21. október 2016

Ljóðskáldið er ljón sem öskrar á heiminn

Elgtanaður handrukkari kemur úr fangelsi og ræður sig í vinnu á elliheimili. Þar kynnist hann gömlum hrotta á lokametrunum og saman halda þeir til Hafnar í Hornafirði til að gera út um gamla skuld. Á leiðinni borða þeir pylsur, taka tuddalega lyftingaæfingu á Kirkjubæjarklaustri, sofa hjá norskum túristamæðguskvísum, eru lamdir af færeyskri áhöfn, hjálpa bæjarstýru sem er með bakið upp við vegg og að endingu deyr sá yngri – sá eldri urðar hann í Skógafossi. Að því loknu brotnar hann niður, í frumeindir.

Eftir tæplega fjögurra mánaða síðsumars- og snemmhaustfrí snýr ljóðaviðtalaröð Druslubóka og doðranta aftur með viðtali við Halldór Laxness Halldórsson, einnig þekktan sem Dóra DNA, en hann gaf út sína fyrstu ljóðabók í fyrra: Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir. (Undirtitill: Lítil atvik – mikil eftirmál.) Bókin kom fyrst út hjá Tunglinu en síðan í viðbættri útgáfu hjá Bjarti. Ein hugmyndanna í bókinni er sú sem birtist hér í upphafi: Hugmynd að skáldsögu #2.

Sæll og blessaður, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal um Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir! Hvaðan kemur þessi titill? Maður hugsar yfirleitt ekki um ljóð og hundrað milljónir í sömu setningunni. 

Ég er ástfanginn af hugmyndum. Því þær eru alltaf sprottnar úr engu, en geta svo breytt heiminum - eða eitthvað. Ég er hugmyndaríkur gæi og get baunað þeim út úr mér, en það geta svo sem allir kannski. Þess vegna fannst mér svo gott að staðsetja mig einhvernveginn fyrir ofan alla aðra. Mínar hugdettur eru virði milljóna – ekki þínar.

Þetta er líka tónninn í bókinni. Húsið mitt er betra en þitt. Ég elska bílinn minn meira en þú elskar bílinn þinn. Harmar mínir eru miklu dýpri og verri en þínir. Ég er sérstakari en þú, þó ég sé hræddur og einmana og ráðvilltur.

Þetta er einhvernveginn dýnamíkin í bókinni og kannski mitt helsta hugðarefni. Að berskjalda sig um leið og maður ber sér á brjóst.

Kannski er ég að ljúga. Ég man það ekki. En það er eins og mig minni að ég og Steinþór Hróar vinur minn höfum farið í Ikea að kaupa tússtöflu. Við vorum komnir með litla kytru, skrifstofu þar sem allskonar snilld átti að verða til. Taflan kostaði ekki rassgat og mig minnir að í bílnum á leiðinni úr Ikea höfum við rætt um hvað taflan væri í raun og veru smávægilegur kostnaður miðað við allar milljónahugmyndirnar sem myndu enda á töflunni.

Það fóru vissulega margar hugmyndir upp – eiginlega stöðugt. Og ég man eftir einu skipti þar sem annar hvor okkar hafði strokað út það sem stóð á töflunni, til að fylla hana af einhverju öðru, og þá sagði hinn „hvað ertu búinn að gera maður, þú ert búinn að stroka út hundruð milljóna.“

Þetta hljómar allt eins og grín og er það. En á móti kemur að þetta er líka trúin á sjálfan sig. Þú verður að meta eigin hugmyndir og geyma þær eins og gullin þín.

Þetta er þín fyrsta ljóðabók en þú ert þekktur sem uppistandari og rappari og svo útskrifaðistu úr fræðum og framkvæmd í Listaháskólanum og hefur unnið bæði í leikhúsi og sjónvarpi. Hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? Hvernig kom það til að þú gafst ljóðabókina út, fyrst hjá Tunglinu og svo hjá Bjarti? 

Ég hef af og til í gegnum tíðina skrifað ljóð. Flest mjög lummó. En rapptextarnir voru líka á einhvern hátt ljóð. Sérstaklega undir það síðasta á rappferli mínum. Það eru oft alveg eitraðir textar – soldið í ætt við bókina.

En það breytir því ekki að öll bókin er skrifuð í einni beit – fyrir utan eitt ljóð, Á meðan ég man. Ég var að vinna út í Vínarborg ásamt stórum hópi fólks í verki eftir Ragnar Kjartansson. Einn af forkólfum Tunglsins var þarna úti í sömu erindagjörðum. Á hverjum degi var ljóð dagsins lesið. Sum voru eftir hann, önnur eftir Baudillard, Tomas Tranströmer og fl. Þetta var mjög gaman.

Mér tókst einhvernveginn að staðsetja mig gegn þessum ljóðastundum. Gerði grín að lesaranum og kallaði hann Póesíudrullusokk. Það var bara í gríni – mér fannst hann svo heitur þegar hann las að ég eiginlega öfundaði hann. Að endingu mætti ég með eigið ljóð, Á meðan ég man, sem var texti sem ég notaði í lokaverkefninu mínu frá LHÍ, og las það. Ragnar Helgi hvatti mig til að gera fleiri ljóð í kjölfarið og sagði mér að hann hefði alltaf vitað að ég væri sjálfur póesíudrullusokkur.

En það leið samt alveg hálft ár þar til ég ákvað, eiginlega í blindni að gefa út ljóðabók. Ég talaði við Ragnar Helga – hann gaf mér deadline. Og flest þessara ljóða eru ort inn í new mail-gluggann á Gmail. Send beint á Ragnar sem kommentaði. Svo breytti ég aðeins og voila.

Svo allt í einu var bókin tilbúin. Flest ljóðin eru eiginlega bara einhver orðabuna, sem fer að meika sens einshverstaðar í ljóðinu. Síðasta ljóðið orti ég síðast í ferlinu. Ég hafði um að óljósa hugmynd hvernig það ætti að vera. Sendi það beint á Ragnar, það voru engar athugasemdir og okkur fannst viðeigandi að hafa það síðast. Svo kom Dagur Hjartarson inn í ferlið og allt voða gaman.

Þegar bókin kom út var gaman, ég las úr henni og flest eintökin af 69 seldust upp saman kvöld. En þar sem þetta var tunglkvöld var að farga því sem ekki seldist – svo við brenndum að mig minnir fjórar bækur og gengum í halarófu niður í kirkjugarð og stráðum öskunni á leiði Sigurðar Breiðfjörð.

Svo fannst mér einhver eftirspurn vera eftir bókinni og ég var bara ekki nógu kúl til þess að hundsa hana. Fannst bókin eiga meira inni og eitthvað röfl. Ragnar Helgi hvatti mig svo til fara með bókina í annað forlag. Forlagið sagði nei – en Bjartur já.

Það liggur svo beint við í framhaldinu að spyrja þig hvernig ljóðlistin sker sig úr hinum skapandi greinunum sem þú hefur verið að vinna við, bæði það að skrifa ljóð og svo að vera og koma fram sem ljóðskáld – kannski sérstaklega í samanburði við rappið? Sem er auðvitað skylt ljóðagerð en samt ólíkt, bæði efni og umgjörð; yfirleitt er ljóðaslamm nefnt sem einhvers konar stefnumót þessa tveggja en það hefur aldrei náð mjög miklu flugi á Íslandi og ljóðin þín eru ekkert sérstaklega slammljóðaleg. 

Ég dýrka ljóðið mest af öllum sem ég geri. Vildi óska þess að ég ætti nógu mikla peninga til að vera bara ljóðskáld. En kannski er það því að ljóðið elskar mann ekki til baka. Það er nákvæmlega ekkert að hafa upp úr ljóðum.

En ég ætti ekki að kvarta. Ég hef nóg annað að gera. Bæði í því að skrifa, koma fram, vinna í leikhúsi og svo á ég alltaf Mið-Ísland, sem eru mínir prívat Kárahnjúkar.

Sérðu sjálfan þig sem hluta af einhverri ljóðahefð, erlendri eða íslenskri? Áttu þér einhverjar sérstakar fyrirmyndir í ljóðagerð? 

Nei, því miður. Ég fylgist ekkert með. Les það nýtt sem ég kemst í hér á landi – en ég veit ekkert hvað er að gerast úti í heimi.

En bókin kom út í Þýskalandi núna í haust og um hana hafa birst tveir dómar. Báðir gagnrýnendur hafa nefnt það að ljóðin gerist á mörkum öfgaraunsæis og súrrealisma. Sem er geggjað og væntanlega er alveg hellingur af öðrum skáldum að vappa um á sömu slóðum.

Það má skipta ljóðunum í bókinni í tvo flokka: stutt ljóð sem eru hugmyndir að hinu og þessu - gjörningum, sjónvarpsþáttaröðum, skáldsögum – og svo löng ljóð sem öll eru mælt fram af karlmanni í fyrstu persónu og ávarpa oft einhvern annan. Þessar raddir í löngu ljóðunum eru mjög eftirminnilegar; ljóðmælendurnir tala úr og um ólíkar aðstæður en það mætti lýsa stemmningunni í öllum þessum ljóðum sem karlmennskustælum með ljóðrænu ívafi. Hvaðan koma þessar raddir - eða rödd? Ertu að sækja í leikhúsið í þessum einræðum? 

Stuttu ljóðin komu eftir á. Þau voru hluti af svona áferð og lúkki bókarinnar. Löngu ljóðin eru hin eiginlega bók – hitt bara skraut.

Um þessar raddir get ég ekkert sagt snjallt aða gáfumannalegt. Þetta er bara ég, ekki það að þessir textar séu æviminningar. Langt í frá. Þetta eru bara hróp útfrá tilfinningum sem mér finnst ég geta beintengst þegar ég er að skrifa. Þessi feiti strákurinn með krefta hnefann, hlægið að mér núna en bíðið bara helvítin ykkar-afstaða.

Að vera sár og stoltur – að líða illa en horfa fram á veginn. Að vita að þinn dagur kemur. Þetta er óður minn til þeirra tilfinninga sem bærast í mér daglega. Allar tilfinningar eru stórar, ég hef ekki tíma fyrir annað. Þetta á að vera uppskrúfað, á að vera stórt. Ég hef mjög rómantískar hugmyndir um ljóðskáldið. Ljóðskáldið er ljón sem öskrar á heiminn. Ég satt best að segja hef ógeðslega litla þolinmæði fyrir einhverjum músaljóðum. Þetta verður að vera synfónía tilfinninga og orða. Þannig að lesandinn upplifi sig eins og hann sé í miðjum stormi.

Og kannski er þetta á einhvern hátt leikhúslegt. En það er líka uppáhaldið mitt í leikhúsinu. Þegar sviðslistamaðurinn stendur bara berskjaldaður fyrir áhorfendum. Það er svo geggjað móment. Þetta svikna, en ósvikna móment.

Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir er einhver testesterónþrungnasta ljóðabók sem ég hef lesið (sbr. kápumyndirnar og höfundarmyndina). Ljóðabækur eru það venjulega ekki; bókmenntaheimurinn er einhvern veginn karllægur á annan og passív-agressívari hátt, og einmitt þess vegna fílaði ég þessa hráu agressívu hómósósjal stemmningu þar sem allur matur er grillaður og menn eru að logsjóða og mölva postulín og keyra inn í sumarbústað. Mér fannst samt athyglisvert að sjá bókinni einhvers staðar lýst sem uppgjöri við karlmennskuna. Uppgjörið liggur allavega ekki á yfirborðinu; ég myndi segja að það væri einn styrkleiki ljóðanna að þar er engin fyrirsjáanleg íronía. Samt renna harka og mýkt stundum saman í hlutum eins og því að dýpka samband sitt við börnin sín með því að drepa innbrotsþjóf og negla líkið við útidyrnar, í heitri ást til drapplitaðs Fords og vellíðan tjúnnaða mannsins á Land Rovernum í síðasta ljóðinu innan um smiðina í Eyjafirði sem taka honum sem jafningja. Hvernig myndir þú sjálfur lýsa því sem þú ert að gera í bókinni? (Hér er freistandi að spyrja: Hvernig væri ljóðið “Hugmynd að ljóðabókinni Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir”?)

Bókin er ekkert uppgjör við karlmennskuna. Kannski nett persónulegt uppgjör, en ekkert meira en það. Ég veit ekki hvað ég er að reyna að gera. En mér finnst ég kannski alltaf á réttri leið þegar ég er á slóðum þar sem orðin eru hneykslandi en sönn og einlæg í senn.

Þegar orðin verða á einhvern hátt grótesk en um leið falleg, þvi tilfinningarnar eru svo einfaldar og kunnuglegar.

Þessir textar eru líka eins og öll ljóð tilraun til þess að botna í sjálfum sér. Afhverju er ég eins og ég er. Ég æfi hnefaleika þrisvar í viku og hef brennandi áhuga á smíði. Ég ákvað á einhverjum tímapunkti að hafa áhuga á þessum hlutum og ég veit ekki afhverju. Ég veit stundum ekki hvað er einlægt í fari mínu og skoðunum, hvað er sjálfsprottið og hvað er algjörlega fabrikkerað og ég dýrka það.

Það er einhver glundroði, eitthvað óútskýranlegt, eitthvað spennandi, fyndið og sorglegt, og á nákvæmlega þeim slóðum vil ég vera þegar ég skrifa.

Heldurðu áfram að skrifa ljóð? Stefnirðu á að gefa út aðra bók? Og ef já, hvað langar þig að gera næst? 

Já, ég er að skrifa bók um þessar mundir. Vinnuheitið er Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra. Ég var aðeins of seinn til að koma henni út um jólin, en ég hef engar áhyggjur af því. Þetta eru ljóð og þau seljast alveg jafn illa hvort sem þau koma út í lok okt eða byrjun mars.

Hún er á sömu slóðum – á þessu hyper ultra raunsæi. En í stað hugmynda er ég kannski meira að fást við óra og martraðir eins og vinnuheitið gefur til kynna. Er eiginlega bara að hræða mig upp úr skónum í hvert skipti sem ég sest við.

Svo fer ég til Þýskalands að fylgja eftir hinni í des og svo vona ég að hún komi út víðar í Evrópu, en svo sem ekkert í hendi þar. Ég las úr henni í Barbican í sumar á ensku og það var gjörsamlega tryllt. Er að vona að það vindi upp á sig.

Ljóðaviðtalafulltrúi Druslubóka og doðranta lýsir yfir tilhlökkun sinni að sjá órana og martraðirnar fullskapaðar. Við þökkum skáldinu fyrir viðtalið og slúttum þessu með öðru ljóði úr bókinni, Við Kjalarnes.

Veðurstofan treysti sér ekki til þess að gera spá þetta kvöld.

Þetta var kvöldið sem ég kom keyrandi inn í sumarbústaðinn þinn á pallbíl.
Með tvo bjóra í gleri meðferðis.

Þú stundir og öskraðir. Ég hló eins og véfrétt.

Þú hefðir ekki átt að horfa svona til mín á kaffihúsinu.

Þetta augnablik sem þú brostir og roðnaðir og horfðir í gólfið.

Þá ákvað ég að borða þig.

Því sjáðu, ég tek öllu bókstaflega.
Þú minnir mig á manneskju sem var einu sinni góð við mig.

Þú minnir mig á tilfinningu sem ég hef ekki fundið fyrir lengi,

nema einu sinni, en það var í strætó og ég skammaðist mín.

Uppbrett nef, tár, bros og gamlir rykfallnir takkaskór.

Ég mölvaði allt postulínið.

Og núna finnst mér eins og ég verði að særa þig.

Ég verð að sjá þig gráta. Annars get ég ekki andað.

En fyrst. Leyfðu mér að kynna mig.

Ég er erfiðleikarinn. 70 hestafla vél og úr nösum mínum drýpur tvígengisolía.

Í stígvéli mínu er kasthnífur og lafandi í frakkanum er afsöguð haglabyssa.

Ég er bóndi og akur minn brennur.
Ég hef leitað þín í mörg ár.

Ég kom á hesti en lógaði honum við afleggjarann.

Af hverju fórstu?

Af hverju tókstu rútuna út á land og lagðist með úlfum?

Af hverju hringdirðu ekki í mig úr tíkallasímanum í sjoppunni í Vík í Mýrdal og baðst mig að sækja þig?

Ég hefði komið og ég hefði þagað í bílnum þar til við Seljalandsfoss.

En þar hefði ég þrætt þig upp á mig.

Og dillað tungunni eins og dóni.

Ég er hestamaður. Mér er tamt að beisla og buga og ríða.

Þetta vissirðu þegar þú fórst. Þegar þú tókst á rás og skildir mig eftir einan.

Þar sem ég öskraði og grét.

Þetta tímabil hefur verið einn samfelldur 17. júní.

Þar sem gasblöðrurnar stíga ákveðnar til himins.

Og ég sit einn eftir á jörðinni og hárreyti mig.

En núna þegar ég hef loksins fundið þig,

eða manneskju sem minnir mig á þig,

þá man ég ekki hvað það var sem ég ætlaði að segja við þig.

En það var eitthvað. Eitthvað um tilfinningar og tár.

Og árið þar sem hjólin snerust hratt.

Og ótta, og sár, þarna crépes-draslið sem þú eldaðir.

Ég er búinn að gleyma því öllu – en ég man eftir þér.

Og núna langar mig að biðja þig afsökunar á því að hafa keyrt inn í sumarbústaðinn þinn.

Reynum bara að gleyma því.
Og svífum burt á fallegu lygunum.

Og segjum í hljóði: Mikið var þetta erfitt.

En erfitt er ekki rangt, erfitt er ekki endilega leiðinlegt.

Við erum ekki skjaldbökur – við erum torfærubílar.

Eftir þetta rallý verður vonandi haldið mót á Kjalarnesi.

Í gryfjunum. Þar er svo hvasst að allir gleyma öllu.

Nema kannski einu og vonandi er hægt að lifa án þess að láta minna sig á það.

Engin ummæli: