Síðsumars á þessu ári var endurútgefin nóvellan Vögguvísa eftir Elías Mar, en hún kom fyrst út árið 1950. Bókaforlagið Lesstofan stendur fyrir útgáfu bókarinnar, sem er afskaplega áferðarfögur, með inngangsorðum og vönduðum eftirmála rituðum af aðstandendum Lesstofunnar sem eru þau Anna Lea Friðriksdóttir, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, Svavar Steinarr Guðmundsson, Þorsteinn Surmeli og Þórunn Kristjánsdóttir. Að auki fylgir lítil slangurorðabók aftast í bókinni, sem nýtist vel þegar maður rekst á háþróað slangur á borð við „salatfatið“ (löggubíll) og „ein á peysufötunum“ (brennivínsflaska).
Vögguvísa fjallar um þrjá sólarhringa í lífi unglingsins Björns Sveinssonar, sem er jafnan kallaður Bambínó af félögum sínum. Bókin hefst á glæp sem Bambínó flækist í og svo fylgja lesendur honum um fremur skuggalegar götur Reykjavíkurborgar, sem hann arkar yfirleitt drukkinn eða þunnur, þangað til það er eins og hann geti ekki meir. Þótt hann hafi ýmislegt fyrir stafni, fari í partí og á billjarðstofur, þjónar bíóið afar miðlægu hlutverki í bókinni. Eins og fjallað er um í eftirmálanum, minnir bókin á kvikmynd. Þar er vísað í bókadóm Helga Sæmundssonar úr Alþýðublaðinu árið 1951, þar sem hann segir: „Hún er tæknilega byggð og hraðstreym, söguþráðurinn er órofinn frá upphafi til enda, og höfundurinn viðhefur hvorki vangaveltur né málalengingar, en það er blessunarleg nýbreytni á þessari öld kjaftháttarins.“ Maður upplifir verkið að vissu leyti eins og mynd – þegar maður hefur fest hugann við það líður það áfram á allt að því sjónrænan hátt og stundum verður maður var við tónlistina sem hljómar undir: „chi–baba, chi–baba“. Mér duttu aðallega í hug unglingamyndir sjötta áratugarins við lesturinn, ég sá fyrir mér að James Dean léki Bambinó þar sem hann gengur óöruggur og leitandi um í borgarumhverfinu, fullur löngunar eftir því að verða karlmaður – hvað svo sem það merkir. Í eftirmálanum er hins vegar bent á líkindin við rökkurmyndir (film noir), sem eru vissulega töluverð. Er ekki einhver til í að kvikmynda Vögguvísu, í rökkurmyndastíl?
Vögguvísa er í brennidepli á fyrstu Lestrarhátíð Bókmenntaborgarinnar, sem hefur staðið yfir núna í október. Á lestrarhátíð sameinast borgarbúar á öllum aldri „um að njóta þess að lesa eina tiltekna bók, ræða hana, uppgötva og vinna með útfrá öllum mögulegum sjónarhornum.“ Bókin er lesin víða nú í mánuðinum, meðal annars í skólnum og leshringjum, auk þess sem staðið er fyrir viðburðum tengdum bókinni, til dæmis verður Vögguvísuganga um miðborgina á miðvkudaginn næsta. Í dag verður hins vegar haldið málþing um verkið, það fer fram á Þjóðarbókhlöðunni klukkan eitt og við druslubókadömur mælum með því að þið mætið á svæðið og njótið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli