ég gaf þér koss um daginn
engan mömmukoss
en þetta var enginn sleikur samt
hann var meira fallegur
en heitur
alls ekki of langur
og alveg passlega stuttur
ætli hann hafi ekki staðið
yfir í um fjórar sekúndur
og þú fékkst gæsahúð og alles
þannig að hann hlýtur
að hafa verið frekar góður
en samt ertu núna að reyna að
selja hann fyrir slikk á barnaland.is
Á síðasta ári leit dagsins ljós á Egilsstöðum bókaforlagið Bókstafur og þetta nýja forlag tók þátt í ljóðabókaflóðinu 2015 með tveimur bókum. Önnur þeirra er ljóðabókin Skapalón eftir hið gamalreynda austfirska klettaskáld Lubba, öðru nafni Björgvin Gunnarsson. Lubbi er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta og ljóðið sem birtist hér í upphafi, kossinn 3, er úr nýjustu bókinni hans.
Sæll, Lubbi, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Hvaðan kemur þetta nafn annars – Lubbi klettaskáld?
Sæl Kristín Svava og þakka þér kærlega fyrir að taka þetta viðtal við mig, alltaf gaman þá sjaldan slíkt gerist.
Pabbi minn, Gunnar Finnsson gaf út hina frábæru ljóðabók ljóðmæli árið 1970. Hann notaðist við skáldanafnið gunnarr runolfr og bókina skýrði hana ljóðmæli vegna þess að áður fyrr voru yfirleitt aðeins tvö nöfn á ljóðabókum, Ljóðmæli og Kvæðakver.
Ég vildi gera eins og pabbi og hafa skáldanafn og byrjaði á að nota nafnið Bína Backman en það var karakter sem pabbi bjó til þegar hann gerði barnaþætti á kassettu fyrir okkur systkinin. Ég ákvað svo að breyta nafninu í Lubba klettaskáld og ástæðan er flóknari en margir halda. Ég var síðhærður á þessum tíma og hlustaði mikið á Bubba Morthens. Þaðan er Lubbi komið. Ég ólst upp frá átta ára aldri í litlum bæ á Héraði sem heitir Fellabær en þar eru klettar áberandi í umhverfinu og hélt mikið upp á Kristján fjallaskáld þegar ég var lítill krakki í sveitinni. Þaðan er klettaskáldið komið. Þegar ég var að skrifa í skólablaðið í Fellaskóla á sínum tíma skrifaði ég alltaf „lubbi klettaskáld – vinur og bjargvættur almúgans“ en það var bæði tilvísun í nafnið mitt, Björgvin, og almúgamanninn Bubba. Þetta var sem sagt útpæld og eiginlega ofpæld hugmynd hjá mér.
Og hvaðan kemur þessi skemmtilegi titill á nýjustu bókinni þinni – Skapalón? Sérðu ljóðin fyrir þér eins og skapalón sem skáldið yrkir inn í eða er skáldið sjálft í skapalóninu (hvaða sköp eða skapnað sem er þar um að ræða) eins og segir í titilljóði bókarinnar?
Ég hef alltaf haft mjög gaman af orðaleikjum og það má sjá það, að ég held, á titlunum á öllum mínum ljóðabókum. Árin (2008-2012) sem ljóðin í bókinni eru skrifuð voru mér bæði spennandi og erfið. Ég átti í erfiðleikum í einkalífinu og eiginlega frekar týndur í lífinu almennt og því fannst mér Skapalón passa vel við en ég sá mig sem skáldið sem svamlaði hálf stjórnlaust um í lóni, skapalóni.
Bókin skiptist í fjóra hluta: Gárur, Lundin, Átök, Eitthvað annað, og svo eitt stakt lokaljóð. Þessir hlutar mynda hver um sig misþétta heild – í Gárum er það myndmálið sem sameinar ljóðin, Lundin inniheldur ljóð sem fjalla öll á einhvern hátt um þunga lund, ljóðin í Átökum eru pólitísk og Eitthvað annað – fjallar um eitthvað annað?! Hvernig sástu þessa skiptingu fyrir þér? Eru þetta efni og myndir sem eru þér hugleiknar?
Fyrst ætlaði ég að gefa út ljóðabók sem innihéldi einungis ljóð þar sem orðið gára kæmi fyrir. Ég er fyrir það fyrsta afar heillaður af þessu orði, gárur en svo finnst mér þetta líka fallegt að sjá og táknrænt í raun. Gárur og bergmál er það sama nema í sitthvoru forminu að mínu mati. Ég hætti svo við þessa hugmynd en ákvað að hafa fyrsta kaflann með þeim ljóðum sem ég hafði samið í gárubókina. Eins og ég sagði hér að ofan þá voru árin sem ég samdi ljóðin í bókinni mér bæði spennandi og erfið. Lundin er kafli þar sem þunglyndið fær að njóta sín ef svo má að orði komast en átakakaflinn er sprottinn upp úr öldurótinu á Íslandi strax eftir hrunið. Ég tók fullan þátt í mótmælunum, mætti á sellufundi hjá anarkistum, reyndi að stöðva ríkisstjórnarfund í ráðherrabústaðnum og kastaði vatnsblöðrum í Alþingishúsið. Ég var alveg all in. Ljóðin í kaflanum eru sem sagt fædd í þessum æsilegu aðstæðum. Eitthvað annað fannst mér gott nafn á þriðja kaflanum því það lýsir svolítið mínum kæruleysislega karakter. Ég þurfti að finna nafn og var að reyna að finna eitthvað djúpt og útpælt en yppti svo bara öxlum og skellti þessum titli á, enda eru ljóðin í þessum kafla svolítið bland í poka.
Þú notar stundum rím, stundum orðaleiki, en annars hefurðu frekar óhátíðlegan og oft talmálslegan stíl. Er það eitthvað sem þú gerir meðvitað?
Allt sem ég skrifa og set upp er meðvitað. Stundum of meðvitað hugsa ég. Ég get verið heillengi að raða línunum rétt á pappírinn og spái mjög mikið í framsetningunni. Mér finnst nefnilega ljóð þurfa að vera fallega uppsett, falleg orð týnast ef þau eru ekki fallega framsett að mínu viti.
Ég kann að semja hefðbundið, með stuðlum og höfuðstöfum en vil frekar gera það sjaldan og þá vel. Þegar ég gaf út fyrstu bókina vildi ég gera grín að ljóðum og um leið semja eitthvað sem almenningur skildi en ekki bara bókmenntafræðingar og gagnrýnendur. Þetta á við um fyrstu þrjár bækurnar, samið sem grín og glens og smá fuck you putti á „ljóðaliðið“ en svo þroskast maður því miður og nú er ég farinn að reyna að semja af meiri alvöru þó ég reyni að halda í orðaleikina og kómíkina inn á milli.
Skapalón er þín fimmta ljóðabók, en þú hafðir reyndar gefið hana út áður árið 2012. Er þessi útgáfa í óbreyttri mynd? Af hverju tókstu þá ákvörðun að endurútgefa hana núna þremur árum síðar hjá þessu nýja forlagi á Egilsstöðum, Bókstaf?
Ég gaf Skapalón fyrst út rétt fyrir áramótin 2012/2013 í mjög fáum eintökum, sennilega um 40. Ég fór eins og oft áður, austur í Fellabæ yfir jól og áramót og fékk prentsmiðjuna á Egilsstöðum, Héraðsprent, til að prenta út þessi fáu eintök. Pappírinn var lélegur og kápan einnig enda Héraðsprent ekki mikið í að prenta út bækur. Ég seldi svo bókina í Nettó á Egilsstöðum en þær seldust upp á tveimur dögum. Ég var þá kominn með pening fyrir bensíni svo við kæmumst til Reykjavíkur aftur eftir áramót. Planið var alltaf að gefa bókina betur út en útlitið og pappírinn fór alltaf mjög í taugarnar á mér. Ég var svo heppinn að nýtt bókaforlag hóf starfsemi á Héraðinu og var það hliðhollt honum Lubba og gaf út Skapalón í endurbættri útgáfu. Engin sérstök breyting er á innihaldinu en útlitið er stórbætt að mínu mati.
Þú hefur verið að gefa út lengi; mér reiknast til að þú hafir verið átján ára þegar fyrsta bókin þín, Kvæða hver?, kom út árið 1998. Hvernig kom það til að þú fórst að yrkja ljóð og gefa út bækur? Finnst þér umhverfið í ljóðaheiminum hafa breyst á einhvern hátt á þessum árum frá því þú gafst út þína fyrstu bók?
Eins og áður hefur komið fram hér, gaf pabbi minn út bókina ljóðmæli árið 1970. Í henni var hann að hæðast að ljóðlistinni með sínum minimalísku og stundum súrealísku ljóðum. Ég vildi einfaldlega endurtaka leikinn þó ég vissi að ég gæti aldrei fyllilega gert eins vel og pabbi.
Ég byrjaði að semja ljóð 11 ára gamall þegar ég tók þátt í ljóðasamkeppni. Þegar ég var 15 ára fór ég að semja ljóð og birta í skólablaði grunnskólans míns undir nafninu Bína Backman. Ég var svo orðinn 18 ára þegar bróðir minn, Finnur Torfi, komst að því að ég hefði verið að stelast í tölvuna hans til að skrifa inn ljóð sem ég hafði í kollinum. Í stað þess að skamma mig skipaði hann mér að gefa þetta út í bók. Við bræðurnir fórum svo í heimsókn til pabba sem þá var skólastjóri í Grunnskóla Borgarfjarðar eystri og við þrír unnum að útgáfu bókarinnar kvæða hver? í skólanum hans pabba. Við gerðum 100 eintök og seldust þær í raun eins og heitar lummur. Ég á að ég held aðeins 1 eða 2 eintök eftir af þeirri bók. Hún er auðvitað barn síns tíma en mér þykir alltaf vænt um hana. Bækur mínar hafa flestar verið kenndar í grunnskólunum á Héraðinu og þó nokkrar ritgerðir verið gerðar um þær sem mér þykir ótrúlega vænt um.
Varðandi umhverfið í ljóðaheiminum þá held ég að ég verði að segja að það hafi breyst svo um munar og það til batnaðar. Ljóðakvöldin voru nokkuð algeng hér áður fyrr en svo varð agaleg lægð yfir þeim í langan tíma en er nú aftur á uppleið.
Ljóðabækur eru orðnar miklu meira áberandi í bókabúðum en áður að mér finnst en ástæðan er sennilega sú að sjálfstæðar ljóðabókaútgáfur hafa komið á sjónarsviðið annað slagið undanfarið en svo hafa einnig hinar hefðbundnu útgáfur tekið við sér. Áður hafði maður þá tilfinningu að aðeins lokaður hópur fólks væri að gefa út ljóðabækur en nú er úrvalið miklu meira. Sem er frábært.
Druslubækur og doðrantar þakka Lubba kærlega fyrir viðtalið. Hér birtist að lokum annað ljóð úr Skapalóni: Brengl.
það er kráka uppi á háalofti
sem hættir sér ekki út
það er snigill á húsveggnum
sem hlær án ástæðu
í kjallaranum er trúður
með bólgið nef og brotna sjálfsmynd
en áfram helst brosið á smettinu
á þakinu er köttur
sem er hættur að lenda á löppunum
í eldhúsinu er matrjoschka
með tóma skel
en annars er allt eins
og það á að vera
Engin ummæli:
Skrifa ummæli