3. nóvember 2012

Leikari les Einar Ben, leikari deyr

Ein af þeim íslensku glæpasögum sem rak á fjörur lesenda í ár var Leikarinn, fyrsta bók Sólveigar Pálsdóttur, sem kom út í vor. Hún hefst á voveiflegu andláti stórleikarans Lárusar Þórarinssonar, sem hnígur niður á tökustað kvikmyndarinnar Sagan sem aldrei var sögð og bendir allt til þess að hafi verið eitrað fyrir honum (dauði Lárusar minnti mig á annað fórnarlamb norræns glæpasagnahöfundar, útvarpsþulinn sem dó í beinni útsendingu eftir að hafa verið byrluð blásýra í upphafinu á Gráum október eftir Jógvan Isaksen – eftirminnileg sena þar sem því er lýst hvernig gjörvöll Þórshöfn situr yfir soðinni ýsu og kartöflum og hlustar á þulinn kafna).

Við kynnumst samstarfsfólki Lárusar við kvikmyndina, einkum leikmunakonunni Öldu og sminkunni Brynju, og lögreglufólkinu sem rannsakar morðið á Lárusi; Guðgeiri, Andrési, Særósu og Guðrúnu. Eins og lög gera ráð fyrir eru þeir fleiri sem mæta hroðalegum örlögum í bókinni, ýmsar flækjur sem þarf að leysa og ekki allt sem sýnist.

Þetta er ekki illa gerð bók og oftast rennur hún ágætlega. Samtölin eru einna stirðust og snúast oft, eins og stundum vill verða í glæpasögum, á augljósan hátt um að koma upplýsingum á framfæri um plottið eða persónurnar. Persónur bókarinnar lifna almennt ekki nógu vel á síðunum, að illmenninu undanteknu. Þær eiga greinilega að vera einhverjar týpur og það er mjög undirstrikað: ef það á að koma því nógu rækilega til skila að feita stelpan sé óörugg sjálfa með sig (sem er nógu klisjukennt út af fyrir sig) verður hún að nefna holdafar sitt og útlit í öðru hverju orði, tvístíga og gjóta augunum í sífellu á grannan vöxt annarra kvenna. Þetta er svo sem ekkert nýtt í íslenskum glæpasögum, meira að segja hinn margkrýndi glæpasögukonungur Arnaldur Indriðason er yfirleitt með frekar flatt persónugallerí.

Styrkur bókarinnar finnst mér einkum liggja í byggingu hennar, sem er sniðuglega hugsuð, og hinn spennuþrungni hápunktur undir lokin er skemmtilega krípí og bíómyndalegur. Ég sé á netinu að menn eru búnir að tryggja sér kvikmyndaréttinn að bókinni, og ég held að með góðum leikurum og almennilegu handriti gæti bókin orðið ágætis spennumynd. Þótt einstakir brandarar séu stundum áreynslukenndir er hún heldur ekki laus við að vera fyndin, til dæmis er stemmningin í senunni sem Lárus er að leika í þegar hann deyr kunnugleg íslenskum bíóáhorfendum: hann á að súpa á kaffibolla, taka upp bók með ljóðum Einars Ben, horfa út um glugga og fara djúpri og hljómmikilli röddu hins íslenska stórleikara með ljóðlínur: „Þel getur snúist við atorð eitt, aðgát skal höfð í nærveru sálar“.

Engin ummæli: