16. október 2016

Morð er morð er morð

Fyrir sex árum síðan (ó, hvað tíminn flýgur) las ég og bloggaði hér um ævisögu sem hefur orðið mér óvenju eftirminnileg: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Fyrir manneskju sem er veik fyrir bókmenntasögu, hinsegin sögu, skráningarsögu, klámsögu, húðflúrum og trega er Samuel Steward ómótstæðileg týpa; þessi maður sem var víðlesinn bókmenntaprófessor í Ohio og Chicago, gerðist svo húðflúrlistamaður á vesturströndinni, stundaði mikið kynlíf með mörgum mönnum og hélt því öllu til haga í sérstakri spjaldskrá sem kynlífsrannsakandinn Kinsey tók fagnandi (gott ef hann fékk ekki að vera fluga á vegg í einhverjum orgíum líka), og fór svo á endanum að skrifa hommaklám undir hinu lærða grískættaða höfundarnafni Phil Andros (philia = ást, andro = karlmaður).

Ég náði mér í nokkrar bækur eftir Phil Andros í Samtökunum ´78 í fyrra, þegar verið var að selja bækur af bókasafni félagsins sem var leyst upp árið 2014. Stór hluti safnsins er hins vegar kominn á Borgarbókasafn Reykjavíkur og uppi á 2. hæð á aðalsafninu í Grófinni er sérmerkt hilla með fjölbreyttu úrvali hinsegin bóka. Fyrir tveimur vikum sá ég þar aðra bók eftir sama höfund – reyndar undir sínu rétta nafni, Samuel Steward – sem erfitt var að taka ekki eftir, svo gul er kápan og titillinn æpandi: MURDER IS MURDER IS MURDER. Hvaða bók var þetta? Jú, að sjálfsögðu var það leynilögreglusaga með Gertrude Stein í aðalhlutverki.

Samuel Steward þekkti bandaríska framúrstefnuhöfundinn Gertrude „rós-er-rós-er-rós“ Stein og konu hennar, Alice B. Toklas, og heimsótti þær oftar en einu sinni til Frakklands þar sem þær bjuggu. Gertrude lést árið 1946 og Alice árið 1967, en Steward var alltaf mjög upptekinn af þessum konum og vináttu sinni við þær og ekki síst á seinni árum. Árið 1977 gaf hann út bókina Dear Sammy, sem inniheldur endurminningar hans um þær og bréf frá þeim til hans, og á 9. áratugnum datt það svo í útgefanda nokkurn að fá þennan mikla áhugamann um Gertrude og Alice til þess að skrifa glæpasögu þar sem þær væru aðalspæjararnir.

Samuel Steward og Alice B. Toklas
Þessi hugmynd var ekki alveg út í bláinn – Gertrude og Alice fyrir sitt leyti voru áhugamanneskjur um glæpasögur og Gertrude skrifaði eina slíka, Blood on the Dining Room Floor, árið 1933. Bókin gerist í austanverðu Frakklandi, í sveitinni þar sem Gertrude og Alice áttu sumarhús, og þar gerist bók Samuel Steward um þær einnig, nokkrum árum síðar. Í Murder is Murder is Murder hafa þær í vinnu hjá sér ungan, heyrnarlausan garðyrkjumann, Pierre, og það er faðir hans sem einn daginn hverfur sporlaust eftir að hafa átt í illdeilum við nágranna sinn, monsieur Debat, sem hann taldi að hefði nauðgað syni sínum. Gertrude og Alice flækjast í málið og taka loks til við að rannsaka það sjálfar með hjálp vinar síns Johnny Andrews, sem kemur í heimsókn frá Bandaríkjunum og minnir óneitanlega á Steward sjálfan. Gertrude, Alice og Johnny standa sig að sjálfsögðu feikivel við rannsókn málsins og leysa það að lokum, í nokkurri samvinnu við frönsku þorpslögregluna.

Það verður að segjast að Murder is Murder is Murder er ekki mest spennandi leynilögreglusaga sem ég hef lesið. Hún er líka bara dálítið skrítin, eins og við mátti kannski búast. Sjálfur virðist Samuel Steward hafa haft mun meiri áhuga á Gertrude Stein og Alice B. Toklas en á leynilögreglusögum og það fer í rauninni mun meira púður í það í bókinni að spinna samræður milli þeirra, lýsa hversdagslífi þeirra og samskiptum, en að setja á svið áhugaverða eða óvænta glæpafléttu. Það er jafnframt greinilegt að Steward hafði ekki bara áhuga heldur einnig umfangsmikla þekkingu á þessum konum, bókin er full af vísunum í líf þeirra og verk og samræðurnar byggðar á raunverulegu orðfæri þeirra og samskiptamynstri. Ég er nýbúin að lesa The Autobiography of Alice B. Toklas eftir Gertrude Stein og stíllinn því mjög kunnuglegur; það kemur enda fram í fyrrnefndri ævisögu Samuels Steward að hann hafi hreinlega átt það til að skrifa upp heilu samræðurnar milli Gertrude og Alice þegar hann dvaldi hjá þeim í Frakklandi. Áhugi hans á þeim jaðraði semsé við að vera krípí og þótt sviðsetningin í Murder is Murder is Murder sé stundum skemmtileg er hún líka stundum yfirþyrmandi og þvinguð.

Alice og Gertrude í sveitinni
Samuel Steward hafði þó ekki bara mikinn áhuga á Gertrude og Alice heldur líka ungum og myndarlegum karlmönnum og sums staðar kemur hommaklámhöfundurinn Phil Andros óvænt inn í frásögnina, til dæmis þegar Pierre er fyrst kynntur til sögunnar á blaðsíðu fjögur:

„What a handsome young man! A yellow-haired stalwart, bare to the waist. His skin glistened with sweat, the muscles arranged in a landscape of perfection – all hillocks and valleys, brown and beautiful, each moving, rising and falling, as he worked the hoe – and then, stopping for a few last weeds, his magnificent thighs revealed under the pale blue thin fabric of his work pants, his biceps swelling, the muscles in his forearms answering the movement of his hands.“

Einhverra hluta vegna tekur Johnny Andrews mun
meira pláss en Gertrude og Alice á þessari kápu

Hér er það Alice sem stendur við eldhúsgluggann og fylgist með; það er frekar fyndið í þessum fyrstu köflum um rólyndislegt heimilislíf tveggja roskinna lesbía hvað þrútnum vöðvum og bronslitri húð garðyrkjumannsins unga er áfergjulega lýst. Þetta sjónarhorn verður allt eðlilegra eftir að Johnny Andrews mætir á svæðið, en hann tekur að sjálfsögðu umsvifalaust til við að vinna kynferðislega sigra í frönsku sveitinni.

Murder is Murder is Murder kom út árið 1985. Samuel Steward skrifaði eina leynilögreglubók í viðbót um Gertrude Stein og Alice B. Toklas, The Caravaggio Shawl sem kom út árið 1989, en hann var sjálfur farinn að eldast og lést árið 1993. Ég hugsa að þegar kemur að sigrum þeirra Gertrude og Alice á spæjarasviðinu láti ég Murder is Murder is Murder þó nægja. Það má kannski segja að það óvæntasta við þessa glæpasögu hafi verið sú ánægjulega uppgötvun að hún sé til, í allri sinni sérkennilegu gulu dýrð.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Kom út í íslenskri þýðingu í síðustu viku. Morð er morð er morð er komin í bókabúðir.