22. apríl 2012

Góð bókahelgi

Ragnheiður Gröndal spilar, Alda Björk og Páll hlusta.
Í gær gerði ég mér ferð alla leið upp í Gerðuberg, þar sem Hallgrímur Helgason og verk hans voru til umfjöllunar á ritþingi. Bókmenntafræðingarnir Alda Björk Valdimarsdóttir og Páll Valson ræddu við Hallgrím um verk hans og það var engin önnur en druslubókadaman Þorgerður E. Sigurðardóttir sem var stjórnandi þingsins. Þetta var fyrsta ritþingið sem ég kem á í Gerðubergi, en mér sýnist slík þing vera haldin árlega. Stemmingin var afslöppuð og það var sérstaklega gaman að hlusta á umræðurnar. Spyrlarnir eru sérfræðingar í Hallgrími (Alda Björk hefur skrifað bók um verk hans) og viðfangið sjálft, Hallgrímur, reyndi aldrei að skorast undan því að svara spurningum þeirra heldur talaði á umbúðalausan hátt um verk sín og sjálfan sig. Það er náttúrulega afskaplega gaman að fara svona yfir feril höfundar, setja verk hans í samhengi hvert við annað og við líf hans, en það spillir heldur ekki fyrir að höfundurinn sé svona hress og tilbúinn til að ræða þetta allt saman. Ragnheiður Gröndal flutti svo nokkur lög við kvæði eftir Hallgrím og að ritþinginu loknu var sýning á myndum eftir hann, Myndveiðitímabilið 2012, opnuð á neðri hæð safnsins. Málverkin og teikningarnar sem hanga þar voru allar gerðar á þessu ári og ég mæli svo sannarlega með því að þið tékkið á þeim. Ég tók örfáar myndir á ritþinginu, en þær eru svolítið blörraðar vegna þess að myndavélin mín er biluð – ég veit, hún var líka biluð síðast þegar ég fór á viðburð í Gerðubergi. Næst þegar ég tek bókaviðburðamyndir verður búið að laga hana, ég lofa. Núna skuluð þið bara ímynda ykkur að ég hafi viljað miðla viðburðinum eins og örlítið nærsýn manneskja hefði mögulega upplifað hann.
Alda, Páll, Hallgrímur og Þorgerður alveg að fara að byrja
eftir hlé. Tæknimaðurinn í óða önn að undirbúa.
Til gera þessa helgi að ennþá betri kom nýjasta hefti Spássíunnar inn um lúguna hjá mér rétt áðan. Þar má finna helling af efni um bækur – greinar, ritdóma um nýlegar bækur og viðtal við Steinar Braga. Ég held ég helli mér bara upp á kaffi og kíki á þetta.

1 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Mér sýndist þetta vera Þorgerður við flygilinn og velti því fyrir mér hvort hún hefði sett spurningar sínar fram í formi tónverks.

Skemmtilegt, annars! Ég skal koma með þér á næsta bókmenntaviðburð og taka myndir á ó-biluðu myndavélina mína, þótt þetta sé reyndar hin huggulegasta hefð.