11. apríl 2012

Leitað með logandi kyndli

Ég er nýlega búin að fá mér „kyndil“ eða Kindle Touch bókhlöðu frá Amazon netbókabúðinni og spanderaði um leið í leðurband með innbyggðu ljósi. Það er fáránlega ánægjulegt að kveikja á bókhlöðunni og smella ljósinu fram. Það lætur mér líða eins og glæstu framtíðarhugmyndirnar sem ég elskaði sem krakki séu á næsta leiti. Við munum öll líða um á svifbílum, maturinn verði í pilluformi og bókasafnið komist fyrir á litlum rafplatta. Þó að sá veruleiki hafi ekki verið kominn árið 2000 eins og maður hafði nú gert ráð fyrir á sjöunda áratugnum þá sé núna farið að glitta í hann.
Það er dapurlegt að horfa upp á hálftóma bókaskápa, því hendist nýr bókhlöðueigandi um netið í leit að bókum. Óteljandi síður hafa sérhæft sig í að miðla bókum og ógrynni eru til af erlendum rafbókum, en það var nokkuð flóknara að finna eitthvað fyrir kyndilinn á íslensku. Amazon hefur reynt að loka fyrir sölu rafbóka á AZW-forminu annarstaðar en á sínum vefjum. Samningar um bóksölu hafa enn ekki náðst milli íslenskra útgefenda og Amazon enda ekki augljóst að hag íslenskra rafbóka sé best komið í höndum Amazon-manna ef marka má fréttir af hressilegum afsláttarkjörum sem þeir fara fram á og yfirgangssömum viðskiptaháttum.

Kyndillinn er fyrst og fremst hannaður til að lesa AZW rafbókaformið (sem er læst útgáfa af MOBI-forminu) en les einnig PDF, TXT, ólæstar skrár á MOBI-forminu. Skrár á formatinu PRC, HTML, DOC, DOCX, JPEG, GIF, PNG, og BMP þarf að eiga aðeins við áður en kyndillinn getur lesið þær og þar liggur hundurinn grafinn. Þetta er ekki tækni sem er búið að fullkomna og þú lendir ansi oft á veggjum. Flestir eru tæknilegs eðlis en sumir þeirra eru þó tilkomnir vegna baráttunnar sem á sér stað um rafbókina á milli Amazon og fjölda annarra hagsmunaaðila; útgefanda, bóksala og tækniframleiðanda.  Þú þarft því að vera ansi útsjónarsöm ef þú vilt lesa (og borga fyrir) íslenskar rafbækur.

Eitt af því sem getur hjálpað í þeim væringum eru ýmis fríforrit sem með einföldum hætti geta umbreytt bókum frá einu formi yfir á annað.  Áður en ég eignaðist kyndilinn hafði ég aðallega setið píreyg við að lesa rafbækur í tölvunni með hjálp fríforrita eins og Adobe og átti því orðið safn af rafbókum á ePUB-formi sem ég vildi gjarnan lesa í nýju græjunni minni.  Ég komst að því að það má nota Calibre til að breyta skjölum á ePUB-formi yfir í MOBI-form sem Kyndillinn getur lesið, en Calibre getur opnað flestar tegundir af rafbókum. Leiðbeiningar um þessa framkvæmd má t.d. finna á síðunni FCI Technology Blog eða hjá Good e-Reader á youtube. Því miður dugar þessi aðferð ekki til að færa okkur nær því að lesa nýja íslenskar metsölubækur á kyndlinum því þær rafbækur sem fást t.d. hjá Eymundsson eru á Ebook  formati með Adobe læsingu; vonandi finnst lausn á því sem fyrst.

Leitin að bókum fyrir kyndilinn minn skilaði mér löngum lista yfir síður sem bjóða upp á íslenskar rafbækur á ýmsu formi. Ég birti hann hér svo hann geti verið ykkur lesendur góðir til hægðarauka:

Bækur.is er rekinn af Landsbókasafninu sem ætlar sér að birta allar íslenskar bækur útgefnar fyrir 1870 í stafrænni endurgerð. Þeir eru komnir upp í 431 á PDF, TXT og JPEG- formi.
Emma er rafbókamiðlari fyrir íslenskar rafbækur sem gerir sjálfstæðum höfundum, útgefendum og handhöfum útgáfuréttar kleift að koma ritverkum á framfæri hvort sem þeir vilja taka gjald fyrir eða ekki. Bækurnar eru á ePUB eða MOBI-formi.
Eymundsson selur íslenskar rafbækur á ePUB-formi, en það þýðir að kyndillinn getur ekki lesið skrárnar. Sækja þarf ókeypis lestrarforrit sem er til fyrir flestar tölvur og lestæki. Einnig þarf að nálgast Adobe ID auðkenni sem er ein tegund af öryggislæsingarkerfi rafbóka.
Netbok.is styðst við kerfið IBookstore býður upp á nokkrar íslenskar bækur en

Lestu.is er áskriftarvefur og eru milli 50 og 60 titlar í boði fyrir flestar tegundir bókhlaða.
Project Gutenberg hýsir um 33.000 bækur sem eru utan höfundarréttar. Mjög fjölbreytt úrval skráa þar á meðal fyrir Kyndil. Fáar íslenskar bækur, innan við 10 þegar þetta er skrifað, þar á meðal Grimms ævintýrið um Mjallhvíti með myndum.

Project Runeberg  er norræn samsvörun við Project Gutenberg. Nokkrar rafbækur á íslensku, aðallega fornrit.

Rafbókavefurinn hýsir fjölbreytt efni á rafbókarformi bæði fyrir bókhlöður og spjaldtölvur. Efnið á síðunni er ekki með afritunarlæsingu og notendur síðunnar eru ekki krafðir um greiðslu en óskað eftir framlögum.
Nokkur útgáfufyrirtæki og höfundar halda úti síðum með rafbókum sínum:
Bókaland rithöfundarins Ingólfs Gíslasonar en þar má nálgast PDF-sköl með bókum höfundar

Forlagið selur sjálft rafbækur á heimasíðu sinni á formi sem er aðgengilegt fyrir spjaldtölvur, PC og Mac en ekki kyndil.
Helga Ferdinandsdóttir






2 ummæli:

Alexander sagði...

Forlagið Rúnatýr er líka með rafbækur: http://runatyrutg.wordpress.com/

Eitthvað af þeim verður til sölu á skinnu.is:

http://skinna.is/

Guðrún Hulda Fossdal sagði...

Vildi bara láta þig vita að það eru til kóðar til að setja inn í calibre sem aflæsa dmr lásum á t.d. íslenskum rafbókum svo það er hægt að breyta þeim í það lesform sem kindle styður.