31. mars 2012

Bókabúðablæti: nú í Boston

Literary Criticism-hornið í Coop
Eins og lesendur þessa bloggs vita eru Druslubókadömur ákaflega hrifnar af bókabúðum og telja þar að auki að þeim beri skylda til þess að gera ítarlega grein fyrir öllum bókabúðum sem þær stíga fæti í. Fyrir viku fór ég til Boston og reyndi að kynnast sem flestum bókabúðum, en það skemmtilega við stórborgir er að þó maður reyni þá er barasta ekki hægt að heimsækja þær allar í stuttri ferð. Svo margar eru þær. Ég byrjaði náttúrulega á því að fara í bókabúðirnar í kringum Harvard Square, enda hafði ég lesið í tíu ára gömlu túristabókinni sem ég tók á bókasafninu að hvergi væri að finna jafnmargar bókabúðir á sama svæði í gjörvallri Ameríku (þegar ég fór svo að gúgla torgið þá kom í ljós að þetta hefur nú eitthvað breyst undanfarin ár, fréttir sem báru fyrirsagnir á borð við „Another Harvard Square bookstore bites the dust“ hlóðust upp á skjánum svo ég lokaði glugganum um leið og fór að skoða gömlu bókina aftur).



Harvard eða Hogwarts?
Í kringum Harvard Square fann ég fjórar frábærar búðir. Sú fyrsta sem ég fór í heitir The Coop (Harvard Cooperative Society), en hún reyndist líka vera besta bókabúðin sem ég kynntist í ferðinni. Þegar maður kom inn í hana hugsaði maður ósjálfrátt um Harry Potter (sjá mynd), en búðin er stór og úrvalið af allskonar bókum, bæði skáldskap og ýmiss konar fræðibókum, var mjög gott. Erfiðast var að setjast niður með bókastaflann og reikna út hversu mikið þetta kostaði, grisja úr staflanum með tárin í augunum og lofa sjálfum sér að kaupa nú eitthvað af þessu fyrir kyndilinn seinna (ó hvað það er erfitt að vera forréttindaplebbi).



Þá fór ég yfir Harvard Square og örlítinn spotta niður Massachusetts Avenue og heimsótti Harvard Book Store, notalega bókabúð með nýjum bókum á efri hæð en notuðum bókum í kjallara. Þar var ekki eins mikið af bókum og mér sýndist þegar ég skoðaði búðina á netinu, passið ykkur á því þegar þið leitið að bókum á vefsíðunni þeirra að langflestar þeirra þarf að panta. Annars væri þetta líka eiginlega of gott til að vera satt. Það voru samt ótalmargar áhugaverðar bækur þarna, bara ekki eins margar og ég hafði búið mig undir – þetta gerði mér þó kleift að fara aftur í Coop til að kaupa tvær bækur sem ég hafði neitað mér um þar af því ég hélt að grasið væri grænna hinum megin við torgið.

„Someone is staring at you in "personal growth"“
Kvikmyndagetraun Druslubókadama: úr hvaða mynd
er þessi dásamlega setning? 
Við hliðina á Harvard Book Store er svo ljóðabókabúðin Grolier Poetry Bookshop. Hún er lítil en stútfull af ljóðabókum, stemmingin þar inni notaleg þótt maður fái ósjálfrátt hálfgert kvíðakast yfir því hversu mikið maður á eftir að lesa, ég hef aldrei séð svona margar ljóðabækur á einum stað. Afskaplega tjilluð kona vann í búðinni og spurði mig um íslenska ljóðlist á meðan hún gæddi sér á snakki úr poka.
Grolier ljóðabókabúðin.















Newbury Comics.
Fjórða Harvardbókabúðin sem nauðsynlegt er að heimsækja er Newbury Comics. Þar eru seldar myndasögur, bæði blöð og bækur, en líka bækur um myndasögur og kvikmyndir. Þarna mátti meðal annars finna zombiemyndabókina Book of the Dead, en það er ákveðið merki um að afar vandaður einstaklingur hafi valið bækur í búðina. Í búðinni er líka alls konar dót, nælur með mishnittnum skilaboðum (þar á meðal „Reading is Sexy“), besta kvikmyndasafn sem ég sá í þessari ferð og fjöldinn allur af geisladiskum. Þegar maður gengur inn blasa við manni orðin „Shop here, die happy“. Mig grunar að það sé nokkuð sannleikskorn í þeim.



Fyrir utan Brattle Book Shop.
Ég má til með að minnast á þær bókabúðir sem ég kíkti inn í annars staðar í borginni, þótt þær hafi nú ekki heillað mig eins og þær sem ég sá fyrsta daginn í kringum Harvard Square. Í miðbænum, rétt hjá Boston Common garðinum, leynist Brattle Book Shop. Þar má finna fjölda notaðra bóka, en ég hefði helst þurft að staldra þar við mun lengur en ég gerði. Það er gaman að velta því fyrir sér hvers konar bækur rata í svona búðir, til dæmis varð ég vör við að í bókmenntafræðihillunni voru tvö eintök af bókinni Women and Marriage in Victorian Fiction, innan um fjöldann allan af frekar obskúr bókum sem ég hafði aldrei heyrt um. Ég veit ekki af hverju mér fannst það markvert, en einhverra hluta vegna fór ég að velta því fyrir mér hvaða týpur hafi verið losa sig við eintökin af þessari bók og hversu lengi þær hefðu beðið þarna eftir áhugamönnum um konur og hjónabönd í viktoríönskum skáldskap.

The Raven er bókabúð á Newbury Street sem selur bæði notaðar og nýjar bækur. Ég rakst á hana fyrir tilviljun en hún kom mjög skemmtilega á óvart. Þarna var bókum raðað í hillur sem voru til dæmis merktar „jazz“ eða „marxism“, auk þess sem úrvalið af kvikmyndafræðibókum var mun kræsilegra en það sem ég hafði séð í öðrum búðum sem lögðu að miklu leyti áherslu á að selja notaðar bækur. (Í Brattle Book Store var aðallega að finna ævisögur kvikmyndastjarna í hillunni sem merkt var „film“).

Að lokum kemur ein viðvörun: ekki gera ykkur vonir um að hið sögufræga hús The Old Corner Bookstore á Park Street – þar sem bækur eftir höfunda á borð við Emerson, Hawthorne, Thoreau og Harriet Beecher Stowe voru gefnar út á 19. öld – sé ennþá bókabúð. Í túristabókinni sem mamma keypti í Harvard (sem er algjörlega up-to-date) eru bækur í gluggunum á búðinni þar sem hún sést á mynd, en mögulega er bara nýbúið að breyta henni. Nú er þetta hús, sem margir kalla „vöggu amerískra bókmennta“, orðið að mexíkóskum skyndibitastað.

3 ummæli:

Lissy sagði...

When Harry met Sally.

Lissy sagði...

When Harry met Sally.

guðrún elsa sagði...

Alveg rétt!