14. mars 2014

Óvæntur skipsskaði í magnaðri bók

Sigrún Pálsdóttir
Ein magnaðasta jólalesningin mín var án efa Sigrún og Friðgeir – ferðasaga. Þetta er áhrifamikil lesning og ég var hreinlega skekin þegar ég lagði bókina loks frá mér. Það hefur væntanlega ýtt undir áhrifin að af dularfullum ástæðum – ég veit ekki hvernig – tókst mér að láta fram hjá mér fara um hvað bókin er. Nú er óhætt að segja að efnið hafi ekki verið neitt leyndarmál en einhvern veginn tókst mér greinilega að líta af blaðinu/sjónvarpinu eða lækka í útvarpinu akkúrat þegar Goðafoss og skelfileg endalok hans voru nefnd í tengslum við bókina. Í öllu falli hafði ég ekki hugmynd um að bókin hverfðist um þann atburð að þessi indælu læknishjón, Sigrún og Friðgeir, færust ásamt börnum sínum þremur með Goðafossi örlagaríka nótt árið 1944.

fjölskyldan
Ég hafði heyrt ávæning af því að bókin væri sorgleg og mig grunaði helst að eitthvað myndi koma fyrir Sigrúnu – hún var tæp til heilsunnar og veiktist alvarlega þegar komið var fram undir miðja bók. Eftir á að hyggja er frekar vandræðalegt að hafa haft áhyggjur af þyngdartapi og hósta Sigrúnar. En það var hreinlega ekki fyrr en fjölskyldan pantar sér far með Goðafossi og höfundur leggur talsverða áherslu á dagsetninguna og þá staðreynd að þau voru næstum búin að fresta ferðinni um tvær vikur sem fór að kvikna á daufum ljósum í kollinum á mér. Þegar þau svo hurfu öll í hafið í skelfilegum lýsingum eftirlifandi farþega sem skráðu atburðina í bréf og dagbækur var mér allri lokið.
Add caption

Þó að áhrifamáttur bókarinnar hafi verið mikill af þessum sökum þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að gæði hennar felist ekki í sjokkeffektinum af skipsskaðanum. Það er uppbyggingin, persónusköpunin og stíllinn sem gerir bókina jafn magnaða og raun ber vitni. Sigrún Pálsdóttir er frábær penni og mér finnst nálgunin á atburðina og persónurnar vera algjört afrek. Sigrún er sagnfræðingur að mennt og hefur áður skrifað ævisögu Þóru Pétursdóttur í bókinni Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar sem kom út fyrir jólin 2010. Skv. viðtalið við Sigrúnu sem má lesa hér hófst hún strax handa við Sigrúnu og Friðgeir þegar Þóra biskups var komin út. Saga þeirra hjóna er vissulega merkileg en ástæða þess að Sigrún sökkti sér ofan í málefni nöfnu sinnar er sú að hún var ömmusystir hennar og eftir hana erfði hún bréfasafn sem og dagbækur sem hjónin héldu saman í Bandaríkjunum. Þau virðast raunar hafa verið mjög samhent og miklir jafningar eins og höfundur minnist á í öðru viðtali - hér. Þótt læknanám Friðgeirs hafi gengið fyrir (m.a. af því margir skólar og sjúkrahús í Bandaríkjunum tóku ekki við kvenlæknanemum) þá virðist aldrei hafa hvarflað að honum að kona hans ætti ekki jafn mikið erindi í læknastéttina og hann sjálfur. Friðgeir sinnti líka heimilisstörfum og lagði mikið upp úr föðurhlutverkinu og samveru með börnunum á tímum þegar margir feður voru kannski fremur fjarlægir. Vangaveltur og áhyggjur Sigrúnar og þeirra hjóna af vinnuálagi og börnunum og ákvörðun um að setja fjölskylduna í fyrsta sæti er svo eitthvað sem talar beint til manns í dag.

Það er fágæt list að stýra sögu á þann máta sem Sigrún gerir – á milli staðreynda og skáldskapar. Að missa sig aldrei í tilfinningasemi eða dramatík (eins og efnið gefur nú tilefni til) heldur halda sig við örlítið fjarlægan tón sem gefur samt lesandanum tækifæri til að nálgast persónurnar og tengjast þeim. Sigrún er mjög öguð og fer aldrei langt frá heimildum sínum en tekst þó að gæða þær lífi. Þótt höfundur forðist eins og heitan eldinn að leggja persónum sínum orð í munn tekst henni með vel völdum köflum úr bréfum og dagbókum að gera lesandann nákominn þeim og þar liggur auðvitað aðal galdurinn á bak við áhrifamátt lokakaflans. Uppbyggingin er vel gerð – hratt er hlaupið yfir æsku þeirra hjóna og sagan byrjar í raun fyrir alvöru þegar þau halda utan enda mikið til af bréfum frá þeim tíma. Lýsingarnar á stórborginni New York og lífinu á spítalanum eru mjög skemmtilegar sem og kaflinn sem lýsir starfi þeirra sem sjúkraflutningamenn.

Síðasti kaflinn og jafnframt sá lengsti fjallar svo um hinar örfáu mínútur sem það tók Goðafoss að sökkva. Þar þrýtur af augljósum orsökum persónulegar heimildir þeirra hjóna en hins vegar vefur Sigrún snilldarlega saman lýsingar annarra farþega sem lifðu harmleikinn af og dregur þannig upp magnaða mynd af atburðunum. Hjónin Sigrún og Friðgeir lifðu merkilega tíma og voru greinilega óvenjulegt og framsækið fólk. Að flytja til bandaríkjanna og hefja þar nám með ung börn – og í Sigrúnar tilfelli – að fara yfir höfuð í læknisnám - var sannarlega ekki sjálfsagt mál. Úti upplifðu þau feikimargt og lærðu og það er óhætt að gera því skóna að þau hefðu gert margt fyrir íslenskt samfélag hefði vegferð þeirra ekki lokið með eins snögglegum og skelfilegum hætti og raun bar vitni. En saga þeirra er í senn skemmtileg og sorgleg – upplýsandi og inspírerandi og hana hvet ég alla til að lesa. Sjálf er ég strax búin að festa kaup á Þóru biskups og hlakka til að lesa hana, það er alltaf svo gott þegar maður klárar góða bók ef höfundur hefur sýnt þá tillitsemi að hafa skrifað aðra.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Frábært hjá þér Maríanna mín!Við tókum þessa bók fyrir á námskeði núna í haust,en bókin hafði mikil áhrif á mig þar sem ég er alin upp við sögur af þessari fjöldkyldu vegna tengsla.Síðustu 7 mín. í lokakaflanum voru mér slík ofraun að ég frestaði lestri hvað eftir annað.Ótrúlega skiptar skoðanir í hópnum voru mér líka til mikilla umhugsunnar.Nokkrir í hópnum voru á því að Sigrún hefði sótt það allt of fast að læra...ekki hugað nóg að börnunum,ekki valið heimferðina með þeirra hagsmuni í fyrirrúmi!Þetta voru mjög heitar umræður og skemmtilegar.Takk aftur.

Maríanna Clara sagði...

takk fyrir það kæra Sigrún! Já þessi endalok eru erfið aflestrar... en ég er ekki sammála því að Sigrún hafi ekki haft hagsmuni barnanna í í fyrirrúmi þarna - henni bauðst að skilja þau eftir í USA en hún vissi af reynslu að það gæti liðið langur tími þar þau gætu sameinast að nýju og það hljóta allir að geta verið sammála um að það sé fjölskyldunni fyrir bestu að vera saman…hún gat ekki vitað að þau myndu ÖLL FARAST for crying out loud! En alltaf gaman þegar umræður um bækur verða heitar!