18. desember 2012

Rithöfundur verður til

Þau sem heita Anna eða Jón eru sjálfsagt mjög vön því að sjá nafnið sitt í bókum. Sjálf hef ég hins vegar ekki átt því að venjast og ég var svolítið hikandi áður en ég hóf lesturinn á Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur þar sem aðalsögupersónan heitir Eyja, hafði áhyggjur af að ég myndi einhvern veginn tengja þetta of mikið við sjálfa mig. Þetta vandist þó furðuhratt og ég losnaði úr klóm sjálfhverfunnar.

Ósjálfrátt segir frá ungri konu á tímamótum og smám saman fáum við að kynnast því sem hefur mótað hana og því hvernig hlutirnir fara hjá henni mörgum árum síðar. Hún er rétt rúmlega tvítug, ráðvillt og óörugg og hefur náð að flækja sig í kolómögulegt hjónaband með manni sem er sífullur og tuttugu árum eldri, eins og hún hafi dottið inn í það fyrir hálfgerða tilviljun. Mamma hennar, amma og frænka róa að því öllum árum að koma henni út úr hjónabandinu en unga konan á í vandræðum með að finna út hvað hún vill sjálf, kannski af því að hún þarf að finna sjálfa sig í stað þess að hafa stöðugar áhyggjur af því hvað hún þurfi að gera fyrir aðra í kringum sig. Hún nýtur þess að skrifa og þráir það heitast að verða rithöfundur en bögglast þar með nóbelsverðlaunahöfundinn afa sinn og uppgjafahöfundinn mömmu sína í farteskinu. Víða í bókinni er að finna pælingar um hvötina til að skrifa, hlutverk rithöfundarins og því um líkt og margar af þeim eru mjög áhugaverðar. Mér finnst þó að enn meira hefði verið hægt að gera úr þeim og vinna meira með þær.

Ósjálfrátt er sjálfsævisöguleg og ég velti svolítið fyrir mér aðferðinni. Auður sneiðir mikið til hjá því að nefna persónurnar með nafni og notast við lýsingar í staðinn, eins og „stelpan með sjófuglsaugun“ og „skíðadrottningin að vestan“, þótt þessar tvær fái reyndar nöfn líka. Foreldra sína, ömmur og afa nefnir hún aldrei með nafni. Þau nöfn sem notuð eru virðast gjarnan byggð á hinum raunverulegu nöfnum raunverulegra persóna. Þannig heiti Auður sjálf, sem ég þykist vita að sé kölluð Auja, Eyja í bókinni, Gagga systir hennar verður Agga og svipað gildir um fleiri persónur. Ég geri ráð fyrir að Auður kjósi að breyta nöfnunum til að fá þó ekki væri nema svolitla fjarlægð, eða kannski til að hafa meira frelsi til að spinna og skálda svo hún þurfi ekki endilega að segja fullkomlega rétt frá öllum atburðum. Því þrátt fyrir að bókin sé byggð á raunverulegum atburðum og reynslu þá er hún þrátt fyrir allt skáldsaga en ekki bara æviminningar. Hvers vegna hún heldur nöfnunum samt sem áður svona líkum hinum eiginlegu nöfnum er mér ekki eins ljóst. Kannski er það til að fara ekki of langt frá sjálfsævisögunni. Það er að segja, að þrátt fyrir að hún vilji fá einhverja fjarlægð og frelsi til að skálda þá vilji hún samt sem áður ekki víkja of langt frá eigin reynslu.

Auður stekkur talsvert fram og til baka í tíma og tekst að gera það án þess að það verði einhver vandræði með að fylgja þræðinum, eins og stundum verður þegar síður tekst til. Um leið og við fylgjumst með skilnaðarferlinu hjá Eyju, Svíþjóðardvöl og fyrstu skrefunum á rithöfundarferlinum fáum við að vita meira um bakgrunninn og forsöguna með því að fara lengra aftur í tímann og eins fáum við að kynnast Eyju í framtíðinni. Með þessu kynnumst við persónunni og lífi hennar betur og við fáum af henni heilsteyptari mynd. Saman við frásögnina af innri baráttu Eyju fléttast svo frásagnir af ýmsum atburðum og átökum í lífi annarra. Snjóflóðið á Flateyri 1995 og sorgin eftir það gegnir stóru hlutverki í sögunni og einnig er sagt frá ýmsum erfiðleikum fjölskyldumeðlima innan heimilis sem utan. Þetta er þó ekki tóm sorgarsaga og húmorinn er aldrei langt undan. Til dæmis er frásögnin af dvöl Eyju hjá frænku sinni í Svíþjóð mikið til kómísk hrakfallasaga af sumarhúsaleigu og sumarbúðarekstri frænkunnar sem er fljótfær og skapmikil og á í tungumálaerfiðleikum þannig að alls konar vandræði og misskilningur hljótast af.

Frásögnin er mjög einlæg og persónuleg, höfundurinn leggur mikið undir og gefur mikið af sjálfri sér. Hún sýnir hvernig glíman við mann sjálfan og ýmsar takmarkanir sem oft eru sjálfskapaðar getur stundum orðið ein stærsta hindrunin á vegi manns. Auður segir þarna frá ýmsu miður fögru, bæði um sjálfa sig og aðra í fjölskyldu sinni, sem hefur sjálfsagt ekki verið auðvelt að leggja svona fram. Hún gerir það samt án nokkurrar umvöndunar og án þess að fella dóma. Við fáum að kynnast henni og fólkinu hennar með kostum þess og löstum og sjáum hvernig mæðgur, systur og ömmgur (er það ekki annars þarft orð yfir ömmu og kvenkyns barnabarn hennar?) rífa stundum hver aðra niður, til dæmis með sífelldum athugasemdum um holdafar eða efasemdarfræjum um rithæfileika, en leggja sig líka fram um að styðja hver aðra og styrkja. Þetta er frásögn af alvörumanneskjum af holdi og blóði. Sumir mannlegir gallar eru vissulega erfiðari viðureignar en aðrir en jafnvel þeir sem hafa þá eiga sér líka sína forsögu, sýna stundum á sér góðar hliðar og voru einu sinni lítil og saklaus börn. Manneskjurnar með breyskleika sína eru sýndar bæði án ásökunar og án afsökunar og ást, hjálpsemi og velvilji eru sýnd án þess að nokkur sé mærður. Þannig er bókin í raun mjög tilfinningaþrungin án þess að nokkurn tímann votti fyrir væmni.

Ég hefði viljað sjá meiri og betri úrvinnslu úr langömmunni með ósjálfráðu skriftina og vinkonum hennar (eða voru það vinkonur ömmunnar?). Við fáum þarna fyrirheit um bréf úr fortíðinni og frásagnir af dulrænum fyrirbærum en svo verður miklu minna úr því en vonir standa til. Það kemur svolítið út eins og ekki hafi gefist tími til að vinna almennilega úr því og hefði mátt gera meira með þessar frásagnir af formæðrum því tíminn er einmitt svo áberandi þáttur í bókinni, með flakkinu fram og til baka í frásögninni og hvernig það er notað til að sýna að bæði fortíð manns og væntingar um framtíðina eru það sem mótar mann í núinu.

Í stuttu máli sagt er ég hæstánægð með Ósjálfrátt.

Engin ummæli: