paparazzimynd af Agli Helgasyni og Gyrði Elíassyni að spjalla saman á Sauðárkróki.
Skúbb ársins 2012 hlýtur þó að koma frá Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, en þegar hún átti leið um Leifsstöð snemma í morgun rak hún augun í engan annan en rithöfundinn heimsþekkta frá Brasilíu, Paulo Coelho.
Maríönnu varð að sjálfsögðu strax hugsað til Druslubókasíðunnar, gaf sig á tal við höfund Alkemistans og fékk að smella mynd af honum og Christinu eiginkonu hans. Í ljós kom að Coelho er staddur á landinu í einkaerindum, nánar tiltekið í vinarheimsókn hjá sendiherra Frakka, Marc Bouteiller, en hann var áður sendiherra í Suður-Afríku og þar kynntust þeir Coelho þegar sá síðarnefndi var þar á ferð og ákváðu Coelho-hjónin að nota tækifærið á leið sinni frá Bandaríkjunum til Spánar, til að stoppa á Íslandi og heimsækja vin sinn.
Maríanna Clara er ekki einungis druslubókadama heldur starfar hún einnig hjá Eymundsson, og þótt Coelho hafi upphaflega ekki ætlað að koma opinberlega fram í Íslandsheimsókn sinni féllst hann á að gera undantekningu á því fyrir þrábeiðni Maríönnu, sem veit að höfundurinn á sér fjöldan allann af lesendum á Íslandi. Coelho verður því í Eymundsson í Austurstræti milli klukkan 15 og 16 í dag og les upp úr nýjustu bók sinni, Aleph. Hann mun einnig vera fáanlegur til að árita nokkrar bækur ef áhugi er fyrir því.
Paulo Coelho (f. 1947) er einn frægasti núlifandi rithöfundur Brasilíumanna. Hann er þekktur fyrir skáldsögur á borð við Ellefu mínútur og Veronika ákveður að deyja en hans þekktasta bók er þó sennilega Alkemistinn. Um hana sagði bókmenntafræðingurinn Þröstur Helgason: „Í raun drýpur lífsspekin af hverju strái í bókinni ...” Þess má geta að Alkemistinn er meðal annars byggð á pílagrímsgöngu höfundarins til Santiago de Compostela, en mörgum árum síðar gekk íslenskur þýðandi bókarinnar, Thor Vilhjálmsson heitinn, þessa sömu leið og um þá ferð var nýlega gerð heimildarmynd. Paulo Coelho hefur komið áður til Íslands, en það var haustið 2004.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli