27. mars 2012

Rummungur ræningi og hamingjan


Rummungur, amma og kaffikvörnin.
Ég hef einhvern tímann áður skrifað um bókaskápinn heima hjá ömmu, þann sem er fullur af bókum mömmu minnar og systkina hennar. Sem barn eyddi ég ófáum stundum fyrir framan þennan skáp og leitað að áður óuppgötvuðum fjársjóðum. Einn mesti dýrgripurinn sem skápurinn hafði að geyma var bókin Rummungur ræningi eftir Otfried Preussler sem er enn í dag ein af mínum uppáhaldsbókum.

Bókin fjallar um þá Hans og Pétur sem vita ekkert betra en sveskjutertuna með rjóma sem þeir eru vanir að fá hjá ömmu Hans á hverjum sunnudegi. Amman aftur á móti veit ekkert betra en að mala kaffi í nýju kaffikvörninni sinni sem leikur uppáhaldslagið hennar þegar sveifinni er snúið. Þegar hinn alræmdi ræningi Rummungur stelur kaffikvörninni verður amman vitstola af sorg og Hans og Pétur ákveða að taka málin í sínar hendur, handsama Rummung og ná kvörninni aftur. En auðvitað fer ekkert eins og ætlað er og í stað þess að fanga ræningjann lenda félagarnir sjálfir í klóm Rummungs. Rummungur ákveður að halda öðrum drengjanna sem þræl en selur góðvini sínum Petrosiliusi Nikodamusi galdramanni hinn fyrir vænan sekk af neftóbaki. Nikodamus hefur lengi vantað þjónustusvein til að skræla kartöflur fyrir sig því það verk þykir honum einmitt svo leiðinlegt. Á meðan Pétur pússar stígvél Rummungs er Hans því fastur í höll galdrakarlsins og afhýðir, sýður, stappar og sker kartöflur í bita. En þrátt fyrir miður gæfulega stöðu þeirra félaga á þessum tímapunkti fer allt vel að lokum, vondi galdrakarlinn tortímist í rústum eigin hallar, ræninginn endar bak við lás og slá og amma fær kaffikvörnina – sem leikur eftirlætislagið hennar meira að segja tvíradda eftir ævintýraförina.


Hans í ævintýraleiðangri um höll Nikodamusar
Stórfengleika Rummungs ræningja verður auðvitað aldrei komið til skila með stuttu ágripi af söguþræði, sérstaklega ekki þar sem myndskreytingarnar vantar og þær eru að minnsta kosti helmingur lestrargleðinnar. Þetta eru einfaldar svarthvítar teikningar sem láta lítið yfir sér en eru samt ákaflega kómískar. Persónurnar eru allar hálfólánlegar, ófríðar og kjánalegar og enginn með nef í sæmilega eðlilegri stærð. Bestur er samt galdrakarlinn, alsettur vörtum, með myndarlegan brúsk út úr nösunum og skögultennur á stangli. Samt er hann ekki beint ógeðfelldur (eða neitt sérstaklega hræðilegur) heldur aðallega fyndinn. Ég hef líka sérstaklega gaman af reiðhjólinu sem stendur upp við hallarvegg Nikodamusar á einni myndinni, eins og hinn mikli galdramaður skreppi reglulega, rétt si svona, á hjólinu í erindi.


Nikodamus galdrakarl í hallarturninum og
reiðhjólið fyrir neðan.
Einhvers staðar þarna í kringum hjólið hans Nikodamusar held ég líka að nálgast megi kjarna bókarinnar. Það er einmitt í árekstrum hins stóra og smáa sem bókin nær sínum hæstu hæðum. Alræmdur ræningi með sjö beitta hnífa og byssu sem rænir kaffikvörnum, illur og voldugur galdramaður sem skrælar kartöflur og ræktar steinselju í garðinum sínum – það er á þessum mótum hins ævintýralega og hversdagslega sem sagan fangar bæði fullorðna og börn. Og ef einhver boðskapur er í þessari sögu þá er það einmitt upphafning hversdagsleikans og hins smáa. Til að mynda fá Pétur og Hans þrjár óskir frá álfadís sem þeir frelsa úr prísund. Í stað þess að nota þær til að óska sér gulls og grænna skóga nota þeir eina til að endurnýja jólasveinahúfu Hans sem hafði brunnið upp í eldstæði ræningjans, aðra til að fá kaffikvörn ömmu senda til sín svo þeir sleppi við að sækja hana fótgangandi og sú þriðja fer í að breyta Rummungi sem undir lok sögunnar hefur umbreyst í smáfugl aftur yfir í mannsmynd svo hægt sé að loka hann bak við lás og slá. Ef eitthvað er má segja að ævintýraför þeirra hafi fært þá enn nær hversdagsleikanum. Í upphafi bókarinnar láta þeir sig dreyma um að vera keisarinn í Konstantínópel svo þeir geti fengið sveskjutertu á hverjum degi. Lokaorð bókarinnar eru aftur á móti þessi: „Hans og Pétur borðuðu sveskjutertu, þangað til þeim var orðið illt í maganum, og þeir voru svo sælir, að þeir vildu ekki skipta við nokkurn mann .... ekki einu sinni við keisarann í Konstantínópel“. (s. 99) Já, hamingjan er að borða sveskjutertu með rjóma, mala ilmandi kaffi, eiga sekk af góðu neftóbaki og þurfa hvorki að pússa stígvél né flysja kartöflur. Og fyrir húsmæður á fertugsaldri getur hún líka verið fólgin í því að lesa fimmtíu ára gamla barnabók úr hillunni hjá ömmu.

6 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef aldrei lesið þessa bók, en myndirnar eru æðislegar.

Nafnlaus sagði...

Las þessa á norsku (og á einhvers staðar í kassa) en vissi ekki að hún hefði verið þýdd. Ég á örugglega tvær bækur um hann en hef ekki lesið lengi. Ég ætti kannski að fara að róta í bókakössunum í kjallaranum aftur.

kv. Ásdís

Maríanna Clara sagði...

Vá hvað ég væri til í að eiga þessa! Nú fer maður að svipast um!

Guðrún Lára sagði...

Ég var fyrst núna að taka eftir doppóttu sólhlífinni á hallarsvölunum, hún er náttúrulega bara dásamleg!

Nafnlaus sagði...

Ó, ó, ég var alveg búin að gleyma þessari dásemd sem ég einnig fann í gömlum bókaskáp á sínum tíma! Takk fyrir upprifjunina. Nú leita ég á bókasafninu. Myndirnar eru dásamlegar og minna á Tove Jansson og Ole Lund Kirkegaard í sömu andrá.

Sigríður Ásta Árnadóttir

Nafnlaus sagði...

Ah, ég man mjög óljóst eftir þessari bók, hef sennilega bara lesið hana einu sinni og þá ekki á bókasafninu heldur heima hjá einhverjum (annars hefði ég örugglega tekið hana þúsund sinnum á safninu). Fékk svona "ah, jáááá"-tilfinningu þegar ég sá myndirnar.

Salka