Steinunn, Auður og Þórdís með verðlaunin sín. |
Á dauða mínum átti ég von en ekki því að öðlast áhuga á fornleifafræði. Ég hef aldrei vitað haus né sporð á því fagi, alltaf haft lítinn áhuga á landnámsöld, sem ég vissi ekki betur en íslenskir fornleifafræðingar einbeittu sér mestanpart að, og aldrei tengt við þá ókennilegu smáhluti í glerkössum á söfnum sem maður á að ganga á milli og skoða í andaktugri lotningu eins og þetta glerbrot segi manni eitthvað, þessi leirkrukkubotn eða ryðgaða brotajárn.
Í haust sat ég hins vegar þverfaglegt kenninganámskeið fyrir nemendur í sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, sem fornleifafræðin tilheyrir, og alls óvænt fannst mér kenningalega fornleifafræðin með því mest spennandi sem þar var borið á borð. Fornleifafræðin og sagnfræðin eiga það sameiginlegt að fást við fortíðina en áhersla fornleifafræðinnar á efnið og rýmið fremur en textann og tímann var ný og áhugaverð nálgun fyrir mér.
Þannig vildi það til að fyrstu jólabækurnar sem ég las árið 2012 voru um fornleifafræði, annars vegar hin ágæta Vínlandsdagbók Kristjáns Eldjárn og hins vegar bókin um Skriðuklaustur eftir Steinunni Kristjánsdóttur. Uppgröfturinn á Skriðuklaustri, sem Steinunn stýrði, stóð yfir í áratug og um hann hafa verið skrifaðar margar fræðilegar greinar, en þessi bók er samantekt á niðurstöðum hans, skrifuð á aðgengilegan hátt fyrir áhugasaman almenning og væntanlega fræðimenn líka. Á Skriðuklaustri var grafið upp samnefnt Ágústínusarklaustur – eða klaustur, kirkja og kirkjugarður – sem var stofnað árið 1493 og starfaði í um sextíu ár, þar til kaþólskur siður var aflagður á Íslandi.
Niðurstöðurnar úr uppgreftrinum á Skriðuklaustri gefa nokkuð aðra mynd af starfsemi íslensks klausturs en sagnfræðingar hafa brugðið upp hingað til á grundvelli ritaðra heimilda. Þar má kannski helst nefna tvennt. Í fyrsta lagi leggur Steinunn áherslu á að frekar en að byggingu klaustursins hafi svipað til venjulegra íslenskra sveitabæja hafi það fylgt skýrum hefðum þeirrar alþjóðlegu, kaþólsku kirkju sem það tilheyrði. Þetta gefur tilefni til þess sem mér fannst sérlega áhugaverð umfjöllun um samspil rýmisins og efnisins í klaustrinu; hvernig skipulag byggingarinnar tók mið af starfsemi og hugmyndafræði klaustursins en efnið var óhjákvæmilega sótt í íslenska náttúru sem þannig setti svip sinn á klaustrið. Þannig getur maður séð fyrir sér hvað þetta íslenska klaustur átti sameiginlegt með sams konar klaustrum erlendis, en jafnframt hversu gjörólíkt ásýndum það var – og er.
Steinunn fjallar nánar um þessa efnislegu og hugmyndafræðilegu uppbyggingu klaustursins í greininni „Skriðuklaustur í Fljótsdal. Landslag alþjóðlegrar menningar og trúar“ sem birtist í Ritinu árið 2008, og ég saknaði þess dálítið að hún skyldi ekki gera sömu tilraun í bókinni og hún gerði í greininni, þar sem hún ímyndaði sér hvernig það hefði verið að standa í Fljótsdalnum á þeim tíma sem klaustrið var starfrækt þar, hvaða hljóð maður hefði heyrt, hvaða lykt maður hefði fundið og svo framvegis. Þetta hefði getað verið einföld æfing í sögukennslubók fyrir grunnskóla þess vegna en mér fannst hún mjög skemmtileg.
Leifar af klaustri. |
Sagan af klaustrinu á Skriðu er merkileg og vönduð bók og góður upphafspunktur fyrir manneskju með nýkviknaðan amatöráhuga á fornleifafræði eða bara þá sem hafa áhuga á fortíðinni almennt. Í bókinni er klaustrið tengt við umheiminn, gripirnir við umhverfi sitt og fortíðin við nútíðina; steinninn á Kirkjutúninu sem heimamenn kalla sláttuvélabanann reyndist hafa verið gluggasylla í einu herbergjanna í klaustrinu á Skriðu. Það má ef til vill líta á ljósmyndina á kápu bókarinnar sem eins konar tákn um farsælt samlíf gripa og ritheimilda; hún er af bréfi hjónanna Sesselju Þorsteinsdóttur og Hallsteins Þorsteinssonar frá árinu 1500 þar sem þau gefa jörðina Skriðu í Fljótsdal til stofnunar klausturs; texti, en jafnframt efnislegur gripur með áföstu innsigli hjónanna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli