10. febrúar 2013

Æviminningar Johnny the singer of Running Nose

Borgarstjóri vor er fjölhæfur maður. Ég er af Fóstbræðrakynslóðinni og vissi lengi engan fyndnari mann á Íslandi en Jón Gnarr. Hann hefur líka átt sín góðu móment sem borgarstjóri og þorað að brjóta ýmsar óskrifaðar og ömurlegar reglur. Nýjasta bókin hans, Sjóræninginn, fjallar ekki síst um reglur kerfisins og hvað þýðingu og afleiðingar það hefur að hlýða þeim og brjóta þær.

Sjóræninginn er sjálfstætt framhald af fyrri bók Jóns, Indjánanum (sem Þorgerður fjallaði um fyrir Bókmenntir.is á sínum tíma), og virðist reyndar sjálfstæðari gagnvart bókinni sem á undan kom en þeirri sem hlýtur að koma á eftir því endirinn er merkilega snubbóttur og er meira eins og kaflalok en bókarlok. Bækurnar eru sjálfsævisögulegar (koma nokkrar sjálfsævisögur út lengur sem ekki eru kallaðar skáldævisögur?) og Sjóræninginn hefst þar sem Indjáninn endar, þegar söguhetjan Jón er tólf ára gamall, og lýkur nokkru eftir að hann fermist.

Unglingurinn Jón á ekki sjö dagana sæla. Hann er utangarðs í skólanum, rekst illa í kerfinu og er hrakinn og smáður af bæði kennurunum og samnemendum sínum. Hann er lagður í einelti, er feiminn og hefur lítið sjálfstraust. Hann nær litlum tengslum við foreldra sína, einkum föður sinn, en þau voru orðin gömul þegar þau áttu hann og það er mikill aldursmunur á honum og systkinum hans. Jón finnur hins vegar félagslegan og hugmyndafræðilegan griðastað í pönkinu og anarkismanum, eignast þar vini og grundvöll fyrir andófi sínu gegn kerfinu. Hann syngur meðal annars um tíma með pönkhljómsveitinni Nefrennsli, án þess reyndar að hafa kjark til að koma fram oftar en einu sinni, en þá fyllist hann slíkri örvæntingu að hann lætur sig detta niður af sviðinu til að þurfa ekki að standa þar lengur.

Lýsingarnar á því hvernig Jón prófar sig áfram sem pönkari og anarkisti eru hlýlega fyndnar (hann er mikill harðlínumaður í skilgreiningu sinni á pönki og úthýsir smám saman nokkurn veginn öllum hljómsveitum úr þeim flokki nema Crass), en það er einn af kostum bókarinnar að frásögnin er alltaf á forsendum hans sjálfs; upprifjun hins fullorðna höfundar á hugmyndaheimi unglingsins er stuðningsyfirlýsing, ekki föðurleg kímni eða yfirlætislegar athugasemdir undir formerkjum aukins vitsmunalegs þroska. Það er kerfið sem er mannfjandsamlegt, ekki Jón sem er gallaður. Það er annars athyglisvert hvað fólk virðist vera miklu tilbúnara til að ræða eineltið sem skólafélagar Jóns beita hann en þá kúgun sem hann upplifir af hálfu skólakerfisins sjálfs, en hún er í rauninni mun miðlægari í bókinni.

Lýsingarnar á fjölskyldulífi Jóns eru jafnframt mjög vel gerðar þótt þær séu óþægilega hreinskilnar á köflum, en Jón tileinkar foreldrum sínum bókina. Sérlega truflandi og fyndnar í senn eru sögurnar af föður hans og þrúgandi samskiptaaðferðum hans, með tilheyrandi tilfinningalegri kúgun og uppgerðarviðkvæmni. Ég nagaði hnúana og skellti upp úr á víxl. Yfir þessu leikriti, sem lýsir tilhneigingu föður Jóns til að eyðileggja sífellt gamansögur móður hans, fór ég beinlínis að skæla af hlátri:

„MAMMA:
Ég gleymi því ekki þegar Gulli bróðir kom í jólasveinabúningum heim í Skipholt. Það var um hásumar...
PABBI:
Hver hringdi áðan?
MAMMA:
Ha? Það var enginn. (Heldur áfram með sögu). Hann læddist upp stigann...
PABBI:
Hringdi ekki síminn?!
MAMMA:
(Pirruð). Þetta var hún Gunna systir þín.
Þögn.
HLUSTANDI:
(Spenntur). Og var hann í jólasveinabúningnum?
MAMMA:
(Brosir aftur). Jájá, með skegg og allt. Og mamma sat inni í stofu að horfa á Bonanza...
PABBI:
Var hún að spyrja um mig?
MAMMA:
(Pirruð). Nei.
PABBI:
Átti ég að hringja í hana?
MAMMA:
Æ, góði Kristinn, láttu mig í friði!

Þá þóttist pabbi verða sár, stóð upp og gekk í burtu.“ (169-170)

Kápu Sjóræningjans prýðir sjóræningjafána-
húðflúr Jóns. Kannski mun þetta ofursvala
skjaldarmerkishúðflúr líka komast á bókarkápu.
Þetta er kunnuglegur sketsastíll fyrir gamla aðdáendur Fóstbræðra, þeirra meistara í óþægilegri persónusköpun.

Annars er stíllinn á bókinni einfaldur, eiginlega naívur. Við Guðrún Elsa vorum einmitt að ræða þennan naíva eiginleika textans áðan. Sögumaður bókarinnar er ungur strákur og að því leyti hæfir einfaldleikinn frásögninni vel, en Jón Gnarr hefur líka notað þessa naívu nálgun sem pólitíkus enda getur hún hentað vel til að afhjúpa fáránleika kerfisins (það er athyglisvert að bera það saman við grínistann Jón Gnarr, sem er meira brútal en naívur). Mér fundust veikustu blettir bókarinnar reyndar vera einmitt þeir helst til klisjukenndu kaflar þar sem sögumaður gefur sig allan í að fílósófera í sínum barnslega stíl, á kostnað frásagnarinnar, um anarkisma, dauðann, eðli manna og fleira. Þar er einfaldlega ekki nógu mikið kjöt á beinunum til að þeir séu spennandi eða inspírerandi.

Guðrún Elsa – sjóuð í sjálfsævisagnalestri – benti réttilega á það í samræðum okkar að sjálf hins fullorðna höfundar hafi alltaf áhrif á það hvernig hann sér sitt fyrra sjálf, og velti jafnvel upp þeirri spurningu hvort Sjóræninginn gæti lesist sem pólitískt manifestó. Meðal annars út frá því verður áhugavert að sjá hvernig þessi sjálfsævisögulegu skrif Jóns munu þróast.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Indjáninn, Sjóræninginn og næst: Útlaginn, eru titlarnir í trílógíu Jóns um uppvöxt sinn. Útlaginn mun fjalla um dvöl Jóns á heimavistarskólanum í Núpi. Takk fyrir skemmtilega síðu, Gunni