15. júní 2013

Hvar var skjaldborgin þá?

Ég hef verið mikill aðdáandi Kristínar Steins frá því að ég las Á eigin vegum fyrir margt löngu. Hún hefur lag á því að skrifa sterkar en þó óvenjulegar kvenpersónur, konur sem við fyrstu sýn gætu virst vera fórnarlömb en eru þó langt frá því að biðja um vorkunn lesanda. Síðasta bók Kristínar, Ljósa, fjallaði um konu sem stríðir við geðsjúkdóma undir lok nítjándu aldar. Persónu Ljósu byggði Kristín á ömmu sinni og er bókin að einhverju leyti söguleg þótt hún sé fyrst og fremst skáldsaga. Í nýjustu bók sinni, Bjarna-Dísu, snýr Kristín aftur á sögulegar slóðir – hér tekur hún fyrir þjóðsöguna um Bjarna-Dísu sem gekk aftur og hræddi líftóruna úr fólki á átjándu öldinni. Útgáfu af þjóðsögunni má lesa hér.

Það er dimmara yfir Bjarna-Dísu en Ljósu. Þótt lesandinn vissi svo sem (eins og hér) hver niðurstaðan yrði þá var Ljósa glaðlegri bók – sérstaklega fyrri hlutinn. Hér erum við eiginlega stödd í táradal frá upphafi til enda. Það var ömurlegt að vera fátækur maður á Íslandi á þessum tíma en þó verra að vera fátæk kona. Lífið er svo skelfilegt – SKELFILEGT – að orð fá því varla lýst – það er reyndar lygi – Kristín lýsir því einmitt ágætlega í bókinni.

Sagan hefst þegar Dísa og Bjarni bróðir hennar leggja í langferð yfir heiði í vondu veðri að vetrarlagi – hann er sendur með varning fyrir bóndann og hún þarf nauðsynlega að komast til baka í vistina sína áður en húsbændurnir reiðast – því þá bíður hennar refsing. Þau lenda í óveðri og Dísa örmagnast svo bróðir hennar grefur hana í fönn og heldur áfram – ætlar að reyna að komast til byggða og sækja hana svo um leið og veðrinu slotar. Á meðan Dísa bíður í fönninni rifjar hún upp ævi sína um leið og hún reynir að halda á sér hita og það sem erfiðara er – bægja frá sér óttanum við drauga og forynjur.

Að segja að lífsbaráttan hafi verið hörð á þessum tíma er svolítið eins og að segja að það sé frekar þurrt í Sahara eyðimörkinni – hún var þannig hörð að það er í einu orði sagt kraftaverk að nokkur hafi komist af til að byggja landið í dag. Nú harðnaði auðvitað á dalnum í kreppunni en allar spurningar um hvar skjaldborgin margumtalaða sé verða nánast fáránlegar í þessu samhengi – þó er þetta ekki svo fjarlægt í tíma né rúmi. Hér deyja feður frá eiginkonu og barnahópum í tveggja stafa tölu. Heimilin eru leyst upp og börnin send um hvippinn og hvappinn og þurfa að vinna sér til matar. Hér fara börnin svöng að hátta og lítil stúlka sem tekur ofurlítinn brauðmola er barin. Stundum þarf ekki einu sinni annað foreldrið að falla frá – ef ómegðin og örbyrgðin er mikil – eða bara ef yfirvöldum þóknast - eru heimilin leyst upp og hjónum stíað í sundur. Foreldrum Bjarna-Dísu er meinað að hittast af ótta við að fleiri börn komi undir. Hún er næstyngst tólf systkina en aðeins sex komust á legg. Bókin lýsir samfélagi þar sem ekkert velferðarkerfi er til staðar – þar sem fátækt fólk og munaðarlaus börn eru hreinlega sett út á guð og gaddinn og eiga allt sitt undir því að einhver sæmilega stöndugur bóndi aumki sig yfir þau. (Ég sé hins vegar engin merki veiðileyfagjalds þannig að þetta er kannski paradís fyrir suma). Hafi einhver raunverulega enn trú á því að brauðmolarnir sem falla af borðum þeirra ríku muni fæða þá fátæku þá ráðlegg ég þeim hinum sama að lesa Bjarna-Dísu – þótt hún hafi sjálfsagt ekki verið skrifuð sem ádeila á kapítalisma.

Þrátt fyrir alla ógæfuna, fátæktina, svengdina og sorgina er Dísa þó létt í lund og alls ekkert fórnarlamb í eigin huga – eða huga Bjarna bróður síns sem rekur söguna að hluta. Sem er eins gott því þá væri bókin svo mikill táradalur að ekki einu sinni Dickens hefði getað komist í gegnum hana. Dísa er þvert á móti glaðlyndur fjörkálfur sem lætur ekkert buga sig – ekki einu sinni myrkfælnina sem er þó hennar stærsti ótti og reynir svo sannarlega á það þar sem hún liggur grafin í fönn stærstan hluta bókarinnar. Ég las í einhverri umfjöllun um bókina að gagnrýnanda þætti nóg um alla hjátrúina og draugaóttan sem hrjáir aðalsöguhetjuna og raunar fleiri persónur en ég held það sé auðvelt að vanmeta hversu stóra rullu hjátrúin hefur spilað í daglegu lífi fólks á þessum tímum. Að reyna að ímynda sér Ísland án rafmagns, bíla og annars sem skapar öryggi okkar í dag í vályndum vetrarveðrum – er eiginlega ómögulegt. En þessi mikla áhersla á hjátrúna er ekki bara af sagnfræðilegum ástæðum – hún rennir líka stoðum undir óvænt og skelfileg endalok bókarinnar sem ég ætla ekki að tíunda hér en eru sannfærandi úrvinnsla Kristínar á þjóðsögunni. Það er reyndar yfirhöfuð mjög skemmtilegt að bera saman söguna og bókina - dálítið meinfýsnar athugasemdir um skap Dísu og skrautgirni verða Kristínu efniviður í fjöruga og sterka konu sem lætur ekki svo auðveldlega buga sig.

Þegar upp er staðið bjó Bjarna-Dísa sig ekki jafn rækilega um í kollinum á mér og Ljósa – til þess var saga hennar mögulega of erfið, kannski maður verði að fá að gleðjast með persónum líka til að tengja almennilega við þær. En bókin er vel skrifuð, á köflum mögnuð og þótt lífið sé táradalur er texti Kristínar laus við hvers kyns sjálfsvorkunn og tilfinningasemi. Hún skrifar um magnaðar konur sem lenda í raunum en aldrei um fórnarlömb.

ps. frekari umfjöllun okkar Druslubókadama um bækur Kristínar má sjá hér.

Engin ummæli: