4. nóvember 2012

Randalín og Mundi - útgáfugleði 6. nóvember

Nokkrar okkar sem skrifa á þessa síðu eiga bækur í jólabókaflóðinu í ár, ýmist frumsamdar eða þýddar. Sú fyrsta þessara bóka sem nefnd verður hér á Druslubókum og doðröntum kom út í síðustu viku, en það er Randalín og Mundi, barnabók eftir Þórdísi Gísladóttur. Bókin fjallar um tvo hressa 9 ára krakka og hún er myndlýst af Þórarni Má Baldurssyni.

Um bókina segir rýnir glænýs eintaks tímaritsins Barna og menningar meðal annars: „Randalín og Mundi er skrifuð í léttum, kersknisfullum og allt að því kæruleysislegum stíl sem minnir á köflum á prakkarabækur Ole Lund Kirkegaard og vekur þá tilfinningu með lesandanum að hvað sem er geti átt eftir að gerast.“ 


Útgáfu Randalínar og Munda verður fagnað í Eymundsson í Austurstrætinu þriðjudaginn 6. nóvember klukkan 17. Þá tekur Þórdís á móti vinum, vandamönnum, eftirvæntingarfullum lesendum og hreinlega öllum sem vilja koma, les kafla úr bókinni, áritar eintök fyrir þá sem það vilja (bókin verður á tilboðsverði) og boðið verður upp á piparkökur og létta drykki. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!


Engin ummæli: