17. mars 2012

Verklag í bókabúðum

bók fyrir bókaunnendur
Hér hefur talsvert verið fjallað um bókabúðir – jafnvel þær fallegustu í heimi. Ég hef því miður ekki komið inn í þær en hins vegar hefur maður komið inn í nokkrar góðar búðir– og sumar oftar en einu sinni. Þannig á ég uppáhaldsbókabúðir og jafnvel uppáhalds bókabúðagötur eins og hina dásamlegu Charing Cross Road í London. Mér skilst þó að hún sé ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þar sem litlu sérbókaverslanirnar og fornbókabúðirnar hafa lokað ein af annarri eftir að stóru keðjurnar komu til sögunnar.


McNally í New York (hrein klósett)
Ein af þeim sem lokaði fyrir margt löngu er Marks & Co við nr 84 sem hin stórskemmtilega bók Helen Hanff 84, Charing Cross Road er nefnd eftir - mikið hefði ég nú gefið fyrir að koma í hana...ég og þúsundir annarra aðdáanda bókarinnar. (Annars sakna ég ennþá fornbókabúðarinnar Bókarinnar sem var við Bankastræti 1 í Reykjavík - þar eyddi ég hverri krónu sem ég komst yfir sem barn.) Ég væri reyndar að ljúga ef ég segði að mér þætti leiðinlegt að koma inn í Borders, Barns & Nobles, Waterstone og WH Smith – en það er enn skemmtilegra að koma inn í litlu búðirnar – sem maður man jafnvel ekkert hvað heita af því lógóinu er ekki troðið upp á mann við hvert mögulegt (og ómögulegt) tækifæri. Ponsu litla bókabúðin við Charing Cross Road sem selur m.a. klassískar kvikmyndir og bækur tengdar kvikmyndagerð þar sem ég hef m.a. keypt bækur um Stanley Kubrick, Billy Wilder og Audrey Hepburn, fornbókabúðin aðeins neðar í götunni sem selur bara listaverkabækur og non-fiction búðin enn neðar sem selur mestmegnis fræðibækur og þar sem ég keypti m.a. Simone Signoret – the star as Cultural Sign eftir Susan Hayward.  Í einhverjum tilvikum eru þessar búðir aðeins dýrari en keðjurnar – en í staðinn er úrvalið miklu óvæntara og stundum er hægt að gera kostakaup. Aðrar uppáhalds bókabúðir eru Bucherbogen við Kochstrasse í Berlín sem selur bara bækur tengdar sviðslistum (þar keypti ég ægifagra ljósmyndabók um Pinu Bauch), hin dásamlega Shakespeare & Co í New York og Strand bókabúðin sem mælir bókafjölda sinn í mílum en þar má finna sjaldséð eintök á góðu verði. Við Prince Street í Nolita hvefinu er líka mjög skemmtileg sjálfstæð bókabúð sem heitir McNally Jackson sem er ekki stór en með mjög skemmtilegt úrval bóka, huggulegt kaffihús, ókeypis netsamband og hreint klósett! Maður biður ekki um meira!

Margar mílur af bókum - Strand bókabúðin í New York
Þegar komið er inn í bókabúðir erlendis eru þær oft stórar og tíminn af skornum skammti svo ákveðið verklag getur verið nauðsynlegt sé ætlunin að ná að skanna það sem mestu máli skiptir. Því hef ég (verandi kvart þjóðverji og skipulögð eftir því) eiginlega ómeðvitað komið mér upp ákveðnu kerfi. Ég byrja yfirleitt á að skoða bækur um leikhús og kvikmyndir, vind mér þar næst yfir í ævisögur og þaðan liggur leiðin í reyfarana. Á eftir því tékka ég á fræðibókunum (helst tengdum bókmenntum eða kynjafræði) og þaðan er haldið í skáldsögurnar og rúllað mjög lauslega yfir stafrófsröð höfunda með áherslu á uppáhaldshöfunda mína (þótt ég eigi nú yfirleitt allar bækur þeirra þá er alltaf gaman að a) skoða úrvalið sem þessi tiltekna búð býður uppá og b) athuga hvort það sé til einhver gullfalleg útgáfa sem ég verði að eignast). Ef seldar eru nótnabækur athuga ég hvort þar leynist eitthvað sem gæti gengið í gjöf handa eiginmanninum – en ég (again – verandi kvartþýsk og skipulögð) kaupi jóla- og afmælisgjafir allan ársins hring. Að lokum skoða ég svo útsöluhornið eða tilboðsbækurnar (ef slíkt er fyrir hendi).

Ef tíminn er af skornum skammti þá reynist jafnvel nauðsynlegt að sleppa einhverju af milli-stoppunum en ég skoða ALLTAF útsöluhornið – þar hef ég fundið marga gullmola eins og ævisögu Alice Munro – ritaða af dóttur hennar, The Lives of Mothers and Daugthers, en ekki síður einhverjar skrítnar og skemmtilegar bækur sem undir venjulegum kringumstæðum mér hefði aldrei dottið í hug að kaupa en slæ til af því þær kosta 2 dollara eða 1 pund eða álíka. Auðvitað er notalegast að taka heilan dag í almennilegri bókabúð – ráfa bara stefnulaust um, grípa bók úr hillu sem reynist vera sérlega grípandi og ranka við sér klukkutíma seinna kominn með í hnéin af því að sitja á hækjum sér í einhverju horni – en því miður gefst ekki alltaf tími til þess. Það eina leiðinlega við að koma í skemmtilegar bókabúðir erlendis (jah fyrir utan áðurnefnt tíma- og auðvitað peningaleysi) er að meðan maður skoðar sig um með stjörnur í augum og gerir kostakaup vofir sú vitneskja yfir að þá á eftir að bögglast með allar bækurnar heim í neðanjarðarlest eða strætó, þaðan ofan í tösku og aftur út á flugvöll og borga þar hina ójákvæmilegu yfirvigt...þannig hafa margar fagrar bækur verið skildar daprar eftir á búðarborðinu vegna stærðar og þyngdar...já það er engin rós án þyrna!

Engin ummæli: