Kannast lesendur bloggsins við það að eiga ólesnar bækur upp í hillu sem horfa á mann ásökunaraugum ár eftir ár, en aldrei druslast maður til þess að taka þær úr hillunni og lesa?
|
Kannski myndi ég frekar nenna að lesa Kommúnistaávarpið á velsku |
Nýlega áskotnaðist mér lítið og huggulegt vinnuherbergi á heimili mínu þegar við sambýlingarnir breyttum skipulaginu á íbúðinni og framkvæmdum alls kyns tilfærslur. Af því tilefni fóru fram talsverðir bókaflutningar hjá mér; þótt ég sé aðeins með brotabrot af bókunum mínum hér í þessari íbúð eru þetta þónokkrir hillufermetrar og skemmtilegt púsluspil að ákveða hvað á að vera hvar, leggja höfuðið í bleyti, velja besta fyrirkomulagið, rölta með bækur úr stofu inn í svefnherbergi, þaðan inn í vinnuherbergi og jafnvel aftur inn í stofu á endanum. Eins og alltaf þegar ég fikta í hilluskipulaginu tók ég eftir bókum sem ég hafði svo gott sem gleymt. Þótt ég hafi haft þær fyrir augunum á hverjum degi í tvö ár var ég einhvern veginn hætt að taka eftir þeim. Slíkt er kærkomið og ég er t.d. núna að lesa tvær bækur sem ég var búin að steingleyma að væru til á heimilinu.
Hins vegar virðist ég ferðast hús úr húsi og jafnvel milli landa með ákveðnar bækur í farteskinu sem ég hef keypt eða fengið að gjöf en einfaldlega kem mér ekki í að lesa. Ástæðan er ekki alltaf ljós. Stundum er kápan ljót og fráhrindandi (já, ég er jafnhégómleg og aðrir þegar kemur að estetík lesefnis), stundum er eitthvað óárennilegt við bókina eða efni hennar. Nokkrar bækur á ég ókláraðar í sérstakri "þarf að klára"-hillu - eins og fleiri druslubókadömur er ég ófær um að hætta að lesa bók og finn mig knúna til að klára hverja einustu þótt stundum líði mörg ár frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Þar er t.d. að finna To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem mér þykir óbærilega leiðinleg bók (fyrirgefið, þið sem tengið betur við stream of consciousness en ég og hafið dálæti á Woolf) en las ca. 4/5 af þegar ég var í mastersnámi í Glasgow; þar var hún á leslista. Ég er alltaf að reyna að mana mig upp í að klára hana en fyllist einhverjum ógurlegum pirringi í hvert sinn sem höndin nálgast kjölinn á kiljunni sem vinkona mín lánaði mér og neitaði að taka við aftur (álíka mikill aðdáandi og ég).
|
Mikið var ég vitlaus að geyma þennan gullmola uppi í hillu svona lengi |
Svo eru bækur sem ég er alltaf á leiðinni að lesa en verða bara aldrei fyrir valinu þegar eitthvað meira freistandi stendur til boða. Ein sem mér dettur í hug er Kommúnistaávarpið sem er hér í enskri þýðingu uppi í hillu; reyndar hef ég lesið hluta af því en finnst samt að ég verði að lesa hana alveg í gegn, varla geta ungkommar verið þekktir fyrir annað? Marabou Stork Nightmares eftir Irvine Welsh er önnur; ég fékk hana að gjöf fyrir nokkrum árum og veit ekki alveg af hverju ég hef ekki lesið hana ennþá, kannski er það ljóta kápan (einhver mjög billeg útgáfa frá tíunda áratugnum, sem verður að teljast versti áratugurinn í bókakápubissnessinum). Mér hefur fundist margt fínt eftir Welsh þannig að það er ekki óbeit á höfundinum sem veldur. Kannski er bókin bara búin að vera svo lengi í hillunni að ég er orðin eitthvað pirruð á henni.
Málið er samt að oft þegar ég loksins tek mig til og les einhverja af þessum ólesnu, ásakandi, bitru bókum reynast þær iðulega afskaplega góðar. Ég til dæmis átti Cloud Atlas ólesna uppi í hillu í örugglega hálft ár eftir að ég fékk hana í jólagjöf árið 2005, en síðan ég las hana hefur hún verið ein af mínum eftirlætisskáldsögum. Ég hafði lengi hörfað undan Ivanhoe eftir Sir Walter Scott, þótti hún eitthvað óárennileg, en hafði heilmikið gaman af henni þegar ég tók mig til og las hana í fyrra. Það sama á við um nokkrar fræðibækur og pólitískar skruddur.
|
Ef ég ætti þessa bók væri hún örugglega í ólesnu, bitru hillunni |
Sennilega er best að grípa einhverja úr hillunni áður en ég skríð upp í rúm ...
7 ummæli:
Ég á einhver ósköp af ólesnum bókum sem mig dauðlangar að lesa en sem ég kemst einhverra hluta vegna aldrei í að lesa. Ég geri ekki ráð fyrir að komast nokkurn tíma nálægt því að vinna á mínum sívaxandi leslista og geri mér helst vonir um að með auknum þroska nái ég að yfirvinna þetta fáránlega samviskubit sem ég hef gagnvart ólesnu bókunum.
Já, hvernig geta þessar bækur horft á mann ásakandi augnaráði, augnlausar og vitlausar? Ha?
Anna Karenina og Þrúgur Reiðinnar horfa einmitt á mig með ásökunaraugum. Verst hvað þær eru þykkar, ég finn mér alltaf aðra bók til að lesa.. og segist taka aðra þeirra niður úr hillunni "næst".
Úff, ég er einmitt með Cloud Atlas ólesna uppi í hillu. Hún hefur horft á mig ásakandi í svona sjö ár, þannig að þú getur bara verið mjög ánægð með að það hafi ekki tekið þig meira en sex mánuði að koma þér að því að lesa. Ég er alltaf að bíða eftir því að ég fái óvænt frí í einn mánuð eða svo og þurfi EKKERT að gera annað en lesa. Það er samt ekkert svoleiðis í sjónmáli næsta árið...
Kannast vel við þetta "vandamál" og finnst nokkur léttir að vita að fleiri eigi við þetta að etja!
Btw síðasti hlutinn af "To the lighthouse" er ekkert betri en það sem á undan kemur, grútleiðinleg bók.
Ég ferðaðist með stafla af ólesnum þónokkrum sinnum yfir Atlantshafið, sumar hverjar höfðu verið í honum í mörg ár. Ég var alltaf á bömmer yfir því að hafa ekki lesið þær. Svo sendi ég bækurnar einu sinni sem oftar frá Bandaríkjunum til Íslands, en í þetta skipti sprakk pappakassinn í sundur í póstflokkunarstöð í New Jersey, samkvæmt bréfi sem ég fékk frá bandarísku póstþjónustunni. Allar þær bækur glötuðust. Þetta var mér bara léttir frekar en nokkuð annað. Síðan hef ég ekki haft áhyggjur af því hvaða bækur ég les eða les ekki. Ég sakna þó einnar bókar í þessum sprungna kassa, Dhalgren eftir Samuel R. Delany, sem ég hef aldrei lesið síðan, þó mig fýsi mikið til þess.
Ég á erfiðara með bækur sem mann langar ekkert að lesa en finnst eins og manni beri skylda til að eiga áfram og megi hvorki gefa né selja. Þar eru mér ofarlega í huga bækur sem ég fékk í verðlaun fyrir góðan námsárangur.
Skrifa ummæli