29. mars 2012

Ljóðskáld með innkaupapoka, varðveisla torfs, Guðrún frá Lundi og dadaistarnir í Tímariti Máls og menningar

Fyrsta hefti ársins af Tímariti Máls og menningar kom út í síðasta mánuði. Forsíðuna prýðir mynd frá Kúbu eftir Jóhann Pál Valdimarsson, sem virðist vera að festa sig í sessi sem hirðljósmyndari íslenskra bókmenntaheimsins. Þar sem aðrar druslubókadömur höfðu fyrir því að bera eintakið alla leið yfir hafið (ásamt fylltum lakkrísreimum, páskaeggjum og fleira smálegu) sé ég mér ekki annað fært en að skrifa um það síðbúna ritfregn. Ferðalangarnir tóku treglega í þá hugmynd að bera heftið með sér til baka svo ég er að hugsa um að lauma því í hillurnar hér í leiguíbúðinni og ímynda mér svipinn á eiganda hennar þegar hún rekst á þetta hrognamál milli alþjóðlegra arkitektúrbóka og Pessoaljóða.

Í Tímaritinu er að finna hefðbundinn skammt af skáldskap, fræðiefni og bókarýni. Í þetta sinn finnst mér fræðilegi hlutinn koma sterkar inn en skáldskapurinn, þótt ég hafi dálítið gaman af óútreiknanlegum og út-í-hött Reykjavíkurljóðum Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur: „Við Grímur ræddum stutt um þau hughrif sem ljóðskáld með innkaupapoka vekur.“ Dante-þýðinguna þyrfti ég að lesa aftur og hægar.

Ég viðurkenni að ég nennti ekki að lesa til enda greinina „raunveruleg lýðræðisleg umræða hefur aldrei farið fram...“ eftir Salvöru Nordal, um stjórnarskrána og stjórnlagaþingið. Svona er ég lélegur borgari í lýðræðissamfélaginu. Hins vegar kom ánægjulega á óvart að sjá í Tímaritinu, sem hefur svosem ekki verið að springa úr róttækni undanfarið, grein eftir Snorra Pál Úlfhildarson Jónsson um óeirðirnar í London í fyrra og það hvernig yfirvöld og fjölmiðlar hafa afgreitt þær sem óröklegt og í raun merkingarlaust jaðarfyrirbæri. Kannski er ekki óvitlaust einmitt að lesa þær saman, grein Salvarar og grein Snorra; ólíkar greinar um ólík viðbrögð við kreppuástandi.

Hallgrímur Helgason skrifar fína grein um Guðrúnu frá Lundi, afslappaða og fyndna, sérstaklega framan af. Hugleiðingar hans um samfélagsstöðu Guðrúnar sem skrifandi konu annars vegar og Halldórs Laxness sem skrifandi manns hins vegar er gott dæmi um ágæti sögulegrar hugsunar; hann sautján ára unglingur á leið út í heim, hún þrítug þriggja barna móðir að hella upp á fyrir gestina: „Reynum að sjá fyrir okkur Guðrúnu frá Lundi á kaffihúsi í París árið 1910, með verðandi dúndurskáldum og dadaistum.“ (Guðrún og Gertrude, saman í swinginu?) Ég er ekki frá því að grein Hallgríms hafi jafnvel kveikt með mér svolítinn áhuga á Dalalífi - kannski til að lesa næst þegar maður verður veikur. Sú aukna umræða um verk Guðrúnar sem hefur átt sér stað síðustu ár hefur annars ekki náð til mín hingað til.

Menningararfur.
Sigurjón Baldur Hafsteinsson safnafræðingur og Hjörleifur Stefánsson arkitekt hafa skipst á ádrepum í síðustu heftum og í þessu hefti á Sigurjón pistilinn „Hughrif um varanleika“, um torfbæi og varðveislu þeirra. Ég man ekkert hvað það var sem kveikti þessi skoðanaskipti upphaflega og hér tala ég eingöngu út frá þessari ádrepu Sigurjóns, en efnið er afar áhugavert og kemur inn á mikilvægar spurningar um menningararfleifð og varðveislu. Af hverju að varðveita menningarminjar? Hvernig á að varðveita þær? Verða þær best varðveittar með því að frysta þær í einhvers konar tímalausu ástandi eða með því að leyfa þeim að þróast og breytast? Sigurjón segir frá hugmyndum og aðferðum við varðveislu fornleifanna sem mynda grunninn að Landnámssýningunni í Aðalstræti, en þar fóru tveir danskir forverðir þá leið að úða 12.000 lítrum af svokölluðu sílikati yfir rústirnar svo „yfirborð [torfsins] var hart eins og frauðsteypa“. Með þessu er, eins og Sigurjón bendir á, verið að breyta torfinu í annað og varanlegra efni með það fyrir augum að „varðveita“ það í „upprunalegri“ mynd. Þetta er ágætt dæmi um þá togstreitu sem gjarnan er innbyggð í háleitar hugsjónir um varðveislu menningararfs. Fyrir léttúðugan lesanda sem ber enga ábyrgð á þessari tilteknu varðveislu er hálffyndið að sjá fyrir sér angistarfulla baráttu forvarðanna við torfið: „Ein hugmyndin var sú að setja rústina undir glerhjúp, en þá var talið að lífræn efni torfsins myndu fljótt verða fyrir áhrifum af myglu, þörungum og öðrum örverum“ – þetta hefði orðið eins og listaverk eftir Dieter Roth.

Í bókadómahlutanum skrifar Aðalsteinn Ingólfsson ansi harkalegan dóm um Íslenska listasögu, en hann fjallaði einnig um hana í viðtali í Víðsjá þann 5. mars síðastliðinn. Árni Bergmann skrifar pistil um tvær tengdar bækur, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, ævisögu Þórðar Sigtryggssonar skráða af Elíasi Mar, og Þórðargleði. Þættir úr höfundarsögu Elíasar Mar eftir Þorstein Antonsson. Þá síðarnefndu – sem fjallar um Elías Mar og hvernig stóð á því að hann, sem hafði verið virkur rithöfundur um árabil, hætti svo til að gefa út skáldskap áður en hann varð fertugur – hef ég ekki enn lesið, en þá fyrrnefndu fjallaði ég um á þessari síðu fyrir jól. Eins og ég tíundaði í þeirri umfjöllun er ævisaga Þórðar duttlungafull bók, í aðra röndina endurtekningasamt geðvonskuraus og persónuníð en líka oft skemmtilega óforskömmuð og fyndin frásögn sem gefur óhefðbundna innsýn inn í Reykjavíkurlífið á fyrri hluta 20. aldar og jafnvel af og til inn í persónulega erfiðleika og bælingu. Umfjöllun Árna er yfirveguð og sanngjörn, en hann þekkti bæði Þórð og Elías og því er pistillinn blanda af bókadómi og persónulegri frásögn. Persóna Þórðar er þar mjög miðlæg og tilraunir til að skilja hann, illskeyttni hans og dómhörku í bland við sífelldan lofsöng um fegurðina, listina og kynlífið, en allt er þetta í huga hans vandlega fléttað saman. Árni upplýsir meðal annars um það að pilturinn sem Þórður lýsir í bók sinni sem þeim fegursta og besta sem hann hafi elskað var í rauninni barn að aldri. Þannig er nú stundum hin háleita fegurð og listfengni.

Ég hef drepið á það sem mér þótti persónulega skemmtilegast í heftinu, en einnig er þar að finna ágæta grein eftir Jón Karl Helgason um Bjarna Thorarensen, Jónas Hallgrímsson og stöðu þjóðskáldsins, ljóð eftir Gerði Kristnýju og Eyvind P. Eiríksson, minningargrein eftir Einar Má Guðmundsson, smásögur eftir Guðmund Brynjólfsson og Rúnar Helga Vignisson, og bókadóma um þríleik Jóns Kalmans (sem ég sleppti viljandi því ég er bara búin að lesa fyrstu bókina), Sýrópsmána Eiríks Guðmundssonar og bókina Þingræði á Íslandi.

Engin ummæli: