21. desember 2012

Heimsósómaöskur*

Ljóðskáldið Bragi Páll Sigurðarson sendi frá sér bók nú í haust sem ber nafnið Fullkomin ljóðabók: ljóð, eða eitthvað (Til hamingju!). Bókin er tvískipt og inniheldur annars vegar ljóð skrifuð á árunum 2008 til 2010, hins vegar ljóð frá síðustu tveimur árum. Það er forlagið Útúr sem gefur hina fullkomnu ljóðabók út en þetta er þriðja bókin sem kemur úr þeirri átt. Bragi mætti í Víðsjá fyrir stuttu og hér má heyra skemmtilegt og fróðlegt viðtal við hann.

Það er ekki út í bláinn að Bragi skiptir bók sinni í tvennt; við lesturinn kemur berlega í ljós að það er talsverður munur á fyrri og seinni ljóðunum, bæði hvað varðar andrúmsloft og stíl. Fyrri hlutinn er hrárri, einhvern veginn æstari og úthverfari; það veður á skáldinu. Ljóð Braga minna mig sumpart á bít-skáldin en ekki síður á ungskáld 9. áratugarins - það er pönk í honum og sprengikraftur. Í seinni hlutanum hemur hann kraftinn meira og ljóðin eru nákvæmari, meitlaðri og að mínu mati betur heppnuð einmitt vegna þess, þótt það sé reyndar líka gaman að lesa fyrri hlutann og fara með í rússíbanareiðina:

Svo frussast sorgin útum augntóftirnar,
fossar niður kinnarnar,
beljar yfir brosið.

Spyr _______ ráða.
Hann/Hún svarar í ótrúlega fallega meitluðum
setningum lausnum við öllu.
Hahaha!

Það er heimsósómastemning í bókinni og sjónarhornið er napurt:

Unga afl,
von breytinga,
bylting Íslands
er glerbrot og gubb.
Handahófskennt fálm.
Vandræðalegt kynlíf.
Miðbær Reykjavíkur
drap Che Guevara.

Þrátt fyrir vonleysið er textinn ekki fjarlægur eða firrtur, langt frá því, enda er ljóðmælandinn fyrirferðarmikill og jafnvel aðgangsharður við sjálfan sig. Litlar ljóðsögur af fólki og atburðum þótti mér gaman að lesa, til dæmis söguna af iðnaðarmanninum sem dúkkar upp úr fortíðinni. Þar hefði samt meiri nákvæmni og niðurskurður gert gæfumuninn og það er líklega stærsti gagnrýnipunkturinn í heildina litið; skáldið mætti velja meira og hafna, finna kjarnann og fórna því sem dregur broddinn úr ljóðunum. Þá á ég ekki við meiriháttar stílbreytingu eða að Bragi hafni eigin röddu fyrir einhvers konar mínímalisma - hann vill ryðjast öskrandi fram og eins og hann minntist á í Víðsjárviðtalinu endurspeglar kakófónían í ljóðum hans kakófóníuna í samfélaginu. Við erum einmitt öll stöðugt að öskra og kæfa hvert annað með öskrum. Það er hins vegar oft þannig með anarkískustu listformin að þau útheimta mesta agann og blekkja þannig lesandann/áhorfandann/hlustandann.

Sjálfshæðnin er aldrei langt undan í bókinni né háðsleg meðvitund um formið. Fullkomið ljóð endar á þessum fleygu orðum:

Djöfull varstu að lesa fokking gott ljóð.
Til hamingju.

Rödd skáldsins verður skýrari og sterkari í seinni hluta bókarinnar sem boðar að sjálfsögðu gott; Bragi Páll er mættur til leiks og vonandi kominn til að vera.

*þið afsakið vandræðalegan titil en þegar mér einu sinni hafði dottið þetta í hug gat ég ekki sleppt því að nota þetta langa og asnalega heimasmíðaða orð

19. desember 2012

Heillandi saga úr tímalausum samtíma

Milla Kristínar Ómarsdóttur er fallega draumkennd skáldsaga, krökk af sterkum og ljóslifandi senum og römmum. Við lesturinn hreif hún mig að því er virtist fyrirhafnarlaust með sér inní andrúmsloft sem enn situr í mér, mettað tilfinningum sögupersónanna, upplifunum þeirra og tengslum hver við aðra.

Sögutími er á vordögum ársins tvöþúsundogeitt (sem í það minnsta einhverjir myndu kalla allrafyrsta ár hinnar tuttugustu og fyrstu aldar) en um leið fannst mér sagan merkjanlega óbundin neinu skýrt afmörkuðu tímabili – geta eins hafa gerst hvaða ár sem er yfir allnokkra áratugi.
Söguhetjan Milla er þunglyndisþjökuð Reykjavíkurstúlka, tuttugu og eins árs gömul og býr einsömul í húsi, umluktu garði, sem hún erfði eftir föðurömmu sína. „Grindverkið utan um garðinn er víggirðing, ég birgi mig upp af vopnum, skotmarkið verður ég.“ (7) Í garðinum er líka tjörn og uppúr henni vex tré, gróðursett af föðurnum sem Milla þekkir ekki. Tréð ber allskonar ávexti sem seðja þó ekki nema augun, og það aðeins augu Millu sjálfrar, því það er ósýnilegt öðrum en henni.

Einn daginn þegar Milla er við vinnu sína á Borgarbókasafninu siglir hávaxin, pelsklædd kona inn um dyrnar í leit að starfskrafti til að flokka og skrá allar eigur hennar, og safnið framselur Millu til starfsins: „Er tími minn í eigu Borgarbókasafns Reykjavíkur sem seldi hann tímabundið konu í einbýlishúsi? Hver annar á tíma minn? Íslenska ríkið? Rétt svar: – láttu þig ekki dreyma um frelsi í þessu lífi.“ (104–105)

18. desember 2012

Rithöfundur verður til

Þau sem heita Anna eða Jón eru sjálfsagt mjög vön því að sjá nafnið sitt í bókum. Sjálf hef ég hins vegar ekki átt því að venjast og ég var svolítið hikandi áður en ég hóf lesturinn á Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur þar sem aðalsögupersónan heitir Eyja, hafði áhyggjur af að ég myndi einhvern veginn tengja þetta of mikið við sjálfa mig. Þetta vandist þó furðuhratt og ég losnaði úr klóm sjálfhverfunnar.

Ósjálfrátt segir frá ungri konu á tímamótum og smám saman fáum við að kynnast því sem hefur mótað hana og því hvernig hlutirnir fara hjá henni mörgum árum síðar. Hún er rétt rúmlega tvítug, ráðvillt og óörugg og hefur náð að flækja sig í kolómögulegt hjónaband með manni sem er sífullur og tuttugu árum eldri, eins og hún hafi dottið inn í það fyrir hálfgerða tilviljun. Mamma hennar, amma og frænka róa að því öllum árum að koma henni út úr hjónabandinu en unga konan á í vandræðum með að finna út hvað hún vill sjálf, kannski af því að hún þarf að finna sjálfa sig í stað þess að hafa stöðugar áhyggjur af því hvað hún þurfi að gera fyrir aðra í kringum sig. Hún nýtur þess að skrifa og þráir það heitast að verða rithöfundur en bögglast þar með nóbelsverðlaunahöfundinn afa sinn og uppgjafahöfundinn mömmu sína í farteskinu. Víða í bókinni er að finna pælingar um hvötina til að skrifa, hlutverk rithöfundarins og því um líkt og margar af þeim eru mjög áhugaverðar. Mér finnst þó að enn meira hefði verið hægt að gera úr þeim og vinna meira með þær.

Meira meira blóð, meira blóð, meira fjörefni

Agatha kímin við ritvélina.
Ég er örugglega ekki ein um að hafa lært ensku á því að lesa Agöthu Christie – fyrir mitt enskunám var hún það sem Andrés önd var fyrir dönsku fyrri kynslóðar. Bækurnar eru á hæfilega látlausu máli og nógu spennandi til að það hvetji mann áfram við lesturinn. Þær eru líka svo margar að það tók Agöthusjóðinn langan tíma að renna til þurrðar, enda skrifaði hún meira en sextíu glæpasögur á ævi sinni. Þær duga kannski ekki til mjög fágaðrar tjáningar á enskri tungu en þær lögðu nauðsynlegan grunn; ég man enn eftir því uppljómaða andartaki yfir Agöthubók þegar ég áttaði mig á að orðmyndin „rose“ þýddi ekki bara „rós“ heldur gat hún einnig átt við þátíð sagnarinnar „að standa upp“ – það útskýrði ýmsar dularfullar setningar sem ég hafði brotið heilann um. (Ég giska á að einhver hafi staðið hneykslunarfullur upp í bókaherberginu og mótmælt óskammfeilnum fullyrðingum Poirot um skammbyssueign höfuðsmannsins.)

Að því kom þó að ég hafði ekki meira að sækja til Agöthu. Plottin voru orðin of kunnugleg, persónurnar of einhliða, og ég mundi hvernig allar bækurnar enduðu. Í samræðum við aðra Agöthuaðdáendur hef ég komist að því að fleiri en ég voru á endanum farnir að geta giskað á hinn seka, til dæmis út frá hinum klassíska ástarþríhyrningi sem einhvern veginn þurfti að finna lausn á – yfirleitt með því að láta annan vonbiðilinn vera kaldrifjaðan morðingja eftir allt saman. En ég fann verðugan arftaka Agöthu í þeirri undirgrein breskra glæpasagna sem gengur út á fáa og merkingarþrungna glæpi, heimilislegan stíl og reglulega tedrykkju; það var að sjálfsögðu samlanda hennar P.D. James. Hún er þrjátíu árum yngri en Agatha, fædd árið 1920, og enn að skrifa. Ég las hana af ástríðu um tíma og síðari ár hef ég stundum keypt bækurnar hennar á flugvöllum þegar ég vil vera viss um að geta gleymt mér í einhverjum doðranti meðan á flugi stendur. Við þær aðstæður las ég í sumar bókina The Private Patient frá 2008, og ákvað í kjölfarið að nú væri kominn tími til að kveðja P.D. James og halda út í hinn stóra heim eins og þegar ég kvaddi Agöthu forðum daga. (Ég er greinilega frekar seinþroska.)

16. desember 2012

Stórskemmtileg hversdagsævintýri Randalínar og Munda

Hin ágæta Druslubókadama Þórdís Gísladóttir situr ekki auðum höndum fyrir jólin – hún þýddi Hringinn og Allt er ást og svo sendi hún frá sér barnabókina Randalín og Mundi sem kom út hjá Bjarti fyrir nokkrum vikum. Fyrir þetta allt hefur hún auðvitað sankað að sér tilnefningum eins og lesa má um hér.

Eins og bækurnar eftir einn af mínum uppáhalds barnabókahöfundum – Anne-Cath. Vestly þá væri hægt að flokka Randalín og Munda sem hversdagsævintýri. Báðir höfundar kunna þá list að gera hversdaginn merkingarbæran. Þótt lygilegir og magnaðir atburðir eigi sér stað í bókinni þá eru þeir einhvern veginn þannig að hvert barn ætti í raun að geta lent í svipuðu fjöri – ef þau eru bara jafn frjó og skemmtileg og Randalín og Mundi. Svo er líka vert að minnast á það er alveg möguleiki á að vaxa og læra án þess að missa fót eða foreldri - maður getur líka þroskast við að kynnast skrítnum nágrönnum og taka strætó!

13. desember 2012

Spádómur sem grípur og gleður

Eins og lesendur þessa bloggs vita vonandi þá hafa nokkrar af okkur sem hér skrifum sent frá sér allskonar bækur. Við höfum jafnframt einsett okkur að fjalla um allar fagurbókmenntir sem koma út eftir íslenskar konur 2012–2014 en ákváðum að útvista umfjöllun um Spádóminn eftir Hildi til óháðs aðila: Elínar Bjarkar Jóhannsdóttur, meistaranema í bókmenntafræði.

***

Ég var svolítið spennt að fá Spádóminn eftir Hildi Knútsdóttur í hendurnar en lesendur þessarar síðu þekkja hana eflaust því hún bloggar hér að staðaldri. Hildur hefur áður gefið út skáldsöguna Slátt. Spádómurinn er samkvæmt aldursmerkingu á kápunni fyrir fólk frá 11 ára aldri og fellur í hóp þeirra fantasía sem höfða bæði til barna/unglinga og svo ungs fólks en eiga það til að rata bara til fyrri hópsins. Vissulega er mjög jákvætt að það séu að koma út íslenskar skáldsögur fyrir eldri börn en Spádómurinn á einnig skilið að ná til fantasíualesenda á fullorðinsaldri. Bókin kallast á við ýmsa aðra texta úr fantasíugreininni, við lesturinn komu m.a. upp í kollinn á mér nýlegar bækur einsog Hungurleikarnir og Harry Potter bækurnar. Á einhverjum tímapunkti varð mér hugsað til Hringadrottinssögu og einnig Aliens þó að tengingarnar við þá texta væru ekki jafn augljósar og við þá fyrrnefndu. Önnur textatengsl eru við Bakkabræður og vandræði þeirra við að bera birtu inní húsið en í fantasíuheimi Spádómsins er ljós flutt í skjóðu á milli hnatta.

9. desember 2012

Málari málar sig út í horn

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson gerist í Reykjavík veturinn 1984 og segir af misskilna listmálaranum Davíð Þorvaldssyni. Misskilna segi ég en Davíð er þó einn vinsælasti málari landsins og „selur“ afskaplega vel en myndlistarelíta landsins hefur hins vegar lítið álit á honum. Þegar hann barn að aldri fór með móður sinni á myndlistasýningu hjá Kjarval gaf meistarinn honum málverk og sagði að hann ætti eftir að verða meiri málari en hann sjálfur þegar fram liðu stundir. Þessi spádómur hefur verið Davíð bæði innblástur og byrði og það að hann er vinsæll fremur en virtur nagar hann að innan. Hann grípur því til afdrífaríks ráðs til að sýna listaheimi Íslands í tvo heimana - hann málar nýtt verk – eftir Kjarval - og kemur því alla leið á Kjarvalstaði áður en yfir lýkur.


7. desember 2012

Af sjónarhóli gæludýrs

Þegar ég var lítil hélt ég mikið upp á bók sem heitir Klói segir frá og er eftir Annik Saxegaard. Hún mun hafa komið út 1956 en einhvern veginn lenti hún hjá mér um tuttugu árum síðar. Í þessari bók er sögumaðurinn, eða öllu heldur sögukötturinn, svarti fresskötturinn Klói sem fjallar um líf sitt inni á heimili, samskipti sín við manneskjur og önnur dýr og ýmis ævintýri sem hann lendir í. Ég hef ekki séð þessa bók áratugum saman og veit svo sem ekkert hvernig mér litist á hana núna en alla vega las ég hana aftur og aftur sem barn.

Það að segja sögu frá sjónarhóli dýrs sem býr með mönnum getur gefið skemmtilegan vinkil á hlutina og verið áhugavert bæði fyrir börn og fullorðna. Dýrið er að vissu leyti utan við mannlega samfélagið, jafnvel þótt það tilheyri líka mannlegri fjölskyldu, og getur lýst bjástri mannfólksins sem einhverju framandlegu. Og það er skemmtilegt að spreyta sig á því að setja sig í spor einhvers sem maður gæti aldrei verið, að ímynda sér líf sem maður gæti aldrei lifað, og svo fylgir dýrunum oft ákveðið sakleysi sem gerir það að verkum að maður hlýtur að finna til samkenndar með þeim.

3. desember 2012

Landvinningar síðuhaldara – MYNDIR

Bókmenntaleg heimsyfirráð hafa frá upphafi verið á stefnuskrá þeirra sem skrifa á þessa síðu og umtalsverðum tíma hefur verið eytt við makk í reykfylltum bakherbergjum til að vinna að þeim. Hins vegar  hefur setið á hakanum að tilkynna um nýjustu landvinningana.

Fyrst ber vitaskuld að nefna að 1. desember var Þórdís Gísladóttir stjörnuþýðandi, verðlaunaskáld og barnabókahöfundur hvorki meira né minna en tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á Allt er ást eftir Svíann Kristian Lundberg (Erla fjallar einmitt um þá bók í þessari færslu).

Þórdís hefur alls ekki setið auðum höndum þetta árið, því nú í haust kom út hin stórskemmtilega barnabók hennar Randalín og Mundi sem segir m.a. frá lyginni stelpu, dularfullri músaætu og skrýtinni spákonu. Svo þýddi hún líka Hringinn, sem er afar spennandi bók um unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum (Hildur skrifar um hana hér).


Hildur Knútsdóttir, sú fjölhæfa kona og að auki nýbökuð móðir efnilegrar stúlku, sendir svo frá sér sína aðra skáldsögu, barna- og unglingabókina Spádóminn, sem er æsispennandi fantasía um hina fimmtán ára gömlu Kolfinnu sem neyðist til að grípa til sinna ráða þegar ill öfl reyna að hrifsa til sín völdin.


Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi með meiru, gerði sér svo lítið fyrir og snaraði doðrantinum Emmu eftir Jane Austen yfir á íslensku. Áður hefur bara ein bók eftir Austen komið út í íslenskri þýðingu (Hroki og hleypidómar) og það var löngu orðið tímabært að þýða fleiri.



2. desember 2012

Leiklesið

Við getum ekki öll skrifað Hamlet
Þegar maður dettur í skilgreiningagírinn er auðvelt að láta hin ýmsustu hugtök fara í taugarnar á sér. Ég hef til dæmis lengi verið viðkvæm fyrir orðinu "leikbókmenntir" vegna þess að þegar leikverk eru annars vegar er mergurinn málsins einmitt sá að textanum er ekki ætlað að vera stafur á bók; leiktexti er skrifaður með það í huga að hann skuli flytja í öðru samhengi, t.d. taki leikari sér hann í munn, hann sé sunginn, hrópaður, skrifaður á sviðið eða honum varpað á tjald. Gremjan sem hellist yfir mig þegar ég heyri talað um leikrit sem lyti það sömu lögmálum og skáldsaga eða hvers kyns prósi til lestrar á þó líklega rætur sínar að rekja til þess hvað sá skilningur hefur lengi verið ráðandi í leikhúsumræðu hér á landi; ég hef á tilfinningunni að meirihluti íslenskra leiklistargagnrýnenda síðustu áratugina hafi verið bókmenntafræðimenntaður, sem er dálítið eins og að fá dansmenntaða manneskju til að fjalla um arkítektúr eða ljóðlist. En jæja, nóg af neikvæðni. Það skemmtilega við leiktexta er einmitt það að þeir eru textar sem eru á leiðinni eitthvert annað - blaðsíðan er viðkomustaður á ófyrirsjáanlegri leið. Það sem gefur leiktexta líf er ekki bara leikskáldið heldur allt það sem gerist svo.

En það er samt virkilega gaman að lesa leikrit, eða allavega þegar textinn er góður/áhugaverður/inspírerandi. Skemmtilegast er auðvitað að leiklesa - ég mæli eindregið með því við háskólanema sem kljást við leiktexta að hóa saman nokkrum samnemendum og lesa upphátt, jafnvel með bjór á kantinum - en það er svosem ekki alltaf í boði. Starfs míns vegna les ég ansi mikið af leikritum og finnst það raunar skylda mín sem leikhúsmanneskju; maður gerir varla spennandi hluti ef maður fylgist ekki með því sem aðrir eru að gera og sækir sér innblástur í ýmsar áttir. Ég held það geti samt miklu fleiri haft gaman af leikritalestri en þeir sem vinna við sviðslistir og reyndar held ég að margir sem lesa mikið af annars konar bókum hafi kannski ekki áttað sig á þessum möguleika.



Kjördæmisráð Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi
á góðri stundu. Eða leikararnir í Jerusalem.
Það er misgott úrval af leikritum á bókasöfnum en hér á höfuðborgarsvæðinu stendur Kringlusafn upp úr. Þar er að finna fínasta safn leikrita og hvers kyns bóka um sviðslistir. Þangað tölti ég reglulega til að finna mér eitthvað spennandi að lesa, hvort sem ég er í stuði fyrir gamalt eða nýtt.

Af áhugaverðum verkum sem ég hef lesið síðustu misserin langar mig að nefna nokkur, lesendum til upplýsingar og vonandi yndisauka. Jerusalem eftir Jez Butterworth er þrælfínt og fjölmennt verk sem virkar afar kraftmikið á yfirborðinu en þegar rýnt er í sjálft leikritið sést að það er einnig skrifað af mikilli nákvæmni. Þetta vinsæla verk verður sett upp í Þjóðleikhúsinu í vetur og heitir þá Fyrirheitna landið en Mikael Torfason þýðir. Það verður athyglisvert að sjá hvaða leiðir Guðjón Pedersen fer í uppfærslu sinni; mér þótti verkið svo afskaplega breskt og þjóðfélagslegt inntak þess langt frá okkar reynsluheimi. Spennandi engu að síður - og kannski einmitt vegna þess.

Síðasta vetur las ég leikritið Alice in Bed: A Play in Eight Scenes eftir hina stórmerkilegu Susan Sontag, sem ég vissi ekki að hefði lagt fyrir sig leikritaskrif.

29. nóvember 2012

Hættulegar persónur í annarlegum heimi

Portúgalski rithöfundurinn Gonçalo M. Tavares kom óvænt inn í líf mitt úr mörgum áttum á um það bil mánaðar tímabili; vinur minn sendi mér tengil á útvarpsþátt þar sem fjallað var um hann, samstarfsmaður minn mælti með honum við mig og rithöfundur nokkur sagði mér að hann hefði hitt hann í útlöndum og séð hann lesa upp einhvers staðar í Skandinavíu fyrir þrjá áhorfendur. Þrátt fyrir það virðist Tavares vera höfundur á uppleið; allir dómarnir sem ég finn um bækur hans á netinu virðast eiga það sameiginlegt að spá honum frægð og frama, jafnvel Nóbelsverðlaunum í fyllingu tímans. Sá sem spáði honum Nóbelnum var enginn annar en José Saramago, en ein af fjöldamörgum viðurkenningum sem Tavares hefur hlotið á síðustu árum voru portúgölsk bókmenntaverðlaun kennd við Saramago. Forsíðu bókarinnar sem ég las eftir öll meðmælin, Jerúsalem, prýðir hnyttnasti hluti hrósyrða Saramago, blautur draumur hvers markaðssetningarmanns: „Tavares hefur engan rétt á að skrifa svona vel aðeins 35 ára gamall. Mann langar mest að berja hann!“

Sögusvið skáldsögunnar Jerúsalem er (þrátt fyrir titilinn) ónefnd borg og án áberandi staðareinkenna, en nöfn persónanna hafa þýskan hljóm. (Einn portúgalskur ritdómari skrifaði að það skapaði ákveðna fjarlægð fyrir hinn portúgalska lesanda að lesa um „hinar köldu og ópersónulegu norðurevrópsku borgir“ – þar höfum við það.)

27. nóvember 2012

Gelgjur snúa bökum saman í Svíþjóð

Mér finnst alltaf svolítið vandræðalegt að skrifa um bækur sem mér finnast frábærar, því einhverra hluta vegna finnst mér eitthvað pínulítið glatað við það að skrifa umfjallanir sem eru eintómar lofrullur. En stundum er það bara þannig að maður rekst á bækur sem maður finnur eiginlega ekkert til foráttu, sama hvað maður reynir. (Ég tek samt fram að ég á auðvitað ekkert við að bækurnar séu fullkomnar, heldur frekar að þær standast fullkomlega þær væntingar sem ég hafði til þeirra áður en lesturinn hófst og gott betur.)

Ég lauk í gærkvöldi við Hringinn eftir Mats Strandberg og Söru Bergmark Elfgren, sem er nýkomin út hjá Bjarti, og hef mikið verið að reyna að finna eitthvað til að kvarta yfir í þessari bloggfærslu. Að lokum varð ég að horfast í augu við að ég yrði að verða mjööög smásmuguleg og draga fram einhvern algjöran tittlingaskít sem skipti mig engu máli við lesturinn ef ég ætlaði að fara að fetta fingur út í eitthvað.

Mér fannst Hringurinn semsagt alveg ógeðslega skemmtileg. Þetta er fyrsta bókin í þríleik og hún fjallar í stuttu máli um nokkrar unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir dularfullum kröftum og þrátt fyrir að vera mjög ólíkar og alls engar vinkonur (og sumar þeirra eru beinlínis óvinkonur) þá tengjast þær allar órjúfanlegum böndum. Þeim er sagt að þær verði að vinna saman gegn illum öflum sem eru að reyna að ná völdum, en þær eiga erfitt með að fyrirgefa gamlar syndir og yfirstíga allskonar gelgjutakta og fýluköst. En þegar þær komast að því að einhver dularfull vera er að reyna að taka allar í hópnum af lífi eina á fætur annarri neyðast þær til að horfast í augu við að þær verði annað hvort að útkljá vandamálin sín á milli eða hreinlega verða drepnar. 

26. nóvember 2012

Kantata um bróðurson móðurbróður og fleiri

Við fyrstu sýn var ég tvístígandi gagnvart kápunni á Kantötu eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, óviss um hvort þetta blómskrúð í björtum litum væri nokkuð laglegt eða heldur væmið. Þegar ég opnaði svo bókina og hóf lesturinn leist mér ekki á blikuna í fyrstu. Bókin hefst á stuttri, upphafinni senu úr neðanjarðarlest. Ungur maður fylgist með karli og konu sem eru bæði ljóshærð, eins og ítrekað kemur fram á þeim tæpu tveimur síðum sem kaflinn spannar, og raska ró „þeldökks manns“ í lestinni. Tvisvar á sömu síðu kemur fram að ungi maðurinn „fylgdist af áhuga með andstæðunum úr norðri og suðri“ og önnur dæmigerð setning úr kaflanum er: „Þeldökki maðurinn leit aldrei á ljóshærðu konuna við hlið sér.“

Þessi stíll fannst mér ekki aðlaðandi og upphafið á fyrsta eiginlega bókarkaflanum, stök setning og síðan greinarskil á undan þeirri næstu þótt hún sé í raun beint framhald af þeirri fyrri, gerði mig ekki jákvæðari (ýmsir fleiri kaflar í bókinni byrja á sama hátt):
Trén höfðu fikrað sig nær húsinu.
     Leitað hlýjunnar í kuldanum. Sum þeirra teygt greinar sínar upp á veröndina, skriðmispillinn ágengastur, hafði mjakað sér áfram eins og snákur í myrkrinu ...
Ég sé engan tilgang með svona greinaskilum annan en tilgerð. Eftir þessa byrjunarörðugleika batnaði ástandið þó mikið og það sem eftir var bókarinnar reyndist textinn oftast kjarnmikill og skemmtilegur aflestrar. Þó birtust öðru hverju heldur væmnar klausur fyrir minn smekk. Sennilega er tilfellið að bókarkápan sé býsna lýsandi fyrir innihaldið.

25. nóvember 2012

Siglt um síki minnis og gleymsku

Siglingin um síkin eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er skáldsaga um minni og gleymsku. Hún vinnur með allskyns hugmyndir um það hvað við munum og hverju við gleymum - og kannski ekki síður hvernig við munum og gleymum og hvaða aðferðir við notum til þess að komast í burtu og gleyma. Sagan er uppfull af þverstæðum og hliðstæðum og lesandinn ferðast með Gyðu, aðalsöguhetjunni, um síki minnisins, en á meðan á því ferðalagi stendur dregur hún upp úr gruggugu vatninu minningabrot og teygir sig inn í þokuloft hugans til að leita skýringa á því afhverju einhverjir atburðir gerðust á ákveðinn hátt og hversvegna hún er stödd í þeim aðstæðum sem hún virðist vera föst í.

Gyða er orðin gömul, maður veit ekki alveg hversu gömul, en nægilega til að hún á fullorðin börn, látinn eiginmann og er af orsökum sem ekki er alveg kunnar í byrjun bókar, flutt inn í borðstofuna hjá Sölva syni sínum. Hún telur að þarna eigi hún að vera tímabundið meðan Sölvi vinni í því að selja einbýlishúsið hennar og kaupa fyrir hana íbúð af heppilegri stærð. Það kemur hinsvegar fljótlega í ljós að ekki er allt sem skyldi. Gyða er augljóslega ekki alveg áttuð á því hvað er að gerast, einhverskonar veikindi eru í spilunum en henni líður líkt og hún sé höfð í stofufangelsi.

24. nóvember 2012

Um ævisögu Freddie Mercury. Við söknum þín.

Í dag eru liðin nákvæmlega tuttugu og eitt ár síðan Freddie Mercury, sá frábæri listamaður, kvaddi þennan heim. Af því tilefni langar mig að skrifa örlítið um ævisögu hans eftir Lesley-Ann Jones, sem kom út í kilju fyrr á þessu ári.

Áður en ég byrja umfjöllunina er líklega best að ég geri grein fyrir því hvar ég stend, hvað Freddie (já, ég kalla hann Freddie) varðar. Fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan sá ég heimildarmynd um hann á RIFF. Þar áður þekkti ég auðvitað Queen og Freddie Mercury, þótt hann hafi dáið rétt fyrir fimm ára afmælisdaginn minn. En þegar ég sá þessa mynd þá varð ég gjörsamlega heltekin af honum, það er erfitt að útskýra hvers vegna (þótt ég geti reyndar velt vöngum yfir því tímunum saman með ykkur yfir bjór/kaffibolla, ef þið nennið að hlusta – ef svo er, sendið mér endilega tölvupóst). Ég held ég hafi upplifað í fyrsta sinn hvernig obsessívum, einlæglega hrifnum og vandræðalega berskjölduðum aðdáanda líður. Það var einmitt það sem truflaði mig fyrst, hvað það er lítið töff að vera svona heillaður af einhverjum. Auðvitað komst ég mjög fljótt að því að við erum ótalmörg þarna úti, fólk með Freddie fever (þótt við séum mögulega færri þessa dagana en þeir sem eru sjúkir í Bieber). Þetta er langt frá því frumlegt, en samt er þetta svo persónulegt. Og ég get bara ekki hætt að deila hrifningu minni með öðrum, enda hef ég eytt drjúgum hluta frítíma míns undanfarnar vikur í að (mynda)gúgla Freddie, horfa á tónlistarmyndbönd og viðtöl á youtube, lesa umræðuþræði um hann og… svo keypti ég ævisöguna hans.

22. nóvember 2012

Merkingarþrungnar tinnuflísar og gjall

Ég flissaði dálítið yfir þeirri yfirlýsingu á bakkápu Vínlandsdagbókar Kristjáns Eldjárn að hún hefði ekki verið gefin út fyrr en núna í haust vegna þess að Kristjáni hafi þótt efnið „viðkvæmt og hæfilegt að bíða í 50 ár“ – halló, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. En þótt þorri lesenda myndi sennilega ekki lýsa þessari fimmtíu ára gömlu dagbók þjóðminjavarðar frá fornleifauppgreftri á Nýfundnalandi sem æsilegri afhjúpun hættulegra leyndarmála er hún samt ansi áhugaverð og fjallar, eins og Adolf Friðriksson talar um í eftirmála, ekki síst um það hvernig vísindaleg þekking verður til og þá pólitísku og persónulegu togstreitu sem þar kemur gjarnan við sögu.

Dagbókin er skrifuð á mánaðartímabili sumarið 1962, en þá hélt Kristján Eldjárn ásamt þremur öðrum íslenskum vísindamönnum til L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi til að taka þátt í uppgreftri með norska ævintýramanninum Helge Ingstad og konu hans, fornleifafræðingnum Anne Stine Ingstad, en þau töldu sig hafa fundið þar minjar norrænna manna – og ekki bara einhverjar minjar heldur sjálft Vínland hið góða. Það hafði komið Helge Ingstad á óvart þegar hann heimsótti staðinn fyrst „hve vel allir staðhættir féllu að frásögninni um komu Leifs heppna til Ameríku“, segir Adolf Friðriksson.

Í eftirmála Adolfs er saga kenninga um norræna arfleifð í Norður-Ameríku rakin og sú víkingarómantík og þjóðernissköpun sem þar lá oft að baki. Það skiptir máli hver á sína arfleifð og sinn uppruna hvar. Mikil togstreita ríkti til að mynda milli Norðmanna og Dana í „kapphlaupinu um fund Vínlands“ og Helge Ingstad (sem hafði átt vægast sagt skrautlegan feril og meðal annars verið settur yfir skammlífa nýlendu kennda við Eirík rauða sem hinn alræmdi Vidkun Quisling stofnaði á Grænlandi um 1930) átti í harðvítugum deilum við danska fornleifafræðinga (og reyndar fleiri) um mikilvægi fundarins í L´Anse aux Meadows.

21. nóvember 2012

Menn og blóð

Um þessar mundir eru ofarlega í huga okkar margra blóðsúthellingar í Palestínu þar sem fólk sem ekkert hefur til saka unnið annað en að fæðast á röngum stað á röngum tíma er látið gjalda með lífi sínu. Allt snýst þetta um yfirráð yfir landsvæðum og að öllum sé ljóst hver það er sem valdið hefur. Einhvern veginn finnst mér það eiga vel við að hafa rétt lokið við að lesa Vígroða eftir Vilborgu Davíðsdóttur þar sem segir frá keimlíkri hegðun forfeðra okkar. Þeir fara þar um Bretlandseyjar með hrottaskap og yfirgangi, höggvandi og brennandi. Þar er líka barist um yfirráð yfir landsvæðum og fólk er kúgað til undirgefni með ofbeldi. Engar höfðu þeir sprengjurnar en ekki vantar þó blóðtaumana og maður getur ekki annað en leitt hugann að því hversu meingölluð dýrategund mannskepnan er.

20. nóvember 2012

Bókmenntir, brúður og leikhús

Þetta var einhverra hluta vegna fyrsta myndaniðurstaða
þegar ég gúglaði jólabókaflóðið.
Jólabókaflóðið lætur ekki að sér hæða. Ég reyni mitt besta til að fylgjast með úr finnskri fjarlægð, og í það minnsta er internetið morandi í útgáfufögnuðum, kápumyndum, bókadómum og sölutölum. Hérna megin hafs teygir flóðið sig auðvitað líka hvað lengst uppá land fyrir jólin; finnskar bækur, þýddar, barna- og allskonar. Undanfarið hef ég sankað að mér þýddum bókum í vaxandi mæli ‒ verandi hvort sem er ólæs á annað en norræn mál og ensku datt mér í hug að ég gæti sem best lesið franskar, þýskar eða rússneskar bókmenntir í finnskum þýðingum og æft þá finnskuna mína í leiðinni.

Um daginn var ég til dæmis að skoða nýja finnskuþýðingu á þremur leikritum eftir Federico García Lorca, en þetta var einmitt um sama leyti og við kórinn minn vorum að æfa kórverk með texta úr ljóði eftir þann sama Lorca. Síðastliðna helgi sá ég síðan brot úr finnskri uppsetningu á brúðuleikhúsverkinu Retablillo de Don Cristóbal, eftir hvern annan en hinn spænska Federico del Sagrado Corazón de Jesús García Lorca, og flaug þá í hug að alheimurinn væri hugsanlega að reyna að segja mér eitthvað með milligöngu skapbráðu, fjólubláu feltbrúðunnar sem svo þróttmikil sló sambrúður sínar eina af annarri í trékylft rot.

19. nóvember 2012

Ólíver - handa öllum sem eru svolítið sérstakir

Forlagið gaf út fyrir skemmstu barnabókina Ólíver eftir Birgittu Sif. Bókin kom fyrst út í Bretlandi á vegum Walker Books Ltd. og hefur að því er virðist fengið lofsamlega dóma þar sem ætti nú sannarlega að ýta undir söluna hér þar sem Íslendingar eru jú alltaf spenntir fyrir upphefð sem kemur að utan.

En Ólíver er reyndar mjög vel allri upphefð komin. Þetta er einföld saga um lítinn strák sem er sér á báti og mikið einn. Hann er þó ekki óhamingjusamur í einveru sinni – hann á vini, tuskudýr sem hann lendir í spennandi ævintýrum með. En dag einn bregður svo við að gömlu vinirnir nægja honum ekki lengur. Hann leggur svo uppí langferð að leita að tennisbolta og leiðir sú ferð hann til Ólavíu – lítillar stúlku sem einnig er dálítið sér á báti og þau geta því verið sér á báti saman.


9. nóvember 2012

Saga föður

Nýlega las ég bókina Að endingu eftir Julian Barnes, skáldsögu sem býður upp á vangaveltur um minningar. Þar neyðist eldri maður, Tony, til að rifja upp atburði sem gerðust þegar hann var um tvítugt og hann veltir því fyrir sér hvort hann muni í raun allt sem átti sér stað, hann reynir að lesa í hegðun fólks sem sagði eða gerði eitthvað einhvern tíma fyrir löngu, túlkar það sem gerðist og veltir fyrir sér hvaða minningar séu hugsanlega uppspuni og hver raunveruleikinn sé. Eftir lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Tony dragi virkilega réttar ályktanir, hvort hann sé kannski að fegra eigin gjörðir og hvað hafi í raun átt sér stað.

Það fór vel á því að lesa nýja sögu Úlfars Þormóðssonar, Boxarann, rétt á eftir verðlaunabók Julian Barnes. Þær eru nefnilega hliðstæðar að því leyti að óljós fortíð er rifjuð upp og í báðum bókum má finna launbörn og vangaveltur um atburði sem eru þannig að síður en svo er augljóst hvort þeir hafi í raun gerst eins og flestir virðast halda, eins og sagt er frá þeim, já eða hvort menn rámi í eitthvað sem í raun gerðist einhvern veginn allt öðruvísi en talið er.

Í bók Úlfars er rifjað upp lífshlaup látins föður sem var rótlaus og margbrotinn maður sem sagði aldrei mikið frá sjálfum sér og nánustu ættingjum sínum, suma minntist hann bókstaflega aldrei á eða að hann hliðraði augljóslega atburðum. Púslað er upp í myndina með uppflettingum í ýmsar heimildir, sögusagnir eru rifjaðar upp og myndir skoðaðar. Undirtitill bókarinnar er „Saga“ - orð sem bendir til þess að höfundurinn telji sig ekki endilega vera að segja blákaldan sannleikann. Sannleiksleit er líklega nothæft hugtak; þarna er maður sem leitar sannleikans um föður sinn. Á þessari síðu hefur áður verið skrifað um sænskar pabbabækur en dánir og drykkfelldir feður  eru viðfangsefni þeirrar bókmenntagreinar. Nú sýnist mér sem þessi grein bókmenntanna sé komin til Íslands, Boxara Úlfars mætti vel flokka með pabbabókmenntum.

Á listasafninu

Út er komið þriðja bindi safnaritsafns Sigrúnar Eldjárn, Listasafnið. Hin tvö bindin heita Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið og komu út í fyrra og hittifyrra. Ég hef ekki lesið þau, var kannski ekki með barn á réttum aldri (eða taldi mig ekki vera það), en ég las Listasafnið fyrr í vikunni með dóttur minni sem er að verða 8 ára. Skemmst er frá því að segja að við mæðgur vorum báðar hæstánægðar með bókina.

Aðalsöguhetjan heitir Rúnar og er alveg að verða 12 ára (á reyndar afmæli við lok bókar). Hann býr með föður sínum í safnahúsinu í þorpinu Ásgarði. Í safnahúsinu er rekið bæði náttúrugripasafn og forngripasafn og þegar bókin hefst er verið að undirbúa þar opnun listasafns. Bestu vinir Rúnars búa í næsta húsi, systkinin Magga og Lilli. Úr þessu er svo spunninn skemmtilegur og spennandi söguþráður þar sem alls konar sérvitringar og furðuverur koma fyrir: draugar, dvergar, listaverkaþjófur, sérvitrir listamenn, dreki og reiðir þorpsbúar. Mamma Rúnars, myndlistarkonan Þispa, kemur frá Ameríku til að aðstoða við uppsetningu listasafnsins, ágreiningur verður um fyrirkomulag safnsins og fleira, ýmsir lenda í lífsháska og allt fer auðvitað vel að lokum.

Dætur Juárez

Reglulega berst fréttir af morðum og grimmilegu ofbeldi frá Mexíkó. Glæpahringir eru sagðir halda heilu landshlutunum í gíslingu og mikil spilling grasserar innan lögreglunnar. Síðustu mánuði hefur hafnarborgin Veracruz verið í kastljósinu vegna fjölda morða sem flest virðast tengjast baráttu eiturlyfjasala um völd og áhrif. Í mörgum tilfellum virðist um hreinar fjöldaaftökur að ræða og líkum hefur verið komið fyrir í haugum á opinerum stöðum um hábjartan dag, að því er virðst öðrum til varnaðar. Það er ekki langt síðan Veracruz taldist vera mjög friðsæl á mælikvarða Mexíkóbúa, raunar hefur hún verið ferðamannaparadís í áratugi og íbúar að stórum hluta haft lifibrauð sitt af þeim iðnaði sem nú hefur skroppið saman í nánast ekki neitt vegna ástandsins.

Það voru fréttirnar frá Veracruz sem fengu mig til að hugsa til stúlknamorðanna í Juárez sem ég hef ekki heyrt fjallað um í töluverðan tíma og tel ég mig þó vera nokkuð tryggan lesanda heimsfréttanna. Mig minnir að það hafi verið í þáttum Eiríks Guðmundssonar um rithöfundinn Roberto Bolaño sem fluttir voru um páska fyrir nokkrum árum, sem ég heyrði fyrst fjallað skipulega um þessa hryllilegu atburði, en Bolaño notaði stúlknamorðin sem efnivið í skáldsögu sína 2666. Ég hef ekki enn lesið skáldsögu Bolaño en fór á bókasafnið til að leita mér að einhverju efni um Juárez og fann ágæta bók sem nefnist The Daughters of Juárez og er eftir þrjár bandarískar blaðakonur (Rodriguez, Montané og Pulitzer).

Það var árið 1993 sem fyrstu líkin byrjuðu að finnst í útjaðri borgarinnar Juárez sem staðsett er rétt við bandarísku landamærin. Nær undantekningalaust var um að ræða ungar stúlkur, vart af barnsaldri, sem áttu það sameiginlegt að vera af fátæku fólki og unnu þær oftar en ekki fyrir sér í einhverjum af þeim fjöldamörgu verksmiðjum sem spruttu upp í borginni á tíunda áratugnum. Margar þeirra stunduðu nám meðfram slítandi verksmiðjuvinnunni – flestar voru þær afskaplega fríðar og smágerðar. Oftast voru þær á aldrinum 15-20 ára, en lík af stúlkum allt niður í 9 ára hafa fundist.

8. nóvember 2012

Þegar sólin fer að skína / fylla strákar vasa sína / af plómum sem þeir tína

Albert nútímans
Gamlan vin minn er að finna í hinu alræmda jólabókaflóði (fyrirgefið að ég skuli nota þetta óþolandi orð, ég skal aldrei gera það aftur). Það er strákpjakkurinn Albert frá Kallabæ sem Ole Lund Kierkegaard skrifaði um árið 1968 og kom út í íslenskri þýðingu Þorvaldar Kristinssonar röskum áratug síðar. Albert hefur lengi verið ófáanlegur hér á landi - ég held að bókin hafi ekki verið fáanleg úr bókabúð þegar ég var sjálf lítil enda var hún ein fárra skáldsagna Ole Lund sem ekki voru til á mínu heimili. Þar kom Sólheimasafn þó sterkt til sögunnar og Albert var margoft ein þeirra sagna sem bókhneigð lítil stúlka með gleraugu hlóð upp á afgreiðsluborðið. Ég tók þessum gamla kunningja því fagnandi þegar JPV endurútgaf hann á dögunum.

Það er alltaf dálítið hættulegt að lesa aftur bækur sem voru í miklu uppáhaldi á árum áður. Samkvæmt minni reynslu stendur þó Ole Lund Kierkegaard enn fyrir sínu og vekur sömu kátínuna og þegar ég kynntist honum fyrst, sirkabát 1985. Ég hef ennþá innilega gaman af að lesa um Hodja frá Pjort á töfrateppinu, þjófinn á hlaupahjólinu í Fróða og öllum hinum grislingunum ("hnekk hnekk!"), Fúsa froskagleypi, Pésa grallaraspóa og Manga vin hans, Kalla kúluhatt og Virgil litla (hvern langar ekki í "inneign í sjóði"?). Bækurnar hans Ole Lund eru fyndnar, ófyrirleitnar og hlýjar; persónugalleríið er sérlega eftirminnilegt og söguheimurinn lýtur sínum eigin lögmálum.

Strandir Gerðar

Nýr gestabloggari lætur á sér kræla: Vera Knútsdóttir bókmenntafræðingur skrifar hér um Strandir eftir Gerði Kristnýju.
Ég held að ég hafi verið um fjórtán ára þegar ég bað um smásagnasafnið Eitruð epli eftir Gerði Kristnýju í jólagjöf frá foreldrum mínum. Ég þekkti ekki höfundinn en fannst eitthvað mjög spennandi við titilinn og myndina af höfundi sem fylgdi auglýsingu bókarinnar í Bókatíðindum það árið. Og ekki brást yfirborðsmennskan í sjálfri mér, því eitruðu eplin smökkuðust vel og ég las sögurnar aftur og aftur. Hversdagslegur tónn, en í senn hnyttinn, kaldhæðinn, ásamt svörtum húmor sem ólgaði undir yfirborði textans og skaust upp af og til, heillaði unglingahjartað. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Gerður Kristný orðið margverðlaunað skáld og margþýtt. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabók sína Blóðhófnir árið 2010 og ég man eftir viðtali við hana (eða kannski var það bara status á feisbók) þar sem hún hafði fengið í hendurnar nýjustu þýðinguna á ljóðum sínum og letrið minnti hana helst á „þvott á snúru“ sem er reyndar mjög góð lýsing á tælenskum stöfum. Þá þykist ég vera löngu hætt að velja bækur eftir ljósmyndum höfunda á bókakápum, eða við skulum að minnsta kosti vona það – myndi sennilega aldrei koma til með að lesa menn eins og Sartre eða Flaubert ef sá væri hátturinn. Gerður hefur einnig látið að sér kveða í skrifum fyrir börn og hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir unglingasöguna Garðurinn árið 2010.

7. nóvember 2012

Ljóðabók um okkur og allt

Ljóðabókin Á milli okkar allt er fyrsta bók Heiðrúnar Ólafsdóttur. Höfundur stundar meistaranám í ritlist og hlaut nýræktarstyrk bókmenntasjóðs fyrr á þessu ári fyrir handritið, en í viðtali við stúdent.is kemur fram að ljóðin í bókinni hafi orðið til á tíu ára tímabili.


Bókartitillinn kemur ansi bókstaflega fram í titlum hlutanna þriggja sem hún skiptist í; heitir sá fyrsti „Ég“, annar „Allt“ og þriðji „Þú“. Í takt við þessar yfirskriftir er áherslan þannig einkum á fyrstu persónu, eða ljóðmælanda sjálfum í fyrsta hluta bókarinnar og í þriðja hluta á þeim sem ljóðmælandinn ávarpar. Ég-ið og þú-ið skarast þó auðvitað og óhjákvæmilega, því eins og bókartitillinn undirstrikar samfléttast þau í fleirtölunni, „okkur“ (og auðvitað ekkert sem segir að ljóðmælendur almennt geti ekki ávarpað sjálfa sig í annarri persónu einnig eða eingöngu, ef út í það er farið). Kaflaskil eru þó skörp að því leyti að í miðjukaflanum „Öllu“ eru ljóðin almennara eðlis; frekar í ætt við yfirvegaðar athuganir en innhverfa sjálfskoðun, með umheiminn og hversdaginn til umfjöllunar. Ef til vill má líta á þann kafla sem hvíld frá þesskonar tilfinningaálagi og naflaskoðun sem „við“-pælingar eiga til að hafa í för með sér, og sem eru nokkuð gegnumgangandi í upphafs- og lokahlutunum með tilheyrandi óþreyju og ófullnægju á stundum. Þó er slík stemning ekki alls fjarri í miðhlutanum heldur – því ef „allt“ er einfaldlega allt það sem ekki kemur elskendunum sjálfum beint við, þá hlýtur það að samanstanda af öllum aukaatriðunum og óþarfanum allt um kring og á milli þeirra, öllu því sem elskendurnir hefðu kannski gjarnan kosið að fá frið fyrir. Hvað sem öðru líður finnst mér bókartitillinn ansi góður og kaflaskiptingin virka ágætlega sem slík.

6. nóvember 2012

Að lúxusvæða lestur

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég pistil um tímaritamarkaðinn hér í Svíþjóð og Skriva, nýlegt blað fyrir fólk sem hefur áhuga á að skrifa og langar að vera lesið. En kaupin gerast hratt bæði á eyrinni og í Pressbyrån og frá þeirri bloggfærslu hefur að minnsta kosti tvennt markvert gerst á þessu sviði. Annars vegar taldi ég nýlega heil 22 tattútímarit í bestu blaðsölu bæjarins og hins vegar hefur nýtt rit helgað bókmenntum, Books & Dreams, hafið göngu sína.

Á meðan Skriva er ætlað fólki sem hefur áhuga á að skrifa sjálft bókmenntir er þetta nýja blað helgað þeim sem vilja lesa þær. Í þessu fyrsta hefti kennir ýmissa grasa. Á forsíðunni eru þrír þekktir einstaklingar sem eru allir að gefa út endurminningabók nú í haust og viðtöl við hvern og einn þeirra er að finna inni í blaðinu. Það er líka rætt við bandaríska spennuhöfundinn Harlan Coben og breska femínistann Caitlin Moran, glæpasagnahöfundurinn Mons Kallentoft segir frá sínum uppáhaldsstöðum í Tælandi og enn einn rithöfundurinn, Emma Hamberg, leiðir lesendur inn í lestrarhornið sitt. Af föstum liðum blaðsins má nefna pistil eftir leikarann Michael Nykvist (sem meðal annars lék Mikael Blomkvist í sænsku myndunum sem gerðar voru eftir bókum Stieg Larssons) og smásögu blaðsins sem í þessu fyrsta hefti er eftir Jens Lapidus sem gjarnan kennir sig við bókmenntagreinina Stockholm noir. Inn á milli er svo það áhugaverðasta á bókamarkaðnum þetta haustið kynnt, sumt með örstuttum umfjöllunum þar sem greint er frá efni bókarinnar í einum eða tveimur setningum, annað í aðeins lengra máli.

Blaðið er allt hið vandaðasta, fallega upp sett og vel myndskreytt, brotið í sambærilegri stærð og harðspjaldabók af stærri gerðinni og fer því vel með bókunum sem það fjallar um. En einhvers staðar þar lýkur kostum blaðsins og gallarnir taka við. Því þótt viðtölin og greinarnar séu alveg áhugaverðar í sjálfu sér þá drukkna þær í yfirborðs- og markaðsmennskunni sem einkennir Books & Dreams. Svo kallaðar „kundtidningar“ hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu hér í Svíþjóð. Þetta eru tímarit sem hin og þessi fyrirtæki gefa út um eigin starfsemi og láta viðskiptavinum sínum í té ókeypis. Þrátt fyrir að vinnan við þau sé oft mjög metnaðarfull eru þau auðvitað lítið annað en auglýsingar í glansumbúðum. Books & Dreams er ekki skilgreint sem slíkt heldur selt á opnum markaði en það er hins vegar gefið út af Bonnierförlagen og undir merkjum þess eru jafnframt ýmis bókaforlög svo hagsmunatengslin eru augljós. Ég fæ ekki betur séð en að það sé fjallað um bækur fá fleiri forlögum en þeim sem standa beint og óbeint að tímaritinu en gildi þess sem markaðsafl fyrir útgefandann er engu að síður óumdeilt.

5. nóvember 2012

Börn og menning, nýtt hefti

Við bendum lesendum okkar á að hausthefti Barna og menningar er nú komið út en blaðið er í þetta sinn mikið bóka- og lestrarblað. Í því má finna greinar um nýjar og nýlegar bækur eins og grein Ernu Erlingsdóttur um hinn gífurlega vinsæla bókaflokk Hungurleikana og gagnrýni Hjörvars Péturssonar um glænýja bók Þórdísar Gísladóttur, Randalín og Mundi. Í blaðinu er einnig að finna skemmtilegt viðtal við einn þekktasta myndabókahöfund Evrópu, Juttu Bauer. Jutta var á landinu í boði Mýrarhátíðarinnar og ræddi Helga Ferdinandsdóttir við hana um um ferilinn, myndabækur og listina. Brynhildur Þórarinsdóttir fjallar í blaðinu um það sem hefur áorkast á fyrstu mánuðunum í starfsemi Barnabókaseturs á Akureyri og Sölvi Björn Sigurðsson veltir vöngum um barnabækur og fortíðarþrá.

Ritstjóri Barna og menningar er Helga Ferdinandsdóttir druslubókadama.

Tímaritið Börn og menning er gefið út af IBBY-samtökunum á Íslandi tvisvar á ári. Hægt er að gerast félagi í samtökunum og jafnframt áskrifandi að blaðinu á www.ibby.is eða með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.



4. nóvember 2012

Múffumaraþonið: úrslit

Áhugi minn á matreiðslubókum getur líklega talist svona í meðallagi. Mér finnst oft gaman að fletta matreiðslubókum en svo er ég ekki nærri nógu dugleg að prófa uppskriftirnar úr þeim. Oft fletti ég matreiðslubók og finn fjölmargar uppskriftir sem mig langar að prófa en svo steingleymi ég því og aldrei verður af þeirri prófun. Kannski er ég ekki nógu áhugasöm um matreiðslu til þess. Auðvitað elda ég (eitthvað þarf maður víst að borða) og mér finnst oft gaman að prófa mig áfram í eldhúsinu en það er bara svo margt annað sem ég hef áhuga á og ég er ekki einn af þessum stórkostlega duglegu gúrmekokkum. Eiginlega hef ég meiri áhuga á bakstri en eldamennsku og því fannst mér upplagt að prófa nýju bókina hennar Nönnu Rögnvaldardóttur, Múffur í hvert mál. Ég á reyndar aðra bók frá Nönnu, Matinn hennar Nönnu, og hef notað hana talsvert.

Randalín og Mundi - útgáfugleði 6. nóvember

Nokkrar okkar sem skrifa á þessa síðu eiga bækur í jólabókaflóðinu í ár, ýmist frumsamdar eða þýddar. Sú fyrsta þessara bóka sem nefnd verður hér á Druslubókum og doðröntum kom út í síðustu viku, en það er Randalín og Mundi, barnabók eftir Þórdísi Gísladóttur. Bókin fjallar um tvo hressa 9 ára krakka og hún er myndlýst af Þórarni Má Baldurssyni.

Um bókina segir rýnir glænýs eintaks tímaritsins Barna og menningar meðal annars: „Randalín og Mundi er skrifuð í léttum, kersknisfullum og allt að því kæruleysislegum stíl sem minnir á köflum á prakkarabækur Ole Lund Kirkegaard og vekur þá tilfinningu með lesandanum að hvað sem er geti átt eftir að gerast.“ 


Útgáfu Randalínar og Munda verður fagnað í Eymundsson í Austurstrætinu þriðjudaginn 6. nóvember klukkan 17. Þá tekur Þórdís á móti vinum, vandamönnum, eftirvæntingarfullum lesendum og hreinlega öllum sem vilja koma, les kafla úr bókinni, áritar eintök fyrir þá sem það vilja (bókin verður á tilboðsverði) og boðið verður upp á piparkökur og létta drykki. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!


Einmana sálir í ljótfallegri borg

Fyrir tæpum sex árum síðan kom út í Bretlandi fyrsta bók höfundarins Catherine O'Flynn, What Was Lost. Bókin kom út hjá litlu forlagi í Birmingham - O'Flynn hafði gengið á milli umboðsmanna og forlaga með handritið sitt áður en þau hjá Tindal Street Press tóku hana upp á arma sína. Það er skemmst frá því að segja að skáldsaga þessi var óvænti smellurinn í bresku bókmenntalífi árið 2007; O'Flynn hreppti verðlaun fyrir bestu frumraunina hjá Costa Book Awards og var tilnefnd til Booker-verðlaunanna sem og Orange-verðlaunanna, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur væntanlega ekki verið árennilegt fyrir höfundinn að fylgja þessum gríðarlega sökksess eftir, en rúmlega þremur árum eftir útkomu What Was Lost birtist önnur skáldsaga O'Flynn, The News Where You Are. Ég nældi mér í hana í Oxfam á Byres Road í Glasgow nú í haust (mæli með þeirri bókabúð fyrir þá sem koma til Glasgow og hafa gaman af second hand-bókabúðum með góðu úrvali) og las í kjölfarið What Was Lost, sem ég hafði gefið mömmu minni í jólagjöf fyrir mörgum árum og lengi ætlað að lesa sjálf.

 Ég ætla mér í rauninni ekki að skrifa eiginlega krítík um skáldsögurnar tvær eða lýsa söguþræðinum í löngu máli heldur langar mig að draga fram og íhuga einn af þeim vinklum sem mér þótti hvað áhugaverðastur þegar ég las þessar tvær bækur svona í einni bunu. Stuttlega samt um söguþráð beggja: What Was Lost gerist annars vegar árið 1984 og hins vegar árið 2003; sögusviðið er Birmingham og þá sérstaklega verslanamiðstöðin Green Oaks sem er nýrisin þegar sagan hefst. Við kynnumst Kate Meaney, tíu ára gamalli foreldralausri telpu sem eyðir frístundum sínum við spæjarastörf í verslanamiðstöðinni með aðstoð bókarinnar How to Be a Detective. Árið 2003 finnur Lisa sem er aðstoðarverslunarstjóri í steingeldri tónlistar- og myndbandakeðju velktan tuskuapa í grámóskulegu rangölunum sem teygja sig um miðstöðina alla. Öryggisvörðurinn Kurt sér lítilli telpu bregða fyrir í öryggismyndavélunum en grípur í tómt þegar hann reynir að finna barnið og koma því til hjálpar. Bókin fjallar um einmanaleika, um vítahringina sem fólk festist í gagnvart sjálfu sér og öðrum, um svör sem finnast ekki því réttu spurningarnar hafa ekki verið bornar upp. Mögnuð bók og persónusköpunin eftirminnileg; þrátt fyrir þung, jafnvel sár umfjöllunarefni er líka húmor í sögunni og persónurnar eru aldrei vonlaus fórnarlömb heldur er í kjarna textans sterkur vonarneisti og möguleiki á að þetta einmana fólk nái að mynda raunveruleg tengsl. Ég skil afar vel að þessi bók hafi vakið svona mikla athygli, og fæ eiginlega í magann fyrir hönd Catherine O'Flynn þegar ég hugsa um það hvernig henni gæti hafa liðið að senda frá sér aðra bók við allt aðrar aðstæður en í fyrra skiptið. The News Where You Are er hins vegar virkilega fín bók; hún hafði ekki jafn sterk áhrif á mig og What Was Lost enda er lagt upp með allt annan tón.

The News Where You Are er kómískari (á tragíkómískan máta þó) og ekki jafn stingandi sár, en hún er vel skrifuð og aftur þessi sanni strengur í persónunum. Í þetta sinn er aðalpersónan sjónvarpsfréttaþulur að nafni Frank Allcroft. Frank er rúmlega fertugur og hefur alltaf upplifað sig sem einhvers konar miðlungsmann; hann er í svæðisfréttunum á Midlands-svæðinu (þaðan kemur titill bókarinnar en þegar skipt er úr aðalfréttatíma yfir í svæðisfréttir í bresku sjónvarpi er gjarnan sagt: "And now, the news where you are") og býr rétt fyrir utan Birmingham en hefur sterka tengingu við borgina í gegnum föður sinn heitinn sem var einn af arkitektunum sem settu mark sitt á borgina upp úr miðri síðustu öld. Forveri Franks í starfi - vinsæll með eindæmum - lést þegar ekið var á hann við undarlegar aðstæður og Frank verður smám saman heltekinn af ráðgátunni um andlátið þrátt fyrir að enginn annar sjái neitt dularfullt við atvik þetta. Brotin raðast saman eitt af öðru og þótt Frank sé í öndvegi fáum við einnig að kynnast sjónarhorni hins látna kollega sem og einstæðings sem fannst látinn á bekk í almenningsgarði. Frank er nefnilega líka heltekinn af þeim sem deyja einir, þeim sem daga uppi án þess að það snerti nokkurn.

Hér má sjá borgarbókasafnið í Birmingham
sem hefur verið smekklega komið fyrir á þessu torgi
Sá rauði þráður sem öðru fremur tengir bækurnar tvær er borgarlandslagið - borgarlandslagið og firringin sem leggst yfir þegar byggingar eru ekki í tengslum við fólkið sem á að blása lífi í þær.

3. nóvember 2012

Leikari les Einar Ben, leikari deyr

Ein af þeim íslensku glæpasögum sem rak á fjörur lesenda í ár var Leikarinn, fyrsta bók Sólveigar Pálsdóttur, sem kom út í vor. Hún hefst á voveiflegu andláti stórleikarans Lárusar Þórarinssonar, sem hnígur niður á tökustað kvikmyndarinnar Sagan sem aldrei var sögð og bendir allt til þess að hafi verið eitrað fyrir honum (dauði Lárusar minnti mig á annað fórnarlamb norræns glæpasagnahöfundar, útvarpsþulinn sem dó í beinni útsendingu eftir að hafa verið byrluð blásýra í upphafinu á Gráum október eftir Jógvan Isaksen – eftirminnileg sena þar sem því er lýst hvernig gjörvöll Þórshöfn situr yfir soðinni ýsu og kartöflum og hlustar á þulinn kafna).

Við kynnumst samstarfsfólki Lárusar við kvikmyndina, einkum leikmunakonunni Öldu og sminkunni Brynju, og lögreglufólkinu sem rannsakar morðið á Lárusi; Guðgeiri, Andrési, Særósu og Guðrúnu. Eins og lög gera ráð fyrir eru þeir fleiri sem mæta hroðalegum örlögum í bókinni, ýmsar flækjur sem þarf að leysa og ekki allt sem sýnist.

Þetta er ekki illa gerð bók og oftast rennur hún ágætlega. Samtölin eru einna stirðust og snúast oft, eins og stundum vill verða í glæpasögum, á augljósan hátt um að koma upplýsingum á framfæri um plottið eða persónurnar. Persónur bókarinnar lifna almennt ekki nógu vel á síðunum, að illmenninu undanteknu. Þær eiga greinilega að vera einhverjar týpur og það er mjög undirstrikað: ef það á að koma því nógu rækilega til skila að feita stelpan sé óörugg sjálfa með sig (sem er nógu klisjukennt út af fyrir sig) verður hún að nefna holdafar sitt og útlit í öðru hverju orði, tvístíga og gjóta augunum í sífellu á grannan vöxt annarra kvenna. Þetta er svo sem ekkert nýtt í íslenskum glæpasögum, meira að segja hinn margkrýndi glæpasögukonungur Arnaldur Indriðason er yfirleitt með frekar flatt persónugallerí.

Styrkur bókarinnar finnst mér einkum liggja í byggingu hennar, sem er sniðuglega hugsuð, og hinn spennuþrungni hápunktur undir lokin er skemmtilega krípí og bíómyndalegur. Ég sé á netinu að menn eru búnir að tryggja sér kvikmyndaréttinn að bókinni, og ég held að með góðum leikurum og almennilegu handriti gæti bókin orðið ágætis spennumynd. Þótt einstakir brandarar séu stundum áreynslukenndir er hún heldur ekki laus við að vera fyndin, til dæmis er stemmningin í senunni sem Lárus er að leika í þegar hann deyr kunnugleg íslenskum bíóáhorfendum: hann á að súpa á kaffibolla, taka upp bók með ljóðum Einars Ben, horfa út um glugga og fara djúpri og hljómmikilli röddu hins íslenska stórleikara með ljóðlínur: „Þel getur snúist við atorð eitt, aðgát skal höfð í nærveru sálar“.

31. október 2012

Fátækt fólk

Kápumynd Haraldar Guðbergssonar
á frumútgáfunni  sem Mál og menning
gaf út 1976
Af hverju er Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson ekki skyldulesning í grunn- eða framhaldsskóla? Eftir lestur þessarar mögnuðu sögu Tryggva finnst mér helst til undarlegt að hana hafi ekki rekið á fjörur mínar fyrr. Ég er enginn sérfræðingur í sögu Íslands eða þeim bókmenntum sem nýta sagnaarfinn en þykir mikilvægt að viða að mér fróðleik til skilnings á rótunum. Þó svo að allsnægtir hafi ávallt verið til staðar þá þekkir maður gróflega sína sögu; sögu fátæka Íslands, vosbúðina, sjálfstæðið, klisjurnar og ekki klisjurnar. En núna held ég að ég hafi hreinlega aldrei haft lifandi skilning á aðstæðum fólks fyrir mína daga, Fátækt fólk fékk mig, á einhvern hátt, til þess að lifa vosbúðin, lifa þau örlög að dauðinn er alls staðar en fegurðin líka.

Tryggvi fæddist 82 árum áður en ég fæddist en mér líður eins og geimveru frammi fyrir því samfélagi sem hann fæddist í. Áttatíu og tvö ár. Kannski er ekki skrýtið að fólk hræðist að við séum búin að slíta ræturnar við gamla, fátæka Ísland í okkar gjörbreytta heimi. Enda fer fátæka fólkið hans Tryggva ekki hátt. En það ætti að gera það. Tryggvi nýtti sínar fábreyttu aðstæður til fulls og hann lifði. Hann kunni að lifa í endurtekningunni, að þekkja dalinn, fjöllin, hverja einustu hæð og hól, hvert veðurbrigði, hvað hundurinn var að meina, kindin eða hesturinn, hann sá hvernig dýrin hugsuðu. Næmnin fyrir fegurðinni er (náttúrulega) ólýsanleg. Lýsingarnar á Öxnadalnum, tíminn sem hann hafði og nýtti til að velta öllu fyrir sér og komast þannig í djúp tengsl við umhverfið. Þær fengu mig til þess að hugsa um mín eigin tengsl við umhverfið, okkar eigin væntingar, hvað við viljum, hvað þykir kúl. Ég hef komið til Kasmír, ég hef komið til Rómar og ég hef komið til Balí, plánetan er falleg. Það eru ótrúlegir hlutir alls staðar en því fleiri staði sem ég heimsæki, því fleiri fallegar evrópskar borgir, fallega skógardali, fallegar strendur, því meir myndast abstrakt mynd af fallegri evrópskri borg, fallegum skógardal, fallegri strönd í huga mér í stað hins einstaka staðar. Ég ólst líka upp í sveit. En ég hafði sjónvarpið, ég hafði bækurnar, bílinn, snjóþotuna, mér var alveg sama um hundinn, hugsuðu kindurnar? Ekkert af þessu hafði Tryggvi, vart til bók á heimilinu, hann notaði einungis hugann til þess að búa til töfraheiminn, hann talaði við fólk, dýr og jafnvel fjöllin. En það er ekki aðeins næmni Tryggva sem hreif mig heldur einnig réttlát reiðin og skilningur á fólki, góður vilji gagnvart fólki. Lýsingarnar á lífi foreldra hans á eyrinni, þegar faðir hans var veikur og móðirin með mörg börn að reyna að finna mat, hvernig dönsku kaupmennirnir lokuðu dyrunum, arðránið var algert og arðurinn fluttur til Kaupmannahafnar. Presturinn hjálpaði ekki heldur, heldur minnti móðurina á að dýrðina væri að finna í fokking næsta lífi!

27. október 2012

Vögguvísa: Reykjavíkursaga frá liðinni öld

Síðsumars á þessu ári var endurútgefin nóvellan Vögguvísa eftir Elías Mar, en hún kom fyrst út árið 1950. Bókaforlagið Lesstofan stendur fyrir útgáfu bókarinnar, sem er afskaplega áferðarfögur, með inngangsorðum og vönduðum eftirmála rituðum af aðstandendum Lesstofunnar sem eru þau Anna Lea Friðriksdóttir, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, Svavar Steinarr Guðmundsson, Þorsteinn Surmeli og Þórunn Kristjánsdóttir. Að auki fylgir lítil slangurorðabók aftast í bókinni, sem nýtist vel þegar maður rekst á háþróað slangur á borð við „salatfatið“ (löggubíll) og „ein á peysufötunum“ (brennivínsflaska). 

Vögguvísa fjallar um þrjá sólarhringa í lífi unglingsins Björns Sveinssonar, sem er jafnan kallaður Bambínó af félögum sínum. Bókin hefst á glæp sem Bambínó flækist í og svo fylgja lesendur honum um fremur skuggalegar götur Reykjavíkurborgar, sem hann arkar yfirleitt drukkinn eða þunnur, þangað til það er eins og hann geti ekki meir. Þótt hann hafi ýmislegt fyrir stafni, fari í partí og á billjarðstofur, þjónar bíóið afar miðlægu hlutverki í bókinni. Eins og fjallað er um í eftirmálanum, minnir bókin á kvikmynd. Þar er vísað í bókadóm Helga Sæmundssonar úr Alþýðublaðinu árið 1951, þar sem hann segir: „Hún er tæknilega byggð og hraðstreym, söguþráðurinn er órofinn frá upphafi til enda, og höfundurinn viðhefur hvorki vangaveltur né málalengingar, en það er blessunarleg nýbreytni á þessari öld kjaftháttarins.“ Maður upplifir verkið að vissu leyti eins og mynd – þegar maður hefur fest hugann við það líður það áfram á allt að því sjónrænan hátt og stundum verður maður var við tónlistina sem hljómar undir: „chi–baba, chi–baba“. Mér duttu aðallega í hug unglingamyndir sjötta áratugarins við lesturinn, ég sá fyrir mér að James Dean léki Bambinó þar sem hann gengur óöruggur og leitandi um í borgarumhverfinu, fullur löngunar eftir því að verða karlmaður – hvað svo sem það merkir. Í eftirmálanum er hins vegar bent á líkindin við rökkurmyndir (film noir), sem eru vissulega töluverð. Er ekki einhver til í að kvikmynda Vögguvísu, í rökkurmyndastíl?

Vögguvísa er í brennidepli á fyrstu Lestrarhátíð Bókmenntaborgarinnar, sem hefur staðið yfir núna í október. Á lestrarhátíð sameinast borgarbúar á öllum aldri „um að njóta þess að lesa eina tiltekna bók, ræða hana, uppgötva og vinna með útfrá öllum mögulegum sjónarhornum.“ Bókin er lesin víða nú í mánuðinum, meðal annars í skólnum og leshringjum, auk þess sem staðið er fyrir viðburðum tengdum bókinni, til dæmis verður Vögguvísuganga um miðborgina á miðvkudaginn næsta. Í dag verður hins vegar haldið málþing um verkið, það fer fram á Þjóðarbókhlöðunni klukkan eitt og við druslubókadömur mælum með því að þið mætið á svæðið og njótið.

26. október 2012

Af norrænu messuhaldi, menningartímaritum og tungumálapólitík

Ritstýrur sitja fyrir svörum: Charlotte Myrbråten frá Fett,
Anneli Carnelid frá Bang og Sara Eriksson frá Astra
Orðið bókamessa fannst mér hálfskrítið þegar ég heyrði það fyrst, vekjandi tengsl við einhverskonar tilbeiðslu eða helgisiði ‒ en ef að einhversstaðar eru aðstæður til tilbeiðslu á bókmenntum þá er það auðvitað einmitt á bókamessunum. Þær eru ekki bara gríðarstórir bókamarkaðir heldur einnig vettvangur allskonar pallborðsumræðna og viðtala og upplestra rithöfunda, útgefenda og annarra úr faginu. Bókaforlög og allskonar bókmenntatengd batterí og hagsmunasamtök eru með bása og ekki verra að oft er tækifærið notað til að setja upp matarmessu í sama húsnæði, svo þegar messugestir eru orðnir svangir og þreyttir í eyrum og athyglisgáfu má rölta yfir á matarsvæðið og smakka í nokkrum vel völdum básum.

Í ár var ég svo heppin að vera boðið á þýðendaseminar á bókamessunni í Gautaborg, sem er sú stærsta á Norðurlöndum. Þar var ýmislegt í gangi, yfirþyrmandi margt reyndar. Allt sem ég missti af væri út af fyrir sig upptalningarefni í minnst eina færslu (það sem kemur helst upp í hugann og mér fannst hljóma virkilega áhugavert var Gunilla Bergström, höfundur Einars Áskels, með erindið Hvem er pappa Åberg?)

23. október 2012

Matur að vestan

Í sumar kom út á þremur tungumálum (íslensku, ensku og þýsku) vegleg matreiðslubók, Boðið vestur, veisluföng úr náttúru Vestfjarða eftir Guðlaugu Jónsdóttur og Karl Kristján Ásgeirsson, með ljósmyndum Ágústs Atlasonar. Bókin er meira en matreiðslubók, hún er full af allskonar alþýðufróðleik, upplýsingum um Vestfirði, frásögnum af sérstökum hátíðum fyrir vestan og fróðleik um lifnaðarhætti og matarverkun fyrr og nú. Í formála segja höfundarnir að þau vilji ýta undir vakningu fyrir nauðsyn þess að viðhalda gömlum, svæðisbundnum matarhefðum sem ekki mega glatast. Einnig vilja þau hvetja fólk til að nýta það sem náttúran býður upp á og gera umheiminum ljóst að Vestfirðir séu svæði með stórbrotinni náttúru og góðu mannlífi sem eftirsóknarvert er að búa á og heimsækja.


Ég er búin að fletta og lesa kafla og kafla í Boðið vestur öðru hverju síðan í sumar og verð sífellt ánægðari með þessa bók. Hún er kaflaskipt eftir mánuðum og hefst á sólardaginn, 25. janúar og fyrsta uppskriftin er auðvitað að pönnukökum. Síðan er fetað áfram fram eftir ári, fjallað um sólþurrkun á saltfiski fyrr á tímum, léttsöltun dagsins í dag og gefnar uppskriftir að saltfiskréttum. Svo er þarna kafli um hákarl og harðfisk og þó að ég éti ekki hákarl nema tilneydd þá er náttúrulega óskaplega skemmtilegt að lesa laufléttan fróðleik um hákarlsverkun með tilvitnunum í Íslenska sjávarhætti og sömuleiðis um rækjuveiðar við Djúp, framleiðslu hnoðmörs og fleira áhugavert sem gaman að er að kunna skil á. Uppskriftirnar eru ýmist afskaplega nútímalegar (t.d. saltfiskþynnur með basil- og balsamolíu, silungstartar með hundasúrum, ofnbakaðar skarfabringur með döðlusósu og beikonfylltum kartöflum, marineraður steinbítur með teriyaki og núðlum með sætri chilisósu) eða gamlar (hveitikökur, vestfirsk fiskistappa, kleinur, rúgbrauð, plokkfiskur, kjötsúpa, aðalbláberjasulta) og svo eru líka í bókinni uppskriftir að hversdagsmat á borð við fiskibollur kryddaðar með lúxuskryddinu aromati, sem maður ætti auðvitað að elda mun oftar, svo fátt eitt sé talið.

18. október 2012

Hugguleg sænsk glæpaeyja

Steinblóð er þriðja bók svíans Johans Theorin sem þýdd hefur verið á íslensku. Hinar fyrri eru Hvarfið og Náttbál. Þessi bókaflokkur er óvenjulegur að því leyti að lesandinn fylgist ekki með ákveðnum spæjara/lögreglu/blaðamanni í gegnum bækurnar. Þess í stað er það staðsetningin sem bindur bækurnar saman. Lítil eyja undan ströndum Svíþjóðar, Öland, er sögusvið þeirra allra. Reyndar kemur gamall skipstjóri – Gerlof Davidson líka við sögu í bókunum, mismikið þó og er skemmtilegt að fylgjast með þróun þeirrar persónu. Í raun má segja að með hverri bók bætist nýtt púsl í myndina sem lesandinn gerir sér af eyjunni – t.d. er gömul steinnáma sem kom við sögu í fyrri bókum hér aftur sögusvið og smám saman fáum við að vita meira og meira um staðinn og íbúana í gegnum árin.

17. október 2012

Margaret Atwood: The Blind Assassin

„Tíu dögum eftir að stríðinu lauk keyrði Laura systir mín út af brú.“ Svona hefst The Blind Assassin eftir Margaret Atwood og fljótlega á eftir fylgir blaðafrétt um dauða Lauru árið 1945, þá formáli skáldsögunnar The Blind Assassin eftir Lauru Chase með útgáfuárið 1947 og inn á milli næstu kafla á eftir eru m.a blaðafréttir af andláti iðnjöfursins Richards E. Griffen 1947 og banaslysi Aimee dóttur hans árið 1975. Í dánarfregnunum er líka minnst á Iris Chase Griffin, systur Lauru, konu Richards og móður Aimee, sem var sú sem rifjaði upp dauða Lauru og viðbrögð sín við honum í upphafskaflanum. Um Iris hverfist síðan stór hluti bókarinnar.

Mér finnst oft skemmtilegt trikk þegar blaðafréttir og annað þykjustu-ekta-efni er notað í skáldsögum þannig að þetta lofaði strax góðu og ennþá meira spennandi var hversu margar spurningar vöknuðu strax í byrjun. Hvaða fólk er þetta sem minnst er á, af hverju kemur fram að dóttur Aimee hafi verið komið í fóstur hjá Winifred afasystur sinni en ekki ömmunni Iris, hvert er hlutverk skáldsögunnar í sögunni, hversu langt tímabil spannar frásögnin? Og þannig mætti lengi telja.

13. október 2012

Af sögu frjálshyggjunnar

Þegar ég var í framhaldsskóla fannst mér fátt leiðinlegra en saga. Mér fannst hún bara snúast um landamæradeilur og hanaslagi einhverra karla sem komu mér ekkert við; mér var eiginlega bara slétt sama hver hefði verið kóngur hvar og hvenær. Í fyrsta söguáfanganum mínum í MH lenti ég á kennara sem var fremur daufur og líflaus í framkomu, eins og hann væri ein af blaðsíðunum í kennslubókinni, og af því dró ég þá ályktun að sögukennarar væru vita gagnslaus fyrirbæri, sem og mæting í sögutíma. Ég tók því afganginn af framhaldsskólasögunni utanskóla og nám mitt í þeim þremur áföngum fól þá í sér að ég skrifaði tvær ritgerðir, aðra um uppkastið að sambandslögunum frá 1908 og hina um rússnesku byltinguna, og lestur undir lokapróf hvers áfanga, sem fram fór á síðustu stundu.

Ritgerðarefnið um Uppkastið var (kannski augljóslega) ekki eftir mínu höfði. Sem nemandi í svokölluðum P-áfanga (það hét svo þegar nemandi tók stök námskeið utanskóla) átti ég að hafa samband við umsjónarkennara viðkomandi námskeiðs, sem í þessu tilviki var maður sem þótt ekki skapgóður og ég var skíthrædd við hann og frestaði því að hafa samband við hann eins lengi og ég gat. Þegar ég kom loksins á fund hans mældi hann mig út og sagði geðvonskulega: „Af hverju talaðirðu ekki við mig fyrr?“ Ég stamaði einhverju upp úr mér og hann sagði þá, með sama fýlutóninum og áður: „Þú átt að skrifa ritgerð. Hún á að fjalla um Uppkastið.“ Svo skrifaði hann eitthvað á blað og rétti mér: „Þetta eru heimildirnar sem þú átt að nota.“ Ég er sannfærð um að hann hefur gagnvert valið það ritgerðarefni sem hann hefur talið ólíklegast að feimnisleg 17 ára stelpa gæti mögulega haft áhuga á. Ritgerðina skrifaði ég samviskusamlega og fékk held ég bara sómasamlega einkunn fyrir, en ekki get ég sagt að ég myndi þekkja þetta verk mitt aftur ef það ræki óvænt á fjörur mínar. Ritgerðarefnið um rússnesku byltinguna fékk ég að velja sjálf, hjá öðrum kennara síðar, og líklega fékk ég heldur meira út úr þeim skrifum. Sú ritgerð hefur sennilega verið sú fyrsta sem ég skrifaði á tölvu (svona er ég nú orðin gömul) og ég man að ég vandaði mig mikið við að búa til flotta forsíðu á hana. Af námsefninu sem ég las til prófs man ég sama og ekkert.

11. október 2012

Minna dót, meiri hamingja

Ein okkar druslubókadamanna flutti búferlum á dögunum. Hún þurfti ekki að flytja um langan veg en þetta var engu að síður ærið verkefni – ekki síst vegna allra þeirra bóka sem höfðu safnast á hennar hendur í gegnum árin. Ég fékk kvíðakast í hvert sinn sem ég sá nýjustu stöðuuppfærslur þessarar vinkonu minnar á facebook þar sem hún lýsti því hvernig hún sat í hrúgu af allskyns dóti sem hún var ekki viss um hvað ætti að gera við - svefnlaus og með harðsperrur í öllum útlimum. Að flytja er nefnilega eitt það versta sem ég veit. Það helgast líklega af því að ég hef haft þann leiða ávana í gegnum tíðina að sanka að mér allskyns dóti og drasli. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég þarf að fara í gegnum eigur mínar hvað leynist þar. Síðustu flutningar voru reyndar sérstaklega sársaukafullir þar sem ég þurfti að flytja milli landa og fara í gegnum alla búslóðina. Ýmislegt kom upp sem ég hefði betur verið löngu búin að losa mig við. Þetta átti ekki hvað síst við þegar kom að eldhúsinu. Ég komst til dæmis að því að ég átti þrjár hvítlaukspressur og tvær salatvindur og nota raunar slík tól afar sjaldan. Út úr skápunum ultu margir árgangar af jólakortum, gömul tímarit í stöflum og bækur á bækur ofan. Ég fyllti ótal poka af fötum sem ég hafði ekki gengið í í mörg ár, gaf DVD myndir sem ég horfði aldrei á og geisladiska sem ég hlustaði ekki á.
Nú þarf ég bráðum að flytja aftur og í ferðum mínum í bókabúðir síðustu vikur hef ég blaðað í gegnum nokkrar bækur sem gefa sig út fyrir að hjálpa þér að skipuleggja eigur þínar. Yfirleitt held ég nú að það sé ekki mikið á þessum bókum að græða, mér hefur sýnst að flestar þeirra reyni að hjálpa lesendum sínum að flokka og raða – segja þeim að laga til og komi með einhverjar tillögur að kerfum til að fella dótið inn í. Á dögunum rakst ég hinsvegar á eina bók í þessum anda sem vakti áhuga minn og ég greip hana með mér inn á kaffihús bókabúðarinnar. Hún ber titilinn The Joy of Less. A Minimalist Living Guide og er eftir konu að nafni Francine Jay. Ég sá strax að hún var annarar gerðar en flestar hinar bækurnar sem ég hafði kíkt á. Yfirlýst markmið hennar er einfaldlega að kenna fólki að eiga færri hluti – komast vel af með minna af öllu og ráðast þannig að rótum vandans. Á hverjum degi fáum við þau skilaboð að með því að eignast fleiri hluti muni okkur líða betur og mögulega færast nær hamingjutakmarkinu. Í huga Francine Jay er enginn vafi á því að þessu er einmitt öfugt farið – dótið íþyngir þér og skapar meiri vanlíðan. Við vinnum myrkanna á milli til þess að fylla híbýli okkar af hlutum sem hafa lítinn tilgang, másum eins og slefandi hamstrar á hjóli við að fylla tómið. Hugsið ykkur orkuna sem fer í að eigast og eiga einn hlut – við hugsum um að festa kaup á einhverju, lesum ótal umsagnir um hlutinn á netinu, leitum að besta verðinu, vinnum fyrir fjárútlátunum, keyrum í búðina til að versla hlutinn, finnum stað fyrir hann á heimilinu, lærum að nota hann og þrífa, sinnum viðhaldi, kaupum viðeigandi varahluti o.s.frv. Fyrirtækin selja okkur ekki bara hlutinn sjálfan heldur efni og tæki til þess að hugsa um hann – þvottaefni fyrir fötin, skóáburð fyrir skóna og tryggingar til að leita til ef svo illa færi að hlutunum yrði stolið. Lásasmiðir og öryggisfyrirtæki selja okkur vernd fyrir allt dótið okkar og sendibílstjórar hafa atvinnu af því að flytja það. Það er ekkert undarlegt þótt okkur líði stundum eins og dótið okkar eigi okkur en ekki við það. Fyrstu kaflar bókarinnar fara í það að leiða út þetta ástand fyrir lesendum – útskýra hvernig eigur okkar geta bundið okkur niður, hindrað okkur í því að nýta okkur ný tækifæri (t.d. starf í öðru landi) og sannfæra okkur um að þetta þurfi alls ekki að vera svona.

Nú álít ég mig alls ekki vera neinn sérstakan neysluþræl en það var engu að síður margt sem ég kannaðist við í lýsingum höfundar og sum ráð hennar gæti ég hugsanlega nýtt mér. Nokkur þeirra gætu þó virst of sársaukafull, t.d. það að leyfa ekki nýrri bók að koma inn á heimilið fyrr en þú losar þig við eina gamla. Í raun gengur heimspeki Francine Jay voða mikið út á það að losa sig við hluti, endurmeta gildi þeirra og leggja svolitinn tíma í það að hugsa um hvort hlutinn nýtist okkur eða ekki. Og ef hann gerir það ekki, eða við njótum hans ekki á neinn hátt, þá hefur hann ekki þegnrétt inn á heimilinu. Í bókinni er farið sérstaklega í hvert herbergi hússins og komið með tillögur að því sem hægt væri að losa sig við - áttu átta augnskugga en notar samt alltaf bara tvo? Losaðu þig þá við þessa sex sem þú notar aldrei.

Ég renndi í gegnum alla bókina á hundavaði en engu að síður held ég að mér hafi tekist að tileinka mér nokkur af ráðum minimalistans Francine Jay. Mögulega tekst mér að sýna það í verki á mínu næsta heimili.