Hér á druslubókablogginu hafa stundum verið færslur um bókabúðir erlendis. Við höfum komið við á jafn ólíkum stöðum og Boston, Porto og Singapúr, og þessar færslur okkar Guðrúnar Elsu mynda ágætis upplýsingabanka um enskumælandi bókabúðir í Berlín. Mér datt í hug að skrifa eina praktíska færslu um bókabúðir í Lissabon, til viðbótar við þessa færslu um Ler Devagar, áður en þær líða mér úr minni. Þótt Lissabon teljist varla til vinsælustu áfangastaða Íslendinga erlendis geta þessar upplýsingar ef til vill komið einhverjum að gagni – og svona í leiðinni mæli ég eindregið með borginni sem viðkomustað, hún er dásamleg. Bókasöfn heimsótti ég þar ekki önnur en þau eldgömlu og konunglegu sem hafa verið fryst í tíma og gerð að minjasöfnum. Bækur á öðrum tungumálum en portúgölsku eru líka yfirleitt mjög lítill hluti af bókunum í bókabúðum; aðalbókabúðin okkar var í rauninni Amazon. Það er mjög mikið þýtt á portúgölsku og fólk getur því oftast nálgast erlendar bókmenntir fljótt og vel á eigin móðurmáli. Þótt það sé mér þvert um geð verð ég að viðurkenna að langbesta úrvalið í Lissabon af bókum á ensku er í bóka- og tónlistarbúðakeðjunni FNAC, sem er með útibú niðri í bæ í lítilli verslunarmiðstöð við Rua do Carmo. Þar fá enskumælandi bækur næstum heilan hilluvegg og maður finnur þannig yfirleitt eitthvað við sitt hæfi, þótt úrvalið sé annars fjarri því að vera frumlegt.
Aðrar bókabúðir sem hafa dálítið úrval af bókum á ensku eru til dæmis fyrrnefnd Ler Devagar, sem er með litla fræðibókadeild á ensku en selur líka fagurbókmenntir á frönsku, og litla safnbókabúðin í Gulbenkian-listasafninu. Eins og sjá má af myndunum í færslunni um Ler Devagar er búðin mjög skemmtileg og vel þess virði að heimsækja þótt það sé bara til að skoða, og það sama á við um Gulbenkian-listasafnið, sem er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Lissabon. Hvorki Ler Devagar né Gulbenkian eru í miðbænum en það er auðvelt að komast þangað með sporvagni eða neðanjarðarlest.
Ég má einnig til með að nefna merkilega bókabúð í partíhverfinu Bairro Alto, bókabúðina Letra Livre sem stendur við Rua da Barroca og er hluti af pólitísku menningarmiðstöðinni og galleríinu Zé dos Bois. Letra Livre er staður „hinna ómögulegu bóka“, hinna „bönnuðu, gleymdu, uppseldu og földu“, svo ég vitni í einhverja heimasíðu sem ég fann á netinu, og þótt einungis lítill hluti bókanna sé á öðrum málum en portúgölsku er þess virði að gera sér ferð þangað. Það er hægt að gera það meðfram pöbbaröltinu því opnunartíminn er, eins og víða í Bairro Alto, bóhemískari en annars staðar í borginni, frá 18-24 frá fimmtudegi til laugardags. Ég mæli sérstaklega með barnum Mahjong í næstu götu, Rua da Atalaia, hann er með ljósakrónur í formi kálhausa og sýnir Delicatessen og 2001 Space Odyssey hljóðlaust á breiðtjaldi á hverju kvöldi.
Talandi um bari þykir mér viðeigandi að slútta færslunni með öðrum bar, bókabar sem var einn af hverfisbörunum mínum í Lissabon; Botequim, við torgið Largo da Graça skammt frá miðbænum. Við römbuðum á þennan bar fyrir tilviljun, hann er lítill og kósí og verðlagningin bærileg, hillurnar fullar af bókum og blaðaúrklippur úr byltingunni undir glerinu á borðunum. Ég dróst auðvitað að bókahillunum og endaði á að kaupa eina af bókunum, ljóðasafn José Carlos Ary dos Santos, kommúnísks byltingarskálds sem sameinar í nógu passlegu jafnvægi orðafimi og beinskeytta pólitíska ástríðu til að málhaltur útlendingur geti látið heillast með. Og svo samdi hann auðvitað fadotexta, en ekki hvað.
Það var samt ekki fyrr en síðar sem ég komst að því að upphaflega var Botequim stofnaður af engri annarri en Natáliu Correia, einni fremstu skáldkonu Portúgala á 20. öld. Hún var frá Azoreyjum, barðist gegn einræðinu og var dæmd í þriggja ára fangelsi á 7. áratugnum fyrir útgáfu á safni erótískra og satiríska portúgalskra ljóða. Hún dó úr hjartaáfalli um sjötugt eftir að hafa yfirgefið Botequim-barinn eitt kvöldið árið 1993. Í kjölfar andláts hennar var barnum lokað en hann var svo opnaður á ný árið 2010 – sennilega ekki af sömu eigendum og áður, en þeir heiðra þó sögu hans sem bóhem- og bókabars Graça-hverfisins.
Það var samt ekki fyrr en síðar sem ég komst að því að upphaflega var Botequim stofnaður af engri annarri en Natáliu Correia, einni fremstu skáldkonu Portúgala á 20. öld. Hún var frá Azoreyjum, barðist gegn einræðinu og var dæmd í þriggja ára fangelsi á 7. áratugnum fyrir útgáfu á safni erótískra og satiríska portúgalskra ljóða. Hún dó úr hjartaáfalli um sjötugt eftir að hafa yfirgefið Botequim-barinn eitt kvöldið árið 1993. Í kjölfar andláts hennar var barnum lokað en hann var svo opnaður á ný árið 2010 – sennilega ekki af sömu eigendum og áður, en þeir heiðra þó sögu hans sem bóhem- og bókabars Graça-hverfisins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli