Breski rithöfundurinn Doris Lessing fæddist árið 1919 í Tehran í Persíu þar sem hún bjó til fimm ára aldurs ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Næst lá leið fjölskyldunnar til bresku nýlendunnar Suður Rhodesíu, sem að fengnu sjálfsstæði frá bretum árið 1980 fékk nafnið Zimbabwe, en þar höfðu foreldrar Lessing fest kaup á landareign þar sem þau vonuðust til að verða rík á því að rækta maís. Lessing bjó í Suður Rhodesíu fram til ársins 1949 en þá flutti hún ásamt ungum syni sínum til London og hefur búið þar alla tíð síðan. Foreldrar Lessing bjuggu í Suður Rhodesíu það sem eftir lifði æfi þeirra en náðu þó aldrei takmarki sínu að verða rík. Faðir hennar var ánægður með líf sitt þar þrátt fyrir að búskapurinn gengi brösuglega og fjölskyldan væri stöðugt skuldum vafin, en samkvæmt Lessing var hann draumóramaður og stundaði oft allskyns rannsóknir og tilraunir þegar hann hefði átt að vera að sinna bústörfum. Móðir hennar var hinsvegar aldrei fullkomlega ánægð í Afríku. Hún hafði verið hjúkrunarkona áður en hún gifti sig og lífið á sveitabænum veitti henni ekki útrás fyrir alla þá orku og kunnáttu sem hún bjó yfir. Lessing sjálf hefur talað um að það hafi verið sín mesta gæfa að alast upp á þessum stað, hún hafi notið frjálsræðis sem stúlkur á hennar aldri t.d. í Englandi hefðu ekki getað látið sig dreyma um. Sveitabærinn og landslagið þar í kring var hennar skóli; hún lærði öll almenn störf innanhúss og utan og auk þess að fara með byssu yfir öxl á veiðar og fleira slíkt sem hún hefði aldrei fengið tækifæri til að gera hefði hún alist upp í þéttbýli.
Formleg skólaganga Lessing var stutt: hún hætti í skóla 14 ára og hefur haft orð á að það hafi verið hin mesta gæfa. Einsog þau orð gefa til kynna hefur hún lítið álit á skipulagðri menntun, finnst að of lítið sé gert af því að fá nemendur til að stunda sjálfstæða og skapandi hugsun en því meiri áhersla lögð á meðalmennsku og hjarðhugsunarhátt. Eftir að skólagöngu hennar lauk menntaði hún sig sjálf með því að lesa allt sem hún komst yfir, skáldsögur jafnt sem fræðirit, og síðar einnig með því að umgangast hóp kommúnista í Salisbury, höfuðborg Suður Rhodesíu.
Þessi hópur kommúnista olli straumhvörfum í lífi Lessing. Áhrifin sem hún varð fyrir á þessum tíma ristu djúpt og þeirra sjást enn merki í viðhhorfum hennar og hugsanagangi þrátt fyrir að hún hafi í áratugi ekki talið sig kommúnista. Hugmyndir hennar um feminisma og kvennahreyfinguna bera t.d nokkurn keim af þeim hugmyndum sem hún aðhylltist á kommúnistaárum sínum í Salisbury. Í þessum hópi fannst henni hún loksins hafa fundið fólk sem hún gat talað við, fólk sem hafði hugmyndir og velti fyrir sér öðrum hlutum en flestir íbúar nýlendunnar, en samkvæmt Lessing höfðu hvítir landar hennar lítinn áhuga á öðru en að eignast peninga, skemmta sér og viðhalda ríkjandi skipulagi, sem fól í sér yfirráð hvíta minnihlutans yfir frumbyggjum landsins. Lessing hafði lengi haft andstyggð á því hvernig málum frumbyggjanna var hagað og þar með á þeim hugmyndum sem Suður Rhodesía var grundvölluð á, en vantaði farveg fyrir þessar skoðanir sínar. Suður rhodesísku kommúnistarnir veittu henni þann farveg auk innsýnar inní stærra hugmyndakerfi, eða fjölþjóðahyggju kommúnismans, sem hún tók opnum örmum. Þessi hópur fólks var mikið til saman settur af flóttamönnum frá Evrópu, auk breskra hermanna sem sendir höfðu verið til Suður Rhodesíu í þjálfunarbúðir í seinni heimsstyrjöldinni. Hópurinn kynnti Lessing því fyrir fólki sem var öðruvísi en nýlendubúarnir sem hún hafði alist upp með.
Lessing var um skeið sannfærður kommúnisti, trúði því að innan skamms myndi fagnaðarboðskapur kommúnismans yfirtaka heiminn og að þar með yrði ráðin bót á öllum vanda mannkyns. Fátækt, kynþáttahatur og kvennakúgun myndu þá ekki lengur vera til og allar heimsins þjóðir lifa saman í lukkunnar velstandi. Þessi útópíski draumur rættist vissulega ekki og Lessing snéri baki við sínum ungæðislegu hugmyndum. Hún taldi sig ennþá vera kommúnista þegar hún flutti til London árið 1949, en hafði þá þegar fjarlægst beina þátttöku í hugmyndafræðilegu starfi. Hún hefur síðan algjörlega sagt skilið við allan kommúnisma og fært sig hugmyndafræðilega yfir í Sufisma, sem er tegund af Islamskri dulspeki.
Það er ekki ólíklegt að vonbrigði Lessing yfir misræminu milli þess hvað hún taldi kommúnisma vera og raunveruleikans hafi orðið til þess að efla vantrú hennar á ýmiskonar hugmyndafræði og pólitískum hópum. Hún hefur t.d. aldrei viljað láta stimpla sig sem “feminískan” höfund og taldi sér misboðið þegar gagnrýnendur, jafnt sem almennir lesendur, litu á bók hennar The Golden Notebook (sem út kom árið 1962) sem háfemínískan texta. Bókin, sem skiptist í hlutana Frjálsar Konur og fimm nótubækur (rauða, svarta, gula og bláa, auk gylltrar í lokin), fjallar um rithöfundinn Önnu Wulf og tilraunir hennar til að koma skipulagi á og skilja líf sitt og tilveruna almennt, sem henni finnst vera í mikilli óreiðu. Í gegnum nótubækurnar (hver litur táknar ákveðinn hluta lífs Önnu) og skáldsöguna Frjálsar Konur nær Lessing að fjalla á nýstárlegan og hreinskilinn hátt um líf kvenna á miðri tuttugustu öldinni. Anna Wulf og vinkonur hennar eru “frjálsar konur” að því leyti að þær hafa haft aðgang að menntun og atvinnu; gifting og húsmóðurstarf er ekki lengur eina leiðin fyrir konur til að sjá fyri sér, en á sama tíma eru þær bundnar á klafa þeirra væntinga sem þjóðfélagið gerir til kvenna.
Samkvæmt Lessing sjálfri var bókin síður en svo skrifuð með kvennahreyfinguna í huga og takmark hennar með bókinni ekki sérstaklega að vekja athygli á stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Hún hefur sagt að ein á ástæðunum fyrir því að bókin þótti svo róttæk á sínum tíma hafi verið sú að hún hafi verið skrifuð einsog barátta kvennahreyfingarinnar á sjötta áratugnum hefði þegar farið fram og því tekið hluti sem gefna sem á þeim tíma þóttu framúrstefnulegir, svo vægt sé til orða tekið. Það sem Lessing segist sjálf hafa viljað koma til skila með bókinni, fyrir utan það að skrifa nokkurs konar sögulega skáldsögu sem lýsti bresku þjóðfélagi um miðja tuttugustu öldina, var að sýna fram á hætturnar sem hún telur vera því samfara að smætta tilveruna niður í fyrirfram gefnar einingar. Lessing heldur því fram að algjörlega nauðsynlegt sé að hafa heildarsýn og leyfa lífinu að fljóta áfram í öllum sínum margbreytileika. Til þess að ná þessu takmarki verði oft að brjóta niður viðteknar hugmyndir, bæði um þjóðfélagið og um tengsl milli einstaklinga. Hugmyndin um hvað það þýði að vera andlega heill er t.d. tekin til endurskoðunar í bókinni og það er ekki fyrr en söguhetjan, Anna Wulf, hefur gengið í gengum það sem þjóðfélagið myndi kalla geðveiki sem hún nær að verða heil og vinna úr brotunum sem hún hefur safnað saman í nótubækurnar.
Það eru einmitt þessar sömu nótubækur sem greina The Golden Notebook frá hefðbundnum skáldsögum og um leið frá þeim verkum sem Lessing hafði áður skrifað. Mikið af því efni sem ganrýnendur telja femínískt í sögunni kemur einnig fram í texta nótubókanna, en í þeim ægir saman allskyns efni, brotum af sögum, fréttaúrklippum, ævisögulegum skissum og fleiru og fleiru sem allt á sinn hátt tengist hinni hefðbundnu skáldsögu Frjálsar Konur, en henni er skipt niður í hluta og komið fyrir á milli nótubókanna. Frjálsar Konur er það sem stendur eftir þegar efni nótubókanna hefur verið skoðað, lagað til komið fyrir innan frambærilegs hefðbundins skáldsöguforms. Nótubækurnar eru óreiðan sem listaverkið er framleitt úr: hráar tilfinningar, daglegt streð, pólitískar hugleiðingar, pælingar um sérstöðu kvenna, daglegt líf þeirra og skyldur. Lessing nær að brjóta upp hefðbundið skáldsöguformið með því að nota nótubækurnar til að sýna allt efnið og reynsluna sem þarf að skilja eftir þegar hefðbundin skáldsaga er skrifuð. Engu að síður má segja að sú leið sem Lessing velur til að brjóta upp skáldsöguformið sé mjög “formleg” því bókin skiptist í fimm jafna hluta og röðin á efninu er alltaf sú sama: Frjálsar Konur, svarta nótubókin, rauða nótubókin, gula nótubókin og bláa nótubókin og í lokin gyllta nótubókin.
Í tímaritsgrein frá 1971, sem síðan hefur verið notuð sem formáli að bókinni, gerir Lessing grein fyrir þeim hugmyndum sem af hennar hálfu lágu að baki því að nota þetta nýstárlega skáldsagnaform. Hún hafði hugsað sér að sundrað form verksins myndi tala til lesendanna og koma megin hugmynd hennar til skila, nefnilega hættunum sem hún telur vera því samfara að hafa ekki heildarsýn yfir líf sitt og þjóðfélagið almennt. Nafn bókarinnar, The Golden Notebook og það að í lokin nær Anna því takmarki að skrifa einungis í gylltu nótubókina, átti að koma því til skila til lesenda að þetta væri meginþema bókarinnar. Þar að auki kvaðst Lessing hafa viljað sýna fram á takmarkanir hefðbundins skáldsöguforms. Hún hafði fram að þessu skrifað hefðbundnar raunsæislegar skáldsögur og smásögur sem henni fundust ekki lengur vera til þess fallnar að fjalla um nútímann með öllum sínum flækjum. Með því að láta það sem hefðundnar skáldsögur fjölluðu almennt ekki um koma fram í nótubókunum, og sýna svo hvernig því efni er umbreytt í Frjálsum Konum, vildi Lessing koma á framfæri óþolinmæði sinni gagnvart raunsæishefðinni sem hún hafði aðhyllst fram að þeim tíma.
Það var langt því frá að þessar hugmyndir og pælingar höfundarins væru ofarlega í huga gagnrýnenda og annarra lesenda The Golden Notebook þegar hún kom út árið 1962. Flestir litu á bókina sem feminískan texta sem fjallaði um stöðu konunnar og baráttu kynjanna. Þessi túlkun á bókinni fór óskaplega í taugarnar á Lessing – sem kannski er skiljanlegt þarsem hún hafði verið að reyna að segja allt aðra hluti og enginn virtist skilja hana – og hefur að mörgu leyti sett svip sinn á tengsl hennar við kvennahreyfinguna allar götur síðan. Þau tengsl hafa einkennst af óþolinmæði og pirringi af hálfu Lessing, en hún hefur bæði í viðtölum og greinum talað um að kvennahreyfinginn og kvennabarátta almennt sé byggð á misskilningi, þ.e. að kvennabarátta hljóti og verði alltaf að vera hluti af stærra samhengi sem felist í því að berjast fyrir almennum mannréttindum öllum til handa, ekki sé verjandi að taka konur út úr heildarmyndinni og vinna eingöngu að þeirra málum, hlutirnir séu flóknari en svo. Á sama tíma hefur hún viljað taka það fram að hún sé að sjálfsögðu ekki á móti feminismanum per se, en telji að almennt hafi kvennahreyfingin ekki staðið rétt að sínum málum.
Viðhorf Lessing til feminismans eiga sér að öllum líkindum margar skýringar. Þeirra helstar eru þó væntanlega þessi meinti misskilningur feminista og fjölda annarra lesenda á því sem hún sjálf leit á sem “boðskap” og hugmyndafræði bókarinnar. Nátengt því viðhorfi er tilhneiging Lessing til að vilja hafa töglin og hagldirnar þega kemur að túlkun verka sinna – en hún hefur verið alls óhrædd við að gefa út línuna varðandi það hvernig lesa eigi verk hennar og hvað séu sæmandi túlkanir á þeim. Þetta hefur hún gert í viðtölum og ekki síður í formálum og eftirskriftum við bækur sínar, sem og í blaða- og tímaritagreinum. Þá virðist hún ekki hafa losað sig algerlega við eftirhreytur hinnar kommúnísku hugmyndafræði sem hún aðhylltist á yngri árum, þrátt fyrir að hafa margsinnis opinberlega afneitað kommúnismanum og öllu því sem honum fylgdi. Enn virðist eima nokkuð af því viðhorfi að sá tími muni koma, og sé jafnvel einhversstaðar í gangi nú þegar, þó það sé kannski frekar á öðrum plánetum, að kvennakúgun og önnur viðlíka þjóðfélagsvandamál verði hreinlega úr sögunni. Ef til vill er ekki fullkomlega sanngjarnt gagnvart Lessing að halda því fram að hún telji að slíkar töfralausnir séu til, en engu að síður verður það að teljast líklegt að hún sé í þessum málum að einhverju leyti fórnarlamb fortíðar sinnar.
Viðhorf Lessing til feminismans og pirringur hennar á þeim örlögum The Golden Notebook að vera skipað á sess sem einu af grunnritum kvenfrelsisbaráttunnar er þó kannski framar öðru byggt á viðhorfi sem er undirliggjandi allri hennar höfundarheimspeki, þ.e. rómantískum hugmyndum um hina skapandi vitund og listamanninn sem einhverskonar sjáanda sem hafi sérstaka hæfileika til að sjá hlutina einsog þeir eru – að ímyndunaraflið sé raunveruleg uppspretta þekkingar á heiminum og að æðri hæfileikar listamannsins geri hann sérlega til þess fallinn að túlka heiminn. Að þessu leyti má segja að Lessing sé nær Rómantísku skáldunum en raunsæishöfundum eða feministum svo einhverjir séu nefndir. Í þessu samhengi er einnig áhugavert að benda á að rómantísku skáldin, svo sem Wordsworth í formála að Lyrical Ballads, Coleridge í Biographia Literaria og Shelley í “A Defence of Poetry” nota textana sem tæki til að koma á framfæri pólitískum og félagslegum kenningum og hugmyndum í bland við fagurfræðilegar pælingar. Lessing, líkt og þessi skáld, leggur áherslu á yfirburði skapandi hugsunar og ímyndunaraflsins og hæfileika þess til að umbreyta heiminum. Skáldið eða listamaðurinn er þar í forgrunni og í raun sá aðili sem hefur hvað mest að segja af viti um þjóðfélagið. Hið skapandi afl er því séð sem pólitískt í eðli sínu og listaverkið sannara en aðrar túlkanir á heiminum.
Það má etv segja að það sé grátbroslegt miðað við það sem Lessing hefur látið frá sér fara um málið að það verk sem hún er hvað frægust fyrir tengi höfundarverk hennar kvennahreyfingu sjötta áratugarins órjúfandi böndum. Þrátt fyrir eindreginn og ákafan vilja hennar til að hafa töglin og hagldirnar hvað túlkun á textanum varðar og þá skoðun sína að listamaðurinn hafi sýn sem okkur hinum sé hulin hefur textanum tekist að lifa sínu eigin lífi og vera feministum, sem og öðrum, innblástur og hvatning við störf sín og pælingar. The Golden Notebook hefur verið lýst sem grunntexta í kvenfrelsisbaráttunni og þar við situr, þrátt fyrir pirring og mótmæli höfundarins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli