Dagbókin er skrifuð á mánaðartímabili sumarið 1962, en þá hélt Kristján Eldjárn ásamt þremur öðrum íslenskum vísindamönnum til L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi til að taka þátt í uppgreftri með norska ævintýramanninum Helge Ingstad og konu hans, fornleifafræðingnum Anne Stine Ingstad, en þau töldu sig hafa fundið þar minjar norrænna manna – og ekki bara einhverjar minjar heldur sjálft Vínland hið góða. Það hafði komið Helge Ingstad á óvart þegar hann heimsótti staðinn fyrst „hve vel allir staðhættir féllu að frásögninni um komu Leifs heppna til Ameríku“, segir Adolf Friðriksson.
Í eftirmála Adolfs er saga kenninga um norræna arfleifð í Norður-Ameríku rakin og sú víkingarómantík og þjóðernissköpun sem þar lá oft að baki. Það skiptir máli hver á sína arfleifð og sinn uppruna hvar. Mikil togstreita ríkti til að mynda milli Norðmanna og Dana í „kapphlaupinu um fund Vínlands“ og Helge Ingstad (sem hafði átt vægast sagt skrautlegan feril og meðal annars verið settur yfir skammlífa nýlendu kennda við Eirík rauða sem hinn alræmdi Vidkun Quisling stofnaði á Grænlandi um 1930) átti í harðvítugum deilum við danska fornleifafræðinga (og reyndar fleiri) um mikilvægi fundarins í L´Anse aux Meadows.
Helge Ingstad í fullum skrúða á yngri árum |
Dagbókin sjálf er frekar látlaus og hógvær í lýsingum og stíl, af og til á Kristján í samræðum við heimamenn, lýsir hroðalegum flugnabitum og hitasvækju eða skrifar heim, annars er hugur hans við uppgröftinn sjálfan og hin erfiðu samskipti við Ingstad. Dagbókarfærslurnar gefa ágætis innsýn í daglegt líf fornleifafræðingsins við uppgröft og þá gríðarlegu merkingu sem tinnuflísar og gjall geta haft í réttu samhengi.
Það er fjölskylda Kristjáns Eldjárn sem stendur að útgáfu bókarinnar í samvinnu við Þjóðminjasafnið, Fornleifastofnun og Forlagið, en hún er sérstaklega vönduð og vel úr garði gerð. Eftirmáli Adolfs Friðrikssonar er bæði fróðlegur og skemmtilegur og setur dagbók Kristjáns í nauðsynlegt samhengi. Aftan við dagbókarfærslurnar er að finna gagnlegan orðalista um helstu fornleifafræðihugtök. Þar eru jafnframt blaðaúrklippur og fréttatilkynningar frá heimkomu Íslendinganna, sem sýna vel hversu varkárir þeir reyna að vera gagnvart Helge Ingstad í yfirlýsingum sínum þrátt fyrir að þurfa jafnframt að standa vörð um eigin fræðilegu sannfæringu og heiður. Bókin er smekkfull af fallegum ljósmyndum af umhverfinu á Nýfundnalandi og starfinu við uppgröftinn. Kápuna prýðir sérlega fín ljósmynd af Kristjáni með nýfundinn eskimóalampa – mér þykir Kristján raunar hafa verið áberandi smart í tauinu á Nýfundnalandi, svona sixtís fræðimannstýpa með dass af skógarhöggsmanni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli