9. nóvember 2012

Á listasafninu

Út er komið þriðja bindi safnaritsafns Sigrúnar Eldjárn, Listasafnið. Hin tvö bindin heita Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið og komu út í fyrra og hittifyrra. Ég hef ekki lesið þau, var kannski ekki með barn á réttum aldri (eða taldi mig ekki vera það), en ég las Listasafnið fyrr í vikunni með dóttur minni sem er að verða 8 ára. Skemmst er frá því að segja að við mæðgur vorum báðar hæstánægðar með bókina.

Aðalsöguhetjan heitir Rúnar og er alveg að verða 12 ára (á reyndar afmæli við lok bókar). Hann býr með föður sínum í safnahúsinu í þorpinu Ásgarði. Í safnahúsinu er rekið bæði náttúrugripasafn og forngripasafn og þegar bókin hefst er verið að undirbúa þar opnun listasafns. Bestu vinir Rúnars búa í næsta húsi, systkinin Magga og Lilli. Úr þessu er svo spunninn skemmtilegur og spennandi söguþráður þar sem alls konar sérvitringar og furðuverur koma fyrir: draugar, dvergar, listaverkaþjófur, sérvitrir listamenn, dreki og reiðir þorpsbúar. Mamma Rúnars, myndlistarkonan Þispa, kemur frá Ameríku til að aðstoða við uppsetningu listasafnsins, ágreiningur verður um fyrirkomulag safnsins og fleira, ýmsir lenda í lífsháska og allt fer auðvitað vel að lokum.

Okkur mæðgum fannst söguþráðurinn spennandi og við vorum báðar æstar í að fá að vita hvernig allt færi. Segja má að þar hafi hjálpað okkur veikindadagur sem hægt var að nota í lestur. Annarri okkar fannst hinn djúpi kjallari mjög óhuganlegur og hún átti erfitt með að fara að sofa einmitt þar sem ein af söguhetjunum lá þar meðvitundarlaus. Það er reyndar sérleg viðkvæmni í fjölskyldunni, sjálf var ég að farast úr myrkfælni öll mín æskuár og frameftir þrítugsaldri og dóttirin flýtir sér alltaf að hlaupa í burtu ef bönnuð mynd kemur á í sjónvarpinu. Sú eldri af okkur hefði viljað sjá betur fyllt út í sumar persónurnar. Honum Úlla, sem mér fannst eiga talsvert bágt, hefði ég til dæmis viljað kynnast betur og pabbi Rúnars fannst mér frekar svona fúll og strangur, alla vega fékk maður ekki almennilega að sjá aðra hlið á honum. Þispa virkar dálítið mótsagnakennd, sem er kannski allt í lagi, en kannski hefði hún samt getað verið heilsteyptari. Og það fór í taugarnar á mér hvernig aftur og aftur var sagt frá því að Lilli stæði á haus. Hann er greinilega hugsaður sem líflegur lítill strákur, talsvert yngri en hinir krakkarnir og svolítill kjáni, alla vega í þeirra augum. En væri ekki hægt að láta hann stundum gera einhverjar aðrar fimleikaæfingar eða finna aðrar leiðir til að sýna að hann sé líflegur? Niðurstaðan hér er sem sagt sú að söguþráðurinn sé sterkari en persónusköpunin og það má vel vera að krökkum finnist það bara fínt.

Bókin er skreytt fjölda svarthvítra teikninga eftir höfundinn sjálfan sem bregður fyrir hér og þar í textanum. Eins og við er að búast í bók eftir Sigrúnu eru teikningarnar eins og best verður á kosið og gefa sögunni meira líf. Aftan á bókinni stendur að hún sé fyrir 8-12 ára og það er sjálfsagt ágætis mat. Mörg börn yngri en átta ára gætu örugglega haft gaman af henni, sérstaklega þau sem eru snemmlæs eða vön því að mikið sé lesið fyrir þau. Við Iðunn Soffía mælum með bókinni, eins og áður segir, og munum örugglega lesa hinar bækurnar úr seríunni líka.

EYJA MARGRÉT BRYNJARSDÓTTIR

Engin ummæli: