14. mars 2012

Á náttborðinu

Ef ég væri spurð að því hvert væri mikilvægasta húsgagnið í íbúðinni minni þá myndi ég ekki þurfa að hugsa mig lengi um - það er auðvitað náttborðið. Ég man eftir stuttum tímabilum í lífi mínu þar sem ég hef verið náttborðslaus og það var undantekingalaust alveg grábölvað. Þegar ég flutti vestur um haf tók ég með mér ýmislegt frá Íslandi, einkum bækur og brúðarstell en ekkert náttborð. Ég hugsaði sem svo að það yrði nú lítið mál í landi allsnægtanna að verða sér út um tvö náttborð í stíl.

Það var yfir 30°C og rakt fyrstu dagana okkar í vesturheimi. Borgir í Miðvestrinu eru ekki beint heillandi við fyrstu kynni og mér leist ekkert á blikuna. Brúðarstellið var fast í tollafgreiðslu í New York, við sváfum á lánsvindsæng og borðuðum take away kínamat í öll mál. Við vorum bíllaus fyrstu dagana og ég gekk móð og másandi með 8 mánaða gamalt barnið í magapoka yfir umferðareyjur og flennistór bílastæði. Hér er sko ekki verið að búa til gangstéttir að óþörfu.



En fyrst syrti í álinn þegar ég kom inn í dæmigerða húsgagnaverslun hér í borg. Minn viðkvæmi, skandinavíski smekkur var særður djúpu svöðusári þegar honum mættu einhverskyns eftirlíkingar af því helsta sem Forn Grikkir höfðu í hávegum hér í den tid. Það virtist varla vera hægt að kaupa húsgagn sem ekki var skreytt einhverskonar súlum og útflúri. Því miður er langt í IKEA og við ákváðum að líklega væri vænlegast að þræða bílskúrssölur eða finna verslanir sem seldu notuð húsgögn. Ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég fann hin fullkomnu náttborð í einni slíkri verslun og það besta var að þau kostuðu ekki nema 25$. Sérkennileg bygging þeirra kann reyndar að skýra þetta lága verðlag. Líklega voru þau ekki framleidd til þess að þjóna tilgangi náttborða, nema ef vera skyldi fyrir risa því þau eru sannarlega risastór. Ég setti það ekki fyrir mig og gekk frá kaupunum. Þegar við höfðum komið náttborðunum heim fór allt að ganga betur og ég fór að sættast við borgina.

Umrætt náttborð
Náttborðið mitt hefur þjónað mér prýðilega. Það er sannarlega alltof stórt en mér finnst það bara gott því þá get ég hlaðið á það mörgum bókastöflum. Ég er nefnilega oftast að lesa 3-4 bækur í einu. Mér telst til að núna séu þar átta titlar og hér skal skautað yfir þá helstu:

Elaine Showalter: Hystories. Hysterical Epidemics and Modern Culture.
Vinur minn sem er sálfræðimenntaður benti mér á þessa og taldi öruggt að mér myndi finnast hún áhugaverð. Ég gerði mér því ferð á bókasafnið og náði í hana (það besta við að búa í útlöndum er að þar eru alvöru bókasöfn). Ég hafði heyrt minnst á höfundinn og mig minnir að það hafi verið þýdd grein eftir hana og birt í Ritinu fyrir nokkrum árum. Í þessari bók, sem kom út árið 1998, fjallar hún um hysteríu, þennan kvengerða veikleika, sögu hans og hvernig hann gengur aftur á okkar tímum í formi allskyns sjúkdóma, andlegra og líkamlegra, sem hafa hlotið fræðiheiti og skilgreiningar. Ég er bara búin með 30 síður af bókinni en ég á ábyggilega eftir að skrifa um hana hér á druslubókabloggið.


Ruth Rosen, The Lost Sisterhood. Prostitution in America, 1900-1918.
Rosen þessi er nokkuð þekktur sagnfræðingur á sviði kvennasögu en ég hef ekki lesið neitt eftir hana fyrr en nú. Þessi bók er tuttugu ára gömul en algjörlega í fullu gildi. Að öðrum tímabilinu í sögunni ólöstuðum er upphaf tuttugustu aldar líklega í mestu uppáhaldi hjá mér. Rosen skoðar hér vændi í samhengi við borgarmyndun, aukinn fjölda innflytjenda og iðnvæðingu í Bandaríkunum. Ég er enn sem komið er bara búin með þriðjung af bókinni en ég ætla sannarlega að klára hana.

Siddahartha Mukherjee
Siddahartha Mukherjee, The Emperor of All Maladies. A Biography of Cancer.
Ég hef óþrjótandi sögulegan áhuga á hverskyns sjúkdómum og keypti þessa bók um leið og hún kom út fyrir tæpum tveimur árum. Ég er raunar búin að vera mjög lengi með druslubókafærslu um hana í smíðum sem vonandi ég næ að koma frá mér áður en langt um líður.

Kanafani
Ghassan Kanafani, Men in the Sun and Other Palestinian Stories.
Við sögðum frá afmælisdegi palestínska skáldsins Mahmoud Darwish á facebooksíðu Druslubókabloggsins í gær. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hann og ætti ég kannski að bæta úr því áður en langt um líður. Kanafani (1936-1972) hefur verið í meira uppáhaldi á mínu heimili og við eigum þetta litla safn eftir hann sem borið er uppi af sögunni um mennina í sólinni. Kanafani var mjög virkur í frelsisbaráttu Palestínumanna og helsti forvígismaður PLFP. Hann var myrtur í sprengjuárás í Beirút sumarið 1972. Allur hans skáldskapur var meira eða innblásinn af baráttu Palestínumanna. Men in the Sun segir frá þremur Palestínumönnum og ferðalagi þeirra frá flóttamannabúðum í Líbanon til Kúveit þar sem þeir vonast til þess að fá vinnu í olíuiðnaðinum. Sagan er afskaplega tragísk og sýnir vel það óöryggi og þá kúgun sem Palestínumenn búa við enn í dag.

Moskowitz og Romero, Veganomicon. The Ultimate Vegan Cookbook. Ég hef upp á síðkastið verið að prófa mig töluvert áfram í grænmetismatreiðslu og keypti mér þessa bók fyrir nokkrum vikum. Ég hef prófað að elda allmarga rétti úr henni og flestir hafa þeir bragðast mjög vel. Höfundarnir hafa líka afslappaðan og skemmtilegan humor. Ég get ekki stillt mig um að birta uppskrift úr bókinni enda er druslubókabloggið ekki kerlingablogg fyrir ekki neitt. Reyndar inniheldur uppskriftin bæði hvítvín og klettakál sem kostaði hvítuna úr auganu á Íslandi síðast þegar ég vissi en það má ábyggilega alveg bara nota soð/vatn í stað hvítvíns og sleppa klettakálinu.

Pasta della California

1/2 pund linguine eða bara spaghetti
3 bollar brokkolí
2 msk ólívuolía
8 hvítlauksgeirar (jamm, þeir eru 8)
1/4 tsk raspaður límónubörkur
1/2 tsk chili flögur
1/2 bolli hvítvín
1 bolli grænmetissoð
2 msk límónusafi
1/2 tsk salt
svartur pipar
4 bollar klettakál
2 avacado (passa að þau séu ekki ofþroskuð)

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum á pakka. Þegar pastað er nærri soðið setjið þá brokkolíið út í og leyfið því að sjóða með pastanu í ca 2 mínútur. Hitið ólívuolíu á pönnu við miðlungshita, setjið hvítlauk, límónubörk og chili flögur á pönnuna. Passa að brenna ekki hvítlaukinn. Hellið hvítvíninu yfir og hækkið hitann. Leyfið þessu að sjóða niður í ca. 2 mínútur. Bætið því næst soði, límónusafa, salti og pipar út í og látið suðu koma upp. Lækkið hitann og setjið klettakálið á pönnuna. Þegar pastað og brokkolíið er soðið er vatninu hellt af og því bætt út á pönnuna. Blandið öllu saman og leyfið þessu að sjóða við lágan hita í 2-3 mínútur. Setjið svo niðurskorin acavado út í og leyfið þeim rétt að hitna í gegn, en alls ekki sjóða þau. Saltið og piprið aukalega ef þess þarf.

7 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Við deilum greinilega sagnfræðismekk því ég pissa næstum í mig af spenningi yfir þessum þremur fyrstu. Sérstaklega hysteríunni, hún er auðvitað klassísk. Greinin sem birtist eftir Elaine Showalter í Ritinu heitir víst Femínísk gagnrýni í auðninni og birtist árið 2002.

En klettakál - er það ekki rucola? Það ku vera mjög auðvelt að rækta rucola, þannig að það er allavega hægt að ná niður kostnaðinum að sumri til!

Nafnlaus sagði...

Því má bæta við þessa skemmtilegu færslu, og í tilefni hysteríuáhuga Kristínar Svövu, að bók Rachel P. Maines, "The Technology of Orgasm. 'Hysteria', the Vibrator, and Women's Sexual Satisfaction", er frábær þegar kemur að þessum hysteríufræðum (ef þið hafið ekki blaðað í henni nú þegar). Las hana fyrir fáeinum árum og lét mig í kjölfarið dreyma um rannsóknir á íslenskum hysteríum um aldamótin 1900.

Erla Hulda

Guðrún Lára sagði...

Eftir að yngsta barnið fæddist þurfti að umraða í svefnherberginu og það var ekkert pláss fyrir náttborðin. Nú skil ég af hverju lestur og skriftir hafa gengið illa hjá mér síðustu þrjú ár!

Maríanna Clara sagði...

The Female Malady eftir Showalter er líka frábær bók - mjög áhugaverð en líka skemmtileg og svo skrifaði hún líka Literature of their Own upp úr doktorsritgerðinni sinni sem er mjög fín (á hana og langar mikið að eignast The Female Malady - ein af þeim sem eru alltaf í körfunni á Amazon)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Klettasalat getur vaxið eins og arfi á Íslandi svo verðið á því er frekar óskiljanlegt.

Kristín Svava sagði...

Takk fyrir ábendinguna, Erla Hulda, ég tékka á þessu. Íslensk hysteríurannsókn væri náttúrulega snilld.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mér finnst alltaf jafnundarlegt að gista einhvers staðar þar sem er ekki náttborð, en þó tekur steininn úr þegar fólk er ekki með leslampa. Hvað er að slíkum týpum?!?