Ég veit ekki hvort þetta á að vera Saramago á myndinni, en tilvitnunin
er allavega í hann: „Við komumst alltaf þangað sem beðið er
eftir okkur.“
|
Það er í sjálfu sér gott og blessað að það séu ekki allir ferðabókahöfundar eins og Bill Bryson, og almennt hefur Saramago dálítið annan stíl, en skáldsögurnar hans bera þeim stíl betra vitni en þessi bók. Hún fjallar um ferðalag höfundarins um heimaland sitt veturinn 1979-1980, en þá flakkaði hann milli bæja og þorpa í Portúgal í sex mánuði. Þetta ferðalag er á bókarkápu kallað „a passionate rediscovery of his own land“ en samanstendur nær eingöngu af heimsóknum hans í allar kirkjur og söfn sem á vegi hans verða, en innihaldi þeirra lýsir hann af stakri nákvæmni. Það tekur mann ekki marga kafla að fá sig fullsaddan af dórískum súlum og manúelískum dyrabogum. Þriðju persónu frásögn höfundarins, sem talar um sjálfan sig sem „ferðalanginn“, undirstrikar þessar þreytandi endurtekningar.
Það er hugsanlegt að eitthvað tapist í þýðingu. Eins er bókin líklega skrifuð fyrir portúgalska lesendur sem þekkja sögulegt og menningarlegt samhengi landsins; sem utanaðkomandi lesandi verður maður ekki margs vísari um það. Vissulega lýsa af og til upp frásögnina fallegar setningar, kímni og áhugaverðar anekkdótur – hann er ekki Saramago fyrir ekki neitt – en þegar á heildina er litið drukknar hið mannlega og hið ljóðræna í upptalningakenndum lýsingum á dýrlingamyndum og byggingarstíl. Það bendir reyndar allt til þess að höfundurinn hafi einfaldlega skrifað bókina sem hann ætlaði að skrifa; á einum stað minnist hann á atburð úr æsku sinni en bætir strax við: „But these are personal details. The traveller´s aim is rather to point out things of general interest, especially anything to do with art.“ (284) (Ég held að hann hljóti að hafa verið glottandi þegar hann skrifaði þetta.) Spurningin er því frekar af hverju í ósköpunum hann hélt að þetta væri góð leið til að gefa nýja, ferska sýn á Portúgal, eins og hann segist í formálanum hafa stefnt að. Reyndar eru greinilega ekki allir jafn fúlir á móti og ég, hinar venjubundnu lofrullur eru á sínum stað á bókarkápunni og sumar dálítið fyndnar eftir lesturinn, til dæmis segir Louise Nicholson hjá The Times að Saramago hafi lagst í ferðalög, „discovering so much he did not know about his own people“. Það eina sem ég man eftir að hann hafi uppgötvað var hversu erfitt það væri að nálgast kirkjulykla í portúgölskum þorpum.
Ég held að maður þurfi að uppfylla allavega tvö af eftirfarandi skilyrðum til að kunna fyllilega að meta þessa bók:
a) Að vera á ferðalagi um Portúgal.
b) Að vera ákafur aðdáandi Saramago.
c) Að hafa mikinn áhuga á listasögu.
Og maður verður að uppfylla þau alveg, mér dugar til dæmis ekki að vera a) stödd í Portúgal og b) hafa lesið tvær skáldsögur eftir Saramago og líkað þær vel. Ég tók þetta bara á þrjóskunni, enda var ég ekki að fara að gefast upp á bók sem hafði verið hluti af þeim dýrmætu tuttugu kílóum sem ég mátti taka með mér yfir Atlantshafið.
Eftir að ég lauk lestrinum, með feginsamlegu andvarpi, velti ég því fyrir mér, eins og ég geri stundum af áráttukenndri tortryggni á eigin smekk og hvatir, hvernig ég hefði viljað að bókin væri fyrst mér leiddist hún eins og hún er. Hafði ég of rómantískar hugmyndir til að byrja með? Hélt ég að Saramago yrði fyrir einhvers konar andlegri uppljómun á ferðalagi sínu? (Eða myndi uppgötva eitthvað fleira en þetta með kirkjulyklana.) Þótt ég hafi persónulega ekkert gaman af því að lesa endalausar lýsingar á byggingarstíl og málverkum verður ekki framhjá því litið að byggingar og list eru með því sem merkilegast þykir á hverjum stað samkvæmt viðurkenndum hugmyndum um ferðalög og skoðunarferðir – jafnvel þótt lögð sé áhersla á það í bókinni og í umfjöllunum um hana, með gamalkunnu snobbi, að þessi höfundur sé ferðalangur en ekki túristi. Til hvers eru ferðabækur? Eru þær fyrir aðra ferðalanga, eða eru þær fyrir þá sem langar í ferðalag en komast ekki, eða fyrir þá sem nægir að sitja heima hjá sér og lesa ferðabækur, eða eru þær jafnvel einhvers konar spegill fyrir heimamenn? Og, sem mér finnst kannski áhugaverðast, hvaða áhrif hefur ferðalagið sem umfjöllunarefni – að fara frá a til b til c og svo framvegis – á byggingu slíkra bóka? Ég hef hins vegar lítið lesið af ferðabókum og hef því engan samanburð, en þessi gentleman´s travel book eftir Saramago vakti þó allavega hjá mér ákveðinn áhuga á forminu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli