Nabokov að störfum |
Ég heyri fólk oft segja að það vilji helst lesa bók á frummálinu (það er að segja ef það er slarkfært í því máli) en ef ég get valið kýs ég sjálf oft að lesa bók á því tungumáli sem ég kann best. Að hluta til má kannski kenna um leti, en ef ég á kost á íslenskri þýðingu sem ég held að sé þokkaleg þá sé ég yfirleitt enga ástæðu til að lesa bók á einhverju máli sem ég kann ekki eins vel og íslensku.
Ég hef tekið námskeið í þýðingafræðum og vinn sjálf töluvert við að þýða og hef velt þýðingum og því vali sem maður er alltaf að gera sem þýðandi, heilmikið fyrir mér. Maður kemst auðvitað ekkert hjá því að setja fingraför sín á þann texta sem maður þýðir, sem þýðandi þarf maður alltaf að vera að velja orð og hugtök*. Það eru allskonar skólar í gangi í bókmenntaþýðingum, sumir vilja að þýtt sé sem nákvæmlegast eftir frumtextanum en aðrir vilja að fagurfræði málsins sem þýtt er yfir á sé látin ráða. Svo vilja sumir staðfæra og aðrir ekki og höfundar hafa líka misjafnar skoðanir á hvernig þeir vilja láta þýða verk sín, sumir höfundar vinna með þýðendum á meðan aðrir vilja bara að þýðandinn sjái alfarið um sína vinnu. Ég man að þegar Slavoj Žižek var með fyrirlestur í Háskóla Íslands sagði hann eitthvað í áttina að því að hann vildi gjarna að þýðendur „bættu“ texta hans ef þeir gætu, hann hefði orð á sér fyrir að skrifa ruglingslegan texta en að það væri hans vandamál og að hann vildi koma ákveðnum hlutum til skila og þess vegna yrði hann glaður ef þýðendur „löguðu“ bækurnar hans. Þýðendur lenda líka stundum í því að þurfa að laga texta, stundum sér maður að eitthvað er ekki rétt (þetta á sérstaklega við um nýjar bækur, stundum slæðast inn villur sem eru leiðréttar þegar bækur eru endurprentaðar) og stundum fær maður senda pósta með beiðnum um að einhverju sé breytt í þýðingu, einhver lesandi eða höfundurinn sjálfur hefur þá kannski rekist á eitthvað sem betur má fara.
Þegar við vinkona mín vorum börn ergðum við okkur mikið á titlum á bókunum um hestinn Gust, sem okkur fannst alveg ómögulegir. Til dæmis fór titillinn Gustur - og síðan kom stórhríðin alveg gríðarlega í taugarnar á okkur, ekki síst vegna þess að við sáum að bókin hét Fury and the white mare á frummálinu. Þetta titlamál er sérstök pæling í þýðingum. Stundum er algjörlega augljóst að þýða bara titil bókar beint en stundum finnst manni það ekki ganga upp einhverra hluta vegna og það þarf að finna nýjan titil. Útgefendur hafa líka skoðanir á titlum bóka, þeir vilja auðvitað selja bækurnar, titill sem gengur í lesendur í einu landi getur verið álitinn ómögulegur í sölulegu tilliti á öðru málsvæði. Svo eru dæmi um að titill sé vísun í eitthvað, t.d. alþekkt dægurlag, í heimi frummálsins og þá getur verið algjörlega tilgangslaust eða mjög kjánalegt að þýða hann beint.
Bellis perennis |
Þýðingar eru ekki hálaunastarf og ansi oft unnar í tímahraki og af misnákvæmri manneskju með gyllinæð eða bakverk. Þess vegna skiptir miklu máli að vel sé lesið yfir og oft hafa einhverjir snillingar, nafngreindir og ónafngreindir, bjargað mér frá því að komast fáránlega klúðurslega að orði eða hreinlega gera mig að fífli í þýðingum. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi, ég legg mig fram um að gleyma slíku, en svona áður en ég set punkt og fer að þýða þá ætla ég að nota tækifærið og þakka glöggum yfirlesurum og prófarkahetjum fyrir sín mikilvægu og hljóðlátu störf.
* Nú rifjast skyndilega upp fyrir mér að einu sinni lenti ég næstum í því að þýða slagorð fyrir IKEA úr sænsku á íslensku. Ég man ekki hvernig slagorðið var á sænsku en ég stakk upp á að það yrði IKEA - tákn smálenskrar ráðdeildarsemi, þessu var hafnað á þeim forsendum að fólk skildi ekki orðið ráðdeildarsemi, segir það kannski eitthvað um Íslendinga?
14 ummæli:
Kunningjakona mín sem þýðir krimma úr sænsku á dönsku heldur því fram að maður eigi alltaf að lesa glæpasögur í þýðingum. Höfundar þeirra séu upp til hópa óskrifandi en þýðendur séu á hinn bóginn ágætir stílistar.
Jón Yngvi
Nú er ég að þýða sænskan krimma yfir á íslensku - hvorri útgáfunni skyldi kunningjakona þín þá mæla með?
æöj
Það verður allavega spennandi að sjá hvor Nesser verður Ævarslegur í þýðingu Ævars.
Jeij, er Aevar loksins ad thyda Nesser! Nu verdur fru Johanna glöd. (flott nafn a saensku: Fru Johanna Glöd).
Lana
Þýðendur geta hvort tveggja bætt og eyðilagt bækur. Magnea J er til dæmis að mínu mati frábær þýðandi...ég reyni að finna og lesa allt sem hún þýðir :)
Kv. Elín
Þetta með baldursbrárnar er nú svolítið fíflalegt (sorrí, ég varð) en mér finnst að Íslendingar yfir tíu ára aldri sem skilja ekki orðið 'ráðdeildarsemi' ættu bara að halda sig heima hjá sér.
Já, þetta með baldursbrárnar er frekar fíflalegt :)
Ég roðnaði stundum þegar ég færði inn leiðréttingar prófarkarlesarans. Og núna, þegar ég hef tekið til við þýðingu nr. 2, hugsa ég iðulega til hans með smá kvíðahnút í brjósti. Heimurinn væri sannarlega verri án prófarkarlesara og ég hefði viljað hafa nafn míns með í bókinni. KJ
Mér finnst þetta með Útflytjendurna brjálæðislega fyndið, ef það eru vesturfarar sem málið snýst um - með þessum titli hljómar bókin eins og hún fjalli um menn í útflutningsbransanum. Sem hljómar svo aftur ekki mjög sexí.
Þetta hljómar eins og Félag fiskútflytjenda eða eitthvað. Málið snýst einmitt um Vesturfarana.
Afsakið, en ég verð að fá að nöldra pínu. Kannski er ég bara helv. hálfviti sem á bara að halda mig heima hjá mér, en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri/sé þetta orð "ráðdeildarsemi" (fyrstu viðbrögð mín voru hreinlega "ráð... deildar... what...?) - ég hafði aldrei heyrt það fyrr en í dag (svo ég muni). Ég þurfti að gúgla til að átta mig á því hvað það þýðir - semsagt, hagsýni (sem er orðið sem ég og allir í kringum mig nota held ég.) Ég hafði reyndar líka giskað á skriffinsku (svona að sænskum hætti, hehe) og grunaði að það væri annað hvort.
Bara varð að ranta smá. Ekkert illa meint, bara að benda á að við notum ekki öll sömu orðin (you say toMAYto and I say toMAHto og allt það). - Flott grein annars! :)
Smá tæknileg mistök... efra kommentið er semsagt eftir mig.
Kv. Gunnhildur Reynisdóttir.
Haha, þau hjá IKEA vita greinilega sínu viti. Annars finnst mér það alveg verðugt hlutskipti að láta fólk fletta upp orðum svo kannski hefði IKEA getað komið í gang gríðarlegri notkun á ráðdeildarsemishugtakinu og um leið hvatt til ráðdeildarsemi.
Ég var einmitt að klára að lesa þessa bók og mitt helsta bögg við lesturinn var hroðvirknisleg íslenska og það sem mér þótti á stundum jaðra við að vera tæpt vald á íslensku, t.a.m. föstum orðasamböndum.
Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir þýðendum því ég get alveg lofað því að ég gæti ekki þýtt texta fallega þótt líf mitt lægi við.
Þetta var engu að síður mín upplifun á þessari þýðingu!
Skrifa ummæli