5. júlí 2016

Vinur og bjargvættur almúgans: Viðtal við Lubba klettaskáld

ég gaf þér koss um daginn
engan mömmukoss
en þetta var enginn sleikur samt
hann var meira fallegur
en heitur
alls ekki of langur
og alveg passlega stuttur
ætli hann hafi ekki staðið
yfir í um fjórar sekúndur

og þú fékkst gæsahúð og alles
þannig að hann hlýtur
að hafa verið frekar góður

en samt ertu núna að reyna að
selja hann fyrir slikk á barnaland.is

Á síðasta ári leit dagsins ljós á Egilsstöðum bókaforlagið Bókstafur og þetta nýja forlag tók þátt í ljóðabókaflóðinu 2015 með tveimur bókum. Önnur þeirra er ljóðabókin Skapalón eftir hið gamalreynda austfirska klettaskáld Lubba, öðru nafni Björgvin Gunnarsson. Lubbi er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta og ljóðið sem birtist hér í upphafi, kossinn 3, er úr nýjustu bókinni hans.

Sæll, Lubbi, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Hvaðan kemur þetta nafn annars – Lubbi klettaskáld? 

Sæl Kristín Svava og þakka þér kærlega fyrir að taka þetta viðtal við mig, alltaf gaman þá sjaldan slíkt gerist.

Pabbi minn, Gunnar Finnsson gaf út hina frábæru ljóðabók ljóðmæli árið 1970. Hann notaðist við skáldanafnið gunnarr runolfr og bókina skýrði hana ljóðmæli vegna þess að áður fyrr voru yfirleitt aðeins tvö nöfn á ljóðabókum, Ljóðmæli og Kvæðakver.

1. júlí 2016

Hælið - hægur en óþægilegur andskoti

eins og auka persóna í Emil í Kattholti


Hinn sænski Johan Theorin er óvenjulegur reyfarahöfundur að sumu leyti. Fyrri bækur hans sem þýddar hafa verið á íslensku gerast allar á Ölandi – næst stærstu eyju Svíþjóðar - sumarleyfisstað sem er afskekktur og hálf yfirgefinn nema yfir sumarmánuðina, en þaðan á höfundur sjálfur ættir að rekja. Hér má nefna Hvarfið, Náttbál, Steinblóð og Haugbúa en um einhverjar þeirra fjalla ég hérna. (Þess má til gamans geta að eins og Mons Kallentoft gerir í spennusögum sínum sem ég fjalla m.a. um hér – þá helgar Theorin hverja bók einni árstíð. Ólíkt Kallentoft reynir hann þó ekki að búa til fimmtu árstíðina heldur finnur sér nýtt viðfang eftir fjórleikinn.) Sögusviðið í Hælinu – sem Ugla gaf út nú á dögunum – er smábær á vesturströnd Svíþjóðar.

Í glæpasögum Theorin fylgjumst við ekki með lögreglumönnum eða spæjurum af nokkru tagi heldur eru óbreyttir borgarar alltaf í aðalhlutverki. Í Ölands-bókunum stakk sama fólkið oft upp kollinum – t.d. gamli skipstjórinn Gerlof Davidsson sem var í aðalhlutverki í Hvarfinu en aukapersóna í sumum hinna bókanna - en hér eru allar persónur nýjar, enda sögusviðið nýtt. Annað sem einkennir bækur Theorin er hraðinn – eða öllu heldur skortur á honum. Þeim vindur hægt fram og hugnast sjálfsagt ekki öllum spennuþyrstum lesendum en mér finnst þó höfundurinn kunna þá list að vekja manni óhug betur en margir kollegar hans. Theorin er líka nokkuð lunkinn við að skapa sannfærandi persónur sem ekki allir reyfarahöfundar geta státað af. Í öllu falli hef ég aldrei staðið mig að því að hraðlesa Theorin. Svo er Hælið líka prýðilega þýtt af Elínu Guðmundsdóttur svo ekki þarf heldur að hlaupa yfir textann af því hann sé svo slæmur!!