4. nóvember 2012

Múffumaraþonið: úrslit

Áhugi minn á matreiðslubókum getur líklega talist svona í meðallagi. Mér finnst oft gaman að fletta matreiðslubókum en svo er ég ekki nærri nógu dugleg að prófa uppskriftirnar úr þeim. Oft fletti ég matreiðslubók og finn fjölmargar uppskriftir sem mig langar að prófa en svo steingleymi ég því og aldrei verður af þeirri prófun. Kannski er ég ekki nógu áhugasöm um matreiðslu til þess. Auðvitað elda ég (eitthvað þarf maður víst að borða) og mér finnst oft gaman að prófa mig áfram í eldhúsinu en það er bara svo margt annað sem ég hef áhuga á og ég er ekki einn af þessum stórkostlega duglegu gúrmekokkum. Eiginlega hef ég meiri áhuga á bakstri en eldamennsku og því fannst mér upplagt að prófa nýju bókina hennar Nönnu Rögnvaldardóttur, Múffur í hvert mál. Ég á reyndar aðra bók frá Nönnu, Matinn hennar Nönnu, og hef notað hana talsvert.

Í Múffur í hvert mál er að finna 42 uppskriftir að múffum, bæði sætum og ósætum, og þannig eru margar uppskriftir fyrir hverja máltíð dagsins, kvölds og morgna. Auk mannamúffuuppskriftanna er að finna uppskriftir að múffum fyrir hunda og ketti en ekki fylgir sögunni á hvaða tíma dags sé gert ráð fyrir að þær séu étnar. Upphaflega hugmyndin hjá mér var að reyna að taka Nönnu á orðinu í einn dag og hafa þá einhvers konar múffur í hvert einasta mál en ég gaf hana nú upp á bátinn. Hins vegar prófaði ég fjórar uppskriftir úr bókinni, eina um daginn og þrjár á síðustu tveimur dögum. Ein uppskriftin var úr morgunverðarkaflanum og henni breytti ég talsvert í samræmi við það sem ég átti til í skápunum. Sem sagt urðu bláberja- og perumúffur að brómberja- og eplamúffum. Mér fannst þær fínar og þetta var morgunmaturinn minn nokkra daga í röð en aðrir heimilismeðlimir sýndu þeim takmarkaðan áhuga. Í gær bakaði ég svo bæði tobleronemúffur og sítrónuskyrmúffur og fylgdi þar uppskriftunum samviskusamlega og nákvæmlega. Tobleronemúffurnar slógu í gegn og voru gleyptar í massavís af hópi 8 ára stúlkna sem hér voru staddar en fjölskyldumeðlimir höfðu hraðar hendur við að grípa það sem af gekk. Sítrónuskyrmúffurnar eru líka mjög góðar. Í dag bakaði ég svo pítsumúffur með pepperóní lítið eitt breyttar í samræmi við ísskápsinnihald heimilisins og þær þóttu góðar.

Einn af mörgum kostum uppskriftanna frá Nönnu er hvernig hún gerir ráð fyrir að fólk vilji breyta þeim ef það hentar einhverra hluta vegna, annað hvort vegna smekks eða vegna þess að það eigi ekki til nákvæmlega það sem stendur í uppskriftinni. Ég hef reyndar sjálf alltaf óhikað breytt uppskriftum þegar það hefur hentað en oft fær maður þá á tilfinninguna að maður sé eitthvað að stelast. Nanna gefur ráð um það hvernig sé hægt að breyta, hvað sé hægt að nota í staðinn fyrir eitthvað annað án þess að baksturinn fari allur í klessu og svo framvegis. Mér finnst þetta fela í sér ákveðna virðingu við lesandann; í stað þess að gera ráð fyrir að lesandinn sé viljalaus, skoðanalaus og ósjálfbjarga og fylgi bara uppskriftum í blindni þá viðurkennir hún að lesandinn sé alvörumanneskja sem á tiltekna hluti í skápunum hjá sér sem hann vill kannski gjarnan geta notað, hann hafi kannski aðeins annan smekk en hún og að hann sé fær um að meta sjálfur hvernig hann vilji hafa hlutina.

Rithöfundurinn Edith Wharton
með fallega múffu.
Ég er mjög ánægð með inngangskaflann í múffubókinni þar sem Nanna útskýrir hvað múffur eru og hvað greini þær frá bollakökum, rökstyður skýrt og skilmerkilega notkun sína á orðinu múffa yfir þetta tiltekna bakkelsi og fer yfir sögu bæði orðsins og þess fyrirbæris sem hún notar orðið yfir. Í stuttu máli er múffa það sama og Bandaríkjamenn kalla muffin. Það sem Skandínavar (eða Svíar alla vega) kalla muffins og sem Íslendingar hafa stundum kallað möffins er hins vegar það sem Kaninn kallar cupcakes og sem nú er gjarnan talað um sem bollakökur hérlendis. Eftir rökstuðning Nönnu er ég næstum því búin að taka orðið múffa í sátt þrátt fyrir tortryggni mína sem til er komin vegna notkunar þess yfir tiltekið kynlífshjálpartæki (sem er held ég það sem á ensku kallast fleshlight og lítur út eins og vasaljós, alla vega af myndinni að dæma sem fylgdi auglýsingunni í Fréttablaðinu um áraraðir). Nanna minnist á þessa notkun orðsins sem og notkun þess í pípulagningum, og eins á mun eldri notkun þess yfir handskjól, sem ég kannaðist einmitt við áður en ég heyrði af öðrum múffum. Og eins og ég minntist á þá fer Nanna líka yfir það hverju megi skipta út fyrir hvað í uppskriftunum án þess að deigið verði ónýtt.

Í allri þessari lofrullu minni verð ég að fá að koma að mínu eina umkvörtunarefni: Bókin er ekki nægilega vel yfirlesin með tilliti til þess að bera saman listana yfir innihaldið í uppskriftunum og leiðbeiningarnar, þótt ég hafi að öðru leyti ekki rekist á prentvillur eða slíkt (og bókin er skrifuð á vönduðu og fallegu máli). Í alls níu uppskriftum fann ég misræmi. Oftast snerist misræmið um það að eitthvað sem minnst var á í innihaldslistanum rataði svo ekki inn í leiðbeiningarnar og þannig lá ekki fyrir á hvaða stigi ætti að bæta viðkomandi hlut í deigið. Þrisvar sinnum var það mjólk, tvisvar pipar, einu sinni salt og einu sinni hnetur. Í einni uppskriftinni er misræmið á hinn veginn; tvisvar er minnst á sykur í leiðbeiningum fyrir karamellukurlsmúffur en hann er aðeins einu sinni að finna á listanum.

Oftast er þetta ekki vandamál, maður getur yfirleitt sagt sér sjálfur hvenær sé óhætt að hræra mjólkinni eða saltinu saman við blönduna. En ég lenti í vandræðum út af þessu þegar ég bjó til sítrónuskyrmúffurnar. Þar á að rífa börk af tveimur sítrónum og svo stendur: „og taktu helminginn frá. Kreistu safann úr annarri sítrónunni yfir“ en svo er ekki minnst á börkinn aftur fyrr en komið er að sítrónumylsnuþekjunni sem á að fara ofan á. Ég gerði ráð fyrir að þetta þýddi að helmingurinn af berkinum ætti að fara í deigið sjálft en hinn helmingurinn í mylsnuþekjuna. Það sem verra var: það var hvergi útskýrt hvor helmingurinn það væri sem ætti að vera með sítrónusafanum. Í einhverju stressi ákvað ég að skella bara sítrónusafa yfir báða helmingana og hugsaði með mér að það kæmi varla að sök. Ég hafði rangt fyrir mér. Þegar ég fór að búa til mylsnuþekjuna varð hún allt, allt of blaut og útilokað að fá úr henni eitthvað sem hægt væri að mylja yfir hitt, jafnvel þótt ég bætti heilmiklu aukahveiti saman við. Sem sagt átti hún að vera safalaus. Sem betur fór átti ég einhvern hálfuppþornaðan sítrónugarm inni í ísskáp og gat búið til annan umgang af mylsnuþekju. Eftir að múffurnar voru komnar í ofninn sat ég uppi með undarlegt deig, sem var sem sagt fyrri mylsnuþekjutilraunin, skellti eggi saman við það, hökkuðum möndlum og meira hveiti með lyftidufti saman við. Úr þessu bjó ég svo til torkennilegar smákökur sem urðu alveg ágætar, nokkurs konar smávaxnar sítrónumöndlutebollur, þannig að þetta fór vel að lokum.

Uppskriftirnar í bókinni eru hver annarri girnilegri, úrvalið er fjölbreytt og ég mun alveg áreiðanlega prófa fleiri. Myndirnar sem fylgja með eru líka mjög fínar og auka á girnileikann. Það er ekkert óþarfa vesen eða tilgerð, ekkert gervilegt við myndirnar eins og stundum er í kokkabókum og mér til ánægju varð afraksturinn hjá mér ekkert ósvipaður myndunum. Ég mæli óhikað með þessari bók fyrir alla áhugasama múffubakara.

„Betra hefði það naumast getað orðið,“ sagði Tikka-tú.
„Jú, víst,“ sagði Mía litla. „Ef ég hefði fengið að búa mér til múffu úr fallega skottinu hans.“
Tove Jansson, Vetrarundur í Múmíndal.

1 ummæli:

Ásta Kristín sagði...

Ég held ég sé búin að prófa um tíu uppskriftir úr þessari bók og sit einmitt núna með gráðosta- og rósmarínmúffu mér við hlið. Toblerone-múffurnar slógu algjörlega í gegn um daginn þegar ég átti afmæli. Ég hafði hins vegar ekkert tekið eftir þessu misræmi - eða hef kennt sjálfri mér um klaufaskapinn að hafa ekki lesið betur... Ég er ekki mikið fyrir að fara nákvæmlega eftir uppskriftum og eitt af því góða við þessar uppskriftir er að það virðist ekki skipta neitt voða miklu máli.

Fimm stjörnur frá mér!