4. mars 2012

Breskari en high tea: Elizabeth George og Inspector Linley

Ég held það hafi verið sirka árið 1993 sem ég komst fyrst í tæri við Elizabeth George. Síðan hef ég verið algjörlega hooked og finnst það kvöl og pína að þurfa að alltaf að bíða í ár eða tvö eftir næsta fixi. Ég komst í kynni við George og söguhetjur hennar í gegnum vinkonu mína, mikinn aðdáanda breskra krimma. Hún hafði gert undantekningu og lesið George þrátt fyrir að hún sé ameríkani, en ákvað að best væri að arfleiða mig að bókunum þannig að það væri ekkert rugl í bókahillunum, ameríkani er jú alltaf ameríkani þó viðkomandi skrifi krimma sem eru breskari en high tea.

Bækur Elizabeth George um Inspector Linley eru orðnar 17 talsins. Sú nýjasta Believing the Lie var að detta inn. Ég kunni mér ekki læti þegar ég fann hana í hillunum hjá WH Smith á Kastrup um helgina. Bókina varð ég að fá þó verðlagið í þessari bókabúð (já og bara á Kastrup almennt, en það er nú önnur saga) sé algjörlega fáránlegt. En mikið varð stoppið á vellinum og flugið áfram til Brussel miklu skemmtilegra í fylgd með þeim Linley og Havers.

Thomas Linley, áttundi jarlinn af Asherton er lögregluforingi hjá Scotland Yard. Hann er ekki bara moldríkur jarl sem mun taka við herragarði ættarinnar þegar þar að kemur, heldur er hann líka ljóshærður og litfríður, vel á sig kominn, kvennagull hið mesta og bara almennt góður gæi.

Hann býr í huggulegu húsi í Belgravia þar sem Denton, sem er einhverskonar þjónn eða ráðsmaður sér um allt. Inn í öll þessi huggulegheit og yfirstéttarlíf kemur svo Barbara Havers, undirmaður Linleys. Þau eru andstæður á flestan hátt, hún er ófríð, kubbsleg, illa til höfð og groddaleg. Í byrjun bókaflokksins býr hún með mömmu sinni í týpísku bresku verkamannastéttarumhverfi. Mamman er langt leidd af alzheimer og líf vesalings Barböru hreint ekki auðvelt. En hún og Linley eru frábært lögregluteymi, auðvitað eru alltaf allskyns undarleg atvik að koma upp og trufla samstarfið, en það er auðvitað nauðsynlegt til að halda spennu og undirstrika kontrastana á milli þeirra. George fer kannski á stundum full langt í lýsingum á lúðagangi Barböru, það eru ótrúlega margar lýsingar á ruslinu og ruglinu heima hjá henni (eftir að hún nær að koma mömmu sinni á hjúkrunarheimili og flytur í pínulítið bakhús í Chalk Farm), nærföt í hnífaparaskúffunni, stöðugt át á pop tarts og drykkja á PG tips auk stútfullra öskubakka er bara toppurinn á ísjakanum þegar kemur að lýsingum á heimilislífi og persónulegum venjum Havers. Hún hefur nákvæmlega ekkert dress sense, klippir sig sjálf með naglaskærum og þar að auki er bílinn hennar Austin Mini sem er algjörlega í henglum. Sum sé þokkalega ólíkt hinum óaðfinnanlega lífsstíl jarlsins af Asherton!

Þó Linley og Havers séu aðalpersónur bókanna þá eru fleiri sem koma við sögu í hverri einustu bók. Þar eru fremst meðal jafningja Lady Helen, Simon St James og Deborah Cotter. Þetta fólk er allt tengt á allra handa flókinn hátt, og í þessum hóp er líka settur fram ekki alveg ólíkur kontrast og á milli Linley og Havers – þ.e. aðall og almúgi. Þau Linley, Helen og Simon eru öll yfirstéttarfólk á meðan Deborah og pabbi hennar, Joseph Cotter sem er ráðsmaður hjá Simon koma úr hinum vinnandi stéttum. George nær miklu fútti útúr flækjum í kringum tengsl þessa fólks og samband þess er svo flókið og innviklað að það er ekki annað hægt en að lifa sig inní þetta allt saman. Í stuttu máli þá var Helen kærasta Simons, en sambandið flosnaði upp þegar hann örkumlaðist í slysi (sem Linley var valdur að). Deborah og Linley voru svo kærustupar í smá tíma en hún endar svo með Simon, sem er 11 árum eldri og má í raun segja að hún hafi alist upp hjá, því hún var ekki nema 7 ára þegar pabbi hennar fór að vinna hjá Simon og þau feðginin fluttu til hans, voru svona einhverskonar „below stairs“ fólk á tuttugustu öldinni. Hringurinn lokast svo þegar Linley og Helen verða par, það er reyndar ansi mikil prentsverta sem fer í að lýsa því tilhugalífi öllu saman og ekki laust við að lesandi hafi oft næstum örvænt yfir því að þetta myndi nokkurntíman ganga hjá þeim. Til að flækja málin aðeins meira þá vinnur Helen sem aðstoðarmaður hjá Simon, en hann er vísindamaður sem sérhæfir sig í sakamálum (forensic scientist).

Í bókinni sem kom út 2005, With No One as Witness, verða straumhvörf í sögunni. Linley og Helen, sem þegar þar er komið sögu eru hamingjusamlega gift, eiga von á barni og búa í húsinu hans við Eaton Terrace í Belgravia. Allt varðandi þau og umhverfi þeirra virðist svo óskaplega virðulegt og fínt að þar ætti ekkert hræðilegt nokkurntíman að geta gerst. En það er akkúrat það sem gerist þegar skotið er á Helen þegar hún er að koma úr innkaupaferð. Hún slasast alvarlega og liggur í þónokkurn tíma í öndunarvél á sjúkrahúsi. Það er svo Linley veslingurinn sem þarf að taka þá hræðilegu ákvörðun að láta slökkva á öndunarvélinni. Hrikalegt drama og alveg margra vasaklúta móment. Þó George hafi í fyrri bókunum alltaf dregið upp sögur bæði yfirstéttarbreta sem og fólks af öðrum stigum þá verður einhvernveginn meira bit í sögunum frá og með With No One as Witness. Bókin sem kemur næst á eftir henni eða What Came Before He Shot Her sem kom út árið 2006 er ótrúlega áhrifamikil. Lýsingin á lífi Campbell systkinanna og umhverfinu sem þau eru sprottin úr er hreint ótrúleg. Kontrastinn við yfirstéttarlífið sem fólk á borð við Thomas Linley, Helen og vinir þeirra lifa er svo mikill að maður getur ekki annað en spurt sig hvernig hægt sé að láta þjóðfélag þar sem misskiptingin er svona svakaleg ganga upp.

Það eru svo ekki alveg ólík málefni sem tekin eru fyrir í This Body of Death frá 2010. En í millitíðinni kom Careless in Red (2008), sem auðvitað er fín bók og vel þess virði að lesa hana, en ef maður á að vera sannsögull þá er það vissulega örlítið pirrandi að fylgjast með því þegar Linley ráfar um í öngum sínum um heimaslóðir sínar í Cornwall og þræðir þar strandlengjuna. Ekki það að maður hafi ekki fulla samúð með mannanganum, nýbúnum að missa eiginkonuna. En í This Body of Death er tvinnað listilega saman tengingum við glæpinn sem er aðalefni bókarinnar og hliðarsögu af því þegar ungir strákar afvegaleiða, pína og að lokum myrða tveggja ára gamlan dreng. Saga þeirra er greinilega byggð á raunverulegum atburðum, eða því þegar tveir drengir drápu hinn tveggja ára gamla James Patrick Bulger árið 1993. Líkt og í What Came Before He Shot Her er það verulega átakanlegt að lesa um umhverfi og uppeldi þessara drengja og maður er skilinn eftir með allskyns spurningar og hugleiðingar um það hvernig það megi vera að fólk, hvað þá börn, skuli þurfa að búa við þær aðstæður sem þarna er lýst.

Nýjasta bókin, sú sautjánda í röðinni, er Believing the Lie. Þegar hingað er komið sögu er Linley allur að hressast og Barbara Havers er í standandi vandræðum því nýi yfirmaðurinn, Isabelle Ardery hefur fyrirskipað henni að taka sig á útlitslega þannig að kerlingaranginn hefur þurft að eyða ófáum tímum í tannlæknastól auk þess sem hún hefur þurft að leggja það á sig að fara á hárgreiðslustofu í Kensington og láta laga á sér hárið (sem henni þótti í raun verra en tannlæknirinn). Hér er pælingin um aðalstign tekin skrefi lengra því Sir Hillier, lögreglustjóri, fyrirskipar Linley að fara til Cumbria og fara fyrir óformlegri rannsókn á dauða manns sem er frændi aðalsmanns á svæðinu, en aðalsmaðurinn er fyrrum verkamaður sem giftist dóttur vinnuveitanda síns, dreif fjölskyldufyrirtækið áfram og var aðlaður fyrir þau verk sín. Sum sé munurinn á því að fæðast með titilinn eða fá hann með öðrum hætti. Það sem er kannski áhugaverðasti vinkillinn í sögunni, amk svona miðað við umræðuna hér á landi undanfarið, er að þar er fjallað um frjósemisvandamál og lagalegar og siðferðislegar hliðar staðgöngumæðrunar.

Þeir sem hafa gaman að breskum „whodunnit“ sögum fá alveg pottþétt mikið fyrir sinn snúð hjá Elizabeth George – sömuliðeiðis þeir sem hafa áhuga á breskum samtíma og þjóðfélagspælingum. En síðast en ekki síst þá eru bækurnar vel skrifaðar og söguþráðurinn iðulega vel og vandlega spunninn þannig að allir þræðir ganga vel upp - svo eru hliðarsögurnar oft ekkert síður áhugaverðar en það sem á að vera aðalmálið.

7 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ef Belgravia kemur fyrir í bók kann ég nánast undantekningalaust að meta hana!

Annars var ég búin að gleyma E. George, ég las eina bók eftir hana þegar ég var 19 ára au-pair úti í Þýskalandi (konan sem ég vann hjá keypti sér hana, fannst hún skemmtileg og lánaði mér hana að lestri loknum) og ég hafði mjög gaman af henni en var búin að steingleyma því þar til núna. Ég held þetta sé næst á huggulegheitaleslistanum mínum!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þetta er nú skemmtilegt. Reyndar þurfti ég að gúggla PG tips og finnst ég fáránlega illa að mér að hafa ekki vitað hvað það er.

Harpa J sagði...

Þá erum við saman í fáfræðinni. Ég gúgglaði líka PG tips.

Guðrún Lára sagði...

Ég hlakka brjálæðislega til að taka upp þráðinn í þessari seríu. Á What came before he shot her uppi í hillu og ætti að geta dregið hana fram núna þegar ég hef haft sirka sjö ár til að jafna mig á dauða lady Helen!

Annars á ég alltaf ægilega erfitt með einhverjar sjónvarpsmyndir sem ganga hér látlaust og eru gerðar eftir þessum bókum. Linley er dökkhærður, Barbara Havers rauðhærð og Deborah St. James dökkhærð!!! Ég er nú yfirleitt ekkert að æsa mig yfir svona smámunum en þetta var of langt gengið!

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ég veit ekki hvort ég legg í að taka upp þráðinn í seríunni, fyrst Helen deyr. Líklega hefur síðasta bókin sem ég las í henni verið síðasta bókin áður en hún deyr, þannig að núna þarf ég að ganga gegnum sorgarferli. En núna þarf ég að fara og gúgla PG tips.

Nafnlaus sagði...

Sammála með sjónvarpsmyndirnar, þær eru engan vegin að gera sig. Háralitur allra alveg úr synki og Havers voða sæt og pen. Svo er Helen einhvernveginn ómöguleg í þeim!
Jahérnahér, ekki hefði mér dottið í hug að PG tips myndu valda fólki heilabrotum. Tetley´s og PG tips eru eiginlega svona bara eins og Melroses!!
Sigfríður

Nafnlaus sagði...

Þeir sem ekki þekkja PG Tips hafa ekki hangið nógu mikið með Bretum! Þetta er týpískasta te þar í landi og flestar fjölskyldur kaupa það í stórum kössum í hið daglega te-glundur.

Salka