Ég fór í miklum sparnaðargír á nýafstaðinn bókamarkað í Perlunni og keypti bara tvær bækur, báðar hræódýrar. Þá sem er til umfjöllunar hér fékk ég á 160 krónur. Hún heitir Amazon og er eftir Barböru G. Walker, gefin út í íslenskri þýðingu Eddu R.H. Waage hjá bókaútgáfunni Ísfólkinu 1993. Bókin er í svona sjoppukiljubandi en það var eitthvað við hana sem vakti forvitni mína þegar ég rak augun í hana. Kannski var það nafn höfundarins sem mér fannst hljóma kunnuglega. Þegar ég las aftan á hana virtist mér hún að minnsta kosti nógu áhugaverð til að fjárfesta í henni og lesa. Þegar heim var komið fór ég að grennslast betur fyrir um höfundinn og fékk grun minn staðfestan: Barbara G. Walker er þekkt nafn úr prjónabókaheiminum, ekki síst fyrir að hafa safnað sérstaklega hinum ýmsu mynstrum og gefið út á bókum. Þrátt fyrir prjónabókasafn mitt á ég ekkert af prjónabókunum hennar en bækurnar hennar ber oft á góma í þaraðlútandi kreðsum. Við þessa nánari athugun mína komst ég að því að Walker hefur ekki einskorðað sig við skrif um prjónaskap heldur hafa femínismi, gyðjutrú, umfjöllun um ýmiss konar mystík og gagnrýni á kristna trú verið henni hugleikin líka. Þótt hún hafi skrifað um gyðjutrú sem einhvers konar femíníska vitundarvakningu virðist hún þó ekki aðhyllast slíkt sjálf heldur hefur hún verið gallharður trúleysingi. Og hún hefur skrifað um hluti eins og alls konar steintegundir og symbólisma þeim tengdan en leggur í þeim skrifum (eftir því sem sagt er, ég hef ekki lesið þetta sjálf) áherslu á að í rauninni sé ekkert yfirnáttúrulegt við steina.
Amazon er gefin út 1992 og fjallar um Antiope sem er af þjóðflokki Amasóna sem lýst er í grískri goðafræði. Eins og lesendur kannast kannski við eiga Amasónur að hafa búið við mæðraveldi og staðið í átökum við Grikki. Þegar Antiope fer í eins konar hugleiðsluíhugun 24 ára gömul verður hún fyrir þeirri undarlegu reynslu að vera skyndilega stödd í Bandaríkjum nútímans í algjöru reiðileysi en er svo heppin að rithöfundur nokkur, Díana, skýtur yfir hana skjólshúsi og kennir henni að fóta sig í þessu framandlega samfélagi. Án þess að ég reki söguþráðinn nánar (svona ef einhver skyldi vilja lesa bókina) þá gengur bókin út á frásögn Antiope af stórfurðulegum lífsháttum fólks í hinu firrta feðraveldissamfélagi og samanburð við hið náttúrutengda mæðraveldi sem hún kemur úr. Í grunninn finnst mér þessi hugmynd stórgóð og þessi aðferð, að láta sögupersónu hjálpa okkur að horfa á okkar eigið samfélag með augum aðkomumanns, getur falið í sér mjög skarpa samfélagsádeilu. Útfærslan hjá Walker er því miður ekki nógu góð. Bókin er stutt, um 190 síður í fremur smáu broti, en efniviðurinn gefur tilefni til einhvers mun lengra. Það vantar dýpri og ríkari úrvinnslu þeirra hugmynda sem settar eru fram. Vissulega ætti að vera hægt að skrifa stutta bók um þetta efni en þá þyrfti líka að fækka þáttum fléttunnar. Sumt sem sett er fram í plottinu er líka frekar klisjukennt þannig að ég var dálítið plöguð af kjánahrolli á köflum, til dæmis í lýsingum á viðreynslum Antiope við hrekklausa karlmenn og lýsingum á hinni stórkostlegu kvennasamstöðu í gyðjuhofinu sem auðkýfingur nokkur lætur byggja. Bókin nær svo sem alveg því markmiði að vekja til umhugsunar en ég vildi sjá eitthvað meira og betra gert til að vinna úr hlutunum. Íslenska þýðingin var alls ekki slæm, í raun bara alveg prýðileg, en ég hafði svo sem ekki frumtextann til að bera hana saman við. Mér fannst samt svolítið skrýtið að halda ensku nöfnunum á hryssunum hennar Antiope heima í Litlu-Asíu. Það er eitthvað ankannalegt við að lesa á íslensku um Amasónu sem kallar hrossin sín Windeater og Sunrunner.
Þessi lestur leiddi huga minn að tveimur öðrum bókum sem ég held upp á og sem hvor um sig eiga þó nokkuð skylt með Amazon. Önnur þeirra er Papalangi, hvíti maðurinn: ræður Suðurhafseyjahöfðingjans Tuavii frá Tiavea (Der Papalagi - Die Reden des Südsee-Häuptlings Tuiavii aus Tiavea) eftir Erich Scheurmann sem kom út í Þýskalandi 1920 en í íslenskri þýðingu Árna Sigurjónssonar 1990. Scheurmann var í þýska hernum en varð innlyksa á Samóaeyjum meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Hann gaf svo út þessa bók sem hann sagði innihalda ræður sem höfðingi nokkur á Samóaeyjum hefði samið eftir að hafa heimsótt Evrópu. Þar lýsir höfðinginn hinum stórskrýtnu lifnaðarháttum Evrópubúa, því hvernig þeir hylja líkama sína með alls konar teppum og dulum, hvernig þeir búa til ótal hluti sem þeir fylla híbýli sín með, hann furðar sig á trúarbrögðum hvíta mannsins og þar fram eftir götunum. Það má víst teljast nokkuð ljóst að höfundur „ræðanna“ er enginn annar en Scheurmann sjálfur, enda ber flestum saman um að vafasamt sé að höfðingi þessi frá Tiavea hafi verið til, svo ekki sé talað um meinta Evrópuferð hans. Bókin er hins vegar stórskemmtilega skrifuð og líklega öllum hollt að setja sig um stund í stellingar þess sem lítur á lífshætti okkar sem framandlega. Ég uppgötvaði svo að Papalangi er í raun eftiröpun á annarri bók, Die Forschungsreise des Afrikaners Lukanga Mukara ins innerste Deutschland eftir Hans Paasche sem kom út 1912 eða 1913. Sú bók er byggð upp á alveg sama hátt nema þar er það Afríkubúi sem virðir fyrir sér Þýskaland og skrifar bréf heim. Bókin um Lukanga Mukara (sem ég fann á netinu í enskri þýðingu) virðist þó ekki eins fyndin og skemmtileg og Papalangi.
Hin bókin sem ég fór að hugsa um er Kindred eftir Octaviu Butler sem kom út í Bandaríkjunum 1979. Butler er þekktust sem vísindaskáldsagnahöfundur en Kindred er fyrst og fremst saga um hlutskipti svartra þræla í Bandaríkjunum þótt vissulega sé notast við fantasíu í henni. Í Kindred er hin 26 ára gamla Dana stödd í Kaliforníu árið 1976 en henni er fyrirvaralaust kippt inn í fyrri hluta 19. aldar í Maryland. Dana er svört og þar með dæmd til að lenda í hlutverki þræls á þessum tíma en henni virðist fyrst og fremst ætlað að sjá til þess að hinn hvíti Rufus, sem er í raun forfaðir hennar, haldi lífi. Hún bjargar sem sagt lífi hans og lendir aftur heima hjá sér á árinu 1976 en er svo aftur kippt til baka nokkrum sinnum og alltaf í þeim tilgangi að bjarga Rufusi (sem er bölvuð ótukt) á mismunandi æviskeiðum hans. Dana staldrar lengur og lengur við sem þræll og lendir þannig í ýmsu. Þessi bók fannst mér sterk og vel skrifuð og ég mæli hiklaust með henni. Hún er ekki ádeila á nútímasamfélag á sama hátt og hinar en deilir því með Amazon að persóna lendir fyrirvaralaust í framandi aðstæðum án þess að hún fái nokkuð við ráðið. Og óneitanlega hlýtur maður að fara að velta fyrir sér að hve miklu leyti manneskjan sé mótuð af því samfélagi sem hún lifir í. Væri ég ekki einhver allt önnur persóna ef ég hefði fæðst á öðrum stað á öðrum tíma?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli