Sögutími er á vordögum ársins tvöþúsundogeitt (sem í það minnsta einhverjir myndu kalla allrafyrsta ár hinnar tuttugustu og fyrstu aldar) en um leið fannst mér sagan merkjanlega óbundin neinu skýrt afmörkuðu tímabili – geta eins hafa gerst hvaða ár sem er yfir allnokkra áratugi.
Söguhetjan Milla er þunglyndisþjökuð Reykjavíkurstúlka, tuttugu og eins árs gömul og býr einsömul í húsi, umluktu garði, sem hún erfði eftir föðurömmu sína. „Grindverkið utan um garðinn er víggirðing, ég birgi mig upp af vopnum, skotmarkið verður ég.“ (7) Í garðinum er líka tjörn og uppúr henni vex tré, gróðursett af föðurnum sem Milla þekkir ekki. Tréð ber allskonar ávexti sem seðja þó ekki nema augun, og það aðeins augu Millu sjálfrar, því það er ósýnilegt öðrum en henni.
Einn daginn þegar Milla er við vinnu sína á Borgarbókasafninu siglir hávaxin, pelsklædd kona inn um dyrnar í leit að starfskrafti til að flokka og skrá allar eigur hennar, og safnið framselur Millu til starfsins: „Er tími minn í eigu Borgarbókasafns Reykjavíkur sem seldi hann tímabundið konu í einbýlishúsi? Hver annar á tíma minn? Íslenska ríkið? Rétt svar: – láttu þig ekki dreyma um frelsi í þessu lífi.“ (104–105)
Hvað sem eignarhaldi á tíma Millu líður er hún meðvituð um að kannski sé ekki svo ýkja mikið af honum eftir – leggur allavega letileg drög að sjálfsmorði og skipuleggur eigin útför. Dauðinn er henni almennt ofarlega í huga og í sögunum sem hún segir Maríu ástkonu sinni eru ýmisskonar grafreitir áberandi; ætlaðir barnahljóðfærum, sumarleikföngum og ástarbréfum svo eitthvað sé nefnt.
Þegar Milla fer út í búð hugsar hún sér heilu samtölin við afgreiðslumanninn, á hressilega uppbyggilegum nótum („Takk fyrir að gefa vaktinni í búðinni tilgang, ímynda ég mér manninn segja“ (35)), hún hugsar sér líka fjölda forvitnilegra nágranna og gerir sér far um að láta sögur þeirra allra enda vel, því það var henni kennt í hópmeðferðinni fyrir dapurt ungt fólk – en ætli þessi samtöl og nágrannar séu lesandanum nokkuð minna raunveruleg eða meira ímynduð en „raunverulegar“ hliðstæður þeirra í bókum almennt? Á endanum urðu þau mér í það minnsta jafn raunveruleg í einhverjum skilningi og smáatriði gripanna í eigu vinnuveitanda Millu, sem hún lýsir samviskusamlega með skrásetningu og sem verða þá ef til vill þess megnug að láta eigandanum finnast ævi sín hafa verið eilítið áþreifanlegri en ella. Sögurnar hennar Millu eru eitt þeirra tækja sem hún hefur yfir að ráða til að velta fyrir sér tilgangi og áferð eigin tilveru, mögulegri gagnverkun ástar og þunglyndis og gagnkvæmu eignarhaldi manneskja hverrar á annarri. Hún segist vilja vera skrímsli sem sé gott inn við beinið en misskilið af flestum og þótt hún varist almennt samanburð, eins og þunglyndissjúklingum beri, þá á hún til að máta sig við Jesú – það hafi nú mátt kalla óbeint sjálfsmorð að vaða svona inní Jerúsalem.
Milla og María eiga það sameiginlegt að hafa ekki þekkt feður sína en báðar eiga þær sterkar mæður og þegar þeim sinnast er það mamma Millu sem kemur og huggar hana. Sjálf heitir María auðvitað móðurnafni allra móðurnafna, auk þess að vera hjúkrunarkona, og það er greinilegt að Milla vill láta annast sig – sem er kannski í einhverjum skilningi það sem allir ástfangnir vilja.
Litir eru áberandi í textanum, semsagt að litir hluta séu teknir fram og fer langsamlega mest fyrir gulum, rauðum og bláum. Einnig glittir í einstaka grænt, fjólublátt eða köflótt, en annars nánast eingöngu (hamingju)gulan, rauðan og bláan – sem vill reyndar svo til að eru svokallaðir frumlitir og undirstaða að blöndun allra annarra lita. „Að vera í gulum nærbuxum merkir eitthvað, að vera í grænum nærbuxum merkir eitthvað, að vera í skrautlegum nærbuxum merkir ekkert.“ (265) Mér finnst þetta dálítið skemmtilega sagt og vil túlka það sem svo að þessir litir megi þá bara bara bera einhverskonar óútfyllta merkingu; merkja eitthvað, án þess að við þurfum endilega að vita hvað það er.
Í Millu – persónunni jafnt og sögunni út í gegn – er einhver einstaklega notalegur og staðgóður kjarni, áhrifum hvers á mig ég hef reynt að koma í orð hér að ofan en verður annars auðvitað best gripinn með því að lesa bókina. Mig fór að minnsta kosti að langa til að lesa hana aftur áður en ég var búin. Áður en ég missi mig enn frekar í lofrullunni hérna (þar sem það er líklega komið til skila að ég fílaði bókina mjög vel) ætla ég að ljúka þessu með annarri af hækunum sem mamma Millu segist hafa ort um tengdaföður sinn:
Örlæti hjartans
skein og skærast þegar ég
skeindi illmennum. (77)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli