Á meðan Skriva er ætlað fólki sem hefur áhuga á að skrifa sjálft bókmenntir er þetta nýja blað helgað þeim sem vilja lesa þær. Í þessu fyrsta hefti kennir ýmissa grasa. Á forsíðunni eru þrír þekktir einstaklingar sem eru allir að gefa út endurminningabók nú í haust og viðtöl við hvern og einn þeirra er að finna inni í blaðinu. Það er líka rætt við bandaríska spennuhöfundinn Harlan Coben og breska femínistann Caitlin Moran, glæpasagnahöfundurinn Mons Kallentoft segir frá sínum uppáhaldsstöðum í Tælandi og enn einn rithöfundurinn, Emma Hamberg, leiðir lesendur inn í lestrarhornið sitt. Af föstum liðum blaðsins má nefna pistil eftir leikarann Michael Nykvist (sem meðal annars lék Mikael Blomkvist í sænsku myndunum sem gerðar voru eftir bókum Stieg Larssons) og smásögu blaðsins sem í þessu fyrsta hefti er eftir Jens Lapidus sem gjarnan kennir sig við bókmenntagreinina Stockholm noir. Inn á milli er svo það áhugaverðasta á bókamarkaðnum þetta haustið kynnt, sumt með örstuttum umfjöllunum þar sem greint er frá efni bókarinnar í einum eða tveimur setningum, annað í aðeins lengra máli.
Blaðið er allt hið vandaðasta, fallega upp sett og vel myndskreytt, brotið í sambærilegri stærð og harðspjaldabók af stærri gerðinni og fer því vel með bókunum sem það fjallar um. En einhvers staðar þar lýkur kostum blaðsins og gallarnir taka við. Því þótt viðtölin og greinarnar séu alveg áhugaverðar í sjálfu sér þá drukkna þær í yfirborðs- og markaðsmennskunni sem einkennir Books & Dreams. Svo kallaðar „kundtidningar“ hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu hér í Svíþjóð. Þetta eru tímarit sem hin og þessi fyrirtæki gefa út um eigin starfsemi og láta viðskiptavinum sínum í té ókeypis. Þrátt fyrir að vinnan við þau sé oft mjög metnaðarfull eru þau auðvitað lítið annað en auglýsingar í glansumbúðum. Books & Dreams er ekki skilgreint sem slíkt heldur selt á opnum markaði en það er hins vegar gefið út af Bonnierförlagen og undir merkjum þess eru jafnframt ýmis bókaforlög svo hagsmunatengslin eru augljós. Ég fæ ekki betur séð en að það sé fjallað um bækur fá fleiri forlögum en þeim sem standa beint og óbeint að tímaritinu en gildi þess sem markaðsafl fyrir útgefandann er engu að síður óumdeilt.
Books & Dreams er þó ekki bara tímarit, það stendur líka fyrir röð viðburða sem virðast eiga að vera einhvers konar bókamessa de lux. Fólk borgar sem sagt fyrir kvöldstund þar sem ritstjóri blaðsins, Carina Nunstedt, talar við ýmsa rithöfunda uppi á sviði, í boði eru léttar veitingar og áfengi og svo eru allir leystir út með goodiebag. Hrollurinn sem ég fæ þegar ég les um þetta jafnast nánst á við þann sem tilhugsunin um að bíta í þurrt handklæði veitir mér. Og því miður held ég að sýn Books & Dreams á lestur og bókmenntir kristallist í þessu. Í ritstjórnarpistli í upphafi blaðsins kemur orðið „lyx“, lúxus, þrisvar fyrir. „Bækur eru lúxus“, „að hafa tíma til að lesa er lúxus“, „að lesa er lúxus“. Og þvert yfir titilinn á forsíðunni stendur „Mer läslyx i livet“. Út af fyrir sig er ég kannski alveg sammála því að lestur sé lúxus, ég get varla ímyndað mér betri dag en þann sem ég get hangið á náttfötunum að lesa allan daginn. En einhvern veginn sýnist mér að Books & Dreams týpurnar skilgreini lestrarlúxus ekki þannig. Nei, það eru goodiebags, púðar frá Canada Goose og Gudrun Sjödén (það er nefnilega hægt að sjá hvar Emma Hamberg keypti allt kósí dótið sitt í lestrarhorninu) og Tælandsferðir þar sem þú blaðar í bók undir pálmatré. Það er einfaldlega búið að lúxusvæða lestur sem einhverja ákveðna gerð af lífstíl. Til að lesa þarftu að eiga þægilegt en smekklegt dress frá einhverjum smart framleiðanda sem þú getur smeygt þér í fyrir huggulegu lestrarstundina, þú þarft hafa kalt hvítvínsglas við höndina og helst búa í húsi þar sem eldur logar í arni - nú eða fara til útlanda. Já og ef þú lest í gegnum rándýrt tæki sem þú hefur keypt jafnvel enn dýrara leðurhulstur utan um þá ertu gulltryggður. Hvað þú lest skiptir hins vegar minna máli svo lengi sem það er eitthvað sæmilega vinsælt. Enda er ekki eina einustu alvöru ritrýni að finna í Books & Dreams.
Í fyrsta hefti Books & Dreams er einmitt fjallað um líkamsræktarbækur stjarnanna. |
7 ummæli:
Er það bara sérviska í mér að finnast skrítið að sænskt blað um bóklestur heiti „Books & Dreams?“
En ég er sammála því hvað það er asnalegt að tala um að það sé „lúxus að hafa tíma til að lesa“. Ég hef aldrei kynnst neinum sem ekki hefur tíma til þess að lesa, en fullt af fólki sem kýs að verja tíma sínum í annað, til dæmis að vinna, ala upp börn, horfa á bíómyndir og klám, eða fara í fjallgöngur. Og það er líka allt í lagi, svo sem.
Ég er hjartanlega sammála þér um titilinn. Titlar og nöfn á ensku í Svíþjóð er alveg kapítuli út af fyrir sig.
Flestir sem ég þekki hafa minni tíma til að lesa en þeir myndu vilja. Mér finnst dálítið undarlegt að flokka saman hluti sem eru nauðsynlegur hluti af daglegu lífi flestra, eins og að vinna eða ala upp börn, og hluti sem maður myndi kalla tómstundaiðkun, eins og að horfa á bíómyndir eða klám. Um hið fyrra hefur maður frekar lítið val. Vissulega má segja að fólk velji að eignast börn (þó ekki alltaf) en það jafngildir ekki því að það fái tækifæri til þess daglega að velja milli bóklesturs og barnaumönnunar, börnin verða bara að fá að hafa ákveðinn forgang (og svo laumast maður til að lesa og svarar barninu út í hött og fær svo samviskubit vegna vanrækslunnar). Og það að vera í vinnu er ekki beinlínis eitthvað sem maður velur sér.
Annars finnst mér þetta með líkamsræktarbækur stjarnanna merkilegt. Ég get lesið bækur um alls konar hluti en það þyrfti mikið til að ég færi að lesa bækur um líkamsrækt. Annars eyða náttúrlega margir löngum stundum við að fylgjast með alls konar líkamsræktariðkun í sjónvarpi, kannski þetta sé eitthvað svipað.
Best að ég taki fram að ég er alls ekki að mæla fyrir lúxusvæðingu lesturs, a.m.k. ekki í þessum neyslustíl sem hér er fjallað um. Þetta er kannski eitthvert svona neyslusamfélagssyndróm. Það er víst ekkert varið í neitt nema hægt sé að selja manni einhverjar rándýrar græjur í tengslum við það.
Oj, en svaðalega hallærislegt!
Ragnhildur.
Úh, þetta hljómar eins og verið sé að búa til ákveðna ímynd/hugmynd sem knúi mann til að lesa frekar en sjálf löngunin til lestrarins. Draslvæðing allra mögulegra hluta er svo óþolandi, sbr. rándýr, skæsleg hulstur utan um rándýrt lesbretti.
P.S. Laustengt færslunni og þessu dúsíni húðflúrstímarita: Einu sinni kom kona til mín í Eymundson og spurði hvort við værum ekki með nein brúðkaupstímarit. Ég fór og benti henni á tíu eða tólf brúðkaupsblaðatitla í einum rekkanum og hún horfði hneyksluð á mig: "Já, ég var búin að sjá þetta, en er þetta það eina sem er til?"
P.P.S. Ég veit ekkert ógeðslegra en að bíta í þurrt handklæði!
Salka
Skrifa ummæli