Portúgalski rithöfundurinn Gonçalo M. Tavares kom óvænt inn í líf mitt úr mörgum áttum á um það bil mánaðar tímabili; vinur minn sendi mér tengil á útvarpsþátt þar sem fjallað var um hann, samstarfsmaður minn mælti með honum við mig og rithöfundur nokkur sagði mér að hann hefði hitt hann í útlöndum og séð hann lesa upp einhvers staðar í Skandinavíu fyrir þrjá áhorfendur. Þrátt fyrir það virðist Tavares vera höfundur á uppleið; allir dómarnir sem ég finn um bækur hans á netinu virðast eiga það sameiginlegt að spá honum frægð og frama, jafnvel Nóbelsverðlaunum í fyllingu tímans. Sá sem spáði honum Nóbelnum var enginn annar en José Saramago, en ein af fjöldamörgum viðurkenningum sem Tavares hefur hlotið á síðustu árum voru portúgölsk bókmenntaverðlaun kennd við Saramago. Forsíðu bókarinnar sem ég las eftir öll meðmælin, Jerúsalem, prýðir hnyttnasti hluti hrósyrða Saramago, blautur draumur hvers markaðssetningarmanns: „Tavares hefur engan rétt á að skrifa svona vel aðeins 35 ára gamall. Mann langar mest að berja hann!“
Sögusvið skáldsögunnar Jerúsalem er (þrátt fyrir titilinn) ónefnd borg og án áberandi staðareinkenna, en nöfn persónanna hafa þýskan hljóm. (Einn portúgalskur ritdómari skrifaði að það skapaði ákveðna fjarlægð fyrir hinn portúgalska lesanda að lesa um „hinar köldu og ópersónulegu norðurevrópsku borgir“ – þar höfum við það.)
Jerúsalem er byggð upp kringum nokkrar persónur; Myliu, sem er dauðvona, Ernst, sem ætlar að kasta sér út um glugga, Hinnerk Obst, fyrrum hermann með gríðarlega bauga, Theodor Busbeck, geðlækni sem vinnur að altækri kenningu um ofbeldi sem geti spáð fyrir um voðaverk framtíðarinnar, Kaas, fatlaðan tólf ára dreng, og vændiskonuna Hönnu. Milli þessara persóna eru ýmis sambönd sem oftar en ekki tengjast geðveikrahælinu Georg Rosenberg, þar sem Theodor Busbeck lét leggja Myliu eiginkonu sína inn mörgum árum áður og þar sem hún kynntist Ernst. Frásögnin er ekki línuleg heldur tekur hún stökk í tíma og rúmi. Atburðum er ekki ítarlega lýst en þeir eru samt miskunnarlausir og afdrifaríkir.
Eins og Saramago blessaður sagði þá skrifar Tavares afskaplega vel. Stíllinn er frekar látlaus, heimspekilegur án þess að vera tilgerðarlegur, ekki beinlínis fyndinn en þó vottar fyrir undirliggjandi svörtum húmor. Hann er ef til vill dálítið kaldur og fjarlægur - það fer stundum í taugarnar á mér þegar mér finnst höfundar hafa of yfirvegað vald á skáldskapnum en það truflaði mig ekki hér, kannski vegna þess hve skrítin og annarleg veröldin í bókinni er; sagan verður ekki blóðlaus þótt maður finni hversu úthugsuð hún er. Það var helst að mér þætti hin títtnefnda kenning Theodors Busbeck um eilíft lögmál ofbeldisins klisjukennd og fyrirsjáanleg, en mér þótti Tavares leysa vel úr því máli undir lokin þegar fimm binda verk Busbeck um voðaverkakenninguna kemur loks út.
Þótt Hinnerk Obst sé í rauninni ekki mjög fyrirferðarmikill í frásögninni er hann eftirlætispersónan mín, brjóstumkennanlegur en stórhættulegur, en sú lýsing á sennilega við um fleiri persónur bókarinnar, jafnvel allar. Hann þjáist þegar krakkarnir í hverfinu benda á hann og segja „þarna er maðurinn sem lítur út eins og morðingi“ en milli þess situr hann heima hjá sér, handleikur byssuna sína, þefar af henni og hungrar eftir mannsholdi. Ég var sérlega hrifin af kafla ellefu, en þar er því lýst hvernig fyrrum hermaðurinn Hinnerk hefur skömm á því að borða mat. Á stríðstímum er hvötin til að drepa mikilvægari en hvötin til að borða, að borða er að bíða í stað þess að framkvæma: „Eating was the epitome of human mediocrity“. (Ég veit ekki hvort eftirnafn hans, Obst, hefur átt að vera einhver brandari í sambandi við þetta.)
Þessi afstaða Hinnerks til matar kallast á við kaflana þar sem Mylia ráfar um hverfið sitt að nóttu til og fagnar hungurverkjunum sem tákni um líf, öfugt við hina venjubundnu verki sem hún hefur í kviðnum og eru merki um sjúkdóminn sem er að draga hana til dauða. Á þessu næturgöltri hittir hún bæði Hinnerk Obst með byssuna sína og Ernst, fyrrum elskhuga sinn og samsjúkling á Georg Rosenberg-geðsjúkrahúsinu, og sá fundur er óhugnanlegur og dramatískur, enda eru persónur bókarinnar allar meira eða minna snarbilaðar og lítil von um að þær muni nokkurn tímann ná tökum á þessum grimma raunveruleika sem er þeim ofviða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli