31. mars 2012

Kynlegir kvistir hjá Deild Q

Bók #2
Ég las hinn prýðilegasta krimma í vikunni sem leið og var ekki lengi að hesthúsa hann enda hafði ég beðið bókarinnar með talsverðri tilhlökkun. Veiðimennirnir (eða Fasandræberne eins og hún heitir á frummálinu) er önnur bókin í flokknum um Deild Q eftir danska höfundinn Jussi-Adler Olsen, en sú fyrsta heitir Konan í búrinu og kom út hjá Forlaginu í fyrra. Sú var einhver besti krimminn sem ég las í fyrra og það er ekki síst umgjörðin sem mér þykir skemmtileg; gallagripurinn Carl Mørck er settur í eins konar limbó innan lögreglunnar í Kaupmannahöfn eftir hrottalega árás þar sem einn félagi hans lét lífið og annar slasaðist alvarlega. Carl er troðið niður í kjallara með gamlar möppur um eldgömul sakamál og einungis einn aðstoðarmann, en sá er innflytjandi að nafni Hafez el-Assad sem er aldrei alveg ljóst hverju nákvæmlega á að sinna. Það sem á að vera einhvers konar geymsla fyrir Carl verður hins vegar eitthvað annað og meira þegar þeir Assad fara að rannsaka hvarfið á Merete Lynggaard, ungri stjórnmálakonu sem gufaði sporlaust upp einhverjum misserum áður.



Mynd af vef Forlagsins
Plottin hjá Jussi Adler-Olsen eru helvíti fín, bæði í Konunni í búrinu og í Veiðimönnunum, sem er þó allt öðruvísi uppbyggð en sú fyrrnefnda þar eð ráðgátan liggur ekki beinlínis í því sem gerðist eða hver hafi gert það, heldur hvernig sambönd gerendanna þróuðust og hvernig leiðin var að því endatafli sem reynist óumflýjanlegt. Í báðum bókunum eru sjálfir glæpirnir mjög óhugnanlegir, sálfræðilega og hvað ofbeldið snertir, og einmitt þess vegna er svo áhugavert að höfundinum skuli takast að gera lesturinn jafnánægjulegan og raun ber vitni. Það liggur í þessum skemmtilegu og sjarmerandi persónum sem mynda rammann í heimi rannsóknarfólksins; heimilisaðstæður Carls eru til dæmis afar óvenjulegar og kómískar - hann situr uppi með stjúpson á unglingsaldri úr fyrra sambandi og afskaplega kenjóttan en þó ljúfan leigjanda, auk þess sem sú fyrrverandi dúkkar við og við upp með alls kyns tilætlunarsemi og undarlegheit. Carl er bálskotinn í sálfræðingnum Monu sem honum er skipað að fara til eftir árásina skelfilegu en er farinn að efast um eigin frammistöðu á persónulega sviðinu eftir einhverra ára einveru. Assad er mín uppáhaldspersóna í Deild Q - hann er ekki bara comic relief-persóna eins og mann grunar við upphaf fyrstu bókarinnar heldur á hann bæði ljós og skugga, hann á fortíð og þrátt fyrir kómíkina í kringum rannsóknarstörfin og hvernig hann eins og treður sér inn á svið Carls er líka margt dularfullt og óþægilegt í kringum hann. Í annarri bókinni fá þeir félagar liðsstyrk - tja, ef liðsstyrk mætti kalla - í hinni sérlunduðu Rosu sem á að vera einhvers konar ritari en eyðir nánast allri bókinni í að reyna að setja saman fjöldann allan af húsgögnum fyrir skrifstofuna. Það er eitthvað mjög sympatískt við þetta lið allt saman.

Bók #1
Skugginn sem hvílir yfir lífi Carls Mørck er hins vegar ástand félaga hans og vinar sem liggur lamaður á sjúkrahúsi eftir skotárásina sem þeir félagar urðu fyrir. Þetta er einn þeirra þráða sem er ekki gengið frá í bókarlok heldur ferðast áfram gegnum bækurnar; ég er mjög svag fyrir svona sögum sem fá að lifa milli bóka og í Veiðimönnunum er til dæmis greinilega verið að byggja upp einhvers konar leyndardóm í lífi Assads sem við fáum síðan ekki að vita meira um en verður örugglega fjallað um í næstu bókum (sem ég ætla að redda mér á dönsku sem fyrst). Tilfinningin fyrir einhverju stærra samhengi er alltaf kostur þegar maður finnur bókaflokk sem höfðar til manns.

Íslensku þýðinguna á Veiðimönnunum gerir Hilmar Hilmarsson og hún er mjög fín, ég rak augun í einn eða tvo staði þar sem mér fannst eins og einhver ruglingur hefði orðið en annars fannst mér hún koma stemningunni mjög vel til skila, sem og talsmáta ólíkra persóna. Hann þýddi líka Konuna í búrinu sem ég man ekki betur en að mér hafi sömuleiðis fundist hin ágætasta þýðing.

Veiðimennirnir ríghéldu ekki alveg jafnmikið í mig og Konan í búrinu, sem liggur sennilega að einhverju leyti í uppbyggingunni og því hvernig spennan er framkölluð. Þessi bók númer tvö er engu að síður framarlega í krimmaflokknum sem sést ef til vill á því að ég las hana á þremur kvöldum þrátt fyrir að hafa eiginlega ekki tíma til þess ...

Engin ummæli: