30. júlí 2014

Niður með þjóðríkið! Upp með bíóið! Spjallblogg um Mánastein Sjóns.

Einn sólríkan laugardag settust Guðrún Elsa og Kristín Svava niður ásamt öldruðum ketti í stofu einni í San Francisco og ræddu skáldsöguna Mánastein eftir Sjón. Bókin fjallar um piltinn Mána Stein sem á heima í Reykjavík á 2. áratug 20. aldar.

Hér er það sem þeim stallsystrum fór á milli.

KST: Afskaplega þykir mér viðeigandi að hefja þetta spjallblogg um Mánastein sama dag og við fórum í Castro-leikhúsið í San Francisco og sáum tvær útgáfur af Galdrakarlinum í Oz, þar af eina dragsviðsetningu (The Wizard of Odd). Mánasteinn er jú frekar hinsegin bók. Hvað segir þú um það, Guðrún Elsa?

GEB: Jú, svo sannarlega. Alveg logandi hinsegin frá fyrstu blaðsíðu. Ég gæti líka ímyndað mér að aðalpersóna bókarinnar hefði sómt sér vel í bíósal Castro-leikhússins, enda fjallar bókin ekki aðeins um kynlíf karlmanna á hinum ólíklegustu stöðum í Reykjavík á öðrum áratug síðustu aldar, heldur líka um bíómenningu borgarinnar. Stundum renna þessir heimar líka saman í einhverjum skilningi, bíóið fylgir Mána Steini út úr salnum og kvikmyndaáhorfið er hin stórkostlegasta nautn.

KST: Og ég elska hvernig Sjón sviðsetur Mánastein, sem gerist að stærstum hluta árið 1918. Þetta er svo dramatískt ár í sögunni og allir stóru atburðirnir fá sinn sess í bókinni – spænska veikin, Kötlugosið, fullveldið – en alltaf er unnið með þessa sögulegu atburði og bakgrunn á skapandi hátt – spænska veikin rennur saman við einhvers konar súrrealíska fantasíu. Ekki eins og í sögulegum skáldsögum þar sem maður hefur á tilfinningunni að rithöfundurinn sé að elta sögubækurnar, án þess að vita sjálfur hvert hann vill fara. Hér eru hlutir eins og bíó og mótorhjól settir í forgrunn í skáldsögu sem gerist í Reykjavík árið 1918, sem er ekki endilega það fyrsta sem manni dettur í hug.

En það var samt ekki löngu eftir þetta sem Halldór Laxness sagði að nú hefði Reykjavík allt sem heimsborg þyrfti, „ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma“. Þess má til gamans geta að Máni Steinn er einnig fæddur 23. apríl 1902 – ég varð ekkert lítið æst þegar útreikningar mínir leiddu mig að þeirri niðurstöðu. Hins vegar kemur fram að Máni Steinn er illa læs, og það er gaman að sjá kvikmyndum gert hærra undir höfði sem uppsprettu fantasíunnar og skáldskaparins. Maður er miklu vanari því að sjá bækur rómantíseraðar í bókum, það er kannski merki um sjálfhverfu rithöfundarins.

GEB: Gamlar kvikmyndir eru náttúrulega afskaplega rómantískt fyrirbæri. Mér fannst líka ljóminn sem fylgir þessum myndum smitast yfir á Reykjavík þessa tíma, þannig að sögupersónur birtast með mjúkri linsu og kvenhetjan á mótorhjólinu verður fallegur töffari í stíl kvenhetja gömlu myndanna. Ég sá einhverra hluta vegna fyrir mér Katherine Hepburn í mynd sem kom út rúmum áratug eftir að atburðir bókarinnar eiga sér stað, Christopher Strong. Ég hugsa að það sé út af leðurgallanum sem hún klæddist á mótorhjólinu.



Annað sem maður tengir ekki við Reykjavík 1918 er samkynhneigð. Með því að einblína á forboðið kynlíf, bíó og mótorhjólið…

KST: ...sem í ofanálag er ekið af Sólu Guðb, kvenímynd nýrra tíma, sem rennur saman við kvikmyndapersónuna Irmu Vep...

GEB: …akkúrat! – En með því að fjalla um þetta tímabil með þessum hætti, þá tekst Sjón að gera það einstaklega hrífandi, dulúðugt og sexý. Þar að auki er hinsegin Reykjavík kvikmyndahúsa og rafknúinna hjóla nútímaleg borg, spennandi. Svo þótti mér skemmtilegt að lesa gagnrýni á kvikmyndina og blætiseðli hennar (sem ýtir undir gægjufýsn og allskonar öfuguggaskap), sem sett var fram í formi blaðagreinar í skáldsögunni. Hugmyndirnar sem þar voru viðraðar minntu mig á seinna tíma skrif innan kvikmyndafræði, sem gjarnan voru innblásin af sálgreiningu og auðvitað sett fram á aðeins jákvæðari nótum, en ekki í kverúlantatóni íhaldssama læknisins dr. Garibalda.

KST: Já, það eru alls konar hugmyndir á sveimi um nútímann og menninguna og fantasíuna og svo framvegis. Samkvæmt skrifum dr. Garibalda er það ekki bara hin menningarlega hnignun sem á upptök sín í kvikmyndahúsinu heldur líka hinn líkamlegi sjúkleiki; það er þar sem spænska veikin smitast. Það er mjög flott sena þar sem Máni Steinn og Sóla Guðb sótthreinsa bíóið með gasi.

En höfundurinn tekur sér stöðu á jaðrinum, gegn þjóðernishyggju og hefðbundnum karlmennskugildum og íhaldssemi, með fantasíu og frelsi. Sem nær algjörum hápunkti í senunni þar sem Máni Steinn hittir danska sjóliðann á fullveldishátíðinni.

GEB: Besta sena ever.

KST: Niður með þjóðríkið!

Það heyrir annars til undantekninga að ég lesi skáldsögur sem mér finnst ekki að mætti stytta um að minnsta kosti hundrað blaðsíður. Meðal annars þess vegna hafði ég mikla ánægju af því að lesa Mánastein, sem er mjög hnitmiðuð bók og engu ofaukið.

GEB: Ég er innilega sammála því að hún er af afskaplega passlegri lengd. Það sem mér finnst oft leiðinlegt við sögulegar skáldsögur er hvað það er verið að reyna að segja mikið og hvað það þarf að koma mörgum persónum að. Til dæmis las ég Wolf Hall um daginn og þurfti í sífellu að fletta fram í bókinni að listanum yfir persónur og hvaða embættum þær gegndu í Englandi á 17. öld. (Fín bók samt, sem fór virkilega að taka við sér eftir svona 350 blaðsíður.) Mánasteinn lýsir meira einhverju andrúmslofti eða tilfinningu og er í rauninni bara saga sem gerist í ákveðnu umhverfi en ekki nákvæm úrvinnsla höfundar á sögulegum atburðum. Það finnst mér miklu skemmtilegra. Þú minntist á fullveldissenuna og þar er um raunverulegan sögulegan atburð að ræða, hins vegar er brugðið allt öðru ljósi á hann en í sögubókunum. Hann er gerður töff.

KST: Endirinn á bókinni er nokkuð óvenjulegur og við vorum ekki fyllilega sammála um ágæti hans. Það má segja að í síðustu setningum bókarinnar stígi höfundurinn inn í textann og dragi lesendurna og frásögnina inn í nútímann. Ég var ekki og er ekki enn alveg sannfærð um að þetta hafi verið tilkomumesta leiðin til að enda bókina, ég hefði sennilega hætt svona fimm línum fyrr.

GEB: Ég er sammála því að þessi endir er ekki jafn tilkomumikill og upphaf bókarinnar, sem er eitthvert það flottasta sem ég hef séð. Hins vegar hafði höfundur náð mér svo fullkomlega á sitt band þegar lestri lauk að ég var svosem bara glöð að hitta hann.

8. júlí 2014

Líkin hrannast upp í Piparkökuhúsinu - sumarið er komið!



Sumarið er komið – eða farið - eða hvað skal segja – í öllu falli var loksins kominn tími á fyrsta sumar-reyfarann í síðustu viku. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með Piparkökuhúsið eftir Carin Gerhardsen sem kom út nú á dögunum hjá forlaginu í ágætri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur. Bókin kom út í Svíþjóð árið 2008 og er fyrsta bók af sex um lögregluteymið á Hammersbystöðinni í suðurhluta Stokkhólms.

Í Piparkökuhúsinu fylgjumst við með lögreglumanninum Conny Sjöberg og félögum hans leysa dularfullt glæpamál. Þegar öldruð kona kemur heim eftir fremur langa sjúkrahúsvist finnur hún lík af manni í húsinu. Hún kannast ekkert við hann og málið virðist fullkomlega ósskiljanlegt en brátt fara fleiri lík að finnast, víðsvegar um Svíþjóð og málin taka að skýrast. Conny er skemmtileg persóna, hann er ekki drykkfelldur einfari, ekki sligaður af djöflum fortíðar og á ekki neinum sérstökum vandræðum með yfirmenn sína. Þvert á móti er hann vel liðinn í vinnunni, afskaplega vel giftur og á fimm börn sem hann á í góðu sambandi við. Börnin og eiginkonan skipta þar að auki máli og fá pláss í frásögninni. Persónulega fannst mér svo voða þakklátt að lesa um sænskan fyrirmyndaföður sem skellir börnunum fyrir framan sjónvarpið til að geta hugsa heila hugsun stöku sinnum...hann á reyndar fimm börn og ég eitt...en ég meina – who’s counting?
Carin á góðri stund og bandaríska útgáfa bókarinnar

óhugnanleg sænsk kápa
Áður en hún sló í gegn sem glæpasagnahöfundur með áðurnefndri bók starfaði Carin Gerhardsen sem ráðgjafi á sviði veflausna og hún er stærðfræðingur að mennt. Í umfjöllunum um bækur hennar er oft talað um að skrif hennar beri þess skýr merki að hér sé stærðfræðingur á ferð en ég verð að viðurkenna að ég varð ekki sérstaklega vör við það. Bókin er ágætlega upp byggð en hvort stærðfræðikunnátta er forsenda fyrir slíkt er ég ekki sannfærð um. En svo má náttúrulega vel vera að í næstu bók í flokknum fylgi morðinginn eða rannsakandinn einhverju mögnuðu talnakerfi og þá skal ég með glöðu geði éta þessi orð ofan í mig. Á kápu er líka sagt að Carin þekki einelti af eigin raun og nánari eftirgrennslan leiðir í ljós að hún varð sjálf fyrir grimmdarlegu einelti sem barn. Sú reynslan yfirgaf hana að sjálfsögðu aldrei og löngu síðar varð hún grunnurinn að þessari bók eins og lesa má um í þessu viðtali við höfundinn.

Það er vinsælt á þessum síðustu og bestu tímum að velta fyrir sér orsök og afleiðingu og það á ekki síður við í glæpasagnaritun. Rithöfundar velta oft upp spurningunni – af hverju? Hvernig verða glæpamenn til? Sem er í sjálfu sér virðingarverð spurning. Það er svo annað mál að svörin eru mis djúp, mis gáfuleg og stundum hreinlega mis áhugaverð. Það er alltof algengt að kokkaðar séu upp einhverjar klisjukenndar skýringar úr æsku gerandans – í yfirgnæfandi tilvikum er það móðir morðingjans sem hefur brugðist barni sínu, móðurhlutverkinu og þar með samfélaginu öllu, hún er hinn raunverulegi glæpamaður. Með fullri virðingu fyrir vægi móðurinnar í lífi hvers barns þá finnst mér þessi skýring oft ansi fyrirsjáanleg, auðveld og billeg. Það má því segja að það felist skemmtileg nýbreytni í því hjá Carin Gerhardsen að láta móðurina ekki vera undirliggjandi sökudólg...að minnsta kosti ekki nema að litlu leyti. Hér er það einelti, grimmd barna og afskiptaleysi hinna fullorðnu sem býr til glæpamann (ég er ekki að ljóstra neinu upp hér – þetta kemur fram í upphafi bókar og er gefið í skyn á kápu). Þessi tengin milli fórnarlamba misnotkunar af einhverju tagi og glæpa er auðvitað ekki ný af nálinni og þótt að Piparkökuhúsið rói kannski ekki beinlínis út á djúpsævið hvað þetta varðar þá spyr hún áhugaverðra spurninga um hvaða áhrif ofbeldi hefur á manneskjur – og hverju það veldur að það hefur svo mismunandi áhrif á þær. Nokkrar sniðuglega unnar hliðarsögur spegla svo stóra eineltis/ofbeldis málið sem er í forgrunni.

Áhugaverðasta nálgun á einelti í skáldsöguformi sem ég hef lesið er sennilega Undantekningin eftir Christian Jungersen sem kom út hjá Máli og menningu árið 2006 og Þórdís skrifar skemmtilega um hér. Þar byrjar hópur kvenna sem vinnur á Dönsku upplýsingamiðstöðinni um þjóðarmorð að fá hótunarbréf. Þær eru vissulega að garfa í viðkvæmum málum allt frá helförinni gegn gyðingum (ofl.) í heimstyrjöldinni síðari til þjóðarmorða í Balkan-löndunum á tíunda áratug síðustu aldar. Það sem gerir bókina brilliant er ekki uppbyggingin (Christian er greinilega ekki stærðfræðingur að mennt) og ekki endirinn sem er dáldið over the top, heldur sögusviðið sjálft – skrifstofa kvennanna og úrvinnslan á hugmyndinni um ofsóknir. Það viðgengst nefnilega einelti á skrifstofunni. Bókin er sögð út frá nokkrum sjónarhornum og fyrst verður lesandinn ekki var við neitt sérstakt annað en að ein konan á skrifstofunni er pínu hallærisleg og leiðinleg. Það er svo ekki fyrr en sjónarhornið flyst til hennar sem við skiljum að líf hennar er fullkomið helvíti. Sakleysislegar athugasemdir hinna kvennanna eru ekki sakleysislegar í samhengi við allt annað – heldur eru þær allt í einu orðnar ótrúlega grimmdarlegar og kvikyndislegar. Þrátt fyrir sífellt vaxandi áhyggjur kvennanna yfir hótunarbréfunum reyna þær þó að vinna vinnuna sína og rannsóknirnar sem þær lesa og greinarnar sem þær skrifa eru birtar í bókinni. Smám saman fer að myndast skuggaleg hliðstæða við upphaf og uppgang þeirra ofsókna sem leiða til þjóðarmorða annars vegar og eineltisins á skrifstofunni hins vegar. Allt hefst þetta með ofurlitlum athugasemdum og fínlegri útilokun – hún vs. við. Munurinn á henni og okkur fer allt í einu að skipta gríðarlegu máli. Smám saman eru allir, hinn útskúfaði oftast meðtalinn, farnir að trúa því að hann sé aðeins minna virði en hinir. Þegar það er búið að gera hann nógu lítils virði er skrefið frá andlegu ofbeldi yfir í það líkamlega ekki svo stórt og sífellt verður auðveldara að misþyrma, nauðga og/eða drepa. Bókin tekur líka föstum tökum óhugnanlegar en því miður sannfærandi niðurstöður sem segja okkur að þegar einhver hópur fólks fær skipanir að ofan um beita harðræði (eins og fangaverðir, hermenn, eða jafnvel „umhyggjusamir“ borgarar) þá gerir um 70% hópsins nákvæmlega það sem til er ætlast af honum, 20% gengur lengra – beitir sum sé meiri grimmd en um var beðið, en aðeins 10% segir nei. Öll viljum við halda að ef við hefðum verið stödd í Þýskalandi nasismans þá hefðum við aldrei samþykkt það sem þar fór fram. Við hefðum aldrei snúist gegn gyðingum, samkynhneigðum og kommúnistum en því miður segir tölfræðin okkur að það sé fremur ólíklegt. Þeir fáu sem neita að taka þátt eru nefnilega Undantekningin. Því miður.

Í Piparkökuhúsinu er svo aftur velt upp þeirri spurningu hver sé sekastur – er það gerandinn, þeir sem fylgja honum eða þeir sem sitja aðgerðalausir hjá og leyfa illskunni að viðgangast. Eins og í Undantekningunni er vinnustaðnum (í þessu tilviki lögreglustöðin) að einhverju leyti stillt upp sem hliðstæðu við eineltið í forgrunni sögunnar. Einn lögreglumannanna, Hamed, er af erlendu bergi brotinn og annar lögreglumaður er sífellt að koma með „létt grín“ um múhameðstrú sem hinir starfsmenn ýmist taka upp eða hlæja góðlátlega að. Hér er ekki gengið jafn langt og í Undantekningunni enda er hún mun lengri, ýtarlegri og dýpri bók en þetta er þó sniðuglega gert og vekur mann til umhugsunar um „saklaust grín“ og umræður síðustu ára um pólitíska rétthugsun og „góða fólkið“ (svo ég missi mig alveg í gæsalöppunum).

Piparkökuhúsið er sem sagt skemmtileg og spennandi bók, kafar kannski ekki alveg jafn djúpt og henni finnst sjálfri en kemur þó með góða punkta og er áhugaverð. Fyrir þá sem vilja frekar bíða eftir myndinni þá er hún á leiðinni í framleiðslu Yellowstone Productions sem kvikmynduðu líka Millennium þríleikinn. Ég er til í að lesa aðra bók eftir Carin! Bring it!