9. nóvember 2012

Dætur Juárez

Reglulega berst fréttir af morðum og grimmilegu ofbeldi frá Mexíkó. Glæpahringir eru sagðir halda heilu landshlutunum í gíslingu og mikil spilling grasserar innan lögreglunnar. Síðustu mánuði hefur hafnarborgin Veracruz verið í kastljósinu vegna fjölda morða sem flest virðast tengjast baráttu eiturlyfjasala um völd og áhrif. Í mörgum tilfellum virðist um hreinar fjöldaaftökur að ræða og líkum hefur verið komið fyrir í haugum á opinerum stöðum um hábjartan dag, að því er virðst öðrum til varnaðar. Það er ekki langt síðan Veracruz taldist vera mjög friðsæl á mælikvarða Mexíkóbúa, raunar hefur hún verið ferðamannaparadís í áratugi og íbúar að stórum hluta haft lifibrauð sitt af þeim iðnaði sem nú hefur skroppið saman í nánast ekki neitt vegna ástandsins.

Það voru fréttirnar frá Veracruz sem fengu mig til að hugsa til stúlknamorðanna í Juárez sem ég hef ekki heyrt fjallað um í töluverðan tíma og tel ég mig þó vera nokkuð tryggan lesanda heimsfréttanna. Mig minnir að það hafi verið í þáttum Eiríks Guðmundssonar um rithöfundinn Roberto Bolaño sem fluttir voru um páska fyrir nokkrum árum, sem ég heyrði fyrst fjallað skipulega um þessa hryllilegu atburði, en Bolaño notaði stúlknamorðin sem efnivið í skáldsögu sína 2666. Ég hef ekki enn lesið skáldsögu Bolaño en fór á bókasafnið til að leita mér að einhverju efni um Juárez og fann ágæta bók sem nefnist The Daughters of Juárez og er eftir þrjár bandarískar blaðakonur (Rodriguez, Montané og Pulitzer).

Það var árið 1993 sem fyrstu líkin byrjuðu að finnst í útjaðri borgarinnar Juárez sem staðsett er rétt við bandarísku landamærin. Nær undantekningalaust var um að ræða ungar stúlkur, vart af barnsaldri, sem áttu það sameiginlegt að vera af fátæku fólki og unnu þær oftar en ekki fyrir sér í einhverjum af þeim fjöldamörgu verksmiðjum sem spruttu upp í borginni á tíunda áratugnum. Margar þeirra stunduðu nám meðfram slítandi verksmiðjuvinnunni – flestar voru þær afskaplega fríðar og smágerðar. Oftast voru þær á aldrinum 15-20 ára, en lík af stúlkum allt niður í 9 ára hafa fundist.



Í bókinni er dregin upp mjög nákvæm mynd af borginni og virðist hún vera kjörlendi fyrir hroðalega glæpi af þessu tagi. Kemur þar margt til. Í síðari heimsstyrjöld kom Roosevelt á lagabálki sem heimilaði fólki frá Mexíkó að koma til Bandaríkjanna og vinna enda var mikill skortur á vinnuafli. Tugþúsundir verkamanna streymdu yfir landamærin í stríðinu og unnu þeir flestir við viðhald járnbrauta og í landbúnaði. Þegar heimsstyrjöldinni lauk voru þessum farandverkamönnum settar auknar skorður, en fólki var enn leyft að koma árstíðabundið og vinna við landbúnaðarstörf. Á sjöunda áratugnum leið þetta endanlega undir lok og atvinnuleysi jókst mikið í Mexíkó í kjölfarið, ekki síst í borgum við landamærin. Mexíkósk stjórnvöld reyndu að stemma stigu við atvinnuleysinu með nýju útspili – svokölluðu Maquiladora prógrammi sem átti að laða bandarískt stórfyrirtæki til Mexíkó og reisa þar sínar verksmiðjur. Fyritækjunum var leyft að flytja tollfrjálst inn í landið framleiðsluefni svo lengi sem hin tilbúna vara færi aftur út úr landinu. Fjöldi bandarískra fyrirtækja hefur á liðnum áratugum nýtt sér þetta og mexíkóskt verkafólk hefur þrælað myrkranna á milli fyrir fyrirtæki á borð við IBM, Wrangler, General Motors og Ford. NAFTA samningurinn sem tók gildi 1994 liðkaði svo enn frekar fyrir þessu verkefni og árið 2000 voru um 4000 slíkar verksmiðjur í Mexíkó, einkum í borgum við landamærin. Fólk flutti því í stórum stíl til þessara borga til þess að fá vinnu. Yfirgangur bandarískra stórfyrirtækja í landbúnaði, einnig afleiðing NAFTA, hefur líka gert það að verkum að fjölmargir mexíkóskir bændur hafa hrakist af jörðum sínum og geta ekki lengur ræktað mat fyrir fjölskyldur sínar, hvað þá selt afurðir sínar. Af þessum sökum hafa fjölmargir neyðst til þess að flytja til borganna og reyna að sjá fyrir sér.

Þeir verkamenn sem fóru til Bandaríkjanna í stríðinu voru flestir karlar en það eru einkum konur sem vinna í Maquiladora verksmiðjunum. Fyrirtækin vilja frekar hafa konur í vinnu og helst af öllu ungar konur – það er hægt að borga þeim smánarleg laun og þær eru einstaklega handfljótar sem kemur sér vel þegar setja þarf saman Barbiedúkkur og uppþvottavélar. Þetta kann að virðast útúrdúr en þetta er mikilvægt fyrir samhengið eins og er útskýrt vel í bókinni sem hér er til umfjöllunar.

Juárez var ein þeirra borga sem óx hvað mest á tíunda áratugnum og ótal verksmiðjur voru reistar þar. Fátækt fólk átti engra annarra kosta völ en að vinna þar myrkanna á milli, oft við heilsuspillandi og hættulegar aðstæður. Borgin þandist út og varð á stuttum tíma mjög landfræðilega dreifð, samgöngur voru ekki upp á marga fiska og götukort gáfu sjaldnast rétta mynd af síbreytilegu borgar(ó)skipulaginu. Verkakonurnar sem unnu í verksmiðjunum voru oft svo fátækar að þær höfðu hreinlega ekki efni á að taka strætó þann hluta leiðarinnar sem það var í boði, heldur þurftu þær oftar en ekki að ganga í margar klukkustundir til þess að komast í og úr vinnu. Það var einmitt á þessum ferðalögum sem margar þeirra urðu fyrir þessum hræðilegu árásum. Stúlkunum var nauðgað og þeim misþyrmt hrottalega áður en þær voru myrtar og líkunum síðan oftast komið fyrir í eyðimörkinni fyrir utan borgina.

Bleikir krossar til minningar um fórnarlömbin.
Höfundarnir nota nokkrar fjölskyldur til að segja okkur söguna – við kynnumst mæðrum, feðrum og systkinum stúlkna sem voru myrtar. Foreldrar unglingsstúlkna í borginni búa við þann stöðuga ótta að dóttir þeirra komi mögulega ekki heim þann daginn en engin úrræði eru til staðar til að bregðast við hættunni. Lögreglan hefur í litlu sinnt þessum málum og það er sjaldnast kostur að láta stúlkurnar hætta að vinna.

Í bókinni fá lesendur meðal annars að kynnast foreldrum hinnar sextán ára gömlu Silviu Elena sem var í námi og gekk afskaplega vel – með skólanum vann hún í skóbúð. Hún tók yfirleitt strætó heim úr vinnunni og einn daginn skilaði hún sér ekki heim. Við fylgjumst með örvæntingarfullri leit foreldra hennar og ömurlegum viðbrögðum sem þau fá á lögreglustöðinni þar sem spurningarnar snúast flestar um það hvort Silvia hafi átt kærasta og hvort hún gengi í stuttum pilsum. Lík hennar fannst fyrir tilviljun nokkru síðar illa útleikið.

Höfundarnir leiða okkur í gegnum atburðarásina í nokkuð línulegum tíma. Auk fórnarlambanna og fjölskyldna þeirra kynnumst við rannsóknarlögreglumönnum sem þrátt fyrir algjört máttleysi stofnananna sem þeir vinna hjá reyna að gera sitt til þess að upplýsa morðin og við fylgjumst með nokkrum tilraunum saksóknara til þess að ákæra einstaklinga í sumum málunum. Flestar virðast þær ákærur reistar á veikum grunni og enginn hefur enn verið sakfalldur. Einnig er fjallað nokkuð náið um grasrótarhreyfingar sem spruttu upp í Mexíkó sem andsvar við aðgerðaleysi lögreglunnar. Þar fór fremst í flokki aktívisitinn Esther Chávez (1933-2009), en hún hélt ítarlegar skrár yfir alla stúlkurnar sem hurfu, hvernig og hvar var skilið við líkin og hver fann þau. Hún hitti fjölskyldur þeirra og veitt þeim dýrmætan stuðning en fæstar fjölskyldurnar áttu stuðningsnet innan borgarinnar þar sem þær voru nær allar aðfluttar. Esther vakti athygli á málinu á alþjóðavísu og opnaði miðstöð í borginni fyrir konur sem höfðu orðið fórnarlömb ofbeldis.

Aktívistinn Esther Chávez.

Mér fannst bókin afskaplega skýr og upplýsandi. Hún setur þessa glæpi í samfélagslegt samhengi og veltir upp ýmsum tilgátum í sambandi við hver hafi verið að verki. Það er auðvitað ömurlegt að málin teljist langflest enn óupplýst. Talið er að nærri 1000 ungar konur hafi verið myrtar síðan 1993 þó tölur séu mjög á reiki, og virðist ekkert lát vera á þessu hryllilega ofbeldi. Það hafa verið uppi margar kenningar um hver eða hverjir beri ábyrgð á þessum voðaverkum. Sumir telja að um sé að ræða djöfladýrkendur sem framkvæmi grimmilegar fórnarathafnir en aðrir hallast að því að einn fjöldamorðingi beri ábyrgð á flestum morðunum. Sögusagnir hafa verið um að líffæri hafi verið tekin og seld úr sumum fórnarlambanna og jafnvel að lögreglumenn beri sjálfir ábyrgð á flestum morðunum. Tilgátan um að karlar úr efri stéttum hafi stúlknamorðin að einhverskonar sporti hefur verið mjög lífseig – að þeir einfaldlega fari út og myrði sé til ánægju. Höfundar bókarinnar hallast ekki að einni kenningu umfram aðra en ljóst er að yfirvöld í Mexíkó bera mikla ábyrgð með því að grípa ekki til umfangsmeiri aðgerða til að vernda konur í borginni og hafa upp á þeim sem bera ábyrgð.

Engin ummæli: