkis) sem stendur að Góugleðinni, fjórða árið í röð og allt áhugafólk um bókmenntir er velkomið.

2. mars 2010

Þrýst á brennandi sár



I

Það er svo sem ekkert sem segir að maður þurfi að geta samsamað sig röddunum í bókmenntaverki persónulega til að kunna að meta það. Ýmislegt annað getur gert lesturinn að mikilli upplifun, tæknileg færni höfundarins, áhrifaríkar hugmyndir, grípandi saga... Samt held ég að það hafi kannski fleiri óviðbjargandi trúleysingjar en ég óttast það á liðnum árum að Ísak Harðarson væri kominn eitthvert sem við gætum ekki fylgt honum, það er að segja á upplýsta slóð trúarinnar – í stað reiðinnar og tilvistarangistarinnar væri komin sátt sem við gætum ekki fundið til með honum, jafnvel þótt færni hans í ljóðrænni tjáningu alls þessa væri enn til staðar.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvernig á þessu stendur – hefur það einfaldlega að gera með fyrri tengsl við ljóð Ísaks og væntingarnar sem fylgja? Er það viðkvæmni fyrir of sterku erindi eða mórölskum boðskap í bókmenntum? Staða trúarinnar sem slíkrar innan bókmennta og samfélags? (Ég harðneita að þetta megi skrifa á einhvers konar króníska póstmóderníska kaldhæðni mína sem lesanda, enga ódýra sálgreiningu hér, takk fyrir, en það mætti benda á bók Andra Snæs Magnasonar um trúna í ljóðum Ísaks Harðarsonar, Maður undir himni.) Þetta skiptir heldur ekki höfuðmáli, enda læknaði Rennur upp um nótt, nýja bókin hans Ísaks, mig af þessum áhyggjum: glíman heldur áfram þótt inn í hana sé kominn þáttur sem er manni meira framandi en aðrir.

II

Ég verð fyrst að koma því á framfæri að mér er uppsigað við kápuhönnun bókarinnar . Svona virðuleg málverk og glanspappír eiga að vera fyrir höfunda sem eru komnir í áskrift að tilnefningum til bókmenntaverðlaunanna og farnir að yrkja hlutfallslega mikið um kvöldgöngur í kirkjugörðum. Ísak er ekki kominn svona langan veg frá öfuga krossinum framan á Ræflatestamentinu.

Rennur upp um nótt er skipt í þrjá hluta, með stöku inngangsljóði fremst. Fyrsti hluti bókarinnar ber yfirskriftina Fyrirsjáanleg blinda, en hann einkenna annars vegar trúarleg ljóð og hins vegar sú gagnrýni eða jafnvel andúð á nútímanum, hræsni hans og efnishyggju, sem var fyrirferðarmikil í fyrstu bókum Ísaks. Kaflinn verður betri eftir því sem líður á hann og í honum er að finna mörg góð ljóð, en sumt er ég ekki alls kostar sátt við. Línan milli beittrar gagnrýni og heimsósómaröfls er fín og sums staðar finnst mér eins og dregið hafi úr slagkraftinum og gagnrýnin sé orðin vélræn: myndin af Halldóri Laxness að dásama Evrópusambandið í Smáralind (32) er óþægilega Moggabloggsleg og ég er skeptísk á línur á borð við „rafljómuð grafhýsi með ofurflatskjám / sem opinbera okkur, álhúðuðum múmíum, gervallan heiminn“ (15) – þetta er ekki illa orðað, en frekar auðvelt. Í gegnum tíðina hefur það ekki síst verið innblásinn leikur Ísaks með tungumálið sem ljær þessum ljóðum bitið, en leikurinn er minni hér en oft áður og endurtekningasamari: „í sjónvatninu“ hefði verið ásættanlegur snúningur í einu ljóði en þegar hann dúkkar upp í þremur er hann orðinn fremur hallærislegur.

Ég var dauðfegin því að sjónvarpið fékk að halda sínu rétta nafni í ljóðinu Eyðimarkaðurinn (25-26), sem mér finnst með þeim bestu í fyrsta hlutanum. Það er ryþmískt og reglulega uppbyggt, erindin þrjú hefjast hvert um sig á tilbrigði við sama stef. Slík bygging finnst mér yfirleitt heppnast mjög vel hjá Ísaki, mér dettur í hug ljóðið Maður án höfundar úr Hvítum ísbirni, en það má líka nefna (reyndar aðeins síðra) ljóð úr þriðja hluta þessarar bókar, Morgnar og eilífð. Hún virðist falla vel að blátt áfram ljóðmáli Ísaks.

Trúarlegu ljóðin í fyrsta kaflanum höfða mismikið til mín, en tvö af þeim síðustu finnst mér sérlega fallega skrifuð þótt myrk séu: Þungt til himins þar sem við, í smæð okkar gagnvart Guði, „sogumst / viðnámslaus í dragsjúgandi kjölfar hans“ (37) og Óhagganlegt, sem er það sem maðurinn heldur að líf hans sé, „hjarta þitt slær jafn taktfast og fótatak póstsins“ (40) segir Ísak hæðnislega – en: „Ó! hagganlegt er fjallið, líf og draumur / og sólin sem skrikar dansinn og hrapar af himni“ (41). Ég hef komist að því að fyrir mig sem sannfærðan trúleysingja sem á erfitt með að kyngja hinni trúarlegu auðmýkt er auðveldast að nálgast þessi ljóð efnislega með augum sagnfræðinemans: þar er tilfinning fyrir svipaðri smæð, og kannski einhver vottur af auðmýkt.

III

Annar hluti bókarinnar kallast Verði myrkur! (Á vit hins undursamlega) og sker sig úr í bókinni, jafnvel í höfundarverki Ísaks. Kaflinn er einnig sá heildstæðasti í bókinni; hann samanstendur af prósaljóðum sem lýsa lífi miðaldra karlmanns í skítugum kjallara. Hann tekur svefnpillur, kreistir hvítvín úr belju, klórar sér í rassinum, meltingarfærin í honum eru farin að bila. Hálft ljóð fjallar um draslið á skrifborðinu hans eftir að hafa hafist á orðunum „Um hvað á ég nú að skrifa?“ (49) Og í næsta ljóði: „Hlýt að viðurkenna að líf mitt er innantómt – annars myndi ég ekki semja ljóð um draslið á skrifborðinu mínu“ (50).

Þetta er riskí bissniss og það fer um mig hrollur við tilhugsunina um hversu illa hefði verið hægt að klúðra þessu – en Ísak púllar þetta, svo ég klári nú allar sletturnar í einni setningu. Ég er stórhrifin af þessum kafla og hef velt honum mikið fyrir mér. Í augnablikinu er hann fyrir mér eitthvað í ætt við tragikómedíu: „Kate Bush á spilaranum, hvað ég vildi að hún væri mamma mín – trúi að augu hennar myndu spegla mig með skilyrðislausri elsku.“ (50) Maður brosir sársaukafullt út í annað af tómri samkennd og skilningi: „Víst eru þetta dapurleg ljóð um ryk og hrörnun, einsemd og upplausn, en enginn skyldi tala illa um dapurleikann því hann er traustur lífsgrundvöllur.“ (56) Það er helst að ég finni að því að Ólafur Ragnar Grímsson sé of fyrirferðarmikill í kaflanum, nefndur tvisvar, mér finnst ljóðin allt of góð til að hann sé að þvælast þar.

Það er alltaf gæðamerki á skáldskap þegar mann þrýtur athugasemdir, vill bara hafa hann orðréttan yfir fyrir sem flesta – ég tilfæri stutt brot úr síðasta ljóði kaflans, ljóðmælandi er kominn til útlanda: „Svo skellur myrkrið á, hlýrra og skilningsríkara en heima, og ég blandast mergðinni og leyfi henni að stýra mér til og frá eins og korktappa í ólgandi sjávariðu.“ (61)

IV

Þriðji kafli bókarinnar er henni samnefndur, Rennur upp um nótt. Í honum er tónninn bjartari en í fyrri köflum og flest ljóðin í honum af trúarlegum rótum, oft kunnuglegum: skaparinn yrkir beinin í fuglsungana, himinninn er sífelldur félagi mannsins. Sum ljóðin eru fullpredikandi og exklúsív fyrir minn smekk, einkum í seinni hluta kaflans. Lífsfetar (89) kemur mér fyrir sjónir sem augljós speki í anda Paulo Coelho og þrátt fyrir sterkt myndmál í Bróðir Júdas (90) hefur það svipuð áhrif á mig og ef „félagi Kastró“ kæmi fyrir í titli; ljóðið þarf að vera mun óvæntara til að kikna ekki undan þessum gildishlaðna bagga.

Tvö ljóð í kaflanum finnst mér sérlega skemmtileg. Tilraunum með uppsetningu, sem hjá Ísaki náðu hámarki sínu í Veggfóðruðum óendanleika, bregður rétt aðeins fyrir í N 1 blús til hins óþekkta. Beint á eftir því kemur fyndinn absúrdhúmor í ljóðinu Skáld-pabbi, um pabbann sem fer út að veiða ljóð á kvöldin og yrkir sig að lokum í fótinn „þótt sá fótur yrði reyndar / söluhæsti fóturinn þau jólin“ (70). Ég hefði verið kát með meira af þessum leik, eða eins og ættmæður mínar myndu orða það, dette glimt i øjet.

En það eru önnur tvö ljóð úr trúarlega sarpinum sem ég vil nefna að lokum. Annars vegar er það ljóðið Kría, ekki síst vegna þess að mér finnst áhrifaríkustu línurnar í því tjá svo vel þá tilfinningu sem ég hef fyrir einhverju undirliggjandi í ljóðagerð Ísaks, og raunar margra annarra frábærra skálda: „Mitt kvein ber í sér / hæga skelfingarglötun heimsins / eins og / þrýst sé á brennandi sár...“ (73) Lesist ítrekað.

Hins vegar er ég mjög hrifin af ljóðinu Náðin, 21 öld síðar sem er of heildstætt til að ég geti klippt úr því bút, þannig að ég stelst til að smeygja því í heilu lagi aftan við þennan greinarkafla (vegna vesens með inndregnar línur sker ljóðið sig aðeins úr textanum):

Isak

V

Ég ætla ekki að draga neinar niðurstöður saman hér, ég vil helst ekki skrifa neitt sem gæti hentað þeim sem vantar hnitmiðuð auglýsingaslagorð. Ég er búin að skrifa þrjár blaðsíður um ljóðabókina hans Ísaks Harðarsonar vegna þess að hún hefur blásið mér þremur blaðsíðum hið minnsta í brjóst. (Þessu fylgir tilgerðarlaus ljósmynd af íslenskum rithöfundi, mjög sjaldgæft fyrirbæri.) Það eina sem ég á eftir er að votta skáldinu þakklæti mitt fyrir að gefa okkur þessa bók, og allar hinar.

Kristín Svava

1. mars 2010

Eldhústöfrar

Ég eeeeeelska uppskriftabækur - og þessi ást mín er í engu samræmi við afrek í eldhúsinu. Löngu áður en ég kunni svo mikið sem sjóða kartöflur gat ég setið og blaðað í blöðum og bókum um matreiðslu. Ég meina, what´s not to love? Ég elska mat – elska bækur og matreiðslubækur sameina þetta tvennt.

Í þrjátíu ár kunni ég ekki að töfra fram neitt nema ræs krispís kökur – mér til varnar verður að segjast að þær voru (og eru) sérstaklega góðar hjá mér. En svo allt í einu einn daginn kom ég heim úr vinnunni og bjó til kjúklingarétt, daginn eftir steikti ég nautasnitzel og á þriðja degi bjó ég til grænmetislasagna – þetta var nú svona misgott en fyrstu skrefin voru tekin og það er fyrir öllu. Síðan hef ég ekki litið um öxl nema rétt til að gera ræs krispís kökuna góðu öðru hverju.IM-1697-Mickey-Mouse-Cookbook-1975

En matreiðslubækur eru auðvitað ekki allar jafn spennandi eða jafn góðar. Ég er voða hrifin af bókum sem sýna með góðum myndum hvernig á að gera ákveðna „einfalda“ hluti sem „allir“ kunna. Cook Simply Everything (ritstj. Jill Norman, DK 2007) er ein slík og Stóra matreiðslubókin hennar Nönnu Rögnvaldar önnur. Þar er t.d. sýnt hvernig karamellan á að líta út í pottinum á mismunandi þroskastigum og þá er öruggt að maður er á réttri leið. Þar má líka sjá hvernig er best að skera niður alls kyns misflókið grænmeti og ávexti og hvernig á að úrbeina kjúkling (hef reyndar ekki prófað þetta síðastnefnda).

Það verða helst að vera myndir í matreiðslubókum...nema hugsanlega Silfurskeiðinni (Bjartur 2009) af því maður veit að það eru þrautreyndir réttir. En það er samt miklu skemmtilegra að hafa myndir. Textinn „kjúklingapottréttur með rótargrænmeti“ kitlar bragðlaukana ekki á sama hátt og stór (helst emaléraður) pottur með girnilegu mallandi soði sem kjúkingaleggir og gulrótar endar stinga höfði (eða legg) tælandi upp úr. Að ég tali nú ekki um eftirrétti – „súkkulaðimús með ís og berjum“ hljómar svo sem ágætlega en myndirnar t.d. í Súkkulaðiást ....(Nói og Síríus 2009) ach maður hreinlega tárast!

Fyrsta matreiðslubókin sem ég eignaðist var hin fagurlega myndskreytta Matreiðslubókin mín og Mikka (Setberg 1980). Sjálf man ég ekki eftir að hafa tekist á við neitt þar nema Karamelluepli Gláms sem mislukkuðust hroðalega, urðu glerhörð og enduðu í ruslinu en það dró ekki úr gleði minni með bókina sem ég á enn og ég kunni myndirnar utan að.

Ég þoli hins vegar illa þegar bækurnar er nískar á upplýsingar og neyða mann til að giska til að fylla upp í eyðurnar: „steikið rækjurnar við hæfilegan hita og kryddið passlega“. Má ég þá heldur biðja um óþarflega nákvæmar upplýsingar: „saltið eftir smekk - þess sem við á“. Þegar maður er að stíga sín fyrstu skref í eldhúsinu er ekkert til sem heitir of miklar upplýsingar – hins vegar eru til of flóknar upplýsingar en það er allt annar handleggur.

Ég trúi því að góð bók (og tilraunamennska í eldhúsinu) geti gert úr hverri manneskju kokk og það þarf ekki einu sinni að vera matreiðslubók – þegar ég var barn sáu amma og mamma yfirleitt um eldamennskuna á okkar heimili en þegar pabbi fór svo að láta til sín taka í eldhúsinu kom innblásturinn úr reyfurum eftir Robert B. Parker þar sem Spencer var ekki bara eitursnjall spæjari heldur líka galdramaður í eldhúsinu. Þaðan kom hinn prýðilegi réttur svínakótilettur með ananas! Hvaða bækur gerðu gæfumuninn í ykkar eldhúsi?

Maríanna Clara